2290 - Jón Gunnar

Ýmislegt gera menn sér til dundurs þessa dagana. Ef ekki er verið að stofna sjónvarps- eða útvarpsstöð, þá hugsa menn í dagblaðsstærð. Kannski kemur ekkert útúr þessu brölti en þó getur það vel verið. Satt að segja hef ég meiri trú á enska útvarpinu en ýmsu öðru sem hér hefur verið fitjað uppá. Gaman verður að vita hvort einhverju af þessu tekst að slíta barnsskónum.

Í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar lofaði Eygló Harðardóttir að hækka aftur elli- og örorkubætur enda væri það ekki nema augnabliksverk. Ekki hefur það þó verið gert ennþá og vafasamt mjög að það verði gert í tíð þessarar ríkisstjórnar. Einhverjir hafa þó eflaust trúað þessum fagurgala og kalla þetta svik. Mestu svik stjórnarinnar geta það þó ekki talist. Sumir ganga svo langt að kalla núverandi ríkisstjórn svikastjórnina. Það er fulllangt gengið, því allar ríkisstjórnir gera þetta. Í aðdraganda kosninga er ekki mikið að marka þann loforðaflaum sem að vörum stjórnmálamanna gengur. Þannig er þetta bara.

Trúi eins og nýju neti fullyrðingum um að loftþyngd hafi mikil áhrif. Þegar gömlu konurnar í þjóðsögunum sögðu: „Æ, þar hljóp nú gigtarskömmin í hægri mjöðmina á mér. Það boðar óveður“, trúi ég því alveg að loftþrýstingur hafi valdið gigtinni. Á morgungöngunni hjá mér finn ég stundum fyrir bakverk. Hann kemur af og til eftir svona tuttugu mínútur og stundum allsekki. Þetta gæti verið ágætis veðurspá ef ég tengdi það við eitthvað veðurfarslegt. En Teresía (les veðurstofan) er búin að venja okkur af því.

Las áðan grein Jóns Gnarr um Guð. Nennti samt ekki að lesa kommentin og vona að mér fyrirgefist það. Eitt má fullyrða eftir þennan lestur. Jón gerir sér fulla grein fyrir því að álit hans skiptir máli. Meira að segja heilmiklu máli. Sennilega lýsir hann ágætlega trúarlífi dæmigerðs Íslendings í þessari grein. Flestallt sem í greininni stendur get ég hæglega skrifað uppá. Þó hef ég líklega ekki leitað guðstrúar jafn ákaft og hann. Hræsnin og yfirdrepsskapurinn í hinni opinberu trú varð mér ekki ljós fyrr en eftir fermingu. Já, svona var ég nú seinþroska.

Held að Ásgautsstaðamálið sé að komast á dagskrá aftur. Ekki mun ég samt fylgja því eftir af sama ákafa og í fyrra. En dæmi um yfirgang og ofbeldi yfirvalda er það vissulega. Líklega er kominn nýr sýslumaður til valda á Selfossi, því mér skilst að Lilli sé kominn til Keflavíkur. Sennilega breytir það samt engu.

WP 20150120 13 56 36 ProGrafið innan girðingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband