Bloggfærslur mánaðarins, september 2013
4.9.2013 | 00:35
2038 - 7 - 9 - 13
Auðvitað hefði verið skynsamlegt á sínum tíma (líklega í kringum 1920 eða svo) að fasttengja íslensku krónuna við þá dönsku. Efnahagsþróunin hér hefði með vissu orðið allt öðruvísi ef það hefði verið gert. Þjóðníðingarnir í Samfylkingunni sem sífellt eru að tala niður krónuna okkar hefðu orðið að hafa eitthvað annað fyrir stafni. Krónan, þetta óviðjafnanlega skrautblóm, sem umfram allt gerir okkur að sjálfstæðri þjóð, er heilög. Lilja Mósesdóttir vill umfram allt fleiri krónur og vill fjölga þeim með hagfræðilegum hundakúnstum. Mér finnst alveg nóg að hafa þær tvær. Venjulegu krónuna og svo þá verðtryggðu. Einu sinni var til bátagjaldeyrir, ferðamannakrónur, sparikrónur og sitthvað fleira. Jafnvel aurar. Ég er ekki viss um að rétt sé að hverfa aftur til þeirra tíma.
Sigurður G. Guðjónsson, sá frægi og umtalaði lögfræðingur og áður stjórnandi á Stöð 2 dundar við að tína rusl á morgungöngum sínum með hundinn sinn. Frá þessu er sagt í DV og hann tíundar árangurinn á fésbókarsíðu sinni að sagt er. Gallinn er bara sá að fésbókarsíða hans er ófinnanleg. Kannski geta vinir hans og svo þeir, sem lagt hafa á sig langt og strangt nám og geta kallað sig fésbókarfræðinga, fundið hana, en ekki ég.
Þetta er annars ágæt hugmynd og ættu sem flestir að taka það upp. Tína semsagt rusl á morgungöngunni. Eru það annars margir sem stunda morgungöngur? Ég hef stundum gert það en það hefur aldrei verið reglulegt.
Salvör Kristjana skrifar um þvottaklemmur og instagram. Hún segist ekki hafa vitað að hægt væri að búa til vopn úr þvottaklemmum. Þegar ég var barn og unglingur voru þvottaklemmur auðvitað aðallega notaðar til að halda þvottinum á snúrunum en hin aðalnotin, a.m.k. frá sjónarmiði okkar krakkanna var að nota þær sem einskonar skammbyssur. Auðvelt var að breyta þeim. Ekki þurfti nema að taka þær í sundur og stytta svolítið annan helminginn og nota gorminn sem gikk og festa helmingana öfuga saman með teygju. Einnig var auðvelt að breyta tvinnakefli, kerti, teygju og eldspýtum í fyrirtaks skriðdreka sem óð yfir hvað sem fyrir varð eins og hann væri upptrekktur.
Mér er minnisstætt hve konan mín varð reið yfir því að vera kölluð homemaker í formála að matreiðslubók sem hún samdi fyrir margt löngu og var gefin út á ensku og ýmsum öðrum málum. Í mínum huga er enska orðið Homemaker hið mesta virðingarheiti og gefur húsmóður-titlinum ekki neitt eftir. Annars var Húsmóðir í Vesturbænum sérstakt hugtak hér áður fyrr og í eyrum sumra var það líkt og Virkur í athugasemdum er núna.
Ýmsir óttast hið póltíkst réttsýna vinstrisinnaða feministalið. Einkum þeir sem frægir eru og er þá alveg sama fyrir hvað það er. Ef þeim hefur einhverntíma orðið eitthvað á eiga þeir að gjalda þess ævilangt. Já, ég er með JBH í huga og er minnisstæð sagan eftir Auel um Neanderdalsmannahópinn sem beitti þeirri refsingu með miklum árangri að hunsa viðkomandi alveg. Maðurinn er nefnilega samskiptavera eins og mörg önnur dýr.
Á laugardaginn verður sjálfur 7-9-13 dagurinn haldinn hátíðlegur um land allt og jafnvel víðar. Spýtur allar verða sjálfsagt í mikilli hættu þennan dag og hjátrú af öllu tagi tekur við af trú. Trúleysi er eina vonin þennan dag. Því minnist ég á þetta núna að rétt er fyrir hjátrúarfullt fólk að undirbúa sig vandlega fyrir þennan merkisdag. Líklega eru hundrað ár síðan síðast var haldið uppá hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2013 | 19:38
2037 - Siðrof
Hugsa stundum til þess að ekki höfðu pabbi og mamma jafnmikil tækifæri til að sinna sínum barnabörnum og við höfum núna. Kemur þar margt til. Samgöngur eru miklu auðveldari nú um stundir og vegalengdir þar með styttri. Velmegun er líka meiri þrátt fyrir allan barlóminn. Ekki var eins mikið látið með börnin og systkinahóparnir gjarnan stærri. Eldri börnin gættu þá jafnan þeirra yngri. Allt var með öðrum róm, áður í páfadóm, segir í einhverju heimsósómakvæði sem ort var skömmu eftir siðaskiptin. Forngrikkir létu ungdóminn líka heyra það og jafnan er talað illa um hann. Tímarnir breytast einfaldlega og ekki er hægt að bera allt saman. Heimurinn er allt annar en hann var og stríðsátök og hungur eru það hræðilegasta sem fyrir getur komið. Samt er það svo að helstu ráðamenn heimsins geta varla hugsað um annað, en að valda slíku.
Gunnar Waage hjólar í Egil Helgason og finnur honum flest til foráttu. Gallinn er bara sá að fáir taka mark á Gunnari. Hann er ekki hótinu betri en þeir sem hann ræðst á. Egill Helgason er margfróður og skrifar vel. Gunnar kannski líka, en það vita bara svo fáir af því. Pólitík þeirra er mismunandi, Gunnar er hægrisinnaður en Egill er vinstrisinnaður. Kannski eru þeir í rauninni ekkert ólíkir. Þó menn séu mjög ósammála um sum málefni er vel hægt að tala sig niður á sameiginlega lausn á öðrum. Hægri menn vantar sinn Messías. HHG er alveg hættur að láta ljós sitt skína. Það loðir við þá nú sem endranær að þeir eru ekki nógu velskrifandi og kunna ekki að ota sínum tota.
Fjölmiðlun öll er hér í skötulíki. Sífellt eru ný og ný vefrit (og önnur rit) að skjóta upp kollinum. Flestöll falla í þá gryfju að eyða of miklu púðri í vönduð skrif, en fá lítið í sinn hlut af peningum. Auglýsingar á netinu eru leiðinlegar og lesendur vandfýsnir. Fáir lesa allt sem að þeim er rétt. Það er af sem áður var, þegar næstum allt var lesið. Það er búið að venja Íslendinga og jafnvel netverja alla af því að borga fyrir vönduð skrif. Allt á að vera ókeypis á netinu. Pappírsblöðin reyna líka eftir mætti að selja sig, en gengur illa. Sigurður Hólm Gunnarsson heldur úti Skoðun sinni af mikilli elju. Skrifar mest í það sjálfur, en pistlahöfundum er þó að fjölga.
Finnst of langt gengið að kenna JBH um það siðrof sem vissulega hefur orðið í íslensku samfélagi við og þó einkum fyrir Hrunið mikla. Liggur hann ekki bara svona vel við höggi akkúrat núna? Ég get alveg viðurkennt að gallaður lagarammi, karlremban, þöggunin og peningarnir hafa á undanförnum áratugum ráðið alltof miklu í þjóðfélaginu. Tek að mestu undir með Salvöru Gissurardóttur í þessu efni og tel að ekki verði öllu viðsnúið á augabragði eins og æstustu feministar virðast telja mögulegt.
Hingað til hefur það verið svo að þegar mig vantar eitthvað að lesa sem veigur er í hef ég leitað að því á eyjan.is. Þar hef ég oftast staðnæmst við orðið á götunni eða silfur Egils. Nú mun ég reyna að muna eftir kjarninn.is og skoðun.is þegar ég er í stuði til að gera annað á Internetinu en flækjast um fésbókina. Nýlegar verða greinarnar að vera og ekki má ég hafa lesið þær áður. Svona haga ég mér nú oftast þegar ég fer á netið. Oft fer samt mesti tíminn í að skrifa sjálfur einhverja bölvaða dellu. Svo eru það náttúrulega bréfskákirnar, en ég er sífellt að reyna að láta minni tíma fara í þær og jafnvel að fækka þeim.
Það er auðvelt að týna sjálfum sér í einskisverðum smáatriðum á netinu. Sennilega mun auðveldara að týna sér nú en áður var. Mestöll orka manns fer í það að telja sjálfum sér trú um að maður sé að gera eitthvað sem er einhvers virði. En hvað er einhvers virði? Ákaflega fátt. Næstum ekki neitt nema það sem maður telur sér trú um. Og eiginlega getur maður talið sér trú um allan fjandann. Ætli það sé ekki mesta list flestra að blekkja sjálfa sig? Trúa því að maður sé mestur og bestur í einhverju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)