Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

2000 - Stjórnarskrá o.fl.

Þetta er víst tvöþúsundasta bloggið mitt. Nenni ekki að fjölyrða um það. Þessir tölustafir gera bloggið mitt bara sérkennilegra en það annars væri. Engu bætir það við fyrir þá sem það lesa.

Er alltof snokinn fyrir fréttum og fjölmiðlun. Vel er hægt að fá upplýsingar um slíkt annars staðar. Get þó ekki vanið mig af því að vaða úr einu í annað. Lesendum mínum fer samkvæmt Moggabloggslistum heldur fjölgandi og er það vel. Hef samt minni áhuga en áður á því að verða einhver ofurbloggari. Þeir enda yfirleitt á fésbók og verða flestum til ama þar, held ég endilega.

Krakkar eru stundum fljótir að fatta hlutina. T.d. er ekki nema heilnæmt í sjálfu sér að prumpa. Enda er prumpulagið hans Dr. Gunna afar vinsælt meðal barna en sumir fullorðnir hneykslast gífurlega á því. Um daginn las ég langa grein um prump og mest voru það sjálfsagðir hlutir sem þar komu fram. Sennilega er þessi klausa endurómur af því.

Rannsóknarnefndir eru í tísku núna. Ætli sú næsta verði ekki látin rannsaka Hörpuævintýrið. Víst er það ágætis hús, en hrikalega dýrt fyrir fjárvana þjóð. Í staðinn fyrir að verða lyftistöng fyrir listalíf í landinu gæti það með tímanum orðið myllusteinn um háls þess.

Enn er rætt um stjórnarskrármál á alþingi. Ekki tókst að koma neinu meiriháttar varðandi þau mál í gegn á síðasta kjörtímabili og ekki er neitt sem bendir til að það takist á þessu. Ég er sammála talsmanni pírata, Birgittu Jónsdóttur, um að frumvarp það sem gerir ráð fyrir að yfir 40% atkvæðisbærra manna og meira en tveir þriðju hlutar alþingismanna samþykki hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni, er ónýtt með öllu. Það er alls ekki við því að búast að alþingi afsali sér réttinum til breytinga á stjórnarskránni bara sisvona.

Mun líklegra er að einhverskonar sátt náist um þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarp til að friða almenning enda var það langmikilvægasta ákvæði stjórnarskrárfrumvarps þess sem fyrrverandi ríkisstjórn mistókst að koma í gegn. Ófært er að þjóðaratkvæðagreiðslur hangi á geðþótta eins manns þó þjóðkjörinn sé. Það er heldur ekki nærri nógu gott að allt sem snertir þjóðaratkvæðagreiðslur og hvort þær skuli haldnar sé alfarið á valdi meirihluta alþingis hverju sinni.

Að sumu leyti er það til fyrirmyndar að herinn tilkynni fyrirfram um valdarán eins og nú er gert í Egyptalandi, en samt er alltaf vafasamt að slíta í sundur lögin. Líklega hafa þeir samt ekki haft neinn Ljósvetningagoða til reiðu þarna suður í Afríku en það er hægt að vona að mannfall verið ekki mikið í þessum atburðum.

IMG 3394Rabbarbarablað.


1999 - Snowden o.fl.

Það er greinilegt að Sigmundur Davíð er að veðja á rangan hest. Þó hann teljist sjálfur til auðmanna er ekki víst að þeir geti verndað hann einsog þarf. Umræðan á netinu er honum og ríkisstjórn hans a.m.k. mjög andsnúin. Ekki er þar með sagt að kjósendur séu almennt að snúast gegn honum, en niðurstöður skoðanakannana benda samt til þess. Stjórnmálalandslagið er óðum að breytast hér á landi og víða um heim. Sennilega er það tæknin sem stendur fyrir því.

Auglýsingafarganið er samt að ganga af fésbókinni dauðri. Þó er hún ágætis hugmynd til að halda góðu sambandi við vini og fjölskyldumeðlimi sem búa langt í burtu. Hún er sífellt að verða flóknari og flóknari. Ruslasöfnunin þar er geigvænleg og fjöldi síðna svo mikill að til vandræða horfir. Kannski er fólk meira og minna hætt að heimsækja hvert annað. Var ekki síminn svona á sínum tíma? Svo lærði fólk smámsaman á hann.

Pútín er greinilega skíthræddur við Kanann. Því skyldu aðrir þá ekki vera það líka? Skilst að Snowden hafi verið boðið pólitískt hæli í Rússlandi með vissum skilyrðum þó, en hann hafi hafnað því. Kannski verður hann á Moskvuflugvelli þangað til hann gleymist. Í Ekvador er honum sagt að málið verði athugað ef hann kemur þangað. Sama er hér. Það skuggalegasta í þessu máli er að almenningur í USA virðist vilja að Snowden verði stungið inn. Assange er þegar hálfgleymdur og Bandaríkjastjórn hefur tekist að gera Wikileaks að grunsamlegum félagsskap. Ætli ESB sé ekki syntesan (Hegel) sem verður til úr kapítalisma og kommúnisma? Og endirinn gæti vel orðið sá að Snowden komi hingað.

Mál Snowdens og Bobbys Fischers eru alls ekki sambærileg eins og sumir halda. Í fyrsta lagi er ríkisborgararéttur og pólitískt hæli alls ekki það sama. Snowden hefur ekki sótt um ríkisborgararétt. Bandaríkjamenn leggja mikla áherslu á að ná Snowden og jafnvel Pútín þorir ekki annað en gegna þeim. Í rauninni var þeim sennilega nokkuð sama um Fischer.

Nú er undirskriftaæðið í algleymingi. Bráðum hætta allir að taka mark á þessu. Þjóðaratkvæðagreiðslur mættu þó vera algengari. Svona árlegar eða svo. Enginn sérstakur akkur væri í að gera þær of algengar. Það sem maður heyrir frá Bandaríkjunum sýnir að þar stefnir allt í það ófrelsi sem maður hélt að Bresnev og Co. hefði haft einkaleyfi á. Kannski er það svolítið ýkt. Samt þykir mér að eftirlitsiðnaðurinn blómstri í USA sem aldrei fyrr.

IMG 3393Kuðungur.


1998 - Tíkin vitlausa

Það er svolítið bratt hjá SDG að segja eða meina a.m.k.: „Þið eruð svo óttalega vitlaus öll sem skrifuðuð undir þetta skjal um veiðileyfagjaldið og skiljið ekki neitt, en ég er svo súpergáfaður að ég veit allt og skil allt.“ Mér finnst þetta hroki og ekki taka því að tala meira um það. ÓRG þorir áreiðanlega ekki að gera neitt annað en segja já og amen við að skrifa ekki undir. Enda finnst honum gaman að vera forseti. Verst þykir honum að Dorrit skuli vera farin frá honum. Gæti vel trúað að sjálfstæðismenn gæfust fljótlega upp á Sigmundi. Framsóknarmenn eru ekki nærri allir svona. Ætli sjálfstæðismenn séu ekki með í undirbúningi að taka saman við Össur og Co.

Sennilega er það rétt hjá Þorsteini Pálssyni að engin ríkisstjórn á Íslandi hafi orðið fyrir jafnharkalegum árásum strax á fyrstu dögum sínum og sú núverandi og er það að mörgu leyti eðlilegt. Þetta sumarþing er frá upphafi tóm vitleysa. Nær hefði verið að nota sumarið í að gera eitthvað af viti og undirbúa fjárlagagerð. SDG gerir tómar vitleysur. Gagnrýnin á ríkisstjórnina er að mestum hluta réttmæt. Hún byrjar sinn feril illa.

Satt að segja finnst mér Hallur Hallsson hafa talsvert fyrir sér í því að ríkissjónvarpið sé komið í stjórnarandstöðu. Mér finnst það líka. Það er e.t.v. réttmætt. Fréttastofa Stöðvar 2 reynir samt af veikum mætti að styðja stjórnina og ef ríkissjónvarpið reyndi ekki smástjórnarandstöðu hver ætti þá að gera það? Morgunblaðið kannski? Fréttablaðið er alveg búið að hasast upp á því að styðja Samfylkinguna. Kannski verða allir reknir þaðan á endanum. Enginn tekur mark á aumingja DV. Annars held ég að fjölmiðlungar séu bara að vinna vinnuna sína eins vel og þeir geta. Ef hægt er að setja einhvern pólitískan stimpil á störf þeirra er það bara tilviljun.

Svona eftirá séð er ég að mestu sammála Geir Haarde um það að Landsdómur sé úrelt þing og notkun hans í málinu gegn honum hafi sýnt það. Var þó sammála málshöfðuninni og dómnum á sínum tíma. Ef endilega þurfti að nota þennan tiltekna dóm var ekki rétt að láta Geir einan verða fyrir barðinu á honum. Heldur ekki er rétt að láta hann einan túlka niðurstöður einhvers ráðs sem er víst heldur á móti svonalöguðu. Andstæðingar ESB nota þó gjarnan álit Evrópunefnda allskonar ef það hentar.

Nú, þetta er víst allt saman um stjórnmál þó ég hafi ætlað að skrifa um eitthvað annað. Góðar fyrirætlanir ganga ekki nærri alltaf eftir.

IMG 3381Hvítur hringur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband