Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013
30.7.2013 | 22:29
2020 - Lanað og larpað
Það ber ekki á öðru. Strax er fólk byrjað að lesa. Best að ég byrji líka strax á að skrifa. Verst ef mér dettur ekkert í hug til að skrifa um. Var að enda við að skoða myndir hjá Atla úr Grikklandsferðinni. Hann hefur vandað sig talsvert við þetta og það er allt annað að skoða þetta en sumar myndaseríur þar sem öllu er hent á fésbókina, ónýtu sem nýtu. Hefði sjálfur getað sett þónokkuð margar myndir frá Kanaríeyjum á sínum tíma en þær eru orðnar fullgamlar núna. Sá líka í gærkvöldi nokkrar myndir af Tinnu og Dre hjá Guðrúnu Völu. Fésbókin er að verða myndasýningarstaður nr. 1 og mér líst vel á það.
Ég er eiginlega alveg búinn að taka sagnirnar að lana og larpa í sátt. Ætla samt að gera skilning á þeim að umtalsefni hér því ef ég misskil þær eitthvað er hugsanlegt að fleiri geri það. Báðar eru þær dregnar af amerískri skammstöfun. Lana er dregið af Local Area Nework. Og larpa af Live action role playing. Þannig skil ég málið a.m.k.
Að lana er þá að fást við eða starfa á litlu tölvuneti, sem takmarkað er við eitthvert ákveðið svæði. Að larpa er öllu flóknara. Live action role playing má segja að sé hlutverkaleikur af hvaða tagi sem er. Live Action skil ég einfaldlega þannig að ekki sé um sýndarveruleika að ræða. Kann ekki að skýra það betur.
Rætt var um þetta á Orðhenglinum um daginn og þá sló ég um mig með því að kasta því fram að laser væri amerísk skammstöfun. Ekki er víst að allir þekki þá styttingu en mér skildist einhverntíma að það stæði fyrir: Light Amplification by Simulated Emission of Radiation.
Pólitíkin er öll í deyfð og doða þessa dagana. Eflaust rætist úr þessu þegar þingið kemur saman en eitthvað var því frestað ef ég man rétt. Varla nokkur maður nennir að æsa sig útaf stjórnmálaástandinu. Þó væri margt hægt að segja um það. Þegi samt sem fastast eins og hinir. Það er öruggast. Næsta vor verða bæjastjórnarkosningar og þá skal ég aldeilis kjósa.
Limrur eru móðins núna. Menn rífast ofan í rassgat yfir þeim. Best að passa sig. Ég er líka mest í ferskeytlunum. Fyrirsögn í einhverju blaði var á þessa leið: Hagyrðingar í hár saman. Hárlausir voru þeir semsagt ekki, en hárlitlir.
Af hagyrðingum hárið fauk,
hentu sumir gaman.
Einhver Sif þá limru lauk
sem lamdi skáldum saman.
Þetta er endurbætt vísa sem ég setti einhversstaðar í athugasemd og varð þannig virkur í því sem ég kæri mig ekkert um. Bloggari get ég svosem verið en ekki meira.
Helvítis hettumávurinn, sagði lóðrétta svínið við mömmu sína sem lá í hlandforinni. Nú hefur hann skitið aftur í klósettið, bölvaður ræfillinn.
Næstum allir sem fylgdust á sínum tíma með Viet-Nam stríðinu vita að Bandaríkin biðu þar auðmýkjandi ósigur. Í framtíðinni munu Bandaríkjaforsetar samt halda því fram að þar hafi unnist mikilvægur sigur. Obama núverandi forseti var um daginn að æfa sig aðeins þegar hann hélt því fram að Bandaríkjamenn hefðu sigrað í Kóreustríðinu. Í raun er því stríði alls ekki lokið og það er ekki Bandaríkjamönnum að þakka að Suður-Kórea hefur plumað sig mun betur en Norður-Kórea síðan bardögum þar var hætt.
Bandaríkjastjórn hefur að undanförnu sagt mannréttindum og upplýsingaskyldu um allan heim stríð á hendur. Stóra-Bróður þjóðfélagið þar er að verða eins einangrað og Sovétsjórnin var fyrir hálfri öld eða svo. Merkilegt er þó hve Bandaríkjamenn sjálfir eru trúaðir á þessa vonlausu ríkisstjórn sína. Bandaríkin eru eins og allir vita voldugasta herveldi heimsins nú um stundir og bandaríska hernum eru flestir vegir færir og nær allar ríkisstjórnir heimsins eru logandi hræddar við bandarísku ríkisstjórnina.
Ótrúlega er frekja þeirra KSÍ-manna. Ef reglur segja að knattspyrnumenn geti valið um hvaða landsliði þeir leika með ef þeir hafa margfaldan ríkisborgararétt ber einfaldlega að fara eftir því. Veit ekki til þess að neinar undantekningar séu frá þeirri reglu.
Já, við hentum batteríum í gamla daga. Höfðum ekki úr að velja þessum nýtísku endurhlaðanlegu, en við settum mjólkina í mjólkurbrúsa. Vorum ekki algerlega kolefnisjöfnuð, en notuðum taubleyjur. Það voru ekki rúllustigar í hverri stórverslun þá og við höfðum ekki tíma til þess að verða feit. Bifreiðar voru líka fremur sjaldgæfar þá. Heimshlýnunin var óþekkt, en þegar okkur var kalt fórum við í aukaúlpur og settum á okkur belgvettlinga með aukaþumli. O.s.frv. o.s.frv.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.7.2013 | 08:11
2019 - Ellin allsherjar
Ellin er búin að vera læðast aftan að mér undanfarið. Þegar ég var innan við fimmtugt fannst mér ég vera ungur. Síðan hætti ég að skipta um vinnu, því ég var orðinn svo gamall. Nú er ég orðinn meira en sjötugur og hættur að vinna. Eða vinn að minnsta kosti sjaldan. Tapa aðallega. Einkum jafnvægi og vöðvamassa. En allt er hægt að endurheimta. Til þess er líkamsræktin. Ef maður er ekki farinn að stunda slíkt þegar elliárin koma, þá hvenær?
Í þessu bloggi mínu ræði ég aðallega um sjálfsagða hluti og einfalda. Annað skil ég ekki. Þeir eru svo einfaldir (hlutirnir sem ég fjalla um) að fólk gleymir stundum að þeir séu til. Annars hættir mér til að skrifa alltof mikið og þá verða hlutirnir flóknir. Eiginlega er ágætt að vera svona gamall. Þá ber maður ekki ábyrgð á neinu. Einu sinni þegar ég hafði ekkert annað að gera greip ég til þess að safna yddi. Það var reyndar afleitt. Blýantsyddið var best. Sérstaklega ef ekki fylgdi því mikil málning. Best var ef ekki var hægt að sjá hvernig blýanturinn hefði verið á litinn. Gulir voru algengastir.
Jæja, þetta var útúrdúr. Mér hugnast fremur illa að vera hér með hugleiðingar um fréttir dagsins. Aðallega er það vegna þess að ég get ómögulega séð að álit mitt á þeim skipti einhverju máli og svo er ég alltaf of seinn að skrifa um þær. Miklu fremur vil ég vera með allskyns hugleiðingar um sundurlausustu efni eða þá að endursegja eldgamlar fréttir sem allir (eða flestir) eru löngu búnir að gleyma.
Les aðallega bækur eftir Stephen King þessa dagana. Hann er samt dálitið misjafnlega góður. Hugmyndirnar sem hann fær eru oftast ágætar. Hann skrifar líka vel. Er full-langorður samt fyrir minn smekk. En ég er nú löngu hættur að nota hann hvort eð er. Smekkinn altsvo. Núna er ég að lesa bókina The long walk. Það er reyndar ein af Bachman-bókunum, en ágæt samt. Byrjaði um daginn á Grænu mílunni en hætti við hana og fór í staðinn að lesa Under the Dome og sé ekkert eftir því. Auðvitað er sú bók langdregin en þó hún sé löng þá finnst manni að maður verði endilega að klára hana.
Þrátt fyrir njósnir Bandaríkjamanna er ég að hugsa um að halda áfram að Gúgla. Þetta var erfið ákvörðum en ég reyni að hugga mig við það að ekki muni mikið um einn kepp (mig) í sláturtíðinni. Auðvitað vildi ég helst vera Angela Merker og henda blautri tusku framaní Obama (eða heitir hann kannski Osama?)
Nenni ekki að æsa mig upp útaf RUV og þessháttar. Í pólitíkinni held ég að menn séu bara að hvíla sig fyrir haustið. Þetta er óttaleg gúrkutíð núna. Brynjar Níelsson virðist vera sá heitasti í stjórnmálunum núumstundir. Mér fannst Guðmundur Andri komast vel að orði þar sem hann var að tala um hjól atvinnufíflsins. Hvernig ætli það hjól sé? Sennilega verða margir í stuði þegar fer að frysta og kólna.
Það er slæmt ef tölurnar sem maður er að heyra um endurreisn landsins eftir Hrunið eru allar lygimál. Egill segir það og hefur það eftir einhverjum útlendingi. En þeir eru nú svo margir og hafa takmarkað vit á svonalöguðu. Það kom líka vel í ljós í undirbúningi Hrunsins hvað vit þeirra var takmarkað. Að setja traust sitt á frekar á Bjarna Benediktsson er eiginlega alveg sjálfsagt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.7.2013 | 08:52
2018 - Mánudagsblogg
Þetta gengur náttúrulega ekki. Hef ekki bloggað síðan á laugardaginn. Verð að taka mig saman í andlitinu og blogga smá. Sem betur fer hafði ég byrjað á einhverju. Þetta er semsagt upphafið, en sett í bloggið í lokin. Skelfingar bull er þetta. Sjáum til hvað úr þessu verður. Klukkan er ekki orðin svo margt ennþá. Kannski ég lesi þetta bara yfir og sendi á Moggabloggið. Það hlýtur að þola þetta.
Eru íslendingar upp til hópa milljarðamæringar í tímabundnum fjárhagserfiðleikum? Það held ég ekki og ég held að alltof mikið sé gert úr almennum fjárhagsörðugleikum. Auðvitað hafa margir það fjandi skítt. Það er líka dýrt og á margan hátt ömurlegt að vera Íslendingur. Samt eru kostirnir miklu fleiri en gallarnir við að hafa orðið fyrir því að fæðast hér. Íslendingar eru ótrúlega einsleitir og búa á eyju og þurfa þess vegna ekki að hafa miklar áhyggjur af síbreytilegum landamærum. Veðurfarið leggur alls ekki þunga þraut á íbúa landsins þrátt fyrir norðlæga legu og kuldalegt nafn. Fiskimiðin í kringum landið hafa á skömmum tíma gert okkur auðugri en við héldum lengi vel að mögulegt væri.
Auðvitað er það þáttur í því gjörbreytta landslagi sem orðið hefur nú í seinni tíð á allri fjölmiðlun, að hver sem er getur sagt hvað sem er um hvern sem er. Myndefnið, ljósmyndir, jafnt sem hreyfimyndir, hafa stöðugt að auka mikilvægi sitt og orðið meiri almenningseign. Samt er það svo að vinsælir fjölmiðlar hafa enn talsvert forskot varðandi áhrif á skoðanir fólks og kosningahegðun þess.
Það er einfaldlega vegna þess að þeir eru útbreiddari og þar á sér stað einhver ritstjórn. Hver nennir að lesa það sem einn ómerkingur segir um annan slíkan? Ef sýnd er hugkvæmni í fjölföldun og dreifingu og skrifin góð má þó ná langt. Engan vegin er þó tryggt að athafnir fylgi orðum. Um það er fjölmörg dæmi að bent er á ýmiss konar óréttlæti, án þess að nokkur tilraun sé gerð til að leiðrétta það. Þar er pottur brotinn. Sá sem fyrir óréttlætinu verður þarf oftast sjálfur að finna úrlausn þess réttan farveg.
Skák á Íslandi hefur undanfarin misseri og ár látið talsvert mikið undan síga. Fyrir því eru margar ástæður. Útbreiðsla hennar um heiminn hefði ekki átt að valda þar miklu um. Pólitísk umbrot hafa e.t.v. gert það. Þegar Sovétríkin liðu undir lok gátu íslenskir skákmeistarar vegna alhliða menntuna sinnar hæglega og með engum fyrirvara snúið sér að öðru. Það gátu sovéskir meistarar ekki gert. Þeir tóku lifibrauðið að miklu leyti frá þeim íslensku m.a. vegna mun minni krafna. Margt bendir til að íslenskt skáklíf sé á uppleið aftur. Að skólakerfið skuli að nokkru leyti hafa tekið það að sér er afar jákvætt. Án ungdómsins er aðstaðan vonlaus. Þeir eldri falla óhjákvæmilega í valinn. Við áttum okkar Friðrik Ólafsson um miðja síðustu öld. Nýr slíkur getur aðeins komið fram ef skáklífið í landinu blómstrar.
Hvaða munur er á fésbók og twitter? Ég hef nefnilega aldrei orðið svo frægur að skrá mig á twitter eða kíkja nokkuð á það fyrirbrigði. Er ekki alveg hægt að komast hjá því ef maður passar sig á að kíkja öðru hvoru á fésbókina? Og gætir þess að vera skráður þar. Annars er skemmtilega asnalegt að biðja um samanburð á twitter og fésbók á bloggi. En ég er allur fyrir asnaskapinn. Skilst líka að unga fólkið sé unnvörpum að gefast upp á fornaldarfyrirbrigðinu facebook og sé farið eitthvert annað. Man bara ekki hvert. Umræðuefni á borð við þetta finnst mér mun betra en pólitísk umræða. Hún fer oftast fljótlega í hund og kött og sama er að segja ef maður glæpist til þess að minnast á trúmál. Eiginlega ættu pólitík og trúmál að vera tabú á netinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2013 | 10:53
2017 - Flugeldar og aðrar bombur
Styrkir til stjórnmálaflokka. Styrkir til trúfélaga. Styrkir til fjölmiðlunar. Styrkir til samgangna. Styrkir til landbúnaðar og annarra atvinnugreina. Styrkir til húsbygginga. Styrkir til Styrkveitinga o.s.frv. o.s.frv. Allt má rökstyðja. Allt er pólitík. Allt er hægri eða vinstri stefna. Veit ekki hvar þetta endar. Auðvitað þarf að skattleggja til að eiga fyrir öllum þessum styrkjum. Auðæfum landsins þarf að skipta sem réttlátast. Ekki dugir að þeir ríku svíni endalaust á þeim sem minna mega sín. Öfgastefnur eru hættulegar. Miðjumoðið er best.
En hverjir stunda mest miðjumoð. Það er stóra spurningin. Kjósendur reyna að svara þeirri spurningu á fjögurra ára fresti í svonefndum kosningum. Stjórnmálamenn hafa nærfellt frjálst spil þar á milli. Fjölmiðlarnir reyna kannski að æsa fólk svolítið upp en tekst misjafnlega. Nú er almenningur orðinn leiður á aðgerðarleysinu og vill þjóðaratkvæðagreiðslur um allan fjárann. Enginn fjögurra ára friður lengur. Forsetinn hrifsar til sín þau völd sem hann getur og enginn segir múkk. Stjórnmálamenn reyna að þagga niður í almenningi með svokölluðu hruni. En það gerir fólk bara enn ruglaðra og örvæntingarfyllra.
Læt þetta nægja um stjórnmál á þessum fallega föstudagsmorgni. Að vísu er þoka hér í Kópavoginum en ætli hún fari ekki þegar líður á daginn. Vonum það a.m.k.
Setti áðan fyrirspurn á orðhengilinn á fésbókinni og ekki stóð á svarinu. Spurði hvað væri að larpa. Um það er rætt í fyrirsögn á mbl.is og það er víst myndað útfrá ensku setningunni: Live action role playing. Mér finnst nú nóg að þurfa að vita að forrit heiti öpp en að skammstafanasýkin úr amerísku enskunni sé orðin að íslensku það finnst mér of langt gengið.
Margt er einkennilegt í heimi alfræðiritanna. Britannica er alveg orðin úrelt. Wikipedia er einna heitust núna. Þar er margt einkennilegt. Um daginn var skrifuð á mbl.is fréttaskýring um umdeild mál á Wikipediu. Í undirbúningi er bók um það mál. Uppkast að henni er að finna hér: http://arxiv.org/ftp/arxiv/papers/1305/1305.5566.pdf Sel þetta ekki dýrara en ég keypti. Á alveg eftir að lesa þetta. Finnst það samt áhugavert.
Flugeldasala á Íslandi er stórskrýtin. Skátafélög, björgunarsveitir og íþróttafélög eiga þennan markað. A.m.k. man ég vel eftir því að Kaupfélögin og önnur slík gróðafélög vildu helst ekki koma nálægt sprengjum og þ.h. á sínum tíma. Þó er heilmikla peninga uppúr þessu að hafa. Hjá strákum á vissum aldri er sprengingahvötin næstum því eins sterk og kynhvötin. Gömlu fólki og kvenfólki finnst þetta skrýtið en svona er þetta. Meðan allur gróðinn af flugeldasölunni fer til björgunarsveitanna hafa sprengjuóðir karlmenn fyrirmyndarafsökun á reiðum höndum. Jafnvel öskureiðum. Þeir eru bara að styrkja björgunarsveitirnar.
Einstaka menn viðurkenna sprengingahvötina. T.d. má þar nefna leikarann Örn Árnason. Hann stofnaði (sennilega ásamt einhverjum öðrum) félag um að selja rakettur. Var hann þá að stela frá björgunarsveitunum? Nei, ætli hann hafi ekki bara verið að taka spón úr aski þeirra fégráðugu einkaaðila sem voru að reyna að ræna frá sveitunum þeirra réttmæta gróða.
Flugeldaverksmiðjur eru stórhættulegar, enda eru Íslendingar löngu hættir að framleiða skotelda sjálfir. Kínverjar eru svo margir að þeim má vel fórna í svona hættulegan iðnað. Í gamla daga sprengdi maður kínverjana í tætlur, kveikti á nokkrum blysum og skaut fáeinum rakettum (einni stórri) og hafði ekki efni á meiru. Nú eyða menn hiklaust jafnmiklu í flugeldatertur og jólagjafir.
Ók framhjá Kerinu í Grímsnesi um daginn. Sem betur fer þarf ekki að borga sérstaklega fyrir að sjá bílastæðið. Held að ég hafi meira að segja séð innheimtuskúrinn. Að sögn margra eru túristar æstir í að borga sem mest fyrir að sjá þetta náttúruundur. Einhverjir Íslendingar munu þó vera á báðum áttum um réttmæti skúrsins. Held að túrhestatrakið á ferðamannastöðum sé svolítið orðum aukið. Vissulega er ólíkt að sjá hve margmennt er við ýmsa staði sem áður var fámennt á. Líst samt illa á skúramenninguna.
Handteiknar tölvuleik og larpar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2013 | 00:32
2016 - Moskur og pólitík
Nafnið Kuklinski dregur ekki mikið að. Moskur gera það áreiðanlega mun frekar. Þessvegna er ég að hugsa um að nota það í fyrirsögnina á þessari grein. Verst að ég er áður búinn að láta ljós mitt skína um fyrirbrigðið. Trúmál eru líka hættulegt umræðuefni. Það getur alveg farið úr böndunum. En ef ekki má skrifa um trúmál og ekki heldur um pólitík er þá ekki fremur lítið eftir? Það er ég hræddur um að sumum finnist. Samt er ég að hugsa um að taka áhættuna. En fyrst svolítið um pólitík.
Mikið er rætt um að sigurvegararnir í síðustu alþingiskosningum hafi ekki lofað að hygla LÍÚ sérstaklega heldur hafi menn átt að vænta almennra leiðréttinga o.þ.h. Það finnst mér heldur léleg eftiráskýring. Varla kjósa menn bara eftir því sem sagt er í kosningabaráttunni. Eitthvað annað og fleira hlýtur að vera haft til hliðsjónar. Kosningar snúast ekki bara um þann fagurgala sem er efst á baugi í aðdraganda kosninga. Margt annað kemur til álita. Saga frambjóðenda og flokka skiptir máli. Eins hugsanlega pólitísk sýn ættingja og vina. Mér finnst ég vera nánast hlutlaus þegar kemur að pólitík. Skoðanalaus er ég þó ekki.
Ríkisstjórnin glímir við mikinn forsendubrest. Það er engar forsendur til að semja við hrægammana. Forsendubresturinn er kannski alvarlegastur í sambandi við gjaldeyrishöftin. Það eru nefnilega engar forsendur til að afnema þau. Forsendur fyrir skattalækkunum eru mjög vafasamar. Fæ ekki séð að neinar forsendur séu til að ráðast á forsendubrestinn hjá íbúðalánasjóði eða lífeyrissjóðunum. Hvað er þá eftir? Nú, auðvitað fjárlögin. Kannski er hægt að kippa þessu öllu í lag með skynsamlegum fjárlögum og forsendubrestslausum.
Reglulegt blogg skiptir máli. Að blogga einu sinni eða tvisvar í mánuði getur hentað sumum ágætlega, en ekki mér. Almenn blogg sem þó snúast að litlu leyti um mig sjálfan eða fjölskylduna eru mitt spesíalítet. Já, ég sletti þegar mér finnst það eiga við. Mest þykir mér gaman að blogga um blogg. Málfar er mér líka mikið hugðarefni. Vil þó ekki takmarka mig við að skrifa um það eingöngu. Hugsa um svo margt annað. Get þó ómögulega skrifað um allt það sem mér kemur í hug. Sumt er svo ómerkilegt að ekki tekur því að blogga um það. Sumt er líka óviðeigandi. Siðfræðin og ýmislegt henni tengt er sömuleiðis mikið áhugamál hjá mér. Málfrelsi, tölvur og tækni einnig. Já, eiginlega allt milli himins og jarðar. Og skák líka. Sennilega hef ég einna mest vit á henni. Skrifa líklega alltof lítið um skák. Nenni samt ekki að endursegja gamlar fréttir. Gæti samt eflaust verið fróðlegt.
Margt sem tengist skák er sem brennt í vitund mína. T.d. man ég vel að ég fékk að fara með Axel á Reykjum og einhverjum fleirum á Selfoss þar sem þeir Taimanov og Ilivitsky tefldu fjöltefli eitt sinn þegar ég var smágutti. Hvor þeirra um sig tefldi við svona 30 til 40 manns. Fjölteflið var haldið í Selfossbíói sem á þeim tíma var glæsilegt og viðurkennt samkomuhús. Ekki tók ég þátt, en Axel gerði það og einhverjir fleiri frá Hveragerði og nágrenni. Man að Júlli í Gufudal sat við hliðina á Axel og held að þeir hafi teflt við Ilivitsky. Ekki er að orðlengja það að andstæðingur Júlla lék af sér manni snemma í skákinni. Axel missti við það áhugann á sinni skák og hugsaði um það eitt að hjálpa Júlla. Ekki man ég með vissu hvernig sú skák fór, en held endilega að Júlíus hafi annaðhvort unnið eða gert jafntefli. Ekki er víst að lesendur mínir hafi gaman af frásögnum sem þessari en þær á ég margar.
Almennt og yfirleitt finnst mér sólskin óþægilegt. Hef samt ekkert á móti hita. Svo lengi sem hann er ekki of mikill. Þegar hann fer að nálgast 30 stig finnst mér of langt gengið. 22 25 stig er ágætt. Útivið er það ekki algengt á Íslandi. Slagveðursrigning í köldu veðri finnst mér versta veðrið. Snjókoma og bylur er skárra. Kulda er tiltölulega auðvelt að klæða af sér. Auðvitað er ekki sama hvort maður er gangandi eða í bíl. Hálka og mikill snjór eru verstu veðrin fyrir bílferðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2013 | 09:30
2015 - Kuklinski o.fl.
Með því að skoða hug minn vandlega hef ég komist að því að veröldin er allsekki eins og ég held að hún sé. Samt hef ég ekki við annað að styðjast. Verð að halda mig við það að hún sé nokkurn vegin einsog ég sé hana. Er hún nokkuð annað en summan af því sem maður hefur upplifað og speglun á því sem skynfærin senda til heilans? Oft aflagast sú speglun með tímanum þegar sorterað er hverju á að gleyma og hvað þarf endilega að muna. Einkennilegt samt hvað sum atriði sem öðrum kann að finnast ómerkileg standa manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum án þess að maður skilji hversvegna það er. Eru veraldirnar kannski jafnmargar mannfólkinu? Sennilega er það svo. Engir tveir sjá veröldina sömu augum. Nýjar víddir bætast við á hverjum degi. Bara ofmeta ekki þau áhrif sem maður heldur að maður sjálfur geti haft á hvernig hún (veröldin) snýst.
Mér leiðast trúmál. Veit þó að margir eru á móti moskum. Af ýmsum ástæðum. Ég er það ekki. Einhver var að predika að draumur þeirra sem vilja reisa mosku hér væri að Íslendingar yrðu allir múhameðstrúar. Engu máli skipti hvort það yrði eftir eitt ár eða þúsund. Er það ekki sami draumurinn og allir sértrúarsöfnuðir hafa? Ég hefði haldið það og er bara sléttsama. Mér finnst stóra spurningin sem öll trúmál hverfast um vera sú hvað verði um mann eftir dauðann. Hvernig maður hegðar sér í lifanda lífi er einkum siðfræðileg spurning og ég sé ekki að einhver trúarbrögð eigi að hafa einkarétt á því að segja mér hvernig á að gera það.
Hef bloggað ansi mikið og lengi. Sjálfsagt eru bloggin ákaflega misjöfn hjá mér. Stundum er ég á undan tímanum með mitt blogg, en ef ég fjalla um fréttatengd málefni er ég oftast töluvert á eftir. Við því er lítið að gera. Vanda mig þó oftast sæmilega, enda held ég að orðalagið sé yfirleitt í lagi (svolítið fornaldarlegt kannski) og stafsetningin alveg ágæt. Greinarmerkjasetningin er aftur á móti talsvert tilviljanakennd og helgast það mest af því að ég er frekar lélegur í því fagi.
Í september (29.) árið 2012 bloggaði ég um Richard Kuklinski og hef engu við það að bæta. Vara bara þá við sem eru reglulegir gestir hjá mér að mest af því sem hér fer á eftir er endurtekið efni. Kvikmynd um hann skilst mér að sé sýnd núna í einhverju kvikmyndahúsi borgarinnar. Þó ég sé að mestu hættur að sækja slík hús kann ég auðveldlega að leita í gömlu bloggunum mínum og nota Gúgla til þess. Blogg númer 1774 var þannig hjá mér:
Á Stöð 2 fengum við einu sinni á teipi heimildamynd með viðtali við mann sem hét Richard Kuklinski. Ég man að ég horfði á þetta viðtal frá upphafi til enda og það hafði mikil áhrif á mig. Þetta viðtal var samt aldrei sýnt á Stöðinni og þótti alls ekki viðeigandi. Richard þessi Kuklinski var einn af frægustu leigumorðingjum mafíunnar í Bandaríkjunum og er talinn hafa framið yfir 100 morð um ævina og e.t.v. verið drepinn sjálfur þó í fangelsi væri á þeim tíma. 13 ára var hann þegar hann framdi sitt fyrsta morð.
Líf hans snerist allt um morðin. Meginástæða þess að ekki komst upp um hann fyrr var sú að hann beitti mjög mismunandi aðferðum við þau. Að lokum náðist hann þó og það sem varð honum að falli var tvennt. Annars vegar lét hann ginnast af uppljóstrara sem var afar snjall, en gat þó ekki sannað á hann morð. Ein af aðferðum Kuklinskis var að afvegaleiða rannsakendur morðanna varðandi dánartíma með því að frysta líkin og koma þeim síðar fyrir á afviknum stöðum. Eitt sinn gætti hann þess ekki að láta líkið þiðna nógu vel og ísklumpur fannst í hjarta þess. Það nægði til sakfellingar.
Í viðtalinu lýsir Kuklinski mörgum morða sinna í smáatriðum og er áberandi kaldur og rólegur við það. Mér er minnisstætt að í viðtalinu lýsir hann því fjálglega að sér hafi komið mjög á óvart eitt sinn er hann myrti mann með því að skjóta hann í höfuðið af stuttu færi með öflugri haglabyssu að höfuðið fauk af honum við það.
Þegar talið berst síðan að börnum hans og eiginkonu (sem ekkert vissu um þessa atvinnu hans) sýnir hann áberandi viðkvæmni og eftirsjá. Viðtalið allt er afar vel gert á allan hátt og þó engar skreytingar séu á myndbandinu og ekkert að sjá annað en manninn sjálfan í appelsínugulum fangabúningi er það þannig úr garði gert að ég man ekki eftir að hafa litið af skjánum eitt augnablik þegar ég horfði á það. Kuklinski fæddist árið 1935 og dó árið 2006.
Mér finnst ég ekki gera mikið af því að endurbirta gömul blogg. Bið bara lesendur mína afsökunar á þessu svindli. Er þegar farinn að undirbúa næsta blogg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2013 | 00:52
2014 - Kampavínsklúbbar og fish spa
Nú eru númeringarnar hjá mér komnar inn í framtíðina ef litið er á þær sem ártöl. Eins gott. Mitt helsta vandamál er nefnilega að ég á oft í vandræðum með að hemja bloggsýkina í mér. Venjulega er ég ekki fyrr búinn að setja eitthvað upp á bloggið mitt en ég byrja á því næsta. Svona er þetta bara og ekkert við því að gera. Nenni yfirleitt ekki einu sinni núorðið að þurrka út eða breyta röð á þessum hugleiðingum mínum, en það gerði ég oft áður fyrr.
Pólitískt séð er ég sennilega hægrisinnaðri en ég var oftast þegar ríkisstjórn Jóhönnu var við völd. Mér finnst ég þó vera mjög gagnrýninn á núverandi ríkisstjórn en auðvitað veit ég minnst um það sjálfur. Þeir sem þessar hugleiðingar mínar lesa vita það miklu betur. Stundum þegar ég er að skrifa (sem mér þykir best að gera á morgnana) lít ég lauslega á fréttirnar á mbl.is eða annarsstaðar og skoða það nýjasta á fésbókinni. Finnst þó sjaldan að það sem þar stendur sé nógu merkilegt til að skrifa um. Sennilega er ég bara svona skrýtinn.
Kampavínsklúbbar eru mjög í tísku um þessar mundir. Aldrei hef ég komið á þvílíkan stað. Man að þegar ég sá nafnið fyrst grunaði mig strax hvað byggi undir. Mér finnst liggja beint við að þegar borga þarf tugi eða hundruð þúsunda fyrir það eitt að fá að vera einn með kvenmanni í smástund séu allar líkur á að um misnotkun og vændi sé að ræða. Sé ætlunin að uppræta vændið (sem kannski er ekki hægt) finnst mér liggja beint við að rannsaka málið frekar. Málshöfðunarhótanir eru bara tilraunir til þöggunar.
Það er mildilegt að álíta baráttu gegn moskum vera á misskilningi byggða. Sú er samt oftast raunin. Það er líka misskilningur að hættulegt sé að fá innflytjendur til landsins. Það er auðvelt að segja að þeir megi ekki verða of margir. Líklega er það samt rétt, en hver á að ákveða það? Og hvað er of mikið? Á sínum tíma fannst okkur sárt að missa marga Íslendinga vestur um haf. Þó nú sé miklu auðveldara að komast á milli landa er í flestum tilfellum hægt að gera ráð fyrir að flutningshvatirnar séu líkar.
Vandræðin með suma úrvalsbloggara (ég nefni bara Jens Guð og Vilhjálm Örn) er að það er oft erfitt að sjá hvort þeim er alvara eða ekki með því sem þeir skrifa. Aftur á móti eru sumir (t.d. Egill Helga og Ómar Ragnarsson) alltaf alvarlegir. Aðrir (t.d Jónas) eru yfirleitt svo stórorðir að maður má vara sig á þeim. Já, það er vandlifað í bloggheimum. Þar kann ég samt betur við mig en víðast annarsstaðar. Eitt eiga þessir bloggarar allir sameiginlegt og það er að álíta poppsöguna merkilegri en aðrar sögur. Ég er aftur á móti alveg úti að aka í slíkum málum og reyndar í tónlistarmálum öllum. Fyrir mér er músík bara hávaði og í mesta lagi taktur.
Þegar ég var á Kanaríeyjum fyrir nokkrum árum var allt fullt af sjoppum þar sem fólk gat sest niður og látið litla fiska kroppa í tærnar á sér. Sagt er að þetta sé meinhollt þó fremur ógeðslegt sé og nú er þessi siður víst kominn hingað til lands. Sumum finnst áreiðanlega gaman að prófa þetta og auðvitað er ekkert við því að segja. Túrhestunum á Tenerife fannst greinilega bráðsniðugt að eyða peningunum í þetta. Veit þó ekki hvað þetta kostaði þar eða hvað það kostar hér. En myndrænt er það. Minnir að ég hafi einhverjar myndir tekið af þessu, en er ekki alveg viss.
Fjölmiðlamál eru komin í umræðuna aftur. RUV er eins og vant er á milli tannanna á fólki. Einkum eru það auglýsingarnar þar, sem fólk rekur hornin í. Samkeppnin við langvinsælasta fjölmiðilinn er einkaaðilum eflaust erfið. Alls ekki er sama hvernig RUV hagar sér þar, en ástæðulaust virðist mér að vantreysta Páli Magnússyni til að stýra stofnuninni í gegnum þann ólgusjó sem hún þarf eflaust að sigla næstu misserin. Einkaaðilunum (Jóni Ásgeiri og Co.) sem stýra 365 (Stöð 2, Fréttablaðinu og Bylgjunni og kannski fleirum) er trúlega mun hættara. Ekki er víst að Dabbi geti kastað út bjarghring núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2013 | 06:28
2013 - Niðurskurður í stað happdrættisvinnings
Einhverjir flýta sér að lesa flest sem ég skrifa. Gott er það. Í morgun snemma (mánudagsmorgun) setti ég innlegg á bloggið mitt fyrir allar aldir (8) og ekki liðu nema nokkrar mínútur þar til gestum hafði fjölgað úr 3 í 15 þann daginn, eftir því sem talnaspekingstölva Moggabloggsins sagði mér. Auðvitað getur þetta svosem verið haugalygi, en ég trúi þessu eins og nýju neti. Kannski eru það lesendurnir sem valda því að ég er svona iðinn við kolann (þ.e.a.s. bloggið). Ekki veit ég það. Held bara áfram að ímynda mér að ég hafi eitthvað merkilegt að segja og skrifa sem allra mest.
Sjálfum finnst mér þessar hugleiðingar mínar heldur lítils virði. Þó ekki rétt á meðan ég skrifa þær. Þá finnst mér þær merkilegri en flest annað.
Ég hélt endilega að það væru fjórir í niðurskurðarnefndinni frægu og minnir að ég hafi talið þá þingmenn upp í einhverju bloggi nýlega. Nú sé ég að sennilega (kannski) er þetta vitleysa hjá mér. Fáir minnast á aðra en Guðlaug Þór, Ásmund Einar og Vigdísi Hauks. Mig minnir aftur á móti endilega að Unnur Brá væri í nefndinni líka. Flestir, eða a.m.k. þeir vinstrisinnar sem ég les einkum, keppast við að úthúða þessum nefndarmönnum sem mest. Kannski er það maklegt. Mér finnst samt vænlegra að setja traust mitt á að þessi nefnd skili einhverju raunhæfu, en að trúa á loforðin hans Sigmundar.
Hann ( Sigmundur eða ræðusmiðir hans ) kann þó að koma sæmilega fyrir sig orði. Vonandi að athafnir fylgi orðunum. Þannig var það ekki hjá Jóhönnu. Hún kunni ekki að koma fyrir sig orði og um athafnirnar má deila. Auðvitað var hún í erfiðu hlutverki og Steingrímur var sífellt að anda ofan í hálsmálið hjá henni. Samt er ég ekki viss um að sagan dæmi hana mildilega. Sigmundur á hins vegar alveg eftir að sanna sig.
Ég er víst bara bloggari. En er það nokkuð bara? Já, það er eiginlega búið að koma óorði á nafnið sjálft. Þó eru Moggabloggari og Virkuríathugasemdum líklega verri. (Stebbi Páls er t.d. alveg hættur að kalla sig bloggara. Nú er hann orðinn súpersagnfræðingur eða eitthvað þaðan af merkilegra.) Fyrir gráglettni örlaganna er ég víst það fyrra en reyni að gera sem minnst af hinu. Alvörurithöfundur er ég alls ekki og ekki hef ég komist svo langt að gefa út bók. Þó ætti það að vera fremur auðvelt núna á þessum síðustu (og verstu) tímum. Nenni bara ómögulega að ganga í gegnum allt það vesen sem mér finnst að bókaútgáfu hljóti að fylgja, ef eitthvert vit á að vera í henni, og Örlygur Sigurðsson lýsti svo fjálglega fyrir margt löngu. Flestir eru líklega búnir að gleyma honum en hann var bæði ritsnillingur og teiknari af guðs náð og Steingrímur (litli bróðir hans) reyndi allt hvað af tók að komast þangað með tærnar sem hann hafði haft hælana.
Að ýmsu leyti eru Bandaríkin að taka við af Sovétríkunum hvað fótumtroðslu mannréttinda og tjáningarfrelsis snertir. Tilraunir Bandaríkjastjórnar til að ná Snowden uppljóstrara væru hlægilegar ef þær væru ekki svona hættulegar. Þegar svo mikil völd hafa safnast á eina hendi eins og reyndin er í USA má búast við mannréttindabrotum eins og í Guantanamo og eltingaleikurinn við Snowden sýnir að tjáningarfrelsinu er líka hætt. Evrópusambandið er að mörgu leyti sá suðupottur sem sameinar sósíalismann úr austri og kapítalismann úr vestri.
Ef eitthvað er að marka hrakspár þær allar sem núverandi ríkisstjórn fær, þá er Ísland hvergi nærri búið að ná sér eftir kreppu þá sem Hrunið olli. Það er jú búið að fela skuldirnar að hluta og atvinnuleysi er ekki mikið en vandamálin sem snúa að afkomu almennings eru óleyst ennþá og margt bendir til að reyna eigi að leysa þau með því að stefna í eina kollsteypuna enn. Ekki dugir þó að láta hugfallast og með bjartsýni er hægt að komast langt. Álit mitt á forsætisráðherranum hefur aukist að undanförnu, þó ég geti ekki varist þeirri hugsun að hann sé með tóma hunda á hendinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2013 | 07:49
2012 - Moska eða moska ekki
Hvað er það sem einkum hreyfir við mér á þessum mánudagsmorgni. Moskudeilan. Ég vil endilega mosku. Þó er ég viss um að ég mun aldrei koma þangað. Að vera á móti slíku er að loka sig inni í sínum eigin hugmyndaheimi. Hætta að þroskast. Það eina sem viðheldur lífinu er að læra eitthvað nýtt á hverjum degi, og helst oft á dag. Öll trúarbrögð eru gegnsýrð af alls konar vitleysu. Það skiptir í raun litlu máli hvaða dýr þú étur og hver ekki. Hvað þitt uppáhalds trúarrit segir að þú megir gera og hvað þú megir ekki gera. Öll túarrit eru óþörf. Það eina sem skiptir máli ert þú sjálfur og samspil þitt við annað fólk. Fremji menn illvirki er það ekki vegna trúarinnar heldur þrátt fyrir hana.
Á fésbók finnst mér yfirleitt best að gera sem minnst, því maður veit aldrei hvaða áhrif hlutirnir hafa. Súpervarkátt fólk ætti náttúrulega að varast að skrá sig á fésbók, en það er önnur saga. Sýnist samt að flestir, eða a.m.k. margir vilji gera sem mest þar. Það er í góðu lagi líka og minnkar traffíkina á blogginu. Fjasbókin og aðrir miðlar líkir henni eru af mörgum kallaðir samfélagslegir miðlar. Bloggið líklega líka, en það er samt takmarkaðra en fésbókin, twitter og forverar þeirra sem ég man ekki einu sinni nöfnin á. Bloggið, og Moggabloggið kannski sérstaklega, hentar vel fyrrverandi besservisserum eins og mér. Allir vilja vera á fésbók. Ekki bara fólk og fénaður, heldur allskyns fyrirbrigði og félagsskapur. Eiginlega er að verða svo troðið þar að maður kemst illa fyrir. Nauðsynlegt samt að fylgjast svolítið með. Ekki les maður nein dagblöð eða hlustar reglulega á útvarp. Sjónvarpsfréttir horfi ég þó nokkuð reglulega á.
6. júlí s.l. fékk ég eftirfarandi skilaboð á Moggabloggið mitt. Eflaust hafa margir fleiri fengið samskonar skilaboð því hann virðist hafa sent þetta á alla sína bloggvini þar, en þeir eru yfir 50.
Guðjón E. Hreinberg sendi þér skilaboð: Góðan dag kæri blogvinur Langar að gerast svo djarfur að deila með þér nýjustu færslu minni um mótmælasvelti mitt. http://gudjonelias.blog.is/blog/gudjonelias/entry/1305331/ Njóttu helgarinnar, veðrið er of gott ti lað vera inni við tölvuna ;)
Auðvitað hrekkur maður svolítið við þegar maður fær skilaboð á blogginu sem þessi. Fannst samt að það væri svosem ekki mikið (jafnvel ekkert) sem ég gæti gert. Það er auðvitað leiðinlegt að sjá meðbróður sinn kveljast svona. Reyndi samt að fylgjast með Guðjóni næstu dagana en fáum dögum seinna virðist hann hafa hætt mómælasveltinu og á vefsetri hans (not.is) er vel hægt að fylgjast með honum og hvað hann tekur sér fyrir hendur.
Nú er klukkan farin talsvert að ganga átta (að morgni) svo það er sennilega best að drífa í því að senda þetta upp og gera næstu mynd tilbúna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.7.2013 | 01:36
2011 - Um framsóknarkomma o.fl.
Þetta með framsóknarkommana er svolítið sniðugt. Sennilega er ÓRG í þeim hópi því hann byrjaði sem framsóknarmaður og endaði (hvenær skyldi hann annars hætta) sem alþýðubandalagsmaður. Bjarni frændi minn Harðarson segist vera framsóknarkommi eða eitthvað þessháttar. Kannski er það samheiti yfir þá sem eru á móti ESB, kusu VG og héldu að eitthvað væri að marka þá. Þó ég sé krati og hlynntur inngöngu í ESB held ég að önnur mál séu brýnni en að ganga frá inngöngu þangað núna.
Þó í tísku sé af öllum sem ekki kusu Sigmund Davíð og framsóknarflokkinn til forystu í síðustu kosningum að níða hann sem mest, get ég ekki neitað því að hann talar dágóða ensku. Auk þess er auðvelt að færa rök fyrir því að hagstæðara sé að þrasa við ESB útaf makrílnum utan sambandsins en innan þess. Gallinn er bara sá að makrílveiðarnar eru ekki einu samskipti okkar við ESB og þar að auki er sagt að Norðmenn séu harðari í samningum um hann en bandalagið.
Of margir leita í pólitík að einhverju til að vera ósammála um. Yfirleitt er það auðvelt. Hugsanlega getur það valdið erfiðleikum seinna meir að ganga ekki formlega frá aðildarumsókninni að ESB og láta bara nægja að segja að allir hljóti að vita að ríkisstjórnin sé á móti aðild. Landann langar nefnilega svo mikið í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Oftast borgar sig að þykjast vita heldur minna en maður þó veit. Að þykjast vita meira getur hvenær sem er komið í bakið á manni. Erfiðast var alltaf að samræma þetta besservisserahættinum, en nú þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því, vegna þess að Gúgli er tekinn við hlutverki beturvitans. Oft er auðvelt að láta sannleikann líta út sem lygi og þannig er hægt að styrkja trú fólks á að maður viti eitthvað.
Ég er kattamaður þó ég eigi heima í Kópavogi. Þar var nýlega flutt tillaga í bæjarstjórn um bann við lausagöngu katta. Ætli það sé ekki svipuð tillaga og samþykkt var á Selfossi fyrir nokkru. Held að hún hafi verið afturkölluð eða sé a.m.k. ekki framfylgt. Mér finnst eðlilegt að bann sé við lausagöngu hunda og til rökstuðnings við það finnst mér nóg að vita að stundum ráðast hundar á fólk og sumt fólk er hrætt við þá. Um ketti gegnir alltöðru máli. Þeir ráðast ekki á fólk nema þeir séu alvarlega innikróaðir og fáir eða engir eru hræddir við þá. Þetta finnst mér nægja til að vera á móti banni við lausagöngu þeirra. Öll dýr geta valdið óþægindum og ergelsi en slík allsherjarbönn þurfa góðan rökstuðning.
Talsvert er rætt um lífeyrismál og oft af lítilli þekkingu. Þegar ákveðið var að koma lífeyrissjóðunum á fót fyrir mörgum áratugum lá það ljóst fyrir að með tímanum yrðu sjóðirnir gríðarlega öflugir. Stjórn þeirra skiptir því miklu máli núna þó hún hafi ekki gert það í fyrstu. Það eru þó einkum hinir opinberu sjóðir sem valda vanda. Þar hefur mönnum liðist að velta vandanum á framtíðina og ekki er langt þangað til það vandamál verður að stærð til eins og eitt stykki Hrun eða svo.
Las í DV um norska konu sem kærði nauðgun, en var í kjölfarið sjálf dæmd fyrir rangar sakargiftir. Vissulega er margt einkennilegt í réttarfari Saudi Arabíu og þjóðlífi öllu séð með okkar vestrænu augum. Óþarfi er þó að heimfæra allt sem miður fer þar á allar þjóðir þar sem Múhameðstrú er ríkjandi.
Í þessari stuttu DV-grein var sagt lítils háttar frá málinu og alfarið horft á það frá sjónarhóli norsku konunnar. Auðvitað er eðlilegt að eyða ekki dýrmætu plássi í álnarlangar úskýringar. Norsk blöð fjalla líka talsvert um þetta mál skilst mér og eyða meira plássi í það.
Þó mér finnist sumt sem birtist í DV ekki vera neinar fréttir voru það fremur athugasemdirnar við greinina sem vöktu athygli mína og ég ætlaði að fjalla svolítið um.
Það vefst greinilega lítið fyrir mönnum þar að dæma í málinu án þess að sjáanlegt sé að þeir viti nokkuð meira um það en stendur í greininni. Sumir vilja færa þetta atvik, eftir að hafa dæmt í málinu, fram sem rök gegn byggingu mosku í Reykjavík, en það finnst mér alveg út í hött.
Ég hef hingað til haldið því fram að fólk væri ekki fífl. Sumir þeirra sem hafa athugasemdir fram að færa við DV-greinina virðast þó vera það. Þó ég hafi haldið því fram að fólk sé ekki fífl, svona almennt séð, þá er greinilegt að þau eru til. Því hef ég heldur aldrei neitað. Í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslun eru þau að mínum dómi samt svo fá að þau skipta engu máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)