2015 - Kuklinski o.fl.

Með því að skoða hug minn vandlega hef ég komist að því að veröldin er allsekki eins og ég held að hún sé. Samt hef ég ekki við annað að styðjast. Verð að halda mig við það að hún sé nokkurn vegin einsog ég sé hana. Er hún nokkuð annað en summan af því sem maður hefur upplifað og speglun á því sem skynfærin senda til heilans? Oft aflagast sú speglun með tímanum þegar sorterað er hverju á að gleyma og hvað þarf endilega að muna. Einkennilegt samt hvað sum atriði sem öðrum kann að finnast ómerkileg standa manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum án þess að maður skilji hversvegna það er. Eru veraldirnar kannski jafnmargar mannfólkinu? Sennilega er það svo. Engir tveir sjá veröldina sömu augum. Nýjar víddir bætast við á hverjum degi. Bara ofmeta ekki þau áhrif sem maður heldur að maður sjálfur geti haft á hvernig hún (veröldin) snýst.

Mér leiðast trúmál. Veit þó að margir eru á móti moskum. Af ýmsum ástæðum. Ég er það ekki. Einhver var að predika að draumur þeirra sem vilja reisa mosku hér væri að Íslendingar yrðu allir múhameðstrúar. Engu máli skipti hvort það yrði eftir eitt ár eða þúsund. Er það ekki sami draumurinn og allir sértrúarsöfnuðir hafa? Ég hefði haldið það og er bara sléttsama. Mér finnst stóra spurningin sem öll trúmál hverfast um vera sú hvað verði um mann eftir dauðann. Hvernig maður hegðar sér í lifanda lífi er einkum siðfræðileg spurning og ég sé ekki að einhver trúarbrögð eigi að hafa einkarétt á því að segja mér hvernig á að gera það.

Hef bloggað ansi mikið og lengi. Sjálfsagt eru bloggin ákaflega misjöfn hjá mér. Stundum er ég á undan tímanum með mitt blogg, en ef ég fjalla um fréttatengd málefni er ég oftast töluvert á eftir. Við því er lítið að gera. Vanda mig þó oftast sæmilega, enda held ég að orðalagið sé yfirleitt í lagi (svolítið fornaldarlegt kannski) og stafsetningin alveg ágæt. Greinarmerkjasetningin er aftur á móti talsvert tilviljanakennd og helgast það mest af því að ég er frekar lélegur í því fagi.

Í september (29.) árið 2012 bloggaði ég um Richard Kuklinski og hef engu við það að bæta. Vara bara þá við sem eru reglulegir gestir hjá mér að mest af því sem hér fer á eftir er endurtekið efni. Kvikmynd um hann skilst mér að sé sýnd núna í einhverju kvikmyndahúsi borgarinnar. Þó ég sé að mestu hættur að sækja slík hús kann ég auðveldlega að leita í gömlu bloggunum mínum og nota Gúgla til þess. Blogg númer 1774 var þannig hjá mér:

Á Stöð 2 fengum við einu sinni á teipi heimildamynd með viðtali við mann sem hét Richard Kuklinski. Ég man að ég horfði á þetta viðtal frá upphafi til enda og það hafði mikil áhrif á mig. Þetta viðtal var samt aldrei sýnt á Stöðinni og þótti alls ekki viðeigandi. Richard þessi Kuklinski var einn af frægustu leigumorðingjum mafíunnar í Bandaríkjunum og er talinn hafa framið yfir 100 morð um ævina og e.t.v. verið drepinn sjálfur þó í fangelsi væri á þeim tíma. 13 ára var hann þegar hann framdi sitt fyrsta morð.

Líf hans snerist allt um morðin. Meginástæða þess að ekki komst upp um hann fyrr var sú að hann beitti mjög mismunandi aðferðum við þau. Að lokum náðist hann þó og það sem varð honum að falli var tvennt. Annars vegar lét hann ginnast af uppljóstrara sem var afar snjall, en gat þó ekki sannað á hann morð. Ein af aðferðum Kuklinskis var að afvegaleiða rannsakendur morðanna varðandi dánartíma með því að frysta líkin og koma þeim síðar fyrir á afviknum stöðum. Eitt sinn gætti hann þess ekki að láta líkið þiðna nógu vel og ísklumpur fannst í hjarta þess. Það nægði til sakfellingar.

Í viðtalinu lýsir Kuklinski mörgum morða sinna í smáatriðum og er áberandi kaldur og rólegur við það. Mér er minnisstætt að í viðtalinu lýsir hann því fjálglega að sér hafi komið mjög á óvart eitt sinn er hann myrti mann með því að skjóta hann í höfuðið af stuttu færi með öflugri haglabyssu að höfuðið fauk af honum við það.

Þegar talið berst síðan að börnum hans og eiginkonu (sem ekkert vissu um þessa atvinnu hans) sýnir hann áberandi viðkvæmni og eftirsjá. Viðtalið allt er afar vel gert á allan hátt og þó engar skreytingar séu á myndbandinu og ekkert að sjá annað en manninn sjálfan í appelsínugulum fangabúningi er það þannig úr garði gert að ég man ekki eftir að hafa litið af skjánum eitt augnablik þegar ég horfði á það. Kuklinski fæddist árið 1935 og dó árið 2006. 

Mér finnst ég ekki gera mikið af því að endurbirta gömul blogg. Bið bara lesendur mína afsökunar á þessu svindli. Er þegar farinn að undirbúa næsta blogg.

IMG 3511Foss.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband