Bloggfærslur mánaðarins, október 2013
14.10.2013 | 01:29
2056 - DV
Eitthvað minntist ég á DV í síðasta bloggi. Það var ekki á nokkurn hátt tengt Jóni Baldvini Hannibalssyni þó ég hafi síðan lesið eitthvað um mál dóttur hans. Í mínum huga er Jón Baldvin talsverður gúrú stjórnmálalega séð. Afglöp hans hafa samt verið meiri háttar og hann hefur í seinni tíð goldið þeirra verulega.
DV lætur sér sæma, að ég held eitt fjölmiðla, að hafa frásagnir um atburði eftir einum aðila og skammast sín ekki neitt fyrir það. Slíkar frásagnir geta auðvitað verið sannar, en eru það ekki alltaf. Ætíð þarf að gefa mótaðilanum færi á að koma sínum skoðunum á framfæri og atburðum á alls ekki að segja frá nema hægt sé að staðfesta þá úr tveimur óskyldum áttum. Þetta hélt ég að væri grundvallarregla allra góðra blaðamanna, en DV hefur þær alls ekki í heiðri. Hugleiðingar blaðamanna um tiltekin mál eru oft meðhöndlaðar sem sannleikur. Auðvitað veit ég að oft er það sem fer fram á milli tveggja aðila ógerlegt að staðfesta af þeim þriðja . Að kyn ráði þá hvorum aðilanum fremur á að trúa, er einkum trúaratriði.
Ég er fésbókarvinur Birgittu Jónsdóttur alþingismanns. Mér finnst hún stundum ganga of langt í því að ætlast til að allir fésbókarvinir hennar, sem fésbókin sjálf segir vera 4986, lesi allar greinar sem henni finnst athyglisverðar. Auðvitað skil ég vel að þegar fésbókarvinirnir eru komnir þetta nálægt hámarkinu hættir fésbókin að verða annað en leið að einhverju marki. Alltaf er hægt að lesa það sem maður hefur áhuga á og kannski fylgist ég bara óþarflega vel með henni og hennar fésbókarlífi. Þrátt fyrir allt er hún minn uppáhalds-alþingismaður og það verður varla frá henni tekið nema þá helst ef Jón Gnarr ákveður að söðla um úr borgarmálefnunum í landsmálin.
Markviss gagnrýni er nú hafin á rannsóknarskýrslu alþingis sem áður var hafin til skýjanna. Að sumu leyti er þar um að ræða orðræðu sem vel mátti búast við. Einnig er það lengi búið að vera vitað hverjir mundu mótmæla óskeikulleik hennar og nú hafa þeir hafist handa.
Vissulega fer mest af því eggjahvítuefni sem til verður við ljóstillífun í svokallað tréni og erfitt er að breyta því í auðmeltanlegari eggjahvítusambönd. Aðferð temítanna sem sagt var frá í einhverjum sjónvapsþætt nýlega er þó alls ekki sú eina. Einnig var okkur kennt í barnaskóla að maðurinn væri alæta eins og svínið. Mörg efni úr jurtaríkinu gæti hann sem best nýtt sér beint. Aðferðin að senda afurðir ljóstillífunarinnar í gegnum grasbíta, sem oftast eru nautgripir, er bæði dýr og orkufrek.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2013 | 02:57
2055 - Alltaf eykst tapið
Margir fást við að reikna út tjón landsins við Hrunið sem varð haustið 2008. Hvort sem um er að ræða hundruð eða þúsundir milljarða er bara um peninga að ræða. Traustið sem Íslendingar nutu af hálfu umheimsins er horfið. Við erum einfaldlega álitin svindlarar og ræningjar. E.t.v. kemur þetta traust aldrei aftur og það er hugsanlega mesti skaðinn sem við höfum orðið fyrir. Þjóðræknistal frá millistríðsárunum er gagnslaust. Framtíðin er ólík fortíðinni. Með því að flýja til fortíðarinnar erum við að gefast upp. Samskiptin við umheiminn skipta okkur öllu máli. Kynstofnar eru kannski ólíkir, en ekki er hægt að segja að einn sé öðrum æðri. Vel er samt hægt að segja að maðurinn sé æðri dýrunum, en þarmeð hlýtur hann að bera ábyrgð á þeim og að meðferð þeirra sé ekki til skammar.
Allir hljóta að vera ánægðir með sumt sem birtist í DV og óánægðir með annað. Í heildina finnst mér blaðið vera alltof æsifréttakennt og ganga of langt í því að vekja althygli á sjálfu sér. Enginn vafi er samt á því að þörf er á blaði af þessu tagi og ekki er nokkur lífsins leið að gera öllum til hæfis. Greinilegt er að það sem blaðamenn og ritstjórar blaðisins setja eða láta setja á netið vekur athygli margra. Aftur á móti er ég ekki eins viss um að áskrifendurnir séu mjög margir. A.m.k. hefur mér aldrei dottið í hug að gerast áskrifandi. Sumt af því sem sett er á netið af blaðinu virðist beinlínis ætlað til að æsa þá sem leggja í vana sinn að kommenta þar. Margir held ég þó að forðist að gera slíkt.
Augljóst er að stefnubreyting er að verða hvað umferð varðar um höfuðborgarsvæðið. Allt þetta tal um þéttingu byggðar og almenningssamgöngur hlýtur að þýða eitthvað. Einkabílisminn er á undanhaldi. Áherslan á hann hefur líka verið mjög mikil síðustu áratugina. Umferðaröngþveitið á morgnana mun fara versnandi á næstu árum. Sennilega verður lítið sem ekkert gert til að ráða bót á því. Reiðhjóla og göngustígar eru það sem koma skal.
Í framhaldi af því held ég að Gnarrinn vinni auðveldlegan sigur í borgarstjórnarkosningunum næsta vor þó flestrir fjölmiðlar keppist við að ófrægja hann. Hann er einfaldlega á annarri bylgjulengd en keppinautarnir og gæti hæglega lagt þá með vinstri hendi. Táknrænan er allt. Hann er vissulega andlit Reykjavíkur og fer það vel.
Björn Valur Gíslason ræðst á Elínu Hirst af mikilli heift á bloggi sínu. Með því minnkar hann sjálfan sig töluvert. Það getur vel verið að Elín sé ekkert sérlega vel máli farin eða kunni ekki að nota ræðustól alþingis á sama hátt og þeir sem lengsta hafa af því æfinguna. Á margan hátt eru þeir sem sífellt þurfa að sýna yfirburði sína og reyna að setja pólitískan lit á öll mál þeir sem minnkað hafa virðingu alþingis meira en þeir sem tafsa svolítið og ræða um málefni sem ekki er vani að ræða á þeim eðla stað.
Google street viewið er gríðarlega mikið notað á fésbókinni þessa dagana. Flestar einkennast þær færslur af eiginhagsmunahyggju á hæsta stigi, en eru ekket verri fyrir það. Búast má við að myndir af þessu tagi verði algengar með tímanum (ekkert síður en vefmyndavélarnar) og möguleikarnir eru endalausir. T.d. ef útbúnaður af líkum toga fer útfyrir vegina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.10.2013 | 23:19
2054 - SDG og BjBe
Það er svosem ágætt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, er frábitinn kaldastríðshugsunarhættinum sem plagað hefur suma íslenska stjórnmálamenn undanfarin ár. Það er samt bagalegt að hann skuli hafa fært sig afturfyrir hann og í raun til millistríðsáranna. Hriflu-Jónas var á margan hátt á undan sinni samtíð. Sigmundur er hinsvegar langt á eftir henni. Á vissan hátt er Bjarni Ben. mun nútímalegri en hann. Samt þarf að vara sig á honum. Fjölþjóðafyrirtækin sanka að sér sífellt stærri hluta af auðlegð þjóðanna og Bjarni er fulltrúi þeirra.
Er sá hagnaður sem Sigmundur Davíð talar um að eigi að nota til lagfæringar á skuldastöðu heimilanna, ekki að stórum hluta fólginn í því að Íslendingar borgi skuldir sínar við útlendinga. Mér finnst það. Erum við ekki að glíma við að endurgreiða það sem rænt var af grunlausum útlendingum. Sú trú sem var á Íslenska kerfinu kemur aldrei aftur. Henni stálu útrásarvíkingarnir. Mikilmennskubrjálæði eins og þjóðremba ber alltaf vott um minnimáttarkennd. Ég er viss um að SDG er í rauninni þjáður af henni. Honum finnst hann áreiðanlega of feitur og svo leiðist honum eflaust að vera Íslendingur. Vildi gjarnan vera af einhverju marktæku þjóðerni. Orðspor Íslendinga er ekki gott um þessar mundir.
Eitt af því sem núverandi ríkisstjórn er langt komin með að eyðileggja er heilbrigðiskerfið. Það er ekki nóg að spara og spara. Skera niður miskunnarlaust. Menntakerfið og heilbrigðiskerfið er það mikilvægasta sem þjóðin á. Eftir að búið er að ræna frá henni því trausti sem henni var áður sýnt af umheiminum er það orðið afar fátt sem hún á sameiginlega.
Fæ reglulega áminningar frá fésbókarveldinu um að klára síðuna mína. Dettur ekki í hug að fara eftir því auk þess sem ég veit ekkert hvernig á að gera það. Fésbókarfjandinn er að verða svo uppáþrengjandi að það hálfa væri nóg. Alla vill hann eigna sér með húð og hári. Sú ánægja sem ég fæ af því að hunsa flest tilmæli sem ég fæ þar er mér alveg nóg umbun fyrir andstöðu mína við þetta stórhættulega veldi. Það er jafnvel hættulegra en sjálft Morgunblaðsveldið, sem reyndar lætur mig alveg í friði. Ég reyni líka að líta á sem flest mál án pólitískra gleraugna, en það gerir ritstjórinn snjalli allsekki. Hann (fésbókarfjandinn en ekki Doddson) er langt kominn með að leggja tölvupóstinn minn í rúst en hefur ekki enn fundið farsímann minn. Þar eru það að mestu bara olíufélögin sem sífellt eru að ónáða mig með tilkynningum um pínulítinn afslátt af bensíninu rándýra. Atlantsolía átti að vera skárri en hin félögin, en er það alls ekki.
Eitt hefur gys.is fram yfir baggalút. Þeir auglýsa sig á fésbókinni, eins og margir fleiri. Eiginlega ættu baggalútsmenn að gera það líka. Þeir eru nefnilega ansi sniðugir oft. Sennilega les ég samt oftar gys.is núorðið og það hlýtur að vera vegna þess að þeir auglýsa sig á fésbókinni. Það er ekki hægt að treysta því að allir séu með sig í bookmarki og hverjir fara reglulega á sitt eigið bookmark og kemba það. Ekki hann ég. Svo mikið er víst. Ég læt mér nægja að fara á fésbókina og bloggið mitt og ef þar er ekkert að finna sem áhuga minn vekur fer ég bara eitthvað annað. Eða gef tölvunni alveg frí svo hún geti dundað sér við screen-saverinn.
Hér var strætóskýli, en það er farið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2013 | 08:17
2053 - Konungsbrúin
Japanski ferðamaðurinn stöðvaði bílinn minn og spurði með mikilli kurteisi á ensku:
Geturðu sagt mér hvar konungsvegurinn er?
Þetta skeði einhverju sinni þegar ég dvaldist í bústað Verzlunarmannafélags Reykjavíkur við Úthlíð í Biskupstungum.
Auðvitað kom mér það mér svolítið á óvart að japanskur ferðamaður skyldi vera með kort í hendi að leita að konungsveginum á 21. öldinni á þessum afleggjara frá aðalveginum milli Laugarvatns og Geysis í Haukadal. Fór samt ekkert nánar útí það við hann. Sýndi honum bara veginn sem ég hafði einmitt farið um gangandi daginn áður. Þetta er í dag fremur ómerkilegur ruddur reiðvegur. Honum fannst líka svo lítið til um hann að helst vildi hann ekki trúa mér. Eflaust hefur þetta verið sagnfræðistúdent og fundist merkilegt að lagður skyldi sérstakur vegur vegna jafn ómerkilegs atburðar og konungskomu.
Konungskoman árið 1907 var samt enginn ómerkilegur atburður. A.m.k. var hún það ekki í augum okkar Íslendinga. Konungsbrúin yfir Brúará stendur enn og þykir mikið og merkilegt mannvirki. Strax og ég sá hana í fyrsta sinn fannst mér það. Upphaflega var sú brú gerð árið 1901 og ekki endilega vegna konugskomunnar heldur sem göngubrú yfir vatnsfall sem var mikill farartálmi og hættulegur. Vegurinn og brúin eru alls ekki gerð fyrir bíla, heldur bara fyrir ríðandi og gangandi fólk. Þannig var það 1907 og þannig er það enn. Það hlýtur að þykja einn merkilegasti reiðtúr á landinu að fara frá Þingvöllum að Geysi eftir konungsveginum og yfir konungsbrúna.
Steinboginn sem eitt sinn var skammt fyrir ofan þann stað þar sem Konugsbrúin er núna gerði það mögulegt að komast klakklaust yfir þessa mestu bergvatnsá landsins var samt enn merkilegri náttúrusmíð. Skömm þeirra Skálholtsmanna, sem létu á 17. öld brjóta þann steinboga niður til að fátæklingar ættu erfiðara með að komast í Skálholt, er mikil.
Ef menn vilja skoða þetta mannvirki í dag, sem ekki sést frá þjóðveginum, er einfaldast að fara úr bílnum við brúna yfir Brúará og ganga svona 1 til 2 kílómetra upp með ánni. Ég fór vinstra megin við ána þegar ég fór fyrst þangað en sennilega hefði verið hagstæðara að fara hægra megin. Tungnamenn kannast svo auðvitað allir við Konungsbrúna og geta vísað á hana.
Fræðast má meira um konungskomuna 1907 meðal annars á Wikipediu á þessu urli: https://is.wikipedia.org/wiki/Konungskoman_1907 og svo hefur margt fleira verið skrifað um þennan merkisatburð.
Auðvitað er lífið allt einn risastór brandari. En að þriggja ára krakki skuli vita það er merkilegt. Sonardóttir mín sem stundum kemur í heimsókn til mín í Kópavoginn brosir oft svo undirfurðulega að hún hlýtur að vita það á sinn hátt. Það einkennilega við þennan brandara er að maður kemst ekki útúr honum. Sumir átta sig aldrei á þessu eðli lífsins en stritast við það alla sína ævi að vernda sínar Tortólaeignir og öfundast út í aðra sem hugsanlega eiga meira af slíku. Ennfremur tíma þeir oftast ekki að eyða því sem þeir afla og eiga. Reyna jafnvel að framlengja brandarann með því að safna steinsteypu eða einhverju öðru. Allar framfarir í veröldinni byggjast samt á því að fólk taki lífið ekki mjög alvarlega og hugsi meira um aðra en sjálft sig.
Ja, nú er það svart maður allt orðið hvítt. Fullyrt hefur samt verið að snjórinn verði ekki lengi. A.m.k. hér á Stór-Kópavogssvæðinu. Vonandi verða engin merki um hann um næstu helgi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2013 | 15:35
2052 - Hommastríð
Mér er sama hvað öðrum finnst, mér finnst það lélegt hjá dr. Gunna að láta peninga sem alls ekki eru í hendi hafa þau áhrif á sig að sparka í Gylfa Ægisson á þann hátt sem hann gerir með því að fá annan til að syngja lag sem hann ætlaði að láta Gylfa syngja og var búinn að láta taka upp. Ég er samt alls ekki sammála Gylfa um nærri allt sem hann hefur látið frá sér fara um Gleðigönguna svokölluðu. Ég hef aldrei farið í hana og veit ekkert hvernig hún er. Málfrelsi trompar samt allt finnst mér. Þöggun er þetta a.m.k.
Einnig er það nokkuð gott hjá Vantrú og snertir málfrelsi líka, að gefa út Spegilseintakið sem bannað var vegna guðlasts og setja á vefinn hjá sér. Las það eintak á sínum tíma og var sammála flestu sem þar var að finna.
Já, ég er fremur duglegur að blogga. Að fésbókast og láta ljós mitt skína þar er ég ekki nærri eins duglegur við. Þó ég sé farinn að gamlast nokkuð á það ágætlega við mig að setja hugrenningar mína á blað og breyta því svo í blogg. Persónuleg eru þau yfirleitt ekki. Ég hef samt gaman af því að sýnast miklu gáfaðri en ég er. Og ég lýg því ekki að grunnurinn að blogginu mínu er löng æfing í því að tala við sjálfan mig. Hvort aðrir hafa heyrt það veit ég ekkert um. Þar að auki er ég sæmilega góður í stafsetningu og þá er ekki að sökum að spyrja. Þessir hæfileikar (ef hæfileika skyldi kalla) henta ágætlega í bloggvesen. Þessvegna er ég að þessu. Svo er ekki mikið annað sem ég get orðið gert.
Lækin á fésbókinni hjá mér fara eftir ýmsu. Það fer t.d. eftir því hver hefur sent síðurnar upp eða til mín. Einnig eftir efni þeirra. Hvernig skapi ég er í við lesturinn og sömuleiðis og ekki síst eru það algjörar tilviljanir sem því ráða. Yfirleitt er ég fremur spar á lækin. Greinilega eru menn samt missparir á þau. Í heild held ég að lækin skipti engu sérstöku máli. Heldur ekki upplýsingarnar sem stundum má sjá (held að það sé aðallega í hópum) um hve margir hafi séð viðkomandi síðu. Það getur sem best verið vegna algjörrar tilviljunar sem menn lenda á síðunni. Líka hvort þeir lesa það sem þar stendur.
En skipta þá heimsókirnar á bloggið einhverju máli? Eiginlega ekki. Það er vel hægt að hafa áhrif á þær með ýmsum ráðum . Það eru eiginlega bara þau blogg sem þú heimsækir reglulega þar sem heimsóknir þínar skipta einhverju máli. Svo geta ástæðurnar fyrir því að þú heimsækir bloggið oft verið af ýmsu tagi. Þú getur verið ákaflega sammála því sem þar er sagt eða ósammála. Kannski er það bara svona vel skrifað. Ástæðurnar geta semsagt verið fjölmargar.
Kannski skiptir bara máli hvað þú skrifar. Mér leiðast málalengingar, en kannski er ég meistari í slíku sjálfur. Stundum finnst mér það sem ég skrifa vera einskis virði, en stundum vera afskaplega vel sagt. Fyrirfram get ég ómögulega fundið út hvort er líklegra.
Nú er ég aftur að fá áhuga á skáldsögum. Sú sem ég er að lesa þessa dagana heitir: The pillars of the earth og er eftir Ken Follett. Þetta er gömul metsölubók að ég held og gerist að mestu á Englandi á 12. öld. Auk þess að láta ýmislegt gerast í þessari bók er höfundurinn m.a. að fræða lesendur um þennan tíma og þetta svæði. Aðallega fjallar bókin um dómkirkjusmíði og þ.h. Sennilega finnst mér þetta efni svona áhugavert vegna þess að ég las á unga aldri myndskreytta bók um Ívar hlújárn eftir Walter Scott sem gerist á svipuðum stað og tíma. Þessa bók (Pillars of the earth) fann ég í kyndlinum mínum og hef enga hugmynd um hvernig hún komst þangað.
Inngang að bloggi sem er á slóðinni forréttindafeminismi.com las ég áðan og er sammála sumu sem þar er sagt. Ákaflega andsnúinn ýmsu öðru sem þar stendur. Feminisminn er mér ekkert sérstakt áhugamál og varðandi þau mál er ég oft mjög sammála Evu Hauksdóttur. Setti þessa slóð samt í bookmark hjá mér og e.t.v. les ég meira eftir Sigurð þennan seinna meir. Mér finnst hann samt full-langdreginn. Sá um daginn þáttinn um barnsránsmálið sem ástralska sjónvarpið gerði og vissulega var hann áhrifamikill og vel gerður en sem innlegg í kynjaumræðuna held ég að hann sé ekki mikils virði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2013 | 08:32
2051 - USA
Undarlegt. Þegar ég er staddur í úttlandinu hef ég sífelldar áhyggjur af því að skorkvikindi allskonar, einkum kakkalakkar, komi að næturlagi og ráðist á mig. Hér á Íslandi þar sem skordýraplágan er ekkert minni (a.m.k. á vorin og sumrin) hef ég aldrei neinar áhyggjur af þessu. Þar að auki eru öll skorkvikindi sem eru með íslenskan ríkisborgararétt miklu vinalegri og hættuminni. Ég er meira að segja á gamalsaldri farinn að líta á geitunga sem hverjar aðrar flugur. Ísbirnir hafa aldrei komist neitt í námunda við mig (nema í dýragörðum) M.a.s. í Fljótavík þar sem lifa sögur af slíkum dýrum gleymdi ég þeim algjörlega.
Stjórnvöld í Bandríkjunum, en einkum þó lögregla og stjórnendur hennar, vilja láta álíta sig stórhættulega. Það er samt óþarfi hjá SDG að apa það eftir þeim. Það getur vel verið að hann sé öfgamaður, en hættulegur er hann ekki. Þjóðrembingurinn er samt svipaður. USA hefur á margan hátt efni á honum, en Ísland ekki.
Á engan hátt er hægt að líta á Bandaríkin sem þjóðríki. Eiginlega ekki sem ríki eða land í neinum skilningi. Miklu fremur er það heil (eða hálf) heimsálfa. Sá kynflokkalegi hrærigrautur sem þar þríftst (og auðvitað að nokkru leyti í Canada einnig) inniheldur bæði það besta og versta sem mannkynið hefur uppá að bjóða. Almenn lífskjör eru þar með fádæmum góð. Samt er misskipting mun meiri en víðast annars staðar.
Bjarni frændi minn Harðarson sagði einhverntíma í Silfrinu hjá Agli að í raun væru allir Íslendingar framsóknarmenn eða kratar. Svipaða hugsun fannst mér ég greina hjá Þorvaldi Gylfasyni þegar hann talaði um opingáttarmenn og einangrunarsinna. Auðvitað er lítið að marka svona alhæfingar, en ég er samt þeirrar skoðunar að það afl sem sundurgreinir Íslendinga stjórnmálalega sé fyrst og fremst afstaðan til umheimsins og síðan afstaðan til Bandaríska eða Ameríska módelsins annarsvegar og þess sem ríkir á Norðurlöndunum eða Evrópu hinsvegar. Önnur lönd skipta okkur mun minna máli.
Stuttaraleg blogg eru best. Þá þurfa menn ekki að eyða löngum tíma í að lesa þau. Með þau sannindi í huga er ég að hugsa um að senda þetta út í eterinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2013 | 09:44
2050 - Tölvur o.þ.h.
Stórtíðinda má vænta af pólitíska sviðinu. Þó ekki alveg strax (sem er víst búið að endurskilgreina). Óánægjan með fjárlagafrumvarpið virðist jafnvel almennari en venjulega. Mikilla tíðinda er þó varla að vænta fyrir Jól úr þessu.
Menn hafa rætt talsvert um það á fésbókinni hvort réttara sé að segja norður eða vestur á Patreksfjörð. Um þetta má margt segja, en málvenjan ræður, finnst mér og íbúar á staðnum, sem sjaldnast eru í vafa. Eins er það með forsetningar á undan staðarnöfnum. Sú hugmynd að þetta (áttatilvísanir eftir staðsetningu) sé hugsað útfrá landsfjórðungunum fornu er afar líkleg. Erfiðara er að finna reglu varðandi forsetningarnar. Og hvaðan er dregið landsuður og útnorður? Hef heyrt að þá sé miðað við Noreg. (Það sé semsagt landið í þessu tilfelli) Þaðan komu flestir landnámsmennirnir að því að sagt er, svo það er sennilegt. Þá er landsuður = suðaustur, útsuður =suðvestur, landnorður = norðaustur og útnorður = norðvestur. Bara hugmynd.
Ergelsi og pirringur útaf því að aðrir hugsi ekki eins og maður sjálfur hvað tölvur varðar er oftast óþarfur. Sem betur fer er það svo að svipaðri eða alveg eins endastöð er hægt að ná á mismundandi hátt hvað það snertir einsog flest annað. Oftast er hægt að fara fleiri en eina leið að sama marki og þó þær séu kannski misfljótlegar er óþarfi að fordæma þá sem fara lengstu leiðina. Hún er stundum einfaldari og hentar betur þeim hugsunarhætti sem notandinn er vanur. Þetta á ekkert síður við um aðra tækni en tölvur og getur oft skýrt augljósan mun kynslóða.
Helga Arnardóttir á Stöð 2 og María Sigrún Hilmarsdóttir á RUV eru bestu fréttalesararnir um þessar mundir. Mér finnst Logi Bergmann Eiðsson ofmetinn sem slíkur og Edda Andrésdóttir vera búinn að vera of lengi í djobbinu. María Sigrún hefur heilmikla útgeislun og lyftir þeim fréttum verulega sem hún les. Annars er þetta ekki eitthvað sem vert er að fjalla mikið um. Íslenskir fjölmiðlar eru vandræðabörn. Samanburður við útlönd verður þeim alltaf óhagstæður, sama hvað Sigmundur Davíð segir.
Svo þeir sem ég hef svikið að undanförnu og bíða með öndina í hálsinum eftir því að ég bloggi (sem eru víst fáir) þá er ég að hugsa um að senda þetta sem fyrst á Moggabloggið, enda er ég leikinn í því. Kommur og þessháttar mega þeir setja þar sem þeir vilja, sem það vilja. Ekki kann ég það.
Allt í ólestri. Samt verður þetta að húsi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2013 | 11:05
2049 - Evrópa
Var aðeins byrjaður á bloggi þegar ég fór í frí um daginn. Tuttugasta og fyrsta september minnir mig að það hafi verið. Nenni ekki að fjargviðrast um pólitík. Það sem ég var búinn að skrifa áður en ég fór læt ég samt flakka.
Jónas Kristjánsson talar um hópefli ráðherra. Man að mér blöskraði mjög á dögum Hafskipsmálsins þegar ég las frásögn af því að þeir byrjuðu alla stjórnarfundi á því að syngja: Áfram kristsmenn, krossmenn. Lét mér samt vel líka að bræðralagssöngurinn var sunginn í lok allra skátafunda sem ég sótti á sínum tíma. Já, það breytist margt.
Undirskriftasafnanir eru í tísku. Á von á þónokkrum fjölda í vetur. Nú ætla ég að reyna að rifja upp hverju ég hef verið á móti um ævina. Ég var á móti því að hægri umferð kæmist á og brú yfir Óseyrarnes yrði byggð. Hún var samt byggð Ég var meðmæltur þvi að ÓRG skrifaði ekki undir fjölmiðlafrumvarpið. (Aðallega vegna þess að á þeim tíma vann ég á Stöð 2) Ég samþykkti báðar Icesave tillögurnar sem bornar voru undir þjóðina og skrifaði undir áskorun á ÓRG sem hann tók ekki mark á. Ég vil að Ísland gangi í ESB. Ég vil flugvöllinn burt. Ég býst við að ég vildi ganga úr NATO ef ég væri spurður. Líklega hefði ég líka verið á móti bjórnum ef um hann hefði verið kosið. Á þessu sést að lítið er að marka mig. Undanfarin ár hafa afar fá rök komið fram sem hagga þessum skoðunum mínum. Einkum á það við um flugvallarmálið.
Þegar hér var komið sögu fór ég í ferð með fyrirtækinu Bændaferðum til Austurríkis, Þýskalands og Norður-Ítalíu. Nú er kominn október og nýr veruleiki blasir við mörgum. Hef ekki skoðað stjórnmálaástandið á landinu ítarlega og ætla alls ekki að kommenta neitt á það. Lét Internetið, fésbókina, heimsmálin og Ísland að mestu leyti í friði í ferðinni og sé ekkert eftir því. En bloggið mitt heldur áfram þar sem frá var horfið. Ég mun halda áfram að hugleiða alla skapaða hluti sem mér detta í hug og vel getur verið að ég fjölyrði eitthvað um ferðalagið, en það er þó ekki víst.
Hugsanlega hafa einhverjir saknað þess að geta ekki lesið þetta blogg mitt meðan ég var í burtu og þessvegna er ég að hugsa um að vinda að því bráðan bug að setja þetta á Moggabloggið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)