Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

1818 - Lagatækni

Þingmenn á Alþingi Íslendinga nota ræðustól þess og beinar sjónvarpsútsendingar þaðan í vaxandi mæli til allskonar auglýsingastarfsemi. Sennilega gæta þeir þess þó að fá ekki greitt fyrir þá auglýsingastarfsemi nema með óbeinum hætti. Með þessu er eyðilagt mikið af þeim tíma sem annars gæti farið í uppbyggilega starfsemi. Með samanlagðri auglýsingastarfsemi og málþófi er þingið gert næstum óstarfhæft og til þess má eflaust rekja minnkandi veg þess. Sjálfsagt má síðan rekja málþófið til gallaðra þingskapa, en eitt af því fáa sem stjórn og stjórnarandstaða geta komið sér saman um, er að ekki megi hrófla við þeim.

Það sem væntanlegir þingmenn þurfa einkum að hafa á valdi sínu er að geta talað um sama hlutinn lengi án þess að segja nokkuð. Þetta er sérstök gáfa sem ekki er öllum gefin. Auðvitað eru allskonar undantekningar frá þessu, en hversu almennar eða viðurkenndar þær eru fer alfarið eftir stjórnmálaskoðunum.

Anna Mjöll Ólafsdóttir virðist hafa gifst sterkríka bílasalanum frá Texas til fjár. Þó er ekki hægt að álasa henni fyrir það. Hafi hún ekki haft peninga af honum með saknæmum hætti hefur hann væntanlega tekið þá ákvörðun að giftast henni vitandi vits um að hún mundi enda með því að hafa af honum peninga.

Las mestalla pressugreinina um grein Jóns Steinars sem hann skrifaði til varnar Baldri Guðlaugssyni og athugasemdirnar við hana sem þá voru komnar. http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/11/30/jon-steinar/  Verð að segja að mér fannst pressugreinin óttaleg langloka. Efast þó ekki um að grein Jóns Steinars sé mun verri. Finnst ég skilja betur eftir þennan lestur hvað átt er við með orðinu „lagatækni“.

Við lestur pressu- eða eyjugreinarinnar er erfitt að verjast þeirri hugsun að Jón Steinar hafi verið fyrirfram sannfærður um sakleysi Baldurs og hafi bara verið að leita að lagarökum fyrir þeirri skoðun.

Í lagatækni lipur er
og lævís Jón að morgni.
Með báðum augum Baldur sér
og Baug í hverju horni.

Flestallt á Internetinu úreldist með tímanum. Þannig fór t.d. með tölvupóstinn. Það nægði ekki að ég væri sennilega sá Íslendingur sem lengst hélt í Elm forritið þar, sem fyrirbæri er tölvupósturinn búinn að vera. Fésbókin er á sömu leið. Sjálfur staðnæmdist ég á blogginu. Nánar tiltekið Moggablogginu. Kannski er það líka búið að vera. Breytingarnar eru sífellt að herða á sér. Eða getur verið að ég sé að eldast?

Stór hluti athugasemda á fésbókinni er t.d. óskiljanlegur. Líklega eru það athugasemdir við greinar eða eitthvað þessháttar. Svo er margt lokað sem maður fær þó tilkynningar um. Samt held ég áfram að heimsækja þessi ósköp og það jafnvel oft á dag. Það er reyndar ekkert skrítið því margt er þar mjög vel heppnað. Ég er sérstaklega ánægður með hve fésbókar-rekendum tekst vel að halda póstinum þar hreinum.

IMG 2093Hvar setti ég nú aftur gleraugun mín?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband