Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

1469 - ESB

Íslendingum verður allt að tuði. Bloggið er tuð. Fésbókin skrunar og njósnar. Fjölmiðlarnir eru fáfengilegir. Vefmiðlarnir vitlausir. Hvað er þá eftir? Eiginlega ekkert nema blessað tuðið. Forsetinn tuðar um icesave. Geir tuðar um einhverja vonda kalla sem hafa dregið sig einan fyrir dóm og svo er endalaust tuðað um hrunið. Ég nenni þessu bara ekki.

Opnuð hefur verið síða (skynsemi.is) fyrir þá sem vilja skora á alþingi að hætta við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu.

Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Gunnar Bragi Sveinsson hafa lagt fram á alþingi þingsályktunartillögu um að hætta viðræðunum við Evrópusambandið. Allöng greinargerð fylgir þessari tillögu og niðurlag hennar er svona:

Niðurlag.
Mikilvægt er að nýta krafta stjórnsýslunnar og fjármagn ríkisins til þeirra brýnu verkefna sem fyrir liggja í kjölfar bankahrunsins. Það er slæmt fyrir orðspor Íslands á alþjóðavettvangi að halda áfram aðildarferlinu þegar bersýnilegt er að hugur fylgir ekki máli.
Íslandi og Evrópusambandinu er lítill greiði gerður með því að íslensk stjórnvöld efni til aðildarviðræðna á þeim hæpnu forsendum sem hér hafa verið raktar. Fyrirsjáanlegt er að aðildarsamningur verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu og sú niðurstaða mun ekki auka velvilja í garð Íslendinga hjá aðildarþjóðum Evrópusambandsins.
Af öllu framangreindu er ljóst að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er ótímabær og því hníga öll rök að því að draga hana til baka.

Er velvilji aðildarþjóða Evrópusambandsins í garð Íslendinga eitt af aðalatriðum þessa máls? Það mætti ætla að flutningsmenn tillögunnar teldu svo vera. Satt að segja held ég að þeim fulltrúum Evrópusambandsins, sem á annað borð velta þessum málum fyrir sér, muni finnast það afskaplega fíflalegt að hætta viðræðum núna án þess að gefa þjóðinni tækifæri til að segja hug sinn til endanlegra samninga. Skoðanakannanir koma ekki í staðinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur.

Eiginlega er ekkert meira um þessa tillögu að segja. Ég er eindregið fylgjandi því að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá fyrst er líklegt að deilum um þetta mál ljúki.

Aðstoðarmaður vaktmannsins á Siglufirði.

IMG 6471

1468 - Jóhannes Birkiland og fleiri

Með því að minnast stundum á aðra bloggara tryggi ég mér vissan gestafjölda. Sumir bregðast illa við, en aðrir láta sér fátt um finnast. Sumir eru orðnir svo vanir að ég sé að einhverju smápoti að þeir kippa sér ekkert upp við það.

Sæmundarháttur í bloggi er hugtak sem ég tek til mín. Sumir leggja það út sem sérlega sjálfhælin blogg, en ég skil það ekki þannig. Mér finnst það frekar þýða að maður sé sífellt að blogga um blogg. Það geri ég einmitt. Kannski er ég svolítið hálffrosinn við það eins og Villi í Köben segir en það er í lagi, það er minn háttur. Ég er bara svona. Sumir virðast vilja lesa þannig blogg.

Áður áminnstum Villa er mjög í nöp við kínverjann á Fjöllum (sennilega af því að hann er ekki síonisti) og spinnur á sínu bloggi upp einhverja sögu um heittrúaðan ísraelskan Gyðing  sem eigi skítnóga peninga og sé á leiðinni til Íslands til að bjóða í (Stein)Grímsstaðina á móti kínverjanum.

Þegar ég fer til útlanda drekk ég oft meira af áfengi en ég ætti að gera. Sjaldan til skaða þó. Verður samt stundum hugsað til þess hve auðvelt væri að verða róni þar sem áfengi er hræbillegt. Sennilega væri ég áfengissjúklingur (á Vogi alltaf öðru hvoru) ef brennivínið væri ekki svona dýrt. Segið svo að opinber stefna í áfengismálum sé ekki skynsamleg!!

Þó ég hafi kosið Ólaf Ragnar til forseta á sínum tíma, einmitt vegna þess að hann var líklegri en aðrir frambjóðendur til að virkja embættið til góðra mála, finnst mér hann vera orðinn pólitískari nú en góðu hófi gegnir. Það er auðvitað í góðu lagi að forseti hafi skoðanir á ýmsum málum. Jafnvel líka að hann láti þær í ljós. En það er ekki sama hvernig það er gert.

Mér finnst hann reyna of mikið að upphefja sjálfan sig og mun varla kjósa hann aftur þó hann bjóði sig fram enn einu sinni á næsta ári eins og mér sýnist hann vera að undirbúa. Held jafnvel að hann muni fá mótframboð að þessu sinni. Hlutur hans í niðurlægingu Íslands er stór.

Var að skoða gamlar fésbókar veggmyndir hjá Andra Snæ Magnasyni. Veit ekki af hverju ég tók uppá því. Sumar þeirra (jafnvel allmargar) hafa farið framhjá mér á sínum tíma. Líklega vegna þess að fésbókin brunar svo hratt framhjá manni nema maður liggi yfir henni. Það er kannski ekkert slæm aðferð að setja það sem maður vill segja í veggmyndir á fésbók. Mér finnst a.m.k. líklegra að gamlar myndir séu skoðaðar þar en annað.

Eftirminnilegust af þeim myndum sem ég hafði misst af var skrípamynd eftir Halldór Baldursson af Árna Sigfússyni þar sem hann var búinn að skera af sér Reykjanestána til að komast í Helguvíkurskóinn. Sú mynd var u.þ.b. ársgömul og Andri Snær var þar í hlutverki Öskubusku.

Ein af þeim bókum sem ég fékk á bókasafninu síðast þegar ég fór þangað heitir „Mánasilfur II“ og er safn endurminninga sem valdar eru af Gils Guðmundssyni og er bókin gefin út af Iðunni árið 1980. Þetta er hin merkilegasta bók og ég er þegar búinn að lesa flesta kaflana (held að þeir séu 29 talsins) Suma þeirra hafði ég reyndar lesið áður eins og frásagnir þeirra Gunnars Benediktssonar og Guðmundar G. Hagalín.

Á margan hátt er merkilegasta frásögnin eftir Jóhannes Birkiland. Sú frásögn er úr bókinni frægu „Harmsaga ævi minnar“ og þar lýsir hann uppvexti sínum og fer ófögrum orðum um foreldra sína og kennir þeim um allan sinn aumingjaskap. Einkum þó föður sínum sem Jóhannes telur að hafi verið sér alltof eftirlátur.

Lýsingar Jóhannesar á daglegum þrifnaði og matargerð eru líka magnaðar. Ein málsgreinin  er svona:

„Allir voru lúsugir á heimilinu og lýs voru í hverju rúmi. Flær létu sig heldur ekki vanta. Síðla kvölds, er allir heimamenn voru gengnir til rekkju, bar það við að hver, sem betur gat, tók að leita sér lúsa og strádrepa lýsnar, „þegar veiðin gekk vel“. Var þetta sjálfsagt gert til þess að grynna á lúsamergðinni, en einnig virtist þetta vera einskonar „dægrastytting“ í fásinni sveitalífsins. Þetta átti sér einkum stað að vetrarlagi. Menn létu hverja lús á milli nagla sér á þumalfingri beggja handa, fylgdi því smellur, er lúsin lét þannig líf sitt. Heyrðust oft margir slíkir smellir samtímis. Lýsnar voru álitnar sjálfsagður og óhjákvæmilegur hlutur. Því var trúað að þær kviknuðu á líkömum manna, og þess vegan heyrði ég fólk oft vera að tala um það að lýs kviknuðu örar á gömlum manneskum en ungum, enda væri það svo að rosknir menn og konur létu lúsunum betri lísfsskilyrði í té en menn og konur í blóma lífsins. Varð mörgum tíðrætt um að örðugt væri að hindra það að háaldrað og ellihrumt fólk yrði bókstaflega uppétið af lúsunum.“

IMG 6460Raffó.


1467 - Landsala og stjórnarskrá

Já, mér finnst sífellt minna eftirsóknarvert að vera síbloggandi. Það er langbest að blogga bara þegar andinn (öndin??) kemur yfir mann. Eiginlega leiðist mér líka að blogga um fréttir og stjórnmál. Það eru áreiðanlega margir aðrir færari til þess en ég. Samt á ég oft erfitt með að stilla mig.

Skrítið þetta Nupo-mál sem allt er að verða vitlaust útaf. Segjum að við Íslendingar eignumst einhvertíma peninga. Annað eins gæti nú skeð. Megum við þá kaupa jarðir í Kína eins og okkur lystir? Ég held að við megum það í ESB í krafti aðildar okkar að EES. Ekki eins viss um Kína. Mér dettur helst í hug að ISG sé að plotta endurkomu sína i íslensk stjórnmál.

Einu sinni var Ólafur Ragnar á móti því að selja útlendingum jarðir á Íslandi. Nú vill hann selja sem mest og sem fyrst og veit varla hvað útlendingar eru, en Lilja Mósesdóttir vill það ekki. Skrítið. Það er ekki víst að ströng löggjöf verndi best auðlindir landsins. Mestu ræður auðvitað hvernig dómstólarnir túlka lögin. Annars tekur bara byltingin og stjórnleysið við og fjárfestar vilja ekki einu sinni snerta okkur með löngum töngum.

Annars ráða stórveldin því sem þau vilja ráða í heiminum. Ef illa gengur að ráða við fyrirbrigði eins og WikiLeaks má bara dreifa um þau óhróðri. Kínverjar eru stórveldi eða a.m.k. á leiðinni þangað.

Ekki er líklegt að minnst verði á stjórnarskrárdrögin á því framhaldsþingi sem nú stendur yfir. Nýtt þing mun taka til starfa í byrjun október og þá kemur í ljós hvernig fjórflokkurinn ætlar að haga baráttu sinni gegn drögunum. Það er alls ekki víst að þingmenn þori að krukka mikið í þau. Einhverju munu þeir samt vilja breyta og engan vegin er útséð um hvort eða hvernig almenningur verður spurður um afstöðu sína til nýrrar stjórnarskrár. Hugsanlega verða skoðanakannanir látnar duga og málið síðan svæft. Mál virðast vera að þróast á þann veg að stuðningur við stjórnarskrárdrögin sé túlkaður sem andstaða við stjórnmálamenn alla. Það er að því leyti rétt að þeir sem á Alþingi sitja eru alls ekki hæfir til að fjalla um stjórnarskrána. Punktur og basta.

Ég á erfitt með að stilla mig um að skrifa um ESB. Mönnum hættir til að líkja saman (í huganum ef ekki vill betur) stuðningi við ESB og þeim stuðningi sem vinstri menn (margir hverjir) sýndu Rússlandi og Sóvétríkjunum fram í rauðan dauðann á sínum tíma. Þarna er mjög ólíku saman að jafna þó vissulega sé hægt að tengja ESB við vinstri stefnu á mörgum sviðum. Ekki er síður hægt að tengja hægri stefnur af ýmsu tagi við Bandaríki Norður Ameríku. Sú barátta sem áður fyrr tengdist einkum mismunandi heimspekistefnum er úrelt orðin í dag.

Af hverju skyldi ég alltaf vera að rembast við að þykjast voða gáfaður? Ég er það ekki. Hef samt komist í gegnum lífið með besservisseraháttinn einkum að vopni. Nú er Gúgli búinn að eyðileggja hann fyrir mér. Þá er að þykjast geta skrifað betur en aðrir. Það er ekki erfitt, því fæstir mega vera að því að skrifa neitt að ráði. Fólk hugsar samt sitt. Vinsælt er í stjórnmálum að gera ráð fyrir að pólitískir andstæðingar hugsi afar lítið og ómarkvisst. Svo er bara alls ekki. Best er að gera alltaf ráð fyrir að aðrir séu a.m.k. jafngáfaðir manni sjálfum. Auðvitað verður maður stundum fyrir vonbrigðum. Til er heimskt fólk. En það eru sem betur fer afar fáir sem svo illa er komið fyrir.

Það er ósköp venjulegt að ríkisstjórnir njóti ekki mikils fylgis úti í þjóðfélaginu. Það er líka nokkuð algengt að meirihluti á Alþingi sé tæpur. Mér finnst meira áberandi núna en oft áður að þeir sem um stjórnmál fjalla séu á móti öllu nema sjálfum sér. Í skoðanakönnunum kemur fram að ríkisstjórnin njóti lítils fylgis og stjórnarandstaðan líka. Það finnst mér merkilegt og e.t.v. vera ávísun á breytta tíma.

IMG 6458Frá Siglufirði.


1466 - Blogg og bókmenntir

Mér sýnist að með þessu lagi sem ég hef tekið upp vinnist einkum það að bloggin lengjast að mun. (Ég á við þann sið að blogga bara stundum og á öllum mögulegum tímum.) Það gerir kannski lítið til því mér finnst að mörgu leyti þægilegra að hafa þetta svona. Kannski tekst mér smám saman að ná betri tökum á þessu. Sjáum til.

Páll Ásgeir Ásgeirsson er einn af þeim bloggurum sem ég hef nokkurt dálæti á. Hann bloggar gjarnan öðru hvoru og jafnvel allmikið, en hættir svo. Skiptir nokkuð oft um bloggsetur og ekki er auðvelt að finna út hvar hann bloggar hverju sinni eða hvort hann stundar bloggun. Veit ekki hvar eða hvort hann bloggar núna. Einu sinni var hann í vist hjá bróður sínum Gísla Ásgeirssyni þýðanda og hlaupara, svo var hann hjá Eyjunni, einhverntíma hjá Vísi o.s.frv. Aldrei þó hjá Moggablogginu, að ég held. Ef ég tek tryggð við einhvern ákveðinn bloggara vil ég geta fylgst með honum. Það skiptir mig ekki meginmáli hvar hann bloggar þó það hve auðvelt og þægilegt er að nálgast skrif hans geti haft áhrif á hvort ég les blogg hans reglulega eða ekki.

Badabing aka Þórarinn Þórarinsson (sem ég skrifaði víst eitthvað um fyrir nokkru) er arfavitlaus núna útaf vændismálum. Segist hafa sagt þetta allt áður. (Í bókinni sem hann gaf út með Símoni Birgissyni í fyrra.) Hef ekki lesið bókina og ekki fylgst mikið með vændisumræðunni undanfarið, en Badabing heldur áfram með sitt hvítt á svörtu (í staðinn fyrir svart á hvítu – sem venjulegast er – og betra.) Líklega lesa hann nokkuð margir þó hafa verði talsvert fyrir því. Þessi heimasíða hans fer eftir sem áður dálítið í taugarnar á mér og sömuleiðis sá siður hans að snúa ómerkilegustu hlutum á haus í sambandi við útlitið á blogg sínu.

Þetta er svosem ekkert bókmenntblogg hjá mér þó mér sé minnisstætt að þegar við hjónin vorum á Tenerife í vetur sem leið, máttum við róta í dálitlu bókasafni sem þar var og fá bækur lánaðar ókeypis að vild. Safn þetta held ég að hafi verið tilkomið á þann hátt að fólk sem dvalið hafði á hótelinu hafði skilið bækurnar eftir. Þarna var talsvert af bókum. Flestar voru þær á ensku eða þýsku, en svo voru líka bækur á ýmsum öðrum tungumálum og jafnvel sjaldgæfum málum eins og íslensku og finnsku. Finnsku bækurnar fengu alveg að vera í friði fyrir mér. Eina bók á íslensku las ég þarna spjaldanna á milli. Hún er eftir franskan höfund og heitir „Skíðaferðin.“ Verulega góð bók. Í auglýsingu frá JVP sem mér skilst að hafi gefið bókina út, er efni bókarinnar lýst þannig:

Nicolas er lítill strákur í skíðaferð með bekknum sínum lengst uppi á fjöllum, fjögur hundruð kílómetra frá heimili sínu. Strax frá upphafi er ljóst að ógn steðjar að. Við finnum það, við vitum það, alveg eins og hann hefur alltaf vitað það.

Í ferðinni breytist kvíðinn sem býr innra með honum í skelfilega martröð. Við vitum að óttinn er raunverulegur og að eitthvað er í þann veginn að gerast. Eitthvað sem enginn fær stöðvað.

En við hefðum helst kosið að líta fram hjá því hvaðan hættan kemur, hver ógnvaldurinn er.

 

Man að ég las líka bókina um Ross Dane eftir Aksel Sandemose þarna. Líklega hefur hún verið á dönsku eða norsku. Ágæt bók og Sandemose hefur greinilega verið góður rithöfundur. Sömuleiðis las ég talsvert eftir Carl Sagan og bókina um Önnu á Hesteyri o.fl..

Það er nú til lítils að telja upp bækur sem ég hef lesið og man eftir. Óspennandi lesning held að það hljóti að vera.

Læknadóp hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu. Þeir sem þjást af ADHD (ofvirkni og athyglisbresti) hafa liðið fyrir þá umræðu. Enginn vafi er í mínum huga að SÁÁ-samtökin og fréttastofa ríkissjónvarpsins hafa valdið talsverðum skaða meðal þeirra sem þurfa á meðölum við þessum sjúkdómi að halda. Gagn hefur líka eflaust verið unnið með þessari umræðu. Það er samt ekkert nýtt að læknar ávísi miklu af þeim lyfjum sem eiturlyfjafíklar misnota. Yfirvöld hafa lítið gert af því hingað til að sporna við því. Kannski breytist það samt.

SÁÁ-samtökin hafa margt gott gert fyrir áfengissjúklinga, og eflaust einnig marga sem misnota önnur vímuefni, en ég held að þau samtök eigi ekki að ráða öllu varðandi opinbera stefnu í þessum málum.

Eini fasti pistillinn sem ég les yfirleitt alltaf í Fréttatímanum er sá sem Jónas Haraldsson skrifar. Honum bregst sjaldan fyndnin og sjálfhæðnin.

Það er ótrúlegt hvað hægt er að móta börn. T.d. með því að hafa áhrif á matarvenjur þeirra. Slíkt gæti sem hægast mótað framtíðarheilbrigði þeirra. Líka er ótrúlegt hve margir af hæfileikum barna eru meðfæddir. Máltaka barna er hreinasta undur. Sá hæfileiki hlýtur að vera að hluta til meðfæddur. Hvernig geta þau lært að tala á svona stuttum tíma? Svo læra þau gjarnan að lesa fljótlega eftir það. Hvernig er það hægt?

Mikið hlýtur það að vera hrikaleg vitneskja að vita að maður eigi skammt eftir ólifað. Svo ógnvekjandi finnst mér slíkt vera að ég gæti jafnvel hugsað mér sjálfsmorð við slíkar aðstæður. Ekki er meiningin að hljóma sniðuglega í þessu efni en samt er þetta nú kannski dálítið fyndið.

Ef maður er í megrunarkúr eins og mér skilst að ég sé, er óbrigðulasta merkið um að hann sé að gera eitthvert gagn ef maður er sísvangur.

Mikið er hvað einn kínverji getur orðið frægur. Sá bloggari eða fésbókari er varla til sem ekki veit hver Huang Nubo er. Hann er fyrir löngu orðinn frægari en Hjörleifur greyið sem gaf honum peysuna. Eða eru það kannski peningarnir hans sem kalla svona óþyrmilega á frægðina?

IMG 6789Já, þetta er ertuygla. Mér finnst hún frekar falleg á litinn og ekkert sérstaklega ógeðsleg, en hún er víst óttalegt skaðræði fyrir tré og gróður. Svo er sagt að fuglarnir vilji hana ekki og þessvegna hljóti hún að vera vond á bragðið. Veit ekki hvernig fiðrildin eru, en held að þau séu ekkert sérstök. Kannski svolítið stærri en þau venjulegustu.

IMG 6452Frá Siglufirði.


1465 - Þórðargleði

Ég er orðinn svo vanur því að blogga daglega að ég á erfitt með að hætta því. Svo virðist vera sem tímasetningarnar breytist einungis, þó reyni ég allt hvað af tekur að blogga minna. En sjáum til, kannski tekst þetta.

Sigmundi Davíð gengur vel í frægasta megrunarkúr á landinu. Bráðum verður hann að engu. Kannski Höskuldur fái þá að vera formaður í flokki sem er í andarslitrunum.

Þegar ég sé blogg sumra þeirra sem eru fyrir neðan mig þegar mælt er í Moggabloggsvinsældum, þó þeir bloggi nokkuð reglulega, fyllist ég þakklæti til þeirra sem láta svo lítið að lesa þessar hugleiðingar mínar. Hingað til hefur mér fundist sjálfsagt að þeir gerðu það, en nú sé ég að svo er allsekki. Margir virðast puða við að skrifa og skrifa án þess að nema fáeinir lesi. Kannski er það einmitt vilji þeirra að fáir lesi skrifin. Samt held ég að það hljóti að blunda í flestum bloggurum að skrifa fyrir marga. Ég er a.m.k. þannig. Ef ætlunin er að skrifa fyrir fáa er fésbókin hentugri, held ég.

Gísli Ásgeirsson varar við of mikilli Þórðargleði á fésbókarsíðu sinni. Þetta gerir hann að gefnu tilefni. Á bloggi, fésbók og sumum fjölmiðlum bæði á neti, prenti og í loftinu ber mjög mikið á Þórðargleði, neikvæðni, og sjálfsvorkunn. Sömuleiðis kaldhæðni. Þetta er engin tilviljun. Þetta er greinilega það sem fólk vill sjá og heyra. Þeir fámiðlar og fjölmiðlar sem einbeita sér að málum með þessum hætti ná vinsældum. Sömuleiðis eru sorgarblogg vinsæl.

Allt eru þetta efni sem ég reyni eftir mætti að sneiða hjá, en tekst oft illa. Einkum finnst mér sjálfum að ég eigi í erfiðleikum með kaldhæðnina.

Eitt blogg hefur bæst við í flokk þeirra sem ég hef í hyggju að heimsækja reglulega. Þetta er bloggið um Druslubækur og doðranta og urlið er svona: http://bokvit.blogspot.com/  Þær stöllur kynna sig þannig:

Druslubækur og doðrantar

Þetta er bloggsíða þar sem konur með víðfeðman áhuga á bókmenntum skrifa um hugðarefni sitt. Hér er fjallað um gamlar sem nýjar bækur, bókmenntaumræðu og ýmislegt annað sem bókmenntunum tengist eftir því sem aðstæður og áhugi bjóða og andagiftin blæs littererum dömum í brjóst. Með öðrum orðum: Hér skrifum við um þær bækur sem okkur sýnist, eins og okkur sýnist og þegar okkur sýnist.

 

Ég get ekki séð að þær geti verið óánægðar með að skuli birta kynningu þeirra á þennan hátt.

Las grein á þessu bloggi um Kristmann Guðmundsson og kommentaði á hana. Hef sjálfur einhverntíma skrifað pínulítið um Kristmann, ef ég man rétt. Einn af minnisstæðustu karakterum æsku minnar í Hveragerði.

IMG 6449Ætli það sé nokkuð kviknað í húsunum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband