Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

1444 - Um tóta sjálfan o.fl.

107Gamla myndin.
Þetta er kvennalið í knattspyrnu frá Bifröst um 1960. Aftari röð frá vinstri: Ingibjörg Bjarnadóttir, Jóna Þorvarðardóttir, Rósa Gísladóttir, Fríður Guðmundsdóttir, Védís Elsa Kristjánsdóttir og Hildur Kristjánsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Lilja Ólafsdóttir, Margrét Sigvaldadóttir, Jakobína Ingadóttir, Jóhanna Karlsdóttir og Hugrún Einarsdóttir.

Það væri veikleikamerki hjá mér að fjölyrða að þessu sinni mikið um Badabing. Hann virðist vera hættur og þá er eðlilegast að ég hætti líka. Annars fannst mér hann með skrifum sínum staðfesta næstum allt sem ég sagði um hann í upphafi.

Veðrið virðist ætla að leika við útivistarfólk núna í byrjun ágúst. Veðurstofan spáir að vísu láti á hitanum en leyfilegt er að vona að þeim skjátlist.

Nú er tími ættarmótanna. Þau hafa þann ókost að með tímanum verða þau svo stór að enginn hefur yfirsýn yfir ósköpin. Þá verður fangaráðið oft að minnka þau og þá myndast afgangskynslóðir sem hlaupið er yfir. Annars er mín tilfinning sú að allir eigi þess kost að sækja eitt eða tvö ættarmót eða fermingarveislur á hverju ári. Þegar aldurinn færist yfir getur það skipt miklu. Og krakkarnir láta sig hafa það, einkum af því svo margir mæta.

Allt virðist vera að fara fjandans til í Bretaveldi. Krakkar og unglingar æða um, brjóta rúður, ræna verslanir og kveikja í húsum. Svo eru hlutabréf að falla í verði einu sinni enn og gengisskráning öll á hraðferð. Bensín lækkar, en gull hækkar o.s.frv.. Fræðingar allskonar reyna að fullvissa okkur um að allt sé þetta mjög eðlilegt.

Æsast nú leikar í Kögunarmálinu. Einar Kárason er farinn að skrifa Teiti til stuðnings á fésbókina sína. Kannski fleiri fylgi hans fordæmi. Það er ómögulegur andskoti að láta peningana rétt einu sinni ráða dómsmálum. Stöðvum þá ósvinnu.

Sagt er að Páll Óskar bróðir Sigrúnar hafi sagt eitthvað á þessa leið:

„Mér finnst gay-pride-hátíðin vera löngu komin út fyrir það að vera bara einhver hátíð vegna mannréttindabaráttu samkynhneigðra. Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarksmannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu - inni á netinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa.

Það er engu líkara en sá eini sem fær að vera í friði í þessum heimi sé hvítur straight karlmaður í jakkafötum, hægrisinnaður og á peninga. Og stundum er þessi karlmaður með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni. Allt annað má kalla einhverjum nöfnum. Allt annað er hægt að uppnefna: „Helvítis femínisti, helvítis kellingar, helvítis hommar, helvítis þið, bla, bla!“ Þannig að út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú. Við eigum öll að sitja við sama borð. Og til þess er þessi dagur. Við verðum að gera þetta einu sinni á ári. Við megum ekki sofna á verðinum.“

Útaf þessu er mikið rifist. Rifrildið stafar einkum af því að með þessu setur hann pólitískan svip á mannréttindabaráttuna alla. Deila má um skynsemina í því, en að einu leyti hefur Páll Óskar rétt fyrir sér. Það er ekki tekið eftir neinu nema þekktur einstaklingur segi það og ýkji svolítið. Margir eru þeir sem vilja láta mannréttindabaráttuna sjá um sig sjálfa. Hún gerir það bara ekki. Það þarf einhvern til að sjá fataleysi kóngsins.

IMG 6286Við lystigarðinn á Akureyri.

1443 - Umsóknin veikir stjórnina

106Gamla myndin.
Hér er Ingibjörg Bjarnadóttir að syngja með skólahljómsveitinni að Bifröst. Guðvarður Kjartansson og Jón Illugason í bakgrunni.

Reiðilestur Þórarins Þórarinssonar um mig kemur mér ekkert á óvart. Vitleysan sem hann gerir er einkum sú að hann skuli svara því sem ég skrifaði um hann. Ég hef áður reynt að reita Stefán Pálsson (sem lengi vel þóttist vera besti bloggari landsins) til reiði en hann hefur gætt þess að svara því engu. Kannski jafnvel ekki séð mín skrif. Þann pól hefði badabing betur tekið í hæðina í staðinn fyrir að ætla sér að kaffæra mig með fúkyrðum.

Hann gætir þess ekki að hvert orð sem hann skrifar um mig hittir hann sjálfan til baka með þúsundföldu afli. Honum væri miklu nær að svara mér ekki. Gáfur hans duga samt ekki til að sjá svo einfaldan hlut. Þessvegna helgar hann mér heilt blogg.

Það hefur Kaupmannahafnar-Villi reyndar gert líka og mér finnst hann ekki hafa grætt á því. Með því að pota svona í viðurkennda bloggara hefur mér tekist að öðlast nokkra viðurkenningu. Svo mikla reyndar að stíllinn Sæmundarháttur í bloggi er viðurkennd staðreynd í huga flestra bloggara þó þeir skilji hana kannski á örlítið mismunandi vegu.

Það er engin vitleysa að ESB-umsóknin hefur með vissum hætti lamað ríkisstjórnina. Vinstri-grænir eru á móti aðild en vilja gjarnan vera í ríkisstjórn. Þetta er slæmt og veldur því að stjórnin á í erfiðleikum með að koma mörgum málum sínum fram. Kannski var erfitt að koma auga á annað stjórnarmynstur þegar þessi stjórn var mynduð.

Mér sýnist augljóst að vinstri-grænir ætli ekki að hleypa umsókninni í gegn áður en kjörtímabilinu lýkur. Það þýðir að næstu alþingiskosningar munu einkum snúast um ESB-aðild. Eftir því hefur lengi verið beðið. Evruland á í vissum vandræðum um þessar mundir og það kann að hafa áhrif á úrslit kosninganna hér á landi. Hvaða flokkar verða einkum fyrir barðinu á Evruvandræðunum er ekki gott að sjá. Nýjir flokkar kunna líka að líta dagsins ljós.

Enginn vafi er á því að aðildin að ESB er miklu meira afgerandi mál en ný stjórnarskrá. Nýja skráin er bara nokkurskonar skraut og skiptir litlu máli. Andstæðingar aðildar hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir þessu og berjast gegn aðild með öllum ráðum. Þeim hefur orðið nokkuð ágengt en á endanum hlýtur að fjara undan þeim. Þjóðremban sem þar ríður húsum getur á endanum orðið til trafala.

Viðureign þeirra Gunnlaugs Sigmundssonar og Teits Atlasonar um Kögunarmálið getur orðið mjög athyglisverð. Peningarnir eru Gunnlaugs megin og vel getur verið að þar endi sigurinn eins og venjulega. Þó er ekki því að neita að Teitur er ansi ákveðinn. Samskot honum til handa munu varla skila miklu. Það er ekki venjan. Þó mörgum virðist hans málstaður mun betri en Gunnlaugs er hætt við að fáir vilji láta peninga af hendi rakna til að styðja þann málstað. Ef lögfræðingur Teits getur ekki beðið með að fá greiðslu þar til úrslit liggja fyrir þá er ástæðulaust að leita til dómstólanna.

Eru það gömlu myndirnar sem ég er farinn að birta nokkuð reglulega sem tryggja mér þann aukna gestafjölda sem ég þykist hafa orðið var við að undanförnu? Ég veit það ekki, en það er alveg hugsanlegt. Líklegra er það en að skrif mín séu allt í einu farin að verða til muna áhugaverðari. Ég hef hvað eftir annað orðið var við að þegar manni tekst vel upp með þau koma fleiri gestir. Ég er löngu hættur að gera ráð fyrir að það sé einhver tilviljun.

Eiginlega veit ég fátt hvað snertir þessar myndir sem ég er sífellt að birta. Þær eru ekkert sérlega góðar en ég sleppi því yfirleitt aldrei að vera með þær. Kannski lesendur mínir reikni bara með því að fá (eða þurfa) að berja þær augum. Kannski ætti ég að hætta að vera með gömlu myndina fyrst. Uppskriftin ein gömul og ein nýleg á dag hugnast mér þó sæmilega. Ég er líka orðinn svo vanur að vera með nokkrar myndir í hvorum flokki tilbúnar að mig munar lítið um þetta.

IMG 6281Túlípanar.


1442 - Hundi kannski stolið

105Gamla myndin.
Þetta er Vignir bróðir minn að skjóta af Husquarna haglabyssunni sem við áttum í eina tíð með Herði Vigni Sigurðssyni.

Í mínu bloggi linka ég sjaldan (næstum aldrei) í Moggafréttir. Segja má samt að stundum væri ástæða til þess. Mér hefur alltaf fundist sú fúnksjón hjá Moggablogginu að geta linkað beint í fréttir mbl.is vera misnotuð herfilega. Ég hef líka svo undarlegan smekk á fréttir að linkar af því tagi gætu misskilist. Leið útúr þessum vanda er ég nú búinn að finna. Ég birti fréttina bara í mínu bloggi eins og hún leggur sig og fimbulfamba síðan um hana eins og mér sýnist. Kannski er ég samt að brjóta einhvern rétt með þessu, en það verður þá bara að hafa það og væntanlega kemur það þá í ljós. Hér er fyrsta fréttin af þessu tagi:

Stálu tveimur tölvum og kannski hundi

mbl.is / Hjörtur

Brotist var inn í íbúð í Norðurmýrinni í Reykjavík í nótt. Íbúarnir sakna tveggja fartölva, auk hunds af chihuahuakyni, sem er svartur að lit.

Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gæti reyndar allt eins verið að hundurinn hafi séð sér leik á borði og yfirgefið heimilið af fúsum og frjálsum vilja þegar þjófarnir fóru út.

Mér finnst fyrirsögnin afar frumleg. Kannski hefur hundurinn bara stolið frelsinu. Þá er hann semsagt orðinn þjófur líka. Eða þjófhundur. Hvað er það sem gefur okkur mönnunum leyfi til að ráðskast með allt annað líf en mannlegt. Ráðskumst reyndar með það mannlega líka, en eftir vissum reglum. Regluleysið og réttleysið hjá öllum öðrum lífsformum er nánast algert. Í þessu tilfelli er hundurinn eign. Margt má auðvitað segja um þetta. Mér finnst dýravernd samt skipta máli. Sú fyrirlitning sem oft er sýnd gæludýrum er ótrúleg. Það er samt ósæmilegt fyrir mig að kvarta því ég er maður og á að láta mér allt svona í léttu rúmi liggja.

Af því (meðal annars) að ég linka ekki í fréttir á sama hátt og flestir aðrir geri ég stundum athugasemdir við mitt eigið blogg að umtalsefni. Kannski eru athugasemdir fremur fáar þess vegna. Hvað veit ég? Er lífið kannski allt eitt risastórt KANNSKI? Kannski er þetta alveg rétt hjá mér. Kannski er ég nú endanlega orðinn elliær. Kannski er kannski merkilegasta orðið í íslensku. Einu sinn var það alltaf skrifað „kannske“ með flámælisívafi og þótti ekki vitund fínt – jafnvel sletta. Kannski er það ennþá skrifað kannske í orðabókum og þ.h. Kannski ég fari bara að hætta þessu.

Badabing (Þórarni Þórarinssyni) er dálítið uppsigað við það sem ég skrifaði um hann í gær og helgar mér heilt blogg.

Við athugun sýnist mér að lítil ástæða sé til að elta ólar við það sem hann skrifar. Hann hefur látið reiðina ná tökum á sér og velur allskyns fúkyrði til að lýsa mér þó hann þekki mig ekki neitt.

Hann kallar mig t.d. Moggabloggara. En það virðist vera eitthvert magnaðasta skammaryrðið sem hann kann. Annað skammaryrði sem honum er greinilega nokkuð tamt er Aðalsteinn Ingólfsson.

Ég er eiginlega alveg heimaskítsmát, því ég skil ekki svona lagað. Að vísu held ég að ég hafi einhverja hugmynd um hvað Moggabloggari er og Aðalstein Ingólfsson hef ég heyrt minnst á.

Að öðru leyti finnst mér Þórarinn verja mestu plássi í að réttlæta sjálfan sig og undarlegheit sín. Mér finnst samt gaman að honum og mun halda áfram að lesa bloggið hans jafnvel þó hann skrifi framvegis sem hingað til með hvítum bókstöfum á svartan grunn.

IMG 6260Gluggi.


1441 - Badabing.is

104Gamla myndin.
Bifrastarmynd. Myndin er sennilega tekin um borð í Akraborg. Líklega er það Pétur Esrason sem er lengst til vinstri, síðan Hróar Björnsson kennari og Ögmundur Einarsson. Áslaugu Gunnarsdóttur má svo sjá í bakgrunninum.

Þórarinn Þórarinsson (aka badabing.is) er nokkuð glúrinn bloggari þó hann haldi að það sé sniðugt (en sem er auðvitað afskaplega ósniðugt) að hafa hvítt letur á svörtum grunni í blogginu sínu. Einu sinni ákvað ég að lesa aldrei svoleiðis blogg. Undantekningar verður maður þó að gera á því sem öðru.

Hann er einn af þeim bloggurum sem grenjaði mikið á sínum tíma undan Moggablogginu. Rifjar nú upp þá tíma og er enn hneykslaður á þeim sem gengur illa að sjá hve listrænn bloggari hann er.

Mér finnst listrænan birtast fyrst og fremst í blogglitavali hans en hann er þó fyrrverandi blaðamaður og bloggar um hitt og þetta. Kannski hef ég eitthvað lært af honum. Man að ég las bloggið hans þónokkuð oft í eina tíð.

Eitt er það sem er jákvætt hjá mér við að halda áfram að Moggabloggast eins og ekkert hafi ískorist þó Dao formaður tæki við sem ritstjóri hér á Mogganun. Ég hef aldrei bloggað neinsstaðar annarsstaðar svo auðvelt er (til þess að gera) að finna allt sem ég hef sagt og skrifað. Gúgli frændi er nú samt ansi glúrinn og ekki get ég sagt að þetta sé ástæðan fyrir því að ég hélt áfram hér. Raunverulega ástæðan var auðvitað leti eins og oftast er. Ég nennti nefnilega ekki að fara að venjast öðru umhverfi og kannski nýjum erfiðleikum og þ.h.

Harpa Hreinsdóttir er nú búin að setja það sem hún hefur skrifað um Sögu Akraness í eitt stórt .pdf skjal. Það er 144 blaðsíður og ég held að ég lesi það ekki aftur. Þeir sem hingað til hafa ekki lesið nema hluta af því sem Harpa hefur skrifað um Sögu Akraness eftir Gunnlaug Haraldsson ættu samt ekki að láta þetta framhjá sér fara. Ekki sé ég neitt sem bendir til þess að bæjarstjórinn á Akranesi eða Skessuhorn séu neitt að ranka við sér varðandi þetta mál og megi skömm þeirra verða sem mest.

Sýnist þetta blogg ætla að verða í styttra lagi. Það er bara í fínu lagi.

IMG 6256Allstaðar gægist gróðurinn fram.


1440 - Tilvonandi ofurbloggari

103Gamla myndin.
Bifröstungarnir Jón Alfreðsson, Gunnar Magnússon og Guðmundur Jóhannsson. Myndin er sennilega tekin á toppi Baulu.

Nú er loksins hægt að tala um eitthvert myrkur. Nú tekur síðsumarið við og sennilega verður það ekki síðra en undanfarið. Bjartsýni mín er jafnan sýnu mest hvað snertir veðrið. Þó er ég með bjartsýnustu mönnum. Trúi því t.d. að mannkyninu sé sífellt að fara fram, þrátt fyrir allar fréttir um hungursneyð og aðra óáran. Heimsendaspádómar eru samt alltaf jafnvinsælir. Kannski það sé vegna þess að flestir vilja jafnan sjá (eða frétta um) hið versta en vona hið besta. Svo er auðvitað hugsanlegt að aðrir séu ekki eins bjartsýnir og ég. Er nú samt ekki trúaður á það. (Ég er nefnilega svo bjartsýnn).

Varðandi bréfskákirnar. Held stundum áfram að leika þó ég sé greinilega með tapað tafl. Af hverju veit ég varla. Forðast að eyða miklum tíma á þannig skákir, en ef viðkomandi leikur af sér er mér að mæta. Margir virðast hugsa svipað. Leiðinlegt að eyða orku í skákir sem andstæðingurinn hugsar kannski næstum ekkert um.

Hvenær verða menn (og konur) ofurbloggarar? Mig langar nefnilega svo að verða ofurbloggari og er búinn að rembast við í mörg ár. Er það þegar fjölmiðlungar fara að vitna í mann? Já, en þeir eru svo vitlausir. Er það þá þegar gestafjöldinn fer yfir einhver ákveðin mörk? Hver eru þau mörk þá? Er það þegar maður er kominn upp á lag með að blogga bara eina setningu í einu, einsog Eiríkur? Eða ef maður tekur nógu mikið uppí sig, einsog Jónas? Eða les fésbókina daglega spjaldanna á milli, einsog Jakob Bjarnar virðist gera? Þetta eru spurningar sem ég er alltaf að reyna að finna svör við, en gengur illa.

Kannski er metið hjá mér að vera nr. 26 á vinsældalista Moggabloggsins. Fylgist ekki alveg nógu vel með. Sennilega er það bara nokkuð gott hjá mér. Þar fyrir ofan eru nefnilega sannkallaðir ofurbloggarar, jafnvel ofurfréttabloggarar og sjálfur Ómar Ragnarsson.

Nú er kominn nýr fréttamiðill til sögunnar, skilst mér. Fréttahorn.is heitir hann víst. (En passið ykkur á é-inu.) Og býður jafnvel borgun. Ekki fell ég samt fyrir svona löguðu. Þeir segjast ætla að selja auglýsingar. Gangi þeim vel. Þegar auglýsingarnar eru orðnar eins margar og innleggin þá skal ég íhuga að koma til þeirra. Það er að segja ef ég verð beðinn fallega.

Ég er eiginlega alveg hættur að óttast að ég hafi ekkert að segja í blogginu mínu. Á meira að segja eina örsögu óuppaða. Les hana kannski aðeins betur yfir. Vandamálið er að hætta á réttum tíma. Annars verður þetta alltof langt. Sko mig. Þessi málsgrein er ekkert of löng.

Skaftárhlaup eru að komast úr tísku. Nokkur hlaup virðast vera þar í hverri viku. Menn þreytast á þessu. Þó ekki fjölmiðlafólk því fylla þarf heilmarga dálksentimetra. Eitt hlaup á dag, kemur skapinu (ritstjórans) í lag. Múlakvíslin var miklu betri. Svoleiðis hlaup þyrftu að vera mánaðarlega.

IMG 6255Og fjórflokkurinn vonandi líka!!


1439 - Er Jakob horfinn?

102Gamla myndin.
Hvergerðingarnir Reynir Unnsteinsson, Sigurður Jónsson og Jóhann Ragnarsson.

Aldrei slíku vant, þá er ég ekki ennþá búinn að láta mér neitt detta í hug til að skrifa um í dag. Ég er þó alls ekki orðinn neitt örvæntingarfullur. Finnst ég einkum vera að bregðast sjálfum mér ef mér dettur ekkert í hug. Ég er nefnilega vitandi vits búinn að venja mig á að blogga á hverjum degi. Hvort sem ég hef eitthvað að segja eða ekki.

„Fréttir af fésbók“ var eitt af því fáa sem ég las stundum. En nú er Jakob Bjarnar víst týndur. Ekki var þó allt mjög merkilegt sem þarna var að finna, en líklega er það fésbókinni að kenna eins og svo margt annað. Þetta ku hafa verið blogg á Eyjunni og nú er Reynir Trausta á DV kominn með áhyggjur af þessu. Ég verð að segja það. Mér finnst svona upphlaup skipta litlu máli en það er þó greinilegt að Jakob fylgdist vel með fésbókinni og var fundvís á undarlega hluti þar. Nú er hann víst farinn í sumarfrí og það er bara í lagi mín vegna.

Orðið á götunni segir að stjórnarskrármálið hafi mikinn stuðning almennings þó stærstu fjölmiðlarnir hafi tekið því illa og reynt að gera sem minnst úr því. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að fá einhverskonar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þjóðin styður þessa tilraun og vill minnka vald fjórflokksins. Stjórnmálastéttin stendur auðvitað saman og reynir að hrinda þessari árás almennings á sig. Fjölmiðlarnir (hugsanlega að DV frátöldu) eru síðan á mála hjá stjórnmálastéttinni og eiga tilveru sína undir henni, eða halda það. Bloggarar landsins eru flestir frjálsir og hafa sem heild talsverð áhrif.

Auðvitað finna þeir eins og aðrir sitthvað athugavert við stjórnarskrártillögurnar. Við öðru er ekki að búast. Samt er rétt að reyna að halda áfram með það samkomulag sem þar náðist, einkum vegna þess að mikilvægar endurbætur er að finna í tillögum ráðsins.

Mér finnst tillögur stjórnarskrárráðs einfaldlega svo merkar að ástæða sé til að samþykkja þær eins og þær eru. Hvað alþingi síðan gerir er mér alveg sama um. Býst fastlega við að það reyni í næstu þingkosningum að verja sig, en hvernig það verður gert er alls ekki hægt að sjá núna.

Lýður Árnason segir i grein um stjórnarskrármálið:

„Viðhorf Þorsteins endurspegla þá hugmyndafræði að átakamiðja nýrrar stjórnarskrár sé innan þings en ekki utan. Um nákvæmlega þetta atriði hefur aldrei náðst samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn og gott að halda því til haga.“

Ef einhver stjórnmálaflokkur mun berjast með oddi og egg gegn öllum tillögum stjórnlagaráðs þá er það sjálfstæðisflokkurinn. Óþarfi er samt að láta það hafa sterk áhrif á sig. Í þjóðaratkvæðagreiðslu mun hugur þjóðarinna í þessu máli væntanlega koma fram. Þeir sem meðmæltir eru þessum hugmyndum munu áreiðanlega láta til sín heyra.

Líst fremur illa á að stofnaður verði sérstakur stjórnlagaráðsflokkur. Hugsanlega eyðileggur hann með öllu gott starf ráðsins. Það er vel hugsanlegt að í næstu þingkosningum verði til nýtt stjórnmálaafl. En verði það leitt af stjórnlagaráðsmönnum (og konum) gæti það borið í sér dauða þeirra tillagna sem nú eru á borðinu. Kannski er Þórhildur bara að viðra sínar eigin skoðanir. Vonum það.

Skil ekkert í jarðgangna-Möller að láta svona. Sýnist hann vera á útleið úr samfylkingunni. Fyrst hélt ég að hann hefði sætt sig sæmilega við að vera sviptur ráðherratigninni en það virðist ekki vera. Hann er sífellt að spila einleik í samgöngumálum, en vel getur verið að sá góðvilji sem hann fær sums staðar út á það, gagnist honum ekki.

IMG 6240Viti í vita.


1438 - Sinadráttur í svefni

101Gamla myndin.
Bifröstungurinn Sigurður Fjeldsted með bjór og brennivín.

Skelfing finnst mér fáránlegt hve margir af þeim sem byrjaðir voru að blogga áður en Moggabloggið kom til sögunnar finna því allt til foráttu. Jú, jú. Það er vel hægt að fallast á að eftir að Moggabloggið kom til sögunnar hafi bloggurum fjölgað mikið og margt sem þar var skrifað hafi verið óttalega lítils virði. Það er líka hægt að skrifa uppá það að bloggin á Moggablogginu hafi í rauninni flest verið bara „glorifíseraðar“ athugasemdir. Jafnvel líka að sumir þeirra sem þá höfðu bloggað lengi séu ágætir bloggarar. En að kenna Moggablogginu sem slíku um allt sem aflaga fer í bloggheimum er afskaplega heimskulegt.

Heimskustu bloggararnir eru reyndar, að ég held, flestallir hættir að blogga. Þeim fannst nefnilega Moggabloggið taka svo mikið frá sér. Áður en það kom til skjalanna voru lesendur miklu fleiri en bloggarar og þessvegna héldu jafnvel lélegir miðlungsbloggarar að þeir væru voðalega snjallir bara af því það voru svo margar heimsóknir á bloggið þeirra. Nú er ég farinn að fabúlera eins og „Fabúlus Fabúluson“ og gefa í skyn að ég sé ofurbloggari hinn mesti. Því er best að hætta þessu snarlega.

Var vakinn upp með símhringingu í morgun, sem var svo bara vitlaust númer. Maður verður eiginlega bæði ergilegur og feginn þegar svona gerist. Símhringingar snemma morguns (tala nú ekki um miðjar nætur) geta nefnilega verið hættulegar.

Einkennilegast við þessa símhringingu var að mig hafði verið að dreyma um símhringingu, sinadrátt og ýmiss konar vitleysu.

Þannig var að mér þótti í draumnum sem dauf símhringing heyrðist frammi á ganginum þar sem ég var kennari. Fór að athuga það og sá að einhver nemandi hafði svarað í símann. Það áttu þeir alls ekki að gera og þessi nemandi átti að vita það ekki síður en aðrir.

Tók í hnakkadrambið á honum og fór að skamma hann, en fékk þá alveg heiftarlegan sinadrátt í vinstri kálfann (hugsanlega í raunveruleikanum) og varð að hætta því. Annar kennari var þá kominn á vettvang einnig og hann og nemandinn biðu á meðan sinadrátturinn leið hjá.

Um leið og honum var lokið og ég ætlaði að halda áfram við skammirnar hringdi hinn raunverulegi sími og ég rauk upp með andfælum og draumurinn þurrkaðist út.

Þegar ég kom svo aftur upp í rúm fór ég að hugsa um hnakkadrambstakið og hvort það hefði kannski verið svonefnt steinbítstak, en fannst svo ekki vera. Man vel eftir steinbítstakinu svokallaða þegar ég var í grunnskóla. Aldrei var ég þó tekinn steinbítstaki og tók aldrei neinn slíku taki. Hugsanlega hefur bara verið ímyndun að það væri notað á fólk. Líklega erfitt að ná því.

Dæmi um samræður okkar hjónakornanna á morgnana þegar við sitjum hvort við sína tölvuna og erum niðursokkin í að fésbókast eða eitthvað þessháttar.

„Hvernig er lýsi á dönsku?“

Ég bulla eitthvað um hvernig lýsi sé á ensku og að máli skipti úr hvaða fiski það sé, o.s.frv..

„Já, nú man ég það. Það er „levertran“.

Fyrir allnokkrum árum var Ngorno Karabak mikið í fréttum á hverjum degi. (Held að það hafi verið eða sé fylki eða ríki í Sovétríkjunum sálugu). Kannski mundu það ekkert allir en ég mundi vel eftir því að Stígvélaði kötturinn var eign greifans af Karabak. Þetta skipti svosem ekki máli í fréttum dagsins, en fréttir þaðan minntu mig alltaf á Stígvélaða köttinn.

IMG 6239Brotinn gluggi.


1437 - Runukrossar

IMG 0058Gamla myndin.
Þessi mynd er tekin í Hveragerði á 17. júní fyrir löngu. Fékk hana hjá Bjössa bróðir. Hann gæti eflaust frekar sagt til um hvenær hún er tekin en ég. Líklega hefur hann tekið hana. Einhverjir gætu sem best kannast við þessi andlit.

Sennilega er það svo að örsögur henti mér best. Ég er nú búinn að blogga svo lengi að farið er að sneyðast um ævisögulegt kjaftæði hjá mér. Gerir í raun nokkuð til þó það sem sagt er frá sé tómur uppspuni? Örsögurnar henta mér vel að því leyti að vel má koma þeim fyrir í blogginu, þær er hægt að klára á stuttum tíma og svo er hægt að gleyma þeim þegar þeim er lokið. Minnir að ég hafi nokkrum sinnum gert slíkar sögur hér og enn skal reynt.

Svo forstokkaður er ég ekki orðinn að sögurnar (ör- smá eða annað) komi bara eins og hendi sé veifað. Sennilega þarf ég að láta mér detta eitthvað í hug fyrst. Þetta getur samt ekki verið mikill vandi. Ég trúi því bara ekki.

Er búinn með „Runukrossa“. Þetta er nú bara krimmi og nokkuð vel skrifaður. Höfundur vill láta sögu sína inn í einhvern ímyndaðan raunveruleika og gerir það ágætlega. Lætur söguna gerast árið 2141 á Íslandi. Þá hafa Múhameðstrúarmenn tekið völdin bæði hér og annarsstaðar.

Lokin snúast um endalok heimsins og eru ekki beinlínis frumleg og lausn morðgátunnar ekki heldur.

Bráðum verður farið að rífast af fullu um Landsdóminn og Geir Haarde. Mín skoðun er sú að Ingibjörg Sólrún hafi sloppið undan dómnum með lagakrókum. Geir og Ingibjörg voru leiðtogar hrun-ríkisstjórnarinnar og ættu bæði að svara til saka. Vel væri afsakanlegt þó aðrir ráðherrar slyppu ef svo væri í pottinn búið. Til að undirstrika mismunina virðist ISG ætla að komast aftur til valda í Samfylkingunni. Það er vanhugsað mjög. Samfylkingin getur náð einhverju af vopnum sínum aftur ef endurnýjun í þingliði hennar verður nógu mikil í næstu þingkosningum.

Rúmlega 35 prósent kjósenda styðja ríkisstjórnina var sagt í fréttum í kvöld. Það er alls ekki svo slæmt. Fleiri styðja flokkana samt sem standa að ríkisstjórninni, en það er lítið að marka. Ef andstæðingar ríkisstjórnarinnar meðal bloggara og fjölmiðlamanna væru teknir alvarlega mætti halda að mun færri en raunin er styðji ríkisstjórnina. Ekki ætla ég þó að fara að fabúlera mikið um stjórnmál núna.

IMG 6237Pollur.


1436 - Ný stjórnarskrá

8aGamla myndin.
Þetta er greinilega Bifrastarmynd og mér sýnist að þarna séu þeir Már Hallgrímsson, Magnús Haraldsson og Birgir Marínósson.

Eigum við að afhenda Styrmi Gunnarssyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni stjórnartaumana. Af öllum þeim afdönkuðu stjórnmálamönnum sem er að finna út um allar koppagrundir hafa þeir hæst þessa dagana. Þeir eru að vísu ekki alveg sammála en þó eflaust sammála um það að engir standi þeim framar.

Mér finnst við eiga betra skilið en að hefja útbrunna og úr sér gengna pólitíkusa aftur til valda. Líst ólíkt betur á stjórnlagaráðið og þá sem þar sitja. Þeim tókst að verða sammála og það er ekki svo lítið afrek. Að því var stefnt frá upphafi, en það er ekkert misheppnaðra fyrir það.

Auðvitað er með öllu ómögulegt að fallast á allt sem þetta stjórnlagaráð leggur til, en þó held ég að skárra verði að fallast á þeirra tillögur en að sitja uppi með óbreytt alþingi og fjórflokkinn til eilífðarnóns.

En er bara um þetta tvennt að ræða. Ég held því miður að svo sé. Auðvitað breytist ekki allt í einu kasti við það eitt að fá nýja stjórnarskrá, en með henni má hugsanlega hefja svolitla tiltekt í þjóðmálum og losna við verstu spillinguna.

Ef tillögur ráðsins fara óbreyttar í þjóðaratkvæði eins og ýmislegt bendir til, er aðeins um það að ræða að fella frumvarpið eða samþykkja það. Ef það verður fellt er gamla stjórnarskráin áfram í gildi. Hún er alls ekki vonlaus og hefur dugað okkur alllengi. Gallar hennar eru samt margir og augljósir. Aðalgallinn er sá að túlkun hennar í dag veldur ofurvaldi fjórflokksins. Við því þarf að bregðast og nýja stjórnarskráin er besta tækið til þess. Ef hún veldur því ekki er hún handónýt.

Samkvæmt nýju stjórnarskránni verður jafnvel hægt að ræða aðild að ESB án þess að farast úr þjóðrembu. Ég hef ekki heyrt í neinum sem ekki vill að þjóðin ráði því hvort gengið er í ESB eða ekki. Þeir sem halda því fram að með því séum við að glata sjálfstæði okkar hafa galað hátt mjög lengi. Sennilega fara þeir að verða hásir og þá er jafnvel hægt að fara að ræða um aðild æsingalaust. Það hafa sumar þjóðir gert.

Nú er ágúst byrjaður og bráðum líður að hausti. Mér finnst þetta sumar vera búið að vera ágætt þó sumir telji það hafa verið kalt. Hápunktur þess hvað mig snertir er ferðin til Siglufjarðar. Að gista þar í tjaldi og hlusta á mávagargið og mótorskellina um nóttina er einstakt. Ekki er hægt að líkja því við annað. Það situr í sálinni og fer ekki neitt.

Frést hefur af útihátíðum víða um land. Af einhverjum ástæðum vill Ríkisútvarpið - sjónvarp fræða okkur sem best um hvernig umferðin gangi fyrir sig til Vestmannaeyja. Þó hefur frést af útihátíðum víða annarsstaðar. Ekki veit ég hvað ríkisútvarpið fær greitt fyrir þessa takmörkuðu upplýsingaþjónustu en það hlýtur að vera töluvert. Einkum vegna þess að hægt er spara mjög í annarri þjónustu en Vestmannaeyjaþjónustunni enda er það svikalaust gert. Best væri auðvitað að leggja af alla fréttaþjónustu um verslunarmannhelgina.

Að dómi ESB-andstæðinga er sá helsti galli á gjöf Njarðar varðandi stjórnarskrárdrögin að mögulegt er að greiða atkvæði um aðild oftar en einu sinni. Svo er að sjá að þeir hafi ekki mikla trú á að þjóðníðingatalið endist lengi. Mér finnst við vera búnin að bíða ansi lengi eftir hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild.

IMG 6234Viti.


1435 - Verslunarmannahelgi

13Gamla myndin.
Ingþór Ólafsson, Ingibjörg Bjarnadóttir, Rósa Gísladóttir og Sigurjón Guðbjörnsson. Myndin er eflaust tekin á bókasafninu á Bifröst. Hjálpsamir menn þeir Ingþór og Sigurjón.

Hversvegna er ég eins og ég er? Hvers vegna er ég ekki einhver annar? Hvers vegna er ég ekki bestur og klárastur allra? Hvers vegna er ég ekki eilífur eins og ég ætti skilið?

Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör. Það ætti samt að vera vandalaust að svara þessu? En, hver ætti að svara því? Það er vandamálið. Ef óviðkomandi svara þessu er ég vís með að taka ekkert mark á því. Ekki er líklegt að aðrir reyni að svara. Þessvegna verð ég sennilega að burðast með þessar hugsanir þangað til ég drepst og fæ líklega aldrei nema óbein svör við þeim.

Mér er það mætavel ljóst að ég undanskil mitt innsta eðli í þessum bloggskrifum mínum. Skrifa ekkert um mitt persónulega líf og innstu og leyndustu tilfinningar. Flest bloggskrif eru þannig. Sjálfsævisögur líka. Ævisögur og æviþættir fólks, sem óviðkomandi skrifa komast oft nær manningum en hann mundi nokkurntíma gera sjálfur. Með lífshlaupi sínu skráir hver maður sögu sína á vissan hátt. Sú saga er oftast nær stutt. Miklu styttri en viðkomandi heldur. Fáir eru eins merkilegir og þeir halda sjálfir. Jafnvel ekki frægustu menn. Allra síst þeir sem frægir eru að endemum. Sumum finnst þó slík frægð skárri en ekkert.

Þetta á að virðast djúphugsað og er það á vissan hátt. Persónulegt líf fólks og innstu tilfinningar er það sem flestir vilja lesa og fræðast um. Held ég. Hversvegna skrifa ég þá ekki meira um slíkt? Það er afskaplega vandasamt og alveg ómögulegt án þess að minnast á sína nánustu. Og þeir eiga það alls ekki skilið að verið sé að fjölyrða um þá við aðra. Það sem aðrir hugsa um mann sjálfan er nefnilega það sem mestu máli skiptir. Það sem óviðkomandi fólk hugsar og talar um mann skiptir samt afar litlu máli. Hvað manns nánustu hugsa um mann er lífið sjálf.

Eftir svona „speki“ ætti ég að snúa mér að öðru. Verslunarmannhelgin er bara yfirleitt ein tíðindalausasta helgi ársins. Mér finnst það engar fréttir þó fólk hópist saman til að drekka sig fullt. Flest annað er áhugaverðara. Svo er rigning eins og venjulega. Veðrið er svosem ágætt að flestu öðru leyti. Kannski ég skreppi út í gönguferð.

Ljósmyndavélar eru sniðug tæki og ljúga ekki. En til að vita hvort ljósmynd er lygi þarf maður samt annaðhvort að taka hana sjálfur eða treysta tökumanninum mjög vel.

Að hvaða leyti er líf okkar frábrugðið lífi hinna aumustu og smæstu skorkvikinda á jörðinni? Jú, við höfum komist uppá lag með að skilja eftir okkur ummerki. Ummerki sem við teljum okkur trú um í hroka okkar og sjálfsblekkingu að séu óforgengileg eða a.m.k. lítt forgengileg. Hvort við erum svo eina lífsformið sem gerir sér grein fyrir keðju kynslóðanna vitum við auðvitað ekki, en höldum að svo sé. Ef okkur tækist að ná sambandi við líf annarsstaðar í alheiminum mundi það breyta mörgu. Kannski tekst okkur það einhverntíma. Kannski ekki.

Kalli á Sunnuhvoli hét Eggert og það er ekkert merkilegt við það. Hét segi ég því hann hlýtur að vera dáinn. Kalli var náttúrulega verkstjóri hjá hreppnum og einhverju sinni var vinnuflokkurinn eitthvað að grafa holur út um allt og Unnar Ben. bað okkur krakkana að fara frá svo hann gæti séð Kalla. Man að þetta var ekki langt frá gamla barnaskólanum.

Þá sagði ég og þóttist vera voðalega fyndinn: „Farið frá svo hann sjái ekkert.“ Gott ef einhverjir krakkanna hlógu ekki að þessu.

Samkvæmt því sem segir á Eyjunni er ástæða fangelsisfarsans sem nú er leikinn með mikilli innlifun af stjórnmála- og fjölmiðlamönnum m.a. sú að sjálfstæðismenn og aðrir á Árborgarsvæðinu vilja ólmir fá fangelsið tíl sín. Í greinargerð fá Eyþóri Arnalds og fleirum segir m.a.

„Vaxandi þörf er á fangelsi sem annast afplánun meginþorra fanga í landinu, Litla-Hraun er best til þess fallið enda byggt á traustum grunni þekkingar og aðstöðu.“

Þetta finnst mér bara vera orðaleppur sem engin ástæða er til að taka alvarlega. Ef bygging fangelsis hefur verið á döfinni síðastliðin fimmtíu ár hversvegna má þá ekki bíða í fáeina mánuði ennþá? Það er vitað að einkaframkvæmd er mun dýrari en opinber. Var það ekki einkaframkvæmdarfáviskan sem setti mörg sveitarfélög á hausinn?

IMG 6226Tveir bátar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband