Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

1035 - Körfubolti og kosningar

Hvusslags er þetta? Ekkert blogg komið. Best að bæta úr því í snatri. Eitthvað smá var ég búinn að skrifa hjá mér í gærkvöldi áður en syfjan varð of mikil. Best að lesa það yfir.

Vakti svolítið á kosninganóttina. Horfði þó eingöngu á RUV. Þar stöðvuðu þau Bogi og Þóra áhugaverðar umræður til þess eins að koma að sögum frá Súðavík. Ekki skynsamlegt. Mönnum virðast líka skelfilega mislagðar hendur við talningu atkvæða. Bagalegt. Ætla mér ekki þá dul að túlka úrslit kosninganna. Þar vilja samt margir láta ljós sitt skína.

„Af hverju get ég bara ekki truflað þau?" sagði Jón Gnarr í Silfrinu. Hann vildi semsagt láta finna fyrir sér og gerði það svo sannarlega. Íslensk stjórnmál verða aldrei söm aftur.

Það var hasar í stjórnmálum í byrjun tuttugustu aldar hefur maður heyrt. Ekki er heldur hægt að segja að rólegt sé yfir þeim í byrjun þessarar. Er samt af einhverjum ástæðum ekkert hræddur um að uppúr sjóði. Ef dómstólar ætla þó að hegna níumenningunum grimmilega eins og Alþingi hefur farið fram á er hætt við að illa fari.

Þegar ég byrjaði að fylgjast svolítið með körfubolta voru LA Lakers og Boston Celtics aðalliðin í NBA og háðu marga rimmuna í úrslitakeppninni. Nú er sú saga að endurtaka sig. Að vísu eru Larry Bird og Magic Johnson ekki aðalmennirnir lengur en samt.....

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er eini stjórnmálamaðurinn sem enn talar um stjórnlagaþing. (Kannski Birgitta líka en það eru allir hættir að taka mark á henni.) Stjórnlagaþing og beinar kosningar eru bara dúsa sem misheppnaðir stjórnmálamenn stinga uppí gagnrýnendur sína til að hafa þá góða í bili. Það verður aldrei neitt úr slíku. Foringjar flokkanna sjá fyrir því og kvarta og kveina undan því að alltaf sé talað um fjórflokkinn og fundið að því sem hann gerir. Þeir eru ekkert betri en annað frasafólk.


1034 - Ekki kosningablogg

Hættur að birta gamlar myndir í bili. Nú eru kosningar og ekki víst að ég skrifi mikið. Of seint að vera með kosningaáróður. Auðvitað kjósa allir rétt en úrslitin falla mönnum eflaust misvel í geð.

Því ekki að fara bara út og njóta góða veðursins. Kosningarnar sjá um sig sjálfar (eða réttara sagt fólkið sem fær borgað fyrir að sjá um þær). Getur samt orðið fróðlegt að fylgjast með úrslitunum í sjónvarpinu í kvöld.

Flúði Toyota-hávaðann (hávaðasjúkir unglingar að þvo bíla) og fór meðal annars í grillveislu upp í Borgarfjörð. Hún var góð en ég fjölyrði samt ekki um hana hér. Heldur ekki kosningaúrslitin. Kemur dagur eftir þennan dag.

Þetta á nú kannski meira erindi í molana hans Eiðs, en í úvarpinu (á veðurstofunni) í morgun sagði þulur sem var að þylja upp veður á ýmsum stöðum: "....var einn til fimm metri á sekúndu." Þarna hefði ég sagt einn til fimm metrar á sekúndu.


1033 - Fésbók og kosningar

Allmargir virðast bæði blogga og skrifa á fésbók. Oftast það sama. Það finnst mér ósniðugt. Þannig er verið að mæla með því að fólk láti sér annaðhvort nægja. Mér finnst að fólk eigi að leggja það á sig að lesa blogg. Jafnvel kommenta á þau líka. Þau eru oft langbesti fréttamiðillinn og hafa þann ótvíræða kost að vera ókeypis og flestum aðgengileg. Fésbókin virðist aftur á móti henta best fyrir lítilsvert skvaldur. Góð sem slík og eykur vissulega samskipti fólks. Þannig hugsa ég en kannski er það gjörólíkt því sem aðrir gera. 

Sumir leikirnir á fésbókinni kunna vel að vera áhugaverðir. Til dæmis hentar skákin þar mér ekkert illa. Ég er þegar farinn að tefla nokkrar bréfskákir þar og allmargir sem áhuga og skemmtun hafa af skák eru þar greinilega. Rétt virðist vera og sjálfsagt fyrir sem flesta að vera þar. Þeir sem leita að gömlum vinum eða kunningjum geta þá fundið mann þar kæri þeir sig um. Svo eru líka langflestir sem maður þekkir á fésbókinni og hálfasnalegt að vera ekki skráður þar. Skelfing er mér fésbókin annars hugleikin þó ég skrifi ekki mikið þar.

Margir stjórnmálafræðingar og spekúlantar allskonar setja gjarnan samasemmerki á milli þess að auglýsa mikið og atkvæðafjölda í kosningum. Í einhverjum tilfellum getur þarna verið um samsvörun að ræða en mér finnst augljóst að með þessu sé verið að gera lítið úr kjósendum. Ef þeir láta auglýsingalygar ráða atkvæði sínu eru þeir heimskari en eðlilegt er. Er mögulegt að með þessu sé verið að gera heimskunni sem hæst undir höfði til að skapa nógu hlýðin vinnudýr?

Kosningarnar um næstu helgi kunna að boða mikil tíðindi. Hugsanlega er það fyrst nú að koma í ljós og renna upp fyrir almenningi að stjórnmálaflokkarnir eru bölvuð hrákasmíð og þurfa mikillar lagfæringar við allir sem einn. Í mínum huga er sú spurning áleitnust hvort affarasælla sé að stofna nýja eða reyna að lappa uppá þá gömlu. Starfsemi Borgarahreyfingarinnar bendir ekki til þess að nýjir flokkar séu lausnin.

Að sjálfsögðu hjólar Jóhanna í Gulla og kannski fleiri. Sumir hafa með öllu eyðilagt sinn stjórnmálaferil með peningum. Þeim var nær. Hefðu átt að passa sig betur. Annars vil ég helst losna við alla sem voru í áhrifastöðum fyrir hrun. Ekki er samt hægt að ætlast til að allir fari í einu og einhverja verður að nota svolítið lengur en svo mega þeir fara.

Á sínum tíma starfaði ég svolítið í forystu verkalýðsfélaga og finnst þeim einnig hafa hrakað mjög. Að sumu leyti er það vegna þeirrar öfgafrjálshyggju sem hér hefur tröllriðið flestu.

Var að gramsa í gömlum myndum og hér eru nokkrar sem allar eru teknar uppá Reykjum árin 1957 og 1958.

braggiHér eru bragginn sem notaður var sem vélageymsla og fjósið.

einarSvona var tæknin í þá daga. Maðurinn sem er að teyma hestinn heitir Einar og kenndi um tíma á Garðyrkjuskólanum.

hordurHörður Vignir Sigurðsson.

ingibjIngibjörg Bjarnadóttir.

smalliÖrn Jóhannsson og Reynir Helgason „aka" Smalli.


1032 - Kartöflugrösin féllu um nóttina

Einhverntíma á útrásarárunum var allt í einu til of mikið af peningum til að henda í gatnaframkvæmdir í Reykjavík. Ekki var hægt að láta þessa peninga í það sem mest var aðkallandi því ekki var búið að ákveða hvernig Sundabrautin ætti að vera. Því var ákveðið að færa Hringbrautina á sem allra dýrastan hátt og með sem mestum slaufum og brúarsporðum.

Það hafði líka þau áhrif að önnur ákvörðun sem var alveg að verða tilbúin var afsakanlegri. Reisa skyldi stórkostlegan hátæknispítala þar sem Hringbrautin hafði verið. Enn er verið að slást við þann draug. Aftur á móti er Tónlistarhússdraugurinn víst búinn að sigra skynsemina en förum ekki nánar út í það.

Mörgum finnst Guðbergur Bergsson lifa um of á fornri frægð og vera heldur leiðinlegur. Mér finnst margt sem frá honum kemur um þessar mundir vera óttaleg fordild og lítið merkilegt. Man samt að bókin „Tómas Jónsson metsölubók" hafði mikil áhrif á mig. Man líka að mér fannst sumir dómar um þá bók hjálpa mér til skilnings á henni.

Lengi fyrir þá bók hafði tíðkast að lýsa samförum í bókmenntaverkum með því að stökkva skyndilega í yfirdrifnar náttúrulýsingar. Ekki er þörf á að lýsa því mikið en auðvitað voru allir á hnotskóg eftir samfaralýsingum. Eftir að aðdraganda þeirra hafði verið lýst á þann hátt sem höfundinum þótti við hæfi var sem allra skáldlegust og stórkarlalegust náttúrulýsing látin taka við. Hjá Guðbergi var sú lýsing svona:

„Kartöflugrösin féllu um nóttina."

Þetta var á margan hátt „banebrydende" svo dönsku sé slett.

Kannski verður eitt það merkilegasta sem útúr bankahruninu kemur að loksins verði farið að hrófla við gjafakvótanum. Óheft framsal hans og þar með eign ákveðins útgerðaraðals á óveiddum fiski var sú afsökun og upphaf auðæfa í bland við óhefta einkavæðingu sem gerði það að verkum að bankakerfið varð eins stórt og raun ber vitni. Eyðslusemi sú og óhefta gróðahyggja sem einkenndi útrásartímann var ekki bara útrásarvíkingunum að kenna heldur öllum almenningi og grútmáttlausum stjórnvöldum.

Var að róta í gömlum ljósmyndum og fann meðal annars nokkrar gamlar skólaferðalagsmyndir. Líklega frá 1957:

IMG 00011Hér eru Mummi Bjarna, Örn Jóhanns og Kiddi Antons.

IMG 00021Þetta eru Erla Traustadóttir og Jóna Helgadóttir.

IMG 00031Grund í Eyjafirði.

IMG 00041Gunnar Benediktsson. Veit samt ekki á hvaða tröppum hann er.

img 0051Hólar í Hjaltadal.


1031 - Að halda uppi bloggmerki bekkjarins

Í einhverri bekkjar-sammenkomst fyrir fáum árum komst einhver svo að orði að hann væri hissa á því að ég skyldi verða til þess að halda uppi bloggmerki bekkjarins. Nú eða skólans í Hveragerði þessvegna. Mér finnst þetta þó ekkert skrítið því ég hef alltaf álitið sjálfan mig betur skrifandi en aðra.

Í skólanum þeim átti ég af ýmsum ástæðum meira saman að sælda við Jóa á Grund, Atla Stefáns, Þórhall Hróðmarsson og Jósef Skafta en aðra bekkjarfélaga mína. Af þeim samskiptum mætti segja margar sögur en þær verða ekki tíundaðar hér.

Stelpurnar voru auðvitað góðar fyrir sinn hatt en við höfðum ekki mikið saman við þær að sælda. Minnisstæðastar eru Kolbrún, Heiðdís, Erla og Jóna. Satt að segja litum við sem áttum heima í gerðinu hvera svolítið niður á sveitapakkið sem sent var til okkar á hverjum degi. Þó man ég vel eftir Jónínu og Guðrúnu.

Á myndinni sem fylgir í lok þessa bloggs eru þeir Jói og Atli á góðri stund. Myndin er tekin við skálann í Reykjadal og líklega er bara vatn á pyttlunni.

Stolið og stælt. (Hefði verið ágætt sem myndatexti ef ég hefði átt passandi mynd)

Grænt er það sem gægist milli steina
og getur aldrei fengið nóg af sól.
„Bláskel liggur brotin milli hleina"
og berin koma varla fyrir jól.

Og svo er bara að bíða eftir því að allt gerist í einu. Besti flokkurinn komist í meirihluta í Reykjavík og pólitískir meirihlutar bíði allsstaðar mikið afhroð. Hera sigri í söngvakeppninni og Katla fari að gjósa. Þetta gæti alltsaman gerst næstkomandi laugardag. Nú, eða ekki.

Sigurður Hreiðar kvartar undan því að ég sé hættur að vanda mig við bloggið. Það getur vel verið rétt. Svo getur líka verið að ég sé að verða þurrausinn. Annars óttast ég það ekki svo mikið því mín kenning er sú að því meira sem við skrifum þeim mun meira eigum við óskrifað.

IMG1


1030 - Jón Helgason

Einhvernsstaðar las ég að Jón Helgason ritstjóri og rithöfundur (fæddur 1917) væri leiðinlegur. Mér finnst hann skemmtilegur. Las nýlega bók eftir hann sem heitir „Þrettán rifur ofan í hvatt". Viðurkenni alveg að nafnið er ekkert sérlega skemmtilegt. (Gott ef það var ekki eyrnamark andskotans.) Þessi bók fjallar um Jóhann bera, þann annálaða sómamann. Hann var förumaður og frægur mjög. Dúllaði samt ekkert og var aldrei með nein skringilegheit en var bara svolítið bilaður þó hann hafi ekki verið það framan af ævi.

Sé að einnig hefur Jón Helgason skrifað bókina: „Orð skulu standa". Hana hef ég líka lesið og minnti að hún hefði fjallað um Jóhann bera því ég kannaðist vel við tilvist hans.

Jón Helgason skáld og prófessor (fæddur 1899)  orti „Áfanga" eins og flestir vita. Einhvern tíma las ég eða heyrði viðtal við hann og þar vildi hann gera sem minnst úr því magnaða verki. Sagði að hann hefði bara raðað saman rímorðum. Þannig var skáldið Jón Helgason.

Þarna er semsagt um tvo menn að ræða þó þeim sé stundum ruglað saman.

Blessaður unginn með blóðrauðan punginn var stundum sagt um menn ef maður vildi vera svolítið nasty. Í þessu fólst ekki nein sérstök meining heldur þótti þetta bara sniðugt af því það rímaði. Svo þótti líka sniðugt að snúa útúr vinsælum dægurlagatextum og öðrum textum. Man til dæmis eftir þessu:

Í vor kom ég sunnan
Með sólskin í nýra.
Og þambaði á leiðinni
hálf-flösku af spíra.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði „söng villiandarinnar" sunginn í útvarpinu um daginn.

Hvað er svo glatt sem góðtemplarafundur
er gleðin skín á hverri mellubrá?

Var líka stundum sungið. Og mörgum fleiri textum hefur verið snúið útúr og er kannski enn.

Og fáeinar myndir:

IMG 1612Hér er semsagt hægt að leggja sig, ef vill.

IMG 1668Með vinsemd og virðingu.

IMG 1926Inngangurinn í Maríuhella.

IMG 1937Ísbirnir á flækingi í göngugötunni á Akureyri.

IMG 1939Indverskur karríkofi.


1029 - Sylvía Nótt og Jón Gnarr

Það var tími til kominn að stjórnmálin fengju sína Sylvíu Nótt. Að mörgu leyti er Jón Gnarr einmitt það. En stjórnmálamennirnir áttu þetta skilið. Ef Jón Gnarr fær meirihluta í Reykjavík þá er það bara merki um að stjórnmálin þar hafi verið komin í algert öngstræti og að hann sé að bjarga þeim úr því. Reykjavíkurlistinn hafi í rauninni ekki verið neitt betri en Sjálfstæðismenn. Sem er slæm tilhugsun.

Af ýmsum ástæðum var ég á sínum tíma mikill aðdáandi Sylvíu Nóttar og fékk bágt fyrir víða. Fyrir mér lauk ævintýri hennar ekki fyrr en í Grikklandi þegar hún reifst og skammaðist yfir að komast ekki áfram. Það var of langt gengið því aumingja Grikkirnir skildu ekki brandarann.

Ég vorkenni þeim svolítið sem eiga 5000 vini á fésbók. Sjálfur á ég bara nokkra tugi og finnst það nóg. Svo tefli ég líka á fésbók og fer þessvegna þangað inn nokkuð oft. Samt finnst mér að mínir vinir séu ekki að skrifa mjög oft. Sem er ágætt.

Í fyrndinni fórum við bræðurnir þrír (það er mínus Bjössi) oft saman í bað og skemmtum okkur vel. Af einhverjum ástæðum hafði mamma okkur alltaf í sundskýlum við það. En það var mikið fjör og mikið gaman. Mikill hávaði líka er ég viss um. Okkar helsta íþróttaiðkun var að kasta þvottapoka þannig upp í loftið á baðinu að hann festist þar. Kom samt alltaf niður á endanum en ef hann tolldi þar dálitla stund var það mikill sigur. Man samt ekki hvort tími var tekinn eða hvernig stig voru reiknuð en mikið gekk á.

Sagt við Goldfinger-Geira: (er mér sagt)

Seðlum fleiri á súlumey
sýnist illa varið.
Ballarmiðið bregst mér ei
ef bikinið er farið.

Sé að það er kominn tími á myndir. Kannski ég reyni að finna einhverjar.

IMG 1868Hér er margt hættulegt.

IMG 1887Ástæðulaust að nýta ekki þessa fjárans ljósastaura fyrst þeir eru þarna.

IMG 1891Hef ekki hugmynd um hvað þessi er að gera.

IMG 1900Heimspekilegur köttur.

IMG 1914Ljón í veginum.


1028 - Kosningar

Var á Akureyri um helgina. Það er bara eins og það sé komið hásumar. Svo ég lét bloggið eiga sig. Ekki stöfum á það eyðandi. Nóg annað við tímann að gera. 

Það verður spennandi að fylgjast með hlutum um næstu helgi. Kosningar fyrir þá sem það vilja og Júróvisjón fyrir hina. Talningin þar er oft spennandi en lögin ekki mikið fyrir lög að sjá. Skrautið og gauraganginn þó stundum horfandi á.

Þar að auki er búið á spá því að Katla ræski sig á laugardaginn svo margt getur gerst.

Aðalspurning kosninganna virðist ætla að verða hvort Jón Gnarr nái virkilega meirihluta í Reykjavík. Það yrði sannarlega saga til næsta bæjar. Kosningar annars staðar falla svolítið í skuggann fyrir því en eru þó víða ansi merkilegar og vel þess virði að fylgjast með.

Að skara framúr blundar í öllum. Vera fallegasti hesturinn í stóðinu, fegursta liljan á vellinum eða eiga sem flesta fésbókarvini. Í einhverju verður hver og einn að skara framúr og það er lítill vandi. Ef allt um þrýtur er hægt að vera betri en næsti maður í einhverju.

Frameftir öllum aldri (segi það kannski ekki - en alltof lengi samt) var ég haldinn þeirri firru að kvenfólk kærði sig ekki vitund um kynlíf. Þessu var á óbeinan hátt haldið að unglingum (og er kannski enn) af flestu fullorðnu fólki og skólakerfinu sem heild. Þetta hafði sín áhrif og kom kannski í veg fyrir að krakkar færu að stunda kynlíf of snemma. Núorðið finnst mér ekki skrýtið að svonalöguðu sé haldið að unglingum en á þeim tíma þegar maður þráði kynlífið hvað heitast (og sundlaði jafnvel við að hugsa um það) var þetta ákaflega skrýtið.

Páll Ásgeir Ásgeirsson er kominn í heilagt stríð við þá mótorhjólamenn sem stunda það að spilla íslenskri náttúru. Það undarlegasta við þetta alltsaman er að samtök mótorhjólamanna styðja sitt fólk jafnt í lögbrotum sem öðru. Þeir mótorhjólamenn sem hugsa líkt og Páll Ásgeir ættu að forðast félagsskap af því tagi.


1027 - Enn eitt bloggið um Jón Gnarr

Besti flokkurinn er málið í komandi sveitarstjórnarkosningum. Á önnur ný framboð er ekki minnst. Jafnvel þó grínframboð séu. Menn eru með böggum hildar útaf þessari uppfinningu Jóns Gnarr. Áróðurinn nú beinist einkum að því að þeim sé nær að láta svona og þeir viti ekki hvað þeir séu að fara útí. Menn eru semsagt búnir að komast að þeirri niðurstöðu að úrslit kosninganna verði þannig að flokkurinn fái verulegt fylgi. 

Ég er þeirrar skoðunar að borgarfulltrúar úr besta flokknum verði bestu borgarfulltrúar sem um getur. Jafnvel þó þetta með ísbjörninn geti dregist eitthvað þá verða þeir lausir við að þurfa að hygla hinum og þessum sem hjálpað hafa þeim að ná þessum árangri.

Þeir verða auðvitað að vinna eins og menn og munu gera það. Eyðslusemi og yfirdrepsskapur er það sem fólk ætlast til að hverfi úr rekstri borgarinnar. Þetta verður því enginn dans á rósum fyrir þá bestaflokksmenn. En ég hef meiri trú á þeim en atvinnupólitíkusum og vonast til að þeir fái hreinan meirihluta í borginni.

Sem betur fer hef ég ekki kosningarétt í Reykjavík og þarf þess vegna ekki að gera upp við mig hvort ég styð Jón Gnarr eða ekki. Hef ekki einu sinni áhuga á Næstbesta flokknum sem ku vera með framboð hér í Kópavoginum þó það hafi eflaust farið framhjá einhverjum.

Hef enga hugmynd um hvað ég væri að kjósa yfir mig með því að styðja þessa grínara. Grunar samt að sumir þeirra kunni að vera hægrisinnaðri en mér gott þykir.

Hvar voru þeir meðan veislan stóð sem hæst? Voru þeir að græða á daginn og grilla á kvöldin, eða sneru þeir því kannski við?

Ef persónan Georg Bjarnfreðarson á að vera einhver skopstæling á vinstrimennsku almennt og Steingrími Jóhanni sérstaklega þá er sú gagnrýni fremur einfeldningsleg.


1026 - Músarsaga

Einu sinni var lítil músarstelpa sem hafði komið undir í þvottahúsinu hjá Indriða G. Þorsteinssyni við Borgarhraun í Hveragerði. En förum ekki nánar úti það.

Nú var hún semsagt stödd úti á túni að leika sér og leita að einhverju til að borða. Mamma hennar hafði sagt henni að hún væri orðin svo stór að hún gæti séð um sig sjálf. Sumir bræður hennar og systur höfðu þegar yfirgefið hreiðrið og ekki komið aftur. Mýsla hafði ekki hugmynd um hvernig þeim hafði reitt af.

Allt í einu var stór og ljótur köttur kominn alveg að henni. Jæja, kettir eru svosem aldrei ljótir nema þeir séu eyralaus og örótt gömul fress. Þetta var grönn og myndarleg þrílit læða sem greip hana í kjaftinn og hljóp með hana inn í næsta hús. Þar setti hún hana frá sér og fór að leika sér að henni. Mýsla litla var stjörf af hræðslu og ef hún ætlaði að koma sér í burtu var loppan á kettinum óðar komin í veg fyrir hana.

Loksins tókst henni þó að komast undir kommóðu sem þarna var. Kötturinn nennti ekki að gá að henni og fór að hugsa um eitthvað annað enda saddur vel.

Eftir nokkra stund ákvað mýsla að gá að undankomuleið og reyna að komast út. Þegar hún var nýkomin undan kommóðunni varð hún vör við fólk. Það sá hana víst líka því nú hófst mikill eltingaleikur. Mýsla endasentist undir allskyns húsgögn en þar var enginn friður og hún var hrakin þaðan jafnóðum.

Á endanum kom mannkertið sem þarna var með pappahólk einn mikinn og langan og setti á gólfið upp við vegg. Mýsla hljóp að honum og skaust inn í hann. Þá tók ekki betra við því hann tókst á loft og var samstundis lokað beggja megin. Eftir drykklanga stund var annar endinn opnaður og hinn settur í háaloft. Mýsla átti því ekki annars kost en að fara út úr hólkinum þeim megin sem opið var.

Þá tók ekki betra við. Hún lenti ofan í flösku sem var rétt nægilega víð að ofan til þess að hún kæmist þar niður. Á botninum var flaskan samt rúmbetri og þar gat mýsla litast um. Forvitin augu störðu á hana úr öllum áttum. Fólkið var samt ekkert ákaflega margt og innan tíðar kom ostbiti fljúgandi niður í flöskuna. Mýsla nartaði aðeins í hann fyrir siðasakir en hún var satt að segja of skelfingu lostin til að geta borðað.

Allt í einu segir mannkertið sem þarna var við litlu manneskjuna sem líka var þarna:

„Viltu ekki bara fara með hana með þér í skólann og sýna krökkunum hana?"

„Jú, jú."

Ekki er að orðlengja það að flöskunni var nú skutlað í skólatösku og litla manneskjan valhoppaði af stað í skólann.

Þegar þangað kom störðu allir á mýslu. Nú voru miklu fleiri viðstaddir sýninguna. Heill krakkahópur sem starði á þetta furðudýr. Síðan kom þvílík skæðadrífa af ostbitum, káli, gulrótum og allskyns dóti að mýsla litla varð logandi hrædd. Reyndi samt að narta í eitthvað af því sem til hennar kom því henni skildist að hún ætti að gera það.

Kennarinn kom nú á vettvang og var sömuleiðis stórhrifinn af mýslu litlu. Allir störðu opinmynntir á hana og fylgdust með þegar hún reyndi að fá sér að borða.

Svo urðu krakkarnir leiðir á þessu og einhver stakk uppá því að sleppa músinni. Það var strax samþykkt og krakkaskarinn marséraði útí móa og sturtaði músinni þar úr flöskunni. Mýsla var svolitla stund að átta sig á frelsinu en tók svo undir sig stökk og svo annað og annað og annað.

Krakkarnir sem höfðu ætlað að fylgjast vel með því hvað músin tæki sér fyrir hendur misstu fljótlega af henni. Mýsla þorði samt ekki annað en halda áfram að stökkva fram og aftur milli þúfnanna þangað til hún fór að þreytast.

Allt í einu sá hún yndislega holu milli nokkurra steina og skaust þangað. Þegar inn var komið varð hún fljótlega vör við að einhver átti heima þarna. Þrátt fyrir myrkrið varð hún nefnilega vör við þrusk þar inni.

„Hver er þarna?" Tísti mýsla litla.

„Það er bara ég," var tíst á móti.

Mýsla heyrði að þetta var líka mús og varð allshugar fegin. Hljóp inn eftir holunni, hitti músina og fann strax að þetta var músastrákur. (Hann var nefnilega svo illa rakaður.) Þau fóru svo strax að fást við að búa til músarunga og í fyllingu tímans fæddust í holunni sex músarungar en þessi saga fjallar ekkert um þá.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband