Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

946 - Þeir þora ekki

Icesave er skítugt mál. Ætla samt að skrifa um það eins og fleiri gera. 

Eins mikið og ríkisstjórnina og líklega alla stjórnmálamenn landsins langar að koma í veg fyrir boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu hef ég enga trú á að þeir þori að framkvæma slíkt.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi stjórnmálamaður er þeirrar skoðunar að koma beri í veg fyrir hana og skorar nú á sína fyrrum félaga að sjá um að hún fari ekki fram.

Almenningur í þessu landi mun ekki láta bjóða sér slíkt. Þjóðaratkvæðagreiðslan þarf að fara fram. Þó það sé eiginlega bara til þess að hún fari fram. Þeir sem barist hafa gegn Icesave-samkomulaginu og hinir sem hafa verið gagnstæðrar skoðunar ættu vel að geta verið sammála um það. Tími er til kominn að almenningur fái að tala.

Svokallaðir stjórnmálamenn hafa reynst óhæfir til alls. Verstir eru þeir sem sitja á Alþingi. Lýðræði er það að lýðurinn ráði en ekki sjálfskipaðir varðhundar fjórflokksins.

Mikil þáttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni mun setja Alþingismenn og ríkisstjórn til hliðar. Það getur orðið upphafið að siðvæðingu stjórnmála á Íslandi.

Bretar og Hollendingar munu gera það sem þeir geta til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Óþarfi er að láta þá komast upp með það. Úr því sem komið er liggur alls ekkert á að semja um Icesave fyrir atkvæðagreiðsluna. Líklegast er þó að semja verði.

Sumir vilja þó komast hjá öllum samningum og líður best í þverúðinni og afneituninni. Ekki þarf þó að láta það hindra kröfu um atkvæðagreiðsluna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband