Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
10.7.2009 | 00:23
739 - Akkúrat of margir mílusteinar
Það er oft gaman að fylgjast með umræðum á Alþingi. Einkum þó byrjunina því þá eru óundirbúnar fyrspurnir til ráðherra. Verst hvað það eru oft fáir ráðherrar til andsvara. Athugasemdir við fundarstjórn forseta geta líka verið fróðlegar.
Í dag (fimmtudag) var iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir spurð um eitthvað. Í svari hennar kom orðið akkúrat" fulloft fyrir að mínum smekk. (Hið ofnotaða orð nákvæmlega" hefði jafnvel verið betra) Auk þess talaði hún um mílusteina. Það finnst mér léleg þýðing.
Margir þingmenn eru farnir að misnota ræðustól Alþingis og reikna of mikið með því að verið sé að fylgjast með sjónvarpsútsendingum þaðan.
Alltof mikið er líka bloggað um stjórnmál líðandi stundar. Þetta eru þó athyglisverðir tímar sem við lifum á og sumarþing eru ekki algeng.
Annars er veðrið svo gott að það er ekki hægt að eyða miklum tíma í bloggskrif.
Íslenskur námsmaður sem bjó í Danmörku eitt sinn leigði herbergi þar með tveimur skápum. Þá kallaði hann videnskab" og lidenskab".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.7.2009 | 00:39
738 - Landsstjóri AGS
Landsstjórinn á Íslandi heitir Rassakovskí, er mér sagt. Reyndar hefur hann þann opinbera titil að hann sé fastafulltrúi AGS (IMF) hér á landi. Hann segir semsagt gríslingunum í stjórnarráðinu hvað þau megi gera og hvað ekki. Gott ef hann stjórnar ekki líka Evu Joly og Valtý Sigurðssyni.
Enn er Stebbi Páls að agnúast útí Moggabloggið. Á greinilega erfitt með að sætta sig við vinsældir þess. Í nýlegu bloggi segir hann eftir að hafa sagt frá því að Rivals vefsvæðinu í Bretlandi hafi verið lokað.
Einhvern daginn mun Mogginn kannski skila vondu ársuppgjöri og kippa Moggabloggstölvunni úr sambandi... þá verður nú aldeilis grátur og gnístran tanna.
Yfirleitt er ekki mikið að marka greyið Stefán. Fyrir alllöngu sagði hann að Moggabloggið væri greinilega dautt og hætti um leið daglegum bölbænum um það en þær hafði hann viðhaft nokkuð lengi.
Mikil er heimska ríkisstjórnarinnar að hafa ekki gert sér grein fyrir að samningsumleitanir um Icesave áttu að vera á allra vitorði frá upphafi. Leyndin sem hefur verið í kringum þetta mál í marga mánuði er óþolandi. Samningsstaða okkar hefði orðið margfalt sterkari en hún er núna ef allir hefðu verið sér fullkomlega meðvitaðir um hvað var að gerast í málinu á hverjum tíma. Ef eitthvert eitt atriði verður þessari stjórn að falli er það pukrið og leyndarhyggjan.
Ein síðbúin athugasemd barst við blogg mitt númer 731 sem ég nefndi: Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave er skynsamleg". Þar var Hjörtur Hjartarson að vísa í pistil um sama mál sem hann hafði skrifað á Smuguna (http://www.smugan.is/). Vissulega er ástæða til að ræða þetta mál nánar og það verður gert. Rúmlega 2100 manns eru nú búnir að skrifa sig á listann á kjosa.is. Það eru kannski færri en búast mátti við. Þó er líklegt að fjölgi á þeim lista ef Alþingi samþykkir Icesave-samninginn eins og líklegast er. Gera má ráð fyrir að þingið sitji síðan út ágúst og ekki takist að ná neinni samstöðu um ESB og það mál detti uppfyrir í bili.
Og nokkrar myndir enn.
Hafnarfjallið ber þessa braggabyggingu ofurliði og ljósastaurarnir eru að missa jafnvægið.
Hafnarfjallið í öllu sínu veldi.
Frá Borgarnesi.
Já, sennilega er þetta byrjunin á gullregni.
Þessi blýantsteikning er (eða var) á borðinu við eldhúsvaskinn. Teiknari ÁB.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.7.2009 | 00:27
737 - Örblogg og örsögur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2009 | 15:52
736 - Neikvæðnin á Sögu og í blogginu
Athugasemd sem ég fékk við bloggið mitt fékk mig til að hugsa dálítið um neikvæðni yfirleitt. Það er yndi þeirra sem ráða að kalla alla gagnrýni neikvæðni. Of mikið má þó af öllu gera og meðalhófið er oft vandratað. Það sem á gengur í þjóðfélaginu núna útaf Icesave tekur út yfir allan þjófabálk. Það er eins og ætlast sé til að allir viti allt um þetta mál og hafi á því skoðun. Ég neita bara að taka þátt í þessu. Málið er hjá þingmönnum eins og er og þeir verða bara að gjöra svo vel og gera eitthvað. Annars held ég að mikið sé plottað þessa dagana og allir hlutir eru afskaplega mikið leyndó. Lítið að marka fréttaútsendingar.
Horfði á kastljósið um daginn. Mér hefur lengi blöskrað fjárausturinn í sambandi við þetta tónlistarhús og nú var það flest staðfest. Einhverju af kastljósfólkinu er verulega uppsigað við tónlistarhúsið. Það er ágætt.
Upphaflega átti húsið að kosta rúma þrjá milljarða og vera tilbúið til notkunar í síðasta lagi í haust. Nú er það svo hundódýrt að ekki er víst að það kosti tilbúið nema svona tæpa tuttuguogfjóra milljarða. Ég á alveg eins von á að það komi til með að kosta á endanum fimmtíu til sjötíu milljarða eða svo og verði tilbúið uppúr 2030. Ríki og borg ættu ekki að vera að henda peningum í svona flottræfilshátt.
Ríkið hendir peningum í þetta, vegagerð, gangnagerð og allt mögulegt og eina afsökunin er að veita þurfi mönnum atvinnu. Því mannaflsfrekari framkvæmdir þeim mun betra. Þessi stefna er stundum skynsamleg. Mér finnst hún þó ganga út í öfgar í sambandi við tónlistarhúsið.
Auk þess legg ég til að fyllt verði upp í Héðinsfjarðargöngin.
Sá það nýlega á bloggi einhvers staðar að einhver kannaðist alls ekki við orðtakið: Oflof er háð". Þetta hélt ég að allir þekktu. Minnir að Snorri Sturluson hafi notað þetta fyrst. Kannski sagði hann líka: Þeir tala mest um Ólaf kóng sem aldrei hafa heyrt hann eða séð". Þarna er átt við Ólaf helga Haraldsson Noregskonung.
Og nokkrar myndir í lokin:
Blautir fjörusteinar við Akranes.
Og farþegarnir tínast um borð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2009 | 00:07
735 - Um fjölmiðla og fleira - Ekkert um Icesave
Nú er ég búinn að gúgla það sem hefði auðvitað (vitaskuld) átt að gúgla í gær. Íslenska vitafélagið er með heimasíðuna vitafelagid.com Þar má fræðast um sögu vita við Íslands strendur. Áhugavert efni. Endurflutningur þátta truflar mig stundum. Þegar ég er í bíl kveiki ég oft á útvarpi. Um daginn hlustaði ég á þátt þar sem byrjað var á því að lýsa yfir að nú væri loksins kominn mánudagur. Veðrinu var síðan lýst með mörgum fögrum orðum. Líklega var þetta á útvarpi Sögu. Seinna sama dag datt ég inn í þátt, sem ég held að hafi verið á rás 2, þar sem verið var að lýsa tölvuleikjum og fleiru þess háttar. Þar var margstagast á því að nú væri loksins kominn föstudagur og þessvegna væri þessi þáttur í loftinu vegna þess að hann væri alltaf á föstudögum. Samkvæmt mínum útreikningum var laugardagur þegar þetta var. Það fékk ég síðan staðfest að væri rétt. Auðvitað getur verið ástæða til að endurflytja þætti. Jafnvel allgamla og jafnvel hvað eftir annað. Þeir sem slíkum þáttum stjórna ættu samt að hafa vit á að forðast hluti sem þessa. Nóg ætti að vera um að tala þó ekki sé staglast á atriðum sem einungis geta verið til leiðinda í endurflutningi. Var að enda við að lesa bókina Blóðberg" eftir Ævar Örn Jósepsson. Þessi bók, sem er meira en 400 blaðsíðna löng, var gefin út árið 2005 en ég hafði ekki lesið hana fyrr. Sagan gerist næstum öll við Kárahnjúka og er á flestan hátt ágætis krimmi. Fléttan sem slík eða beinagrind sögunnar er ágæt og persónusköpunin nokkuð góð. Engir áberandi gallar eru á plottinu en úrvinnslan er ruglingsleg og sagan alltof löng. Mörgum útúrdúrunum hefði verið nær að sleppa en að vaða elginn endalaust. Ekki er mikinn fróðleik að finna í sögunni og náttúrverndarpælingarnar eru ósköp marklausar. Sem afþreying er bókin þó tvímælalaust í betri kantinum og ástæðulaust að hætta þó erfitt sé stundum að sjá meiningu höfundarins. Í sjónvarpinu á laugardaginn var því haldið fram að Kaldármelar væru í Borgarfirði. Þessu er ég fráleitt sammála. Líklegast er að fréttasemjarinn hafi bara verið svona illa að sér í landafræði. Ósköp deyr af fólkinu síðan útvarpið kom", sagði kerlingin forðum. Skelfing kemur mönnum illa saman um einföldustu staðreyndir eftir að fjölmiðlum (og bloggurum) fjölgaði svona mikið. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.7.2009 | 00:12
734 - Brennið þið vitar, brennið. Ef þið nennið
Ég fréttablogga náttúrlega aldrei. Eða mjög sjaldan að minnsta kosti. Þessi vitafrétt á mbl.is er samt vitaskuld svolítið sérstök. Þess vegna linka ég í hana. Vitar eru merkilegt fyrirbrigði. Eitthvað þessu líkt (brennið þið vitar) var einu sinni í Hraðfrystihúsi Stokkseyrar og er þar kannski enn. Svo er mér ekki grunlaust um að eitthvað sé til sem heitir Vitafélag Íslands eða í þá áttina. Prófa að spyrja Gúgla um þetta ef ég man. Í gær skrifaði ég um Ingólf á Flesjustöðum. Datt svo í hug að sennilega hefði ég bloggað um þetta áður. Spurði Gúgla. Jú, mikið rétt. Auðvitað hafði ég bloggað um þetta áður. Gríðarlegt magn sem ég hef skrifað sá ég var. Svo var ég líka um daginn að skrifa um endurtekningar. Get ekki að þessu gert. Sumir atburðir eru bara minnisstæðari en aðrir. Verð helst að láta mér detta eitthvað annað í hug en Icesave-samninginn. Sem betur fer er hjal mitt um þetta ábyrgðarlaust. Öfunda ekki alþingisþingmenn. Horfði á umræður á Alþingi í sjónvarpinu síðastliðinn föstudag. Guðlaugur Þór fyrrverandi heilbrigðisráðherra hafði hátt. Fyrir mér verður hann aldrei annað en Gulli Þórðar löggu. Þekkti hann nefnilega þegar hann var smápolli í Borgarnesi. Mér fannst margt í boðskap þeirra Gulla og Sigmundar Davíðs ekki ýkja merkilegt þó þeir hafi talað hátt og látið fara heilmikið fyrir sér. Menn skjálfa í hjáliðunum þegar sólkonungurin talar. Reyndar finnst mér Davíð Oddsson hafa nokkuð rétt fyrir sér þegar hann gagnrýnir Icesave-samninginn. Spurningin er bara hvað tekur við ef hann verður felldur. Ef rætt er um sofandahátt stjórnvalda undanfarin ár þá er Davíð svo sannarlega ekki undanskilinn. Ég vil heldur að núverandi stjórn haldi áfram þó það kosti Icesave-samninginn í núverandi mynd en að útrásarvíkingunum verði afhentir stjórnartaumarnir aftur. Davíð bjargar okkur ekki fremur nú frá þeim en þegar hann var seðlabankastjóri. Áhrifin sem Icesave-samningurinn hefur á ESB umsóknina er það afdrifaríkasta. Kannski hélt núverandi stjórn að auðveldara yrði með aðgönguna eftir en áður. Ég held hinsvegar að ESB aðild sé útilokuð í náinni framtíð ef eitthvað sem líkist núverandi Icesave-samningi verður samþykkt. Enda sé ég ekki að neinu máli skipti þó beðið verði enn um sinn með aðild. Ætlaði ekki að fjölyrða um Icesave. Get þó ekki látið það vera. Áhugaverðir tímar sem við lifum á. Hef trú á að við rífum okkur uppúr aumingjaskapnum. Ég er afskaplega lítið fyrir að fikta í stjórnborðinu hér á Moggablogginu. Satt að segja alveg skíthræddur við það. Einu sinni týndi ég gestabókinni minni og fann hana ekki aftur nema með því að hringja í Morgunblaðið. Gleymi samt alltaf að kíkja í hana. Athugsemdirnar eða kommentin eru betri. Rafpóstinn minn lít ég sjaldnar á en bloggið. Núna var ég að gera þá mikilvægu breytingu við stjórnborðið að heimsóknaboxið mitt er komið inn í birtingarboxið. Einhvern tíma flutti ég það víst út fyrir og þóttist góður. Sjálfum finnst mér bloggin mín góð eins og komið hefur fram. Ég er búinn að koma mér upp þeirri reglu (rithöfundarreglu) að punkta ýmislegt hjá mér í sérstakt word-skjal sem ég er jafnan með á USB-lykli. Þegar maður ætlar svo að blogga er gott að geta gripið hugmyndir þar því ekki er víst að manni detti neitt almennilegt í hug þegar á hólminn er komið. Kónguló, kónguló Söngluðum við krakkarnir í hvers skipti sem við sáum kónguló úti í móa. Sem var oft. Engan áttum við þó gullskóinn og hefði ekki dottið í hug að gefa hann frá okkur hefðum við átt hann. Svona hjávísindi og hindurvitni trúðum við ekki á. Að minnsta kosti ekki ég. Ef torskiljanleg orð voru í bænunum sem amma og mamma kenndu okkur systkinunum var ætíð fangaráðið að segja að þetta væru bara rímorð og þýddu svosem ekki neitt. Sitt af hverju lærði maður samt. Ég lærði að lesa hjá Sveinu í Grasgarðinum áður en ég byrjaði í skóla. Það þótti ekki mikið. Var bara metnaðarmál hjá foreldrum mínum. Man að pabbi fór upp í Reykjafoss og keypti handa mér bók sem hét Gusi grísakóngur" þegar ég var búinn að læra að lesa. Í fyrsta skipti sem ég komst að því að menn gátu átt bækur án þess að lesa þær varð ég alveg standandi hlessa. Ekki hafði mig grunað það. |
Brennið þið, vitar! á Dalatanga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2009 | 00:31
733 - Besti bloggarinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.7.2009 | 00:32
732 - Lára Hanna, blogg yfirleitt og fleira
Þó ég sakni Láru Hönnu úr blogginu er sá söknuður ekki eins og margra annarra. Flokkspólitískt séð finnst mér hún einum of vinstrisinnuð. Upphaflega skrifaði hún einkum um umhverfismál en eftir að bankahrunið kom til sögunnar hefur hún orðið æ pólitískari.
Ég þekkti Láru Hönnu nokkuð áður en hún byrjaði að blogga og dáist mest að henni fyrir söfnunaráráttuna. Hún heldur saman allskyns upplýsingum um þau mál sem hún tjáir sig um og veitir öllum sem vilja aðgang að því efni. Hún setur líka saman ýmsar upplýsingar á þann hátt að eftir er tekið og er ekkert að skafa utanaf hlutunum í því sem hún skrifar.
Það sem stendur mörgum fyrir þrifum við skriftir er óttinn við endurtekningar. Hugsunin fer í eilífa hringi og ekkert er við því að gera. Bloggið losar mig að minnsta kosti við endurtekningaróttann. Ég endurtek mig ekki oft í hverju bloggi. Þegar ég hef lokið við mína blogg-grein og sent hana út í eterinn eftir að hafa lesið hana sæmilega yfir bæði með tilliti til réttritunar og endurtekninga verður ekki aftur snúið. Ekki fer ég að breyta gömlum bloggum. Man ekki eftir að hafa leiðrétt blogg nema nokkurra mínútna gamalt.
Síðan endurtek ég mig sjálfsagt í einhverju framtíðarbloggi en við því er lítið að gera. Ekki einu sinni víst að aðrir taki eftir því.
Athugasemdirnar eru sér kapítuli. Þær les ég varla yfir og breyti engu enda held ég að ég geti það ekki eftir að þær eru einu sinni farnar frá mér. Þarna er ég bæði að tala um athugasemdir á mínu eigin bloggi og öðrum.
Farsímar, blog, msn, facebook, twitter og hvað þetta allt heitir er í óða önn að breyta heiminum. Að minnsta kosti þeim heimi sem við þekkjum. Ég er samt orðinn svo gamall að ég treysti mér ekki til að fylgjast með þessu öllu. Bloggið hentar mér ágætlega. Þar get ég látið móðann mása og svo eru þónokkrir sem láta svo lítið að lesa þetta. Meira get ég ekki farið fram á.
Siggi Árna, sem eitt sinn var formaður Verklýðsfélagsins í Hveragerði og baðvörður á sínum tíma í frægum leirböðum sem voru á hverasvæðinu skammt þar frá sem draugasundið kom seinna, var sannfærður kommúnisti og mikill aðdáandi alls sem rússneskt var. Hann keypti sér rússajeppa þegar farið að flytja þá inn og allir sem efni höfðu á því gátu fengið sér bíl. Sagt er að Siggi hafi strax skrúfað öll dekkin undan bílnum og farið með þau inn í stofu. Hleypt þar loftinu úr þeim og sagt með sælusvip: Júððnest loft, júððnest loft!!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.7.2009 | 00:07
731 - Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave er skynsamleg
Fyrst af öllu langar mig að rifja upp atburðina sumarið 2004 eins og þeir koma mér fyrir sjónir. Fjölmiðlafrumvarp sem hægt var að túlka þannig að það beindist einkum gegn fjölmiðlafyrirtæki Jóns Ásgeirs Jóhannessonar var samþykkt á Alþingi eftir talsverðar breytingar. Andstaða við frumvarpið var samt veruleg meðal þjóðarinnar. Forseti landsins Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta lögin og vísaði þeim til þjóðarinnar. Eins og ég skil stjórnarskrána hafði hann fulla heimild til þess og að því gerðu áttu lögin að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Þáverandi ríkisstjórn tókst samt að koma því til leiðar, með því að afturkalla lögin, að ekkert varð úr þjóðaratkvæðagreiðslu og þannig gat hún haldið áfram sinni útrásarstefnu og komist hjá þeirri hneisu að vera ef til vill gerð afturreka með fjölmiðlafrumvarpið. Það er svo til marks um það hve pólitíkin er skrítin tík að nú er synjun Ólafs af sumum talin hafa orsakað bankahrunið síðastliðið haust. Í síðustu kosningum kaus ég Borgarahreyfinguna en styð eins og er núverandi ríkisstjórn þó fulltrúar mínir á Alþingi geri það ekki. Ríkisstjórnin hefur þó alls ekki gengið nógu langt í því að leita réttlætis og fá örgustu útrásarvíkingana og þá sem sannanlega hafa brotið lög dæmda til sanngjarnrar hegningar og upptöku eigna. Ég er á móti því að Icesave-samningurinn verði samþykktur í sinni núverandi mynd. Auðvitað má leiða að því líkur að það verði ekki til góðs að fella ríkisábyrgðarfrumvarpið. Sú áhætta er þó ekki mikil. Þeir aðilar sem um þetta véla fyrir hönd Breta og Hollendinga hljóta að vilja leysa málið á friðsamlegan hátt. Í samninginn vantar ýmislegt og einkum marktækt öryggisákvæði. Eins og samningurinn er núna er áhættan öll okkar ef illa fer. Afstaða ríkisstjórnarinnar mun þó ráða miklu í þessu sambandi. Ef til vill tekst henni að koma því til leiðar, með því að hóta afsögn ella, að nægilega margir af þingmönnum stjórnarflokkanna greiði ríkisábyrgð atkvæði sitt. Takist ríkisstjórninni að fá frumvarpið um ríkisábyrgðina á Icesave-samningnum samþykkt getur vel orðið um svipaða atburðarás að ræða og varð sumarið 2004. Þegar er komin fram á Netinu síða þar sem fólk getur skráð sig til áskorunar á forsetann um að undirrita ekki ríkisábyrgðina á Icesave. (kjosa.is) Fari svo að samþykkt verði á Alþingi að ríkið ábyrgist núverandi samningsdrög um Icesave kann vel að vera að ég skrifi mig á þennan lista. Fari síðan svo að Ólafur Ragnar forseti neiti undirskrift og ef ríkisstjórnin reynir síðan að hundsa á svipaðan hátt og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar stjórnarskrárákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu get ég varla stutt hana lengur. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.7.2009 | 00:21
730 - Flokkapólitík, kúlulán og Guðni Ágústsson
Í sem allra stystu máli lítur flokkapólitíkin svona út frá mínu sjónarmiði: Framsóknarflokkur - Við höfum kastað öllum okkar syndum bak við okkur. Hvernig lendir fólk í Kúluflokknum? Nú hefur DV sett þau Kristján Arason og Þorgerði Katrínu í þann eðla flokk. Eru ekki allir útrásarvíkingarnir örugglega í Kúluflokknum? Hefur þetta ekki eitthvað með kúlulán að gera? Ég skil þetta ekki almennilega. Ein af þeim bókum sem ég fékk á Bókasafni Kópavogs um daginn var bókin Guðni - af lífi og sál." Þessi bók er eftir Sigmund Erni Rúnarsson og kom út árið 2007. Fjallar um Guðna Ágústsson að sjálfsögðu. Á einni af allra fyrstu síðum bókarinnar kemur eftirfarandi setning eftir skáldlegan inngang höfundar sem eðlilega gerist heima hjá Guðna: Hjónakornin eru að leggja yfir Ölfusána í enn eitt skiptið." Síðan er ferðalaginu og öllu sem því tengist lýst með afar skáldlegum hætti og ekki alveg einfalt að finna út hvert ferðinni er heitið. Nokkru seinna kemur samt í ljós að ferðin liggur um Kambana og er heitið til Reykjavíkur. Þar með ofbauð mér svo staðkunnátta höfundar að ég hætti að lesa og er ekki viss um að ég taki til við bókina aftur. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)