Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

749- Rökræður vs. kappræður

Fyrir atkvæðagreiðsluna um aðildarumsóknina að ESB fylgdist ég nokkuð með umræðum á Alþingi. Enginn vafi er að kappræðuhefðin er ríkjandi meðal okkar Íslendinga. Alið er á henni í skólum og kennt að líta á sigur á andstæðingnum sem mikilvægari en eðli málsins. Þetta var áberandi í umræðunum. Framkoma sumra þingmanna var beinlínis stráksleg. Þeir virtust halda að því hærra sem talað væri og meiri gífuryrði notuð því betra. 

Áríðandi er að ná góðri samstöðu um mikilvæg mál. Rökrétt niðurstaða eða sigur á andstæðingnum er miklu minna virði. Þannig náðist mjög góð samstaða um lýðveldisstofnunina á sínum tíma þó menn greindi í upphafi á um leiðir. Sama verður vonandi uppá teningnum þegar kemur að aðild Íslands að ESB. Andstæðingar aðildar fara þó mikinn og notast mjög við kappræðuhefðina.

Á blogginu blandast kappræðuhefðin oft fúkyrðaflaumi svo miklum að flestum ofbýður. Það slæma orð sem bloggið hefur á sér er einkum þeim að kenna sem stunda fúkyrðaflauminn sem ákafast. Vel er hægt að ræða viðkvæm mál án þess að temja sér þann æsing og persónulega skítkast sem oft ríkir í bloggheimum.

Aðalgallinn við Icesave-samninginn er að það er hvorki hægt að samþykkja hann eða fella. Alþingismenn eru í verulegum vanda í þessu máli. Eitthvað er hægt að styðjast við forystumennina en samt er það takmarkað. Langflestir Alþingismenn vilja greiða atkvæði í samræmi við samvisku sína. En hvernig á að komast að niðurstöðu um Icesave. Moldviðrið sem þyrlað er upp varðandi þetta mál er með ólíkindum. Málið er líka svo afdrifaríkt og flókið að lengra verður varla komist.

Davíð var sjósettur um daginn með pompi og pragt. Ekki hef ég lesið það sem efir honum var haft. Ingibjörg Sólrún var svo til jafnvægis dregin fram af Samfylkingunni. Gallinn er sá að hvorugt þeirra skiptir máli lengur. Þau eru bæði fulltrúar gærdagsins og úr sér genginnar hugmyndafræði. Ekki þar fyrir að ágætt væri að geta aftur horfið til þeirra áhyggjulausu daga þegar Geir og Solla litla komu út úr Þingvallabænum og hann kyssti hana á kinnina og hún setti töskuna á bakið og valhoppaði í burtu.

Og fjórar myndir:

IMG 3564Take me to your leader.

IMG 3566Þetta er geimfarið mitt - eða ekki.

IMG 3617Frá Borgarnesi.

IMG 3644Drullupyttur.


748- Þjóðaratkvæðagreiðslur

Á Íslandi er lítil hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum. Síðasta þjóðaratkvæðagreiðslan sem hér var haldin var um lýðveldisstofnunina árið 1944. Þá var tveimur spurningum svarað. Annars vegar hvort segja skyldi sambandslögunum upp og hins vegar hvort taka skyldi upp nýja stjórnarskrá. Sú stjórnarskrá var í raun gamla stjórnarskráin sem okkur var færð árið 1874 af Kristjáni níunda með allra nauðsynlegustu breytingum þó.

Engin ákvæði eru í stjórnarskránni eða lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Í stjórnarskránni er aðeins sagt að slík atkvæðagreiðsla skuli fara fram við vissar aðstæður.

Af þessu leiðir að þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-samninginn getur ekki orðið bindandi nema stjórnarskránni verði breytt. Nær óhugsandi er þó að ríkisstjórn gangi gegn vilja þjóðarinnar sem fram kæmi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnarskránni verður ekki breytt nema tvö þing samþykki það og kosningar séu á milli.

Þetta er einkum ástæðan fyrir deilunum um bindandi eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði greitt þjóðaratkvæði um inngöngu Íslands í ESB á kjörtímabili núverandi stjórnar getur hún setið áfram án þess að boða til kosninga.

Sumarið 1959 var kosið tvívegis. Kjördæmaskipuninni var gjörbreytt í millitíðinni. Síðan hafa stjórnarskrárbreytingar verið fyrirferðarlitlar og verið samþykktar af þingum sitt hvoru megin við kosningar.

Fyrir atkvæðagreiðsluna um lýðveldisstofnunina skiptust menn í hraðskilnaðarmenn og lögskilnaðarmenn. Hraðskilnaðarmenn vildu segja sig úr lögum við Dani strax en lögskilnaðarmenn vildu bíða eftir að heimsstyrjöldinni lyki og ganga frá málum í sátt við Dani. Enginn vafi lék á um rétt okkar til að slíta sambandinu. Frá því var gengið í sambandslögunum frá 1918.

Mál fóru þannig að hraðskilnaðarmenn unnu mikinn sigur og lýðveldisstofnunin fór fram í mikilli eindrægni. Danir voru þó lengi sárir og reiðir okkur Íslendingum fyrir framkomuna í þessu máli.

Þegar við Íslendingar munum ganga til atkvæða um ESB-samning eftir fáein misseri munu langflestir greiða í fyrsta skipti atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það verður vonandi til marks um nýja tíma á Íslandi.

Æskilegast er að úrslitin verði afgerandi því hætt er við að mjög naumur sigur á annan hvorn veginn sætti þjóðina ekki og áfram verði deilt um þetta mikilvæga mál.

 

747 - Reiðin

Margir merkir biskupar hafa setið í Skálholti. Meðal þeirra er Jón Þorkelsson Vídalín (1666 -1720). Hann er frægastur fyrir postillu sína eða húslestrarbók sem út kom að honum látnum. Hann varð biskup árið 1697. 

Vídalínspostilla er með merkustu ritum sem skrifuð hafa verið á íslensku. Hún var mikið lesin í næstum tvær aldir og endurprentuð hvað eftir annað. Áhrif hennar á íslenska menningu eru mikil.

Einn frægasti lesturinn í Vídalínspostillu er reiðilesturinn. Hann skal lesa á sunnudegi þeim sem lendir á milli Nýjársdags og Þrettándans.

Ég hef heyrt þennan lestur og hann er óhemjukröftugur. Þar líkir Jón reiðinni við spilverk djöfulsins. Hún gerir menn sturlaða. Reiður maður er vitlaus. Án alls vits. Hún nagar menn innan og eyðileggur þá. Gerir þá hamstola og vitfirrta.

Því minnist ég á þetta að reiði og sárindi sitja svo í mönnum eftir bankahrunið hér á landi á síðasta ári að sálarlífi þeirra er hætta búin. Ekki er þó auðvelt að fyrirgefa þeim sem hruninu ollu en nauðsynlegt samt.

Á margan hátt getum við sjálfum okkur um kennt hvernig fór. Afar fáir leituðu gegn straumnum. Ríkisvaldið sjálft brást þó það ætti að vera okkar öruggasta haldreipi. Einstaklingsfrelsið, gróðinn  og skemmtunin voru allsráðandi. Samhyggja, meðlíðan og hugsjónir voru hlægilega gamaldags.

Hið nýja Ísland verður því aðeins skapað að allt verði hugsað uppá nýtt og áhersla lögð á það sem sameinar en ekki það sem sundrar.  

 

746- Nú er ESB að baki. Næst þarf að losna við Icesave

Því skyldi ég vera að fjargviðrast útaf smámálum eins og ESB og Icesave á mínu bloggi. Margt annað er miklu skemmtilegra. 

Að það skuli vera sjónvarpsfrétt að steypa sé keyrð í hjólbörum finnst mér fyndið. Steypuhrærivél sem knúin var fótafli (ekki handafli) manna sá ég eitt sinn í fullri fúnksjón við Mývatn og þótti merkileg. Svo merkileg að ég tók mynd af henni en get því miður ekki fundið myndina núna. Steypuhrærivélar knúnar hestafli voru ekki sérlega merkilegar áður fyrr.

Ef ekki var verið að steypa þeim mun meira var steypa oftast hrærð í höndunum áður fyrr. Oft hef ég unnið við slíkt.

Ég hef sjaldan orðið jafn undrandi og síðastliðið miðvikudagskvöld. Þá horfði ég á sjónvarpsviðtal við Þór Saari þar sem hann sagði blygðunarlaust að atkvæði þeirra þremenninga hjá Borgarahreyfingunni væru til sölu og þau væru tilleiðanleg til að hætta við að svíkja áður gefin heit ef þeim væri borgað nógu mikið fyrir. Þarna var hann væntanlega að tala fyrir hönd þeirra Margrétar Tryggvadóttur og Birgittu Jónsdóttur auk sín. Það er alveg öruggt að ég kýs ekki Þór Saari oftar til að fara með mín mál á Alþingi og mun reyna að forða þjóðinni frá frekari afskiptum hans af stjórnmálum.

Hrossakaup og allskyns óáran hefur lengi viðgengist í íslenskum stjórnmálum en að þingmaður auglýsi í sjónvarpinu atkvæði sitt til sölu er nýjung sem ég kann ekki að meta.

Ég er ekkert dagblað og þarf því ekki að segja skoðun mína á gærdeginum (fimmtudeginum 16. júlí ) Ánægjulegt er þó deilunum um umsókn að ESB skuli vera lokið í bili. Nú fyrst geta raunverulegar deilur um þetta mál hafist. Hingað til hafa menn einkum verið að deila um formsatriði. Andstæðingar ESB-aðildar segjast vissir um að mikill meirihluti landsmanna sé á móti ESB-aðild. Ég er ekki viss um að svo sé. Skoðanakannanir hafa hingað til einkum snúist um framkvæmd málsins en ekki eðli þess. Allmargir hafa myndað sér skoðun á málinu sem vel gæti þó orðið önnur ef niðurstaða viðræðna gefur tilefni til þess.

Þegar að því kemur að greiða atkvæði um samning sem ESB og samninganefnd Íslands væntanlega leggja fyrir þjóðina getur vel komið til greina fyrir andstæðinga aðildar að veifa landráðaspjaldinu sem þeir hafa reyndar ofnotað undanfarið.

Og nokkrar myndir:

IMG 3489Sólblóm.

IMG 3490Sól og blíða í grasagarðinum.

IMG 3500Blóm eitt fagurt.

IMG 3511Íslensk blóm og íslenskir steinar.

 

745- Ellefta Landsmót UMFÍ að Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu

Dagana 1. til 2.júlí árið 1961 var 11. Landsmót Ungmennafélaganna haldið að Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu.

Auðvitað er fremur langt þangað frá Hveragerði. Samt sem áður fórum við á Landsmótið nokkrir strákar úr þorpinu því.

Við fórum með Sigga í Fagrahvammi. Hann fékk lánaðan bílinn pabba síns og keyrði þangað í einum rykk. Sennilega voru Raggi Christiansen og Kalli Jóhanns með okkur í för. Bíllinn man ég að var Volkswagen.

Útilegubúnað höfðum við með okkur og tjölduðum eins og fínir menn. Þarna var talsvert fjör þó ekki muni ég eftir neinu sérstaklega markverðu. Auðvitað reyndum við allir að komast á séns en sú viðleitni bar aðeins árangur hjá Kalla. Það var bara að hans eigin sögn svo kannski er ekkert að marka það. Man samt að hann þóttist hafa skorað.

Á heimleiðinni gerðist tvennt sem ég man vel eftir. Annars vegar var það klæðisbútur sem festur var við girðingu sem vakti athygli okkar. Það var þó ekki fyrr en of seint að við áttuðum okkur á því að klútnum var ætlað að vara við stórhættulegu hvarfi í veginum. Fyrir einhverja heppni og bílstjórakunnáttu Sigga komumst við þó klakklaust yfir hvarfið þó hraðinn væri alltof mikill.

Hitt atvikið átti sér stað einhvers staðar á Sprengisandi að ég held. Þá var Siggi orðinn syfjaður og þreyttur og flautaði hátt og lengi á vörðu sem hann var sannfærður um að væri rolla.

Ein af mínum bernskuminningum mínum er líka um Landsmót sem þá var haldið í Hveragerði. Þar horfði ég á íþróttamenn sem hoppuðu léttilega yfir kaðalgirðingu sem sett hafði verið upp á skólatúninu milli gamla og nýja barnaskólans. Þetta mun hafa verið árið 1949. Á þessu landsmóti varð sá frægi atburður að fyllibyttur voru settar í poka sem hengdir voru upp í frystihúsinu sem seinna varð Steingerði. Eftir sögusögnum sem gengu í Hveragerði var Hörður á Kvennaskólanum í þeim hópi.

Og fjórar myndir að lokum

IMG 3452Fuglahús í grasagarðinum.

IMG 3457„Ertu að taka mynd af mér?"

IMG 3466Víkingaskip.

IMG 3477Selur í letikasti.

 

744 - Það er nú svo

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að umsókn um aðild að ESB væri umsókn um aðild en ekki einhvers komar ábyrgðarlausar könnunarviðræður. Þjóðaratkvæðagreiðsla fari síðan fram um þann samning sem samninganefndirnar koma sér saman um ef þær koma sér saman um eitthvað. Ég hef ekkert haft á móti því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi einnig fram um það hvort leyfa skuli stjórnvöldum að sækja um aðild. Það skemmir alls ekki fyrir samninganefndinni en tefur málið eitthvað. 

Nú virðist sú aðferð einkum vera notuð sem hálmstrá fyrir andstæðinga aðildar og stuðningur við formenn stjórnmálaflokka sem vilja umfram allt halda aga innan sinna flokka í þessu máli og skaða ríkisstjórnina. Stuðningur er á Alþingi við umsókn um aðild. Hvort þjóðaratkvæðagreiðsla um þann samning sem væntanlega næst eftir nokkur ár verður sigur eða tap fyrir þá sem aðild vilja á alveg eftir að koma í ljós.

Kommentin við blogg Birgittu Bergþórudóttur eru gríðarlega mörg. Ekki hef ég í hyggju að bæta neinu þar við þó ég hafi kosið Borgarahreyfinguna í síðustu kosningum og mamma hennar sé á hausmyndinni hjá mér.

Ég hef aldrei skráð mig á Facebook. Samt sem áður hafa stjórnendur þar komist yfir netfang mitt enda er það ekki erfitt. Síðan hafa þeir látið einhverja sjálfvirka vél skrifa mér eftirfarandi bréf:

---------------------------------------------

Hi Sæmundur,

You haven't been back to Facebook recently. You have received notifications while

you were gone.

You have the following notifications:

2 friend requests

Thanks,

The Facebook Team

---------------------------------------------

Síðan fylgja einhverjar leiðbeiningar um hvernig ég á að komast hjá því að fá fleiri svona bréf í framtíðinni.

Ég kann ekki að meta þetta. Ef ég vil vera laus við Facebook þá finnst mér að ég eigi að geta verið það í friði. Meira hef ég eiginlega ekki um þetta mál að segja.

1970 til 1978 bjó ég að Vegamótum á Snæfellsnesi. Myndirnar fimm sem hér fylgja eru teknar þar. Fengnar hjá Bjössa bróður.

ve1Þarna erum við að flytja borðtennisborðið mikla frá Breiðabliki til að setja upp í sláturhúsinu. Mér er sagt að maðurinn með skeggið sé ég. Bíllinn undir tennisborðinu er samt ekki minn bíll því aldrei varð ég svo frægur um dagana að eignast toppgrind. Afturendinn á Pésa sést og á myndinni.

ve2Þarna held ég á Pésa og Hafursfellið er í baksýn. Ekki virðist Pési alveg kunna að meta þetta.

ve3Bensínskúrinn á Vegamótum. Alltaf þarf Pési að troða sér inn á allar myndir. Þarna er hann að taka olíu.

ve4Veitingahúsið.

ve5Búðin og sláturhúsið.

 

743 - Eitt og annað fréttatengt - og þó

Langt er gengið þegar eitt blogg er notað til að vekja athygli á öðru sem var að vekja athygli á enn öðru. Þannig er þetta samt með mig. Var í dag að lesa bloggið hans Jens Guðs þar sem hann vekur athygli á Guðna Karli Harðarsyni og bloggi hans. Mér finnst Jens alls ekki vera að gera grín að Guðna þó sumir virðist halda það. Sjálfur kannast ég vel við nafn Guðna þó ég hafi alls ekki lesið bloggið hans reglulega. Mér virðist hann vera einlægur andstæðingur ESB og þó ég sé það ekki finnst mér hann áhugaverður um margt. Ævisaga hans fæst fram með því að smella á myndina af honum.

Það er ekki nóg með að Alþingismenn séu búnir að eyðileggja liðinn „óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra" og gera hann að sjónarspili í pólitísku karpi heldur eru þeir einnig búnir að eyðilegga liðinn „athugasemdir við störf þingsins" og liðurinn „athugasemdir við störf forseta" er á sömu leið.

Af einhverjum ástæðum er forseti þingsins hættur að framfylgja þeirri reglu að þingmenn haldi sig við efnið. Einhvern pata virðast þeir líka hafa af því að nokkur fjöldi fólks fylgist með sjónvarpsútsendingum frá Alþingi. Þar með er þetta fyrst og fremst orðinn vettvangur pólitískra þrætumála vegna þess að lesendum karpsins í pólitískum dagblöðum hefur fækkað.

Þingmönnum er talsverð vorkunn. Möguleikum þeirra til að ná til fólks er þröngur stakkur skorinn. Flestir eru önnum kafnir við aðra hluti en að hlusta á þá og treysta þeim til að ráða fram úr sínum málum. Jafnan er hugtakið „þjóðaratkvæðagreiðsla" þingmönnum ofarlega í huga en þegar á reynir er ríkjandi stjórnvöldum fátt mikilvægara en að koma í veg fyrir slíkan ósóma.

Með þessu er ég ekki að leggja neitt til málanna um einfalda eða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu í ESB-málinu eins og virðist vera mál málanna nú. Það er bara þreytandi til lengdar að horfa uppá hræsni og yfirdrepsskap þeirra sem kosnir hafa verið til þingstarfa.

Guðbjörn Guðbjörnsson (gudbjorng.blog.is) er langheiðarlegasti sjálfstæðismaðurinn sem ég hef heyrt í lengi. Blogg-greinar hans er oft langar en alltaf læsilegar og verulega athyglisverðar. Sú nýjasta þeirra sem birtist í dag og höfundur nefnir: „Ótrúverðugur málflutningur minna manna - talandi um skoðanankúgun" er einhver sú besta sem ég hef lesið um pólitík dagsins í dag.

 

742- Gamli skátaskálinn í Reykjadal

hv30
hv31

Þessar myndir eru af skálanum sem eitt sinn stóð í Klambragili innst í Reykjadal og eru teknar skömmu eftir 1970 af Sigurbirni Bjarnasyni í Hveragerði.

Fyrri myndin er innan úr Klambragilinu og öllu skýrari. Sú mynd er tekin nokkurn vegin af þeim stað þar sem hverinn var sem notaður var til að hita skálann upp. Venjulega þurfti að byrja á því að koma hitanum í gagnið þegar komið var í skálann og gekk það misjafnlega.

Seinni myndin er tekin úr norðurátt og er eins og skálinn blasti yfirleitt við okkur þegar við komum uppeftir úr Hveragerði. Dyrnar inn í skálann eru semsagt í norðausturhorni hans. Birtan sýnir að báðar myndirnar eru teknar fyrri hluta dags.

Skálinn mun hafa verið reistur um 1950 af Ungmennafélagi Ölfusinga sem þá starfaði í Hveragerði og nágrenni. Efnið í skálann var flutt með bílum að sunnanverðu fram á brúnina innst í Klambragilinu og borið þaðan á byggingarstað en ekki flutt upp Reykjadalinn eins og sumum kynni að finnast eðlilegast. Bílar hafa aldrei í Reykjadalinn komið mér vitanlega. Skátarnir í Hveragerði notuðu þennan skála talsvert með leyfi Ungmennafélagsins.

Skálinn fauk og eyðilagðist einhverntíma fyrir 1990. Þá hafði hann verið í nokkurri niðurníðslu um tíma og í raun var aldrei að fullu lokið við hann. Nokkru fyrir árið 2000 höfðu björgunarsveitirnar í Hveragerði og Vestmannaeyjum ákveðið að reisa nýjan og veglegan skála skammt frá þeim stað sem þessi stóð á. Nokkurt efni var flutt á staðinn og reknar niður undirstöður fyrir skálann.

Ekki varð þó úr framkvæmdum og fauk efnið og flæktist um víðan völl. Nokkrum árum seinna vildi svo Orkuveita Reykjavíkur reisa skála í dalnum en Ölfushreppur vildi ekki leyfa að nema einn skáli væri í þar. Í samningaviðræðum við áðurnefndar björgunarsveitir fékk Orkuveitan leyfi til að byggja skála gegn því að þrífa til í dalnum. Sá skáli var talsvert uppi í hlíðinni í nokkurri fjarlægð frá heita læknum og brann til kaldra kola fyrir skömmu.

Skátafélag Hveragerðis starfaði af nokkrum krafti um 1950. Félagsforingi var Guðmundur Ingvarsson. Ég tók þátt í starfi félagsins og minnist þess að í byrjun var ég í skátaflokki sem Grétar Unnsteinsson síðar skólastjóri Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi stjórnaði. Fundir voru vikulega og Grétar las á hverjum fundi framhaldssöguna um frumskógadrenginn Rútsí. Um það leyti sem ég hætti í skátafélaginu var ég orðinn sveitarforingi ásamt þeim Jóa á Grund og Atla Stefáns, en það er önnur saga.

Útilegur voru talsvert stundaðar af félaginu og gjarnan farið í skálann í Reykjadal. Vinsælar voru nokkurra daga útilegur og þá var legið við í skálanum og farið í gönguferðir um nágrennið. Í eitt skipti vorum við þar um páskaleytið og fórum gangandi alla leið í einn eða fleiri af skálum Reykjavíkurskáta við Skarðsmýrarfjall. Víða var farið um nágrennið eins og til dæmis á Hrómundartind, Súlufell og að Kattartjörnum og Djáknapolli. Hengillinn var ekki fyrir alla en ég man eftir að hafa gengið á Skeggjann ásamt þeim Skaftasonum Jósef og Jóhannesi.


741- Það er svo margt ef að er gáð

Fjöldi Moggabloggara sem skrifar um stjórnmálaástandið er svo mikill að mér er ofaukið. Held samt að hraði við ESB-umsókn skipti litlu máli varðandi möguleika okkar á því að taka upp Evru. En sleppum því.

Í gær hlustaði ég dálítið á útvarp. Meðal annars á endursögn Jóns Björnssonar á hinni frægu för Ása-Þórs og Útgarða-Loka til Geirröðarstaða. Margar eru þær frásagnirnar í fornum ritum sem vel mætti endursegja með nútímaorðalagi. Minnisstæðust af slíku er mér Þrymskviða og allt sem henni tengist. Óperur sem upp úr henni hafa verið samdar og margt annað. Þrymskviða er einstök meðal fornkvæða því hún er eingöngu skemmti- og grínkvæði. Eitt sinn kunni ég hana og upphafið kann ég að mestu ennþá:

Reiðr vas þá Vingþórr
es hann vaknaði
og síns hamars
of saknaði.

Skegg nam at dýja
skör nam at hrista.
Réð Jarðar burr
umb at þreifask.

Einhvern vegin svona var þetta. Með réttum orðskýringum er þetta kvæði stórskemmtilegt og efni þess bráðfyndið. Mikinn fjölda frásagna um Ása-Þór og hina fornu guði er að finna í Gylfaginningu Snorra Sturlusonar. Einnig eru fornkvæði og Íslendingasögur uppspretta margra góðra frásagna.

Jón þessi Björnsson er merkilegur maður. Hætti sem félagsmálastjóri og fór að ferðast um allt á reiðhjóli og skrifa bækur og gerði meðfram því stórgóða útvarpsþætti. Þátturinn sem ég hlustaði á var endurflutningur.

Hef lesið að minnsta kosti eina bók eftir Jón þar sem hann lýsir för sinni á reiðhjóli frá Póllandi og suður allan Balkanskaga og til Tyrklands. Sú lýsing er meðfram menningarsaga svæðisins sem hann ferðast um og stórfróðleg sem slík.

Hlustaði líka á upphaf erindis Lindu Vilhjálmsdóttur um sjómannalög og Sjöstjörnuna. Held að hún hafi líka rætt um eigin skáldskap og ýmislegt fleira. Rétt er það að Sjöstjarnan tengist mjög sjómönnum. Sjöstirnið er þetta fyrirbrigði líka kallað enda um hóp stjarna að ræða sem sumir segja að séu sjö en aðrir fleiri.

Þegar ég var að alast upp voru þekktustu himintáknin (auk tungls og sólar) Sjöstirnið og Fjósakonurnar ásamt Pólstjörnunni auðvitað. Fjósakonurnar eru þær þrjár stjörnur sem mynda belti Óríóns. Pólstjörnuna er alls ekki gott að finna nema með því að þekkja Karlsvagninn (öfug fimma) og vita að í rauninni snýst hann í kringum Pólstjörnuna. Seinna kynnti ég mér svo dálítið stjórnufræði og lærði að þekkja allnokkur stjörnumerki og ýmislegt fleira.

Blogg eiga að vera stutt og því er best að hætta núna.


740- Sagan af Ásmundi vinstri græna úr Dölunum

sýnir fyrst og fremst að stjórnmálamenn yfirleitt eru skíthræddir við þjóðaratkvæðagreiðslur. Kannski finnst þeim það vera eitthvert vantraust á þingmannsheiður sinn og vissulega er það rétt. Tímasetning slíkra atkvæðagreiðslna og um hvað er nákvæmlega kosið skiptir auðvitað máli, en ef alþingismenn treysta fólki til að kjósa sig af hverju ekki að treysta því sama fólki til að kjósa um erfið mál? Nei annars það er alveg rétt, þingmenn eru ekki nema að litlu leyti kosnir. Aðallega eru þeir skipaðir af formönnum fjórflokksins. Þessvegna eru þeir líka svona hræddir. 

Ríkisstjórninni finnst hún þurfa að hafa taumhald á sínu fólki. Ef stjórnarandstöðunni gengur betur að múlbinda sitt fólk þá er það bara þannig. Líklega rennur þetta mál samt allt út í sandinn. En ekki verður hjá því komist að taka ákvörðun í Icesave-málinu. Þessi tvö mál koma til með að taka alla athygli þingmanna næstu vikurnar.

Og svo eru það fáeinar myndir úr góða veðrinu í dag: Geit, hreindýr, hani, selur og önd. Öll með heimilisfang í húsdýragarðinum.

IMG 3438IMG 3442IMG 3443IMG 3476IMG 3496


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband