Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

444. - Áframhaldandi vísnastagl

Séra Helgi Sveinsson sem lengi kenndi við Barna- og Miðskólann í Hveragerði gerði oft skínandi góðar vísur. Þessa gerði hann um Vigni bróðir minn.

Þó að skyggnist þoka um grund.
Þó að rigni á vegi.
Þó að Vignir vökni um stund
viljinn dignar eigi.

Kannski var eftirfarandi vísa að einhverju leyti runnin undan rifjum Séra Helga. Hún varð til í skólanum í Hveragerði þegar festa þurfti pýþagórasar-regluna í minni nemenda.

Ef spurningin skyldi skella á mér
Skeð gæti verið ég teldi.
Langhlið í öðru jafnt skammhliða skver
og skammhlið í öðru veldi.

Einhver kennarinn hafði að orðtaki „skeð gæti verið" og gott ef annar kennari talaði ekki oft um að spurningar og sitthvað fleira skylli á sér. Þessvegna er vísan enn sniðugri en ella.

Þessi braghenda ku vera eftir Árna Óla:

Það sé ég á þínum fótum þýð mær.
Að þar sem mætast þykk lær
þar er enginn kotbær.

Selaskytta ein sem Friðrik hét hafði að orðtaki þegar selurinn lá: „Heppinn var ég núna." Ef skotið virtist á hinn bóginn ekki gera selnum neitt sagði hann jafnan „hitti á bein." Eitt sinn var Friðrik þessi fenginn til að fylgja stúlku yfir fjallveg og segir ekki af ferðum þeirra. Níu mánuðum seinna ól stúlkan samt barn og kenndi Friðriki. Þá var ort:

Friðrik hitti faldarein
fagurlega búna.
Hann hefur ekki hitt á bein
heppinn var hann núna.

Á sínum tíma las ég talsvert eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Meðal annars er mér minnisstætt þegar hann lýsti því hvernig nafnið á einni bók kom til hans í svefnrofunum eftir að hann hafði velt nafni á hana lengi fyrir sér. Það var bókin „Ég veit ekki betur", sem þannig fékk nafn. Hagalín var góður og skemmtilegur rithöfundur og ég held ég hafi lesið allar sjálfsævisögulegu bækurnar hans. Ég man vel að eftirfarandi vísa var í einni þeirra og mér þótti hún afskaplega djörf í þá daga. Hún er svona:

Þú er Manga þægileg
þar af ganga sögur.
Æ, mig langar uppá þig
eikin spanga fögur.

Bullvísur í Æru-Tobba stíl eru oft skemmtilegar. Tobbi var oft fyndinn og þrátt fyrir bullið er hann yfirleitt með stuðlasetninguna á hreinu. Mér er minnisstæð ein vísa eftir hann. Kannski er það vegna þess að ég er ættaður úr Ölfusinu eða nánar tiltekið úr Hveragerði. Vísan er svona:

Urgara surgara urra rum.
Illt er að vera í Flóanum.
Þambara vambara þeysings klið.
Þó er enn verra Ölfusið.

Næstu þjár vísur eru úr ýmsum áttum og eflaust eftir ýmsa höfunda. Sameiginlegt eiga þær það að engin þörf er á útskýringum.

Er við sáum áfram líða
allan þennan meyjafans.
Þyngdarlögum hætti að hlýða
hluti nokkur líkamans.

Rösklega er riðið í hlað
rétt fyrir sólarlagsbil.
Ég er nú hræddur um það
það er nú líkast til.

Það að yrkja er þjóðargaman.
Þetta er fyrri hendingin.
Vísu þessa setti ég saman.
Svona verður endingin.

Jæja nú er ég hættur. Ef ég set saman svona vísnaþátt bráðlega aftur þá má búast við að Káinn eigi eitthvað þar. Það voru einmitt að rifjast upp fyrir mér fáeinar snilldarvísur eftir hann.


443. - Nokkrar vísur og tilurð þeirra

Gestur á Hæli (til að fyrirbyggja allan misskilning og sýna hve gáfaður ég er skal tekið fram að bærinn heitir Hæll en ekki Hæli.) var einhvern tíma við messu hjá tveimur prestum í Eyrarbakkakirkju. Þegar hann var spurður um hvernig honum hefði litist á predikanir þeirra svaraði hann með eftirfarandi vísu:

Annar lapskáss bar á borð
og beinakex fyrir náðarorð.
Hinn gaf okkur harðan fisk
og hangikjöt á silfurdisk.

Um daginn setti ég eftirfarandi vísu í komment sem ég skrifaði við blogg eitt. Mér láðist að segja að ég hefði alls ekki gert þessa vísu eins og ég hefði átt að gera. Vísan fjallar um mann sem var að flytja ræðu á fundi. Að öðru leyti skýrir hún sig að mestu leyti sjálf.

Ætti ég nokkuð að leggja honum lið
eða láta hann einan mala
Hann ætlaði að hugsa en hætti við
og hélt bara áfram að tala.

Maður nokkur mætti léttklæddri konu á förnum vegi og varð að orði:

Vandalítið virðist mér
víf að fletta spjörum.
Ég sé í anda brjóstin ber
og bros á neðri vörum.

Þessi þarf engar skýringar. Oft eru slíkar vísur þær bestu.

Oft er mínum innri strák
ofraun þar af sprottin.
Í mér tefla einatt skák
andskotinn og drottinn.

Þorsteinn Dalasýslumaður var mikill bókasafnari. Vafi lék á um uppruna sumra bókanna. Þegar hann dó var þetta kveðið og varð samstundis landfleygt.

Fallega Þorsteinn flugið tók.
Fór um himna kliður.
En Lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.

Mig minnir endilega að eftirfarandi vísa sé eftir þjóðþekkt skáld, jafnvel Stein Steinarr, en er þó ekki viss:

Hýsi ég einn mitt hugarvíl
því hrundir engar þekki.
Sumir hafa sexappíl
en sumir hafa það ekki.

Þessi minnir mig að sé höfð eftir Haraldi Á. Sigurðssyni þeim fræga lífsnautnamanni og leikara sem einhverntíma sagði að næstum því allt sem eitthvað væri varið í væri annaðhvort ósiðlegt eða fitandi.

Margur er glaður maðurinn
og meyjan hneigð fyrir gaman.
Svo kemur helvítis heimurinn
og hneykslast á öllu saman.


442. - Um Texasbúann sem fór til Alaska og pínulítið meira

Líklega hef ég heyrt þennan brandara fyrst fyrir 1960. Þetta er svolítið groddalegur karlrembubrandari en var samt uppáhaldsbrandarinn minn í eina tíð.

Einhverju sinni fór Texasbúi til Alaska til að setjast þar að. Hópur svalra heimamanna sagði honum að til að geta talist maður með mönnum á svona útkjálka þyrfti hann að gera þrennt:

Drekka úr heilli brennivínsflösku.
Skjóta bjarndýr
og ríða indíánakerlingu

Texasbúinn féllst á að reyna þetta. Fékk brennivínsflöskuna og drakk úr henni vandræðalítið. Tók síðan byssuna sína og rölti út í skóg.

Segir síðan ekkert af ferðum hans fyrr en hann kemur aftur úr skóginum eftir drykklanga stund. Þá er hann allur rifinn og tættur. Fötin í henglum og hann alblóðugur. Djúp svöðusár um allan skrokk á honum og hann lítur í stuttu máli sagt hræðilega út en segir drafandi röddu:

"Hikk. Hérna hvar er.. Ég meina. Hikk. Hvar er þessi... Hikk.. indíánakerling sem ég átti að skjóta."

„Allt fór afsíðis sem gat farið afsíðis" segir í fyrirsögn eins af forsíðubloggurum Moggabloggsins. Mér finnst þetta vera afbökun á málshættinum: Allt fór úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis sem er auðvitað ekkert annað en íslenska útgáfan af svokölluðu lögmáli Murphys.

Sjálfur segi ég oft: „Það er ekki hundur í hættunni", af því að ég hef svo gaman af afbökuðum talsháttum. Vel gæti verið að einhverjir héldu að ég meinti þetta og jafnvel að þetta máltæki ætti að vera svona en við því er ekkert að gera.

Annars getur afbökun af þessu tagi bæði verið óhemju skemmtileg og algjör hörmung. Þarna getur verið erfitt að skera úr og alls kyns misskilningur vaðið uppi. Smekkur manna verður að ráða í þessu efni en dómharkan að víkja.

Margir eru andvígir því sem ég sagði í gær um mannanöfn. Verst er að eiga við þá sem eru svo heilagir að þeir telja að allt sem þeir segja hljóti að vera rétt og allir aðrir séu algjörir hálfvitar. Það er jafnvel algengara hvað mannanöfn snertir en margt annað að mikill vafi geti legið á um stafsetningu og beygingar.

Margir jesúsa sig yfir Söru Palin. Á Evrópskan mælikvarða er hún ansi hægrisinnuð sýnist mér. En forsetakosningarnar í Bandaríkjunum eru ekki vinsældakosningar í Evrópu. Ég er hræddur um að talsvert önnur viðmið séu gildandi varðandi stjórnmálaskoðanir í Bandríkjunum en í Evrópu.


441. - Um "háaldraða málfarsperverta" og málfar í bloggheimum almennt

Sigurður Hreiðar gagnrýnir stundum lélegt málfar. Mest að sjálfsögðu fjölmiðla eins og mbl.is og er það maklegt. Um daginn var hann að finna að því við Salvöru Gissurardóttur að hún fallbeygði ekki kvenmannsnafnið Rut. Hildur Helga Sigurðardóttir kallaði Sigurð háaldraðan málfarspervert fyrir nokkru. Hann tók nafngiftina að minnsta kosti til sín að ég held. Þetta með málfar, stafsetningu og þessháttar er alltaf öðru hvoru til bloggumræðu.

Í árdaga Internetsins á Íslandi var mjög hamrað á því að ekki skyldi gagnrýna þá fyrir málfar sem skrifuðu á Netið. Það væri nógu erfitt að fá sem flesta til að tjá sig og þeir sem væru vel að sér um þessa hluti ættu engan forgangsrétt að umræðum á Netinu. Sú hætta væri nefnilega fyrir hendi, að þeir sem vissu sig ófullkomna að þessu leyti, hættu við að tjá sig. Auðvitað ættu menn samt að vanda sig eftir megni. Að gera það ekki væri lítilsvirðing við lesendur. Gagnrýni eða vissar tegundir hennar væri þó ekki hægt að banna en aðrir gætu leitt hana hjá sér ef þeim sýndist og margir töluðu fyrir því að svo væri gert varðandi gagnrýni um málfar og stafsetningu.

Þetta er orðið mjög breytt núna hvað varðar þáttöku í umræðum á Netinu en mér finnst samt að þetta sjónarmið eigi talsverðan rétt á sér þegar einstaklingar eiga í hlut. Gera má þó kröfur um málfar til bloggara sem mikið eru lesnir. Sömuleiðis er sjálfsagt að gagnrýna fjölmiðla og stjórnvöld fyrir slæmt málfar.

Ef þeir sem skrifa á Netið gera sig bera að lélegu málfari mega þeir að sjálfsögðu eiga von á því að mun færri hafi áhuga á því sem þeir skrifa en ella mundi vera. Ef þeir skrifa skiljanlegt mál og ná nógu vel til þeirra sem þeir ætla sér þá finnst mér vera alveg í lagi þó málfarið sé ekki hundrað prósent.

Auðvitað segja þeir sem amast við slæmu málfari að með þessu afskiptaleysi hljóti málinu að fara hrakandi og kannski hafa þeir rétt fyrir sér. Það er þó óþolandi að einhver málfarselíta ákveði hvernig segja megi hlutina. Þeir sem vilja tjá sig eiga að geta gert það án þess að eiga á hættu að fundið sé of mikið að því hvernig þeir gera það.

Hvað mannsnöfn snertir sérstaklega finnst mér að nafnberar eigi að ráða um fallbeygingar og stafsetningu. Þó sumum finnist oft einboðið hvernig hlutirnir eigi að vera getur vel leikið vafi á um þessi mál. Ef Rut vill ekki að nafnið sitt sé fallbeygt finnst mér að þeir sem af því vita eigi að virða það. Aðrir nota að sjálfsögðu þann hátt sem þeim finnst fara best eða fara rangt með óviljandi og Rut getur fundið að því ef henni sýnist.


440. - Hvurslagserþetta?Hérerbaraalltíbelgogbiðu

Áfram með bullstílinn Sæmundar. Það er ekki nóg með að Björn Bjarnason komist upp með að breyta blogginu sínu eftirá frá Kína heldur fær fleipur og vitleysa að standa bara ef linkað er í einhverja aðra vitleysu. Nei þá var nú auðveldara að lifa í gamla daga þegar orð sem skrifuð voru festust almennilega á blaðið. Kannski ég fari að líta á gömlu dagbækurnar mínar. Graffiti og krassidi er ekki það sama. Sumir vilja þó meina að krassidi geti verið graffiti og öfugt. Þú ert bara hættur að brugga og farinn að blogga sagði Bjöggi við mig um daginn þegar við fengum okkur að borða í Þrastalundi. Það munar ekki nema tveimur stöfum á þessu og Bjöggi sagðist hafa ort vísu um þetta en vera búinn að gleyma henni. Lára Hanna segist frekar vilja hafa greinaskil en ekki. Á rafeindaöld er svosem enginn sparnaður að sleppa þeim en Eyþór hefur aldrei greinaskil og honum vil ég líkjast. Hann er svo skáldlegur. Enn um kex. Ég fæ aldrei nóg af því. Einu sinni var ég beðinn um tillögu að nafni á hljómsveit. Ég lagði til að hún yrði látin heita kex. Ekki var tekið mark á því og ég held að engin hljómsveit heiti þessu hljómmikla og kexruglaða nafni. Veit ekki heldur hvort þessi hjómsveit er lifandi eða dauð. Heldur ekki hvaða nafn hún fékk á endanum. Furðulegt mál þetta með Dagbókar-Matta og hann Gauja. Hver er eiginlega útkoman úr þessu? Það leit allt út fyrir að Jens Guð hefði rétt fyrir sér með það að annar hvor þeirra væri áreiðanlega að ljúga en nú hafa þeir ákveðið að vera sammála um að ekkert sé að marka það sem þeir segja. Fyrir nokkru þurfti ég daglega að fara yfir mikla umferðargötu (Bústaðaveg) eftir merktri gangbraut. Sumir þeirra sem sáu að ég vildi komast yfir stöðvuðu bíla sína en ekki allir. Eins er það með gangstéttalagningar og misnotkun á stæðum fyrir fatlaða. Sumir gera sig seka um svona lagað en aðrir ekki. Vissulega væri þörf á að bæta hegðun margra í umferðinni. Yfirleitt ganga hlutirnir samt bærilega fyrir sig og umferðarmenning er ekkert afleit hér á Íslandi. Margar raunarollur er ég búinn að heyra um menn sem ætluðu aldeilis að horfa á enska boltann en þegar allt var talið þá borgaði það sig ekki. Nú er Maggi litli Carlsen sem Íslendingar hafa löngum átt í erfiðleikum með að verða einn sterkasti skákmaður heimsins. Gaman að fylgjast með honum. Sótti um vegabréf í gær og lét í veðri vaka að ekkert lægi á enda þarf ég ekki að nota það nærri strax. Þetta er sennilega rétta ráðið til að láta afgreiðsluna ganga hratt því nýja vegabréfið var komið til mín í pósti í morgun. Afgreiðslutími semsagt minna en sólarhringur. Var að hlusta á sjónvarp frá Alþingi í dag. Þar voru meðal annarra Össur og Steingrímur Jóhann að rífa sig. Sameiginlegt eiga þeir það að hafa full gaman af að hlusta á sjálfa sig. Nei nú nenni ég þessu ekki lengur. Héðan í frá verða greinaskil tekin upp aftur. Held að það sé betra.

439. - Áfram með smjörið. Það er að segja bullið

Enn bíð ég eftir því að bloggleiðinn hellist yfir mig. Kannski þykir mér of gaman að skrifa og bulla til þess að vera í mikilli hættu með það. Hvað um það. Enn er ég lifandi og engu takmarki náð. Sennilega er þessi nonsense stíll eitthvað sem á ágætlega við mig. Ég gæti haldið svona áfram endalaust. Ætlaði í gær að fara að lesa þessar margumtöluðu dagbækur hans Matthíasar en gafst upp eftir stutta stund. Mér finnst þetta vera svo mikið óttalegt rugl og ekki einu sinni sett upp á aðgengilegan hátt. Ég endaði með því að lesa afrit af einhverju bréfi um vínskvettumál Haraldar sonar Matthíasar. Já og einhvern reiðilestur um Baugsmál eða Baugsmiðla og Hallgrím Helgason. Ósköp finnst mér Matthías gera lítið úr sjálfum sér. Hugsjónir eru góðra gjalda verðar. Það var af hugsjónamennsku einni saman sem ég ákvað að styðja börnin mín í því að koma Netútgáfunni á fót. Þau áttu þessa hugmynd að öllu leyti. Dóttir mín fann upp nafnið og synirnir voru óforbetranlegir tölvunördar. Hafdís sat dag eftir dag við það á ganginum hjá okkur á Vífilsgötunni að HTML-a Rafritið sem ég hafði dundað mér við að gefa út nokkrum árum áður og við áttum nokkur fornrit í skrám. Mér datt þetta í hug þegar ég las grein í Timesonline um OLPC verkefnið. OLPC þýðir one laptop per child og snýst um að búa til hræódýra tölvu sem hægt er tengja Netinu og notar mjög litla orku. Sagt er að bæði Microsoft og Intel hafi reynt eftir mætti að drepa þessa hugmynd og kannski hefur það tekist. Á Bifröst var alltaf matarkex og mjólk á boðstólum í setustofunni klukkan tíu á kvöldin. Kexmulningur límdist þar eitt sinn svo illilega í kokið á mér að ég gat ekki andað lengi vel og hélt að ég mundi kafna. Sumir segja að umferðarmenning sé vanþróuð hér á Íslandi. Margt er rétt í því. Þó gæti ástandið verið verra. Sjálfur minnist ég þess að fyrir margt löngu var ákveðið að gera gangskör að því að reyna að fá gangandi fólk til að virða umferðarljós. Þá eins og nú voru ljósin virt af langflestum þeirra sem ökutækjum stjórna. Lögreglumenn voru á vakt við flest ljós sem voru miklu færri þá en nú (eiginlega bara í kvosinni og á Laugaveginum minnir mig) og áminntu þá gangandi vegfarendur sem ekki virtu ljósin. Þegar það var um það bil að takast að koma þessu í gegn var átakinu hætt. Nú dettur mér svolítið snjallt í hug. Ég ætla að setja hér inn nokkrar myndir og þær koma þá eins og nokkurskonar náttúruleg greinaskil.

IMG 0650Hér er Bjössi að flytja smáfyrirlestur og útskýra myndirnar sínar á sýningunni á Bókasafninu í Hveragerði. Birtan er ekki mjög góð.

IMG 0663Hér er regnbogi að rembast við að skína yfir Domínós pizzur. Sem er náttúrlega ekki mjög sniðugt.

IMG 0666Þessi reyniber eru girnileg. Skyldu þau vera æt? Það finnst Þresti.

IMG 0672Hér er regnbogi og skakkir símastaurar í Fossvoginum. Eiginlega er ekki meira um þess mynd að segja.

IMG 0700Þetta er blokkin fræga í Kópavoginum þar sem hringtorgið er inni á stofugólfi í íbúðunum á annarri hæð. (Eða svona næstum því.)

IMG 0697Það er erfitt að taka myndir af sólarlagi án þess að ljósastaurar troði sér inn á þær. Einhvern tíma var sagt með dimmri og djúpri röddu: Tré og runnar - Gunnar.

IMG 0681Hér er sólin við það að sökkva í sjóinn úti fyrir Kársnesinu.

IMG 0680Hér eru mávarnir að kveðja sólina rétt áður en hún sekkur og Snæfellsjökull hímir hægra megin á myndinni.


438. - Öllu blandað saman eða blandað í svartan dauðann eins og Steinar Sigurjónsson hefði líklega sagt

Salvör segir í kommenti í gær að tjáningarfrelsinu fylgi að ribbaldalýður hafi líka tjáningarfrelsi. Þetta er alveg rétt hjá henni. Tjáningarfrelsið getur ekki virkað bara í aðra áttina. Punktur og pasta. Þeir sem blogga með hvítum stöfum á svartan grunn vilja annaðhvort ekki að neinir lesi það sem þeir skrifa eða hafa engan skilning á því hvað felst í því að lesa. Jóhannes Ragnarsson er mikill eðalbloggari og gerir endalaust sögur um allan þremilinn. Sjálfur er ég sennilega alltof alvarlegur yfirleitt. Ólympíuleikanna í Kína verður í framtíðinni varla minnst vegna úrslitanna í handboltakeppninni nema á Íslandi. Annarsstaðar verður þeirra einkum minnst fyrir afrek tveggja manna. Sundmannsins bandaríska Michael Phelps og hlauparans Usain Bolt frá Jamaíka. Báðir eru þeir ótrúlegir íþróttamenn. Hörður Haraldsson var góður kennari og frábær hlaupari. Stór og stæðilegur, snemma sköllóttur, góður teiknari og ótrúlega skapgóður. Eftir því sem ég les meira um Palin kemst ég meira og meira á þá skoðun að það hafi verið mikil mistök hjá McCain að velja hana. Þetta leit vel út í fyrstu en gæti átt eftir að kosta McCain sigurinn í forsetakosingunum. Einhvern tíma var Hörður á Kvennaskólanum að reyna að ná sér niðri á okkur krökkunum þegar við vorum að stríða honum á fyllibyttustandinu en fann ekki upp á neinu betra en að kalla mig Sæmund í kexinu. Esjukex var ferkantað en Frónkex kringlótt. Kremkex var í verslunum geymt í sérstökum skápum og selt í lausri vigt. Beinlínis fíflalegt hjá Steingrími Jóhanni að vera að kvarta yfir vínarbrauðsleysi. Er þessum aumingjum ekki sjálfrátt? Líklega gæti ég klifrað hærra á Moggabloggsvinsældalistanum ef ég linkaði meira og skrifaði oftar. Ef hægt væri að fara með blogg í rúmið í stað bóka mundi ég gera það. Bækur eru að verða úrelt þing. Ég hugsa að Ómar Ragnarsson ætli að bjóða sig fram til þings aftur í næstu kosningum. Það er stundum gaman að lesa bloggið hans en mér finnst hann vera að undirbúa jarðveginn fyrir hugsanlegt framboð. Dagblöð sé ég sjaldan og les næstum aldrei. Sjónvarpsfréttir horfi ég á og svo les ég blogg alveg undir drep. Kannski er þetta blogg einkum frábrugðið öðrum sem ég hef skrifað að því leyti að greinaskilum er sleppt. Æ ég held að þetta sé að verða nóg.

437. - Ég vil að Anna K. Kristjánsdóttir fari aftur að blogga á Moggablogginu sem fyrst

Einn af albestu bloggurunum hér á Moggablogginu er Anna K. Kristjánsdóttir. Hún hefur bloggað lengi og verið einn af mínum uppáhaldsbloggurum frá því löngu áður en Moggabloggið tók til starfa. Hún hefur lengi haldið uppi vörnum fyrir okkur Moggabloggara þegar ómaklega hefur verið að okkur vegið af þeim sem bloggað höfðu lengi þegar hér var byrjað.

Auðvitað er réttast að hún útskýri sín sjónarmið sjálf. Velstyran.blog.is er urlið hennar hér á Moggablogginu. Það er einnig hægt að lesa það sem hún hefur að segja á velstyran.blogspot.com

Það er á henni að skilja að henni hafi ofboðið viðbrögðin sem Kristín Björg Þorsteinsdóttir (konukind.blog.is) fékk í kommentakerfið sitt þegar hún lýsti yfir stuðningi við Paul Ramses fyrir skemmstu. Að hætta að setja blogg sitt einnig á Moggabloggið er aðferð hennar til að mótmæla. Ég er sammála henni um að hún hafi ekki átt margra annarra kosta völ en vil samt biðja hana að koma hingað sem fyrst aftur. Hennar er sárt saknað.

Ég hafði ekki tekið eftir þessu fyrr en Anna vakti athygli mína á því og hef einmitt verið að minnka mikið lestur á kommentum við blogg annarra að undanförnu. Meðal annars vegna þess að Google Readerinn býður ekki uppá slíkt fyrirhafnarlaust. Ég les samt alltaf kommentin við mín eigin skrif og get ekki kvartað undan neikvæðum kommentum en veit dæmi þess að þau geta valdið miklum sárindum.

Kommentin eru sál bloggsins. Auðvitað er hægt að misnota þau en mér finnst að ekki megi taka þau of nærri sér. Einfaldast er að leiða neikvæðar og órökstuddar athugasemdir nafnleysingja hjá sér. Hvaða áhrif þau hafa á lesendur bloggsins er engu hægt að ráða um.

Sumir fá svo mikið af neikvæðum athugasemdum að þeir loka fyrir þann möguleika lesenda að kommenta á skrifin. Það finnst mér slæmt en skil sjónarmið þeirra bloggara sem það gera. Millivegur er að kommentin komi ekki fram nema bloggarinn samþykki þau sjálfur. Sumir notfæra sér það. Sjálfum finnst mér rétt að reyna að komast hjá slíku.

 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband