Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
11.10.2007 | 01:43
139. blogg
Mér virðist Svandís Svavarsdóttir ætla að komast best frá stóra orkuveitumálinu.
Það gæti þýtt að tíma Steingríms Sigfússonar sem formanns vinstri grænna fari senn að ljúka. Björn Ingi græðir sennilega einnig á þessu öllu saman þegar yfir lýkur. Þeir sem tapa verða einkum Vilhjálmur borgarstjóri, sem flestir álíta nú að sé nánast ónýtur í því starfi og svo hlýtur orkuveitan sem fyrirtæki að tapa á þessu öllu saman.
Það er alls ekki ljóst ennþá hvernig þessu máli lýkur. Ég er sammála því að í raun er um það að ræða að bankarnir og peningamennirnir í landinu eru að leggja orkulindirnar undir sig. Meðal annars er það vegna þess að fljótlega verður farið að veita leyfi til olíuleitar hér við land. Hraðinn og óhemjugangurinn í þessu öllu er þó með ólíkindum.
Auðvitað verður þjóðinni borgað fyrir þetta. Hvort það verða tíu milljarðar eða hundrað þúsund milljarðar, er ekkert aðalatriði, heldur skiptir mestu máli hverjir ráða. Peningaöflunum svíður að stjórnmálamenn vilja enn ráða meiru en þeim er hollt. Því miður er það svo að þegar stjórnmálamenn fá vald yfir málum þá hættir þeim til að hugsa of mikið um eigin hag. Hagur þeirra snýst ekki alltaf um peninga og því er erfiðara að reikna þá út.
Reynslan af einkavæðingu orkufyrirtækja er slæm. Nægir þar að minna á Enron hneykslið í Bandaríkjunum. Í Kaliforníu gekk einkavæðingin líka illa og rafmagnsleysi þar á hverju sumri er einkavæðingu að kenna. Englendingar hafa heldur ekki góða reynslu af einkavæðingu orkugeirans frekar en einkavæðingu samgöngumálanna. Þó einkavæðing banka hafi víða gengið vel er alls ekki þar með sagt að einkavæða þurfi allt. Þó eflaust megi koma einkarekstri víða við er sjálfsagt að fara mjög varlega í þessum málum öllum. Opinber rekstur þarf ekkert endilega að vera slæmur kostur.
Ég er ekkert viss um að það verði til heilla að Vilhjálmur hætti sem borgarstjóri, sennilega taka annaðhvort Gísli Marteinn Garðarsson eða Björn Ingi Hrafnsson við af honum ef hann hættir. Meirihlutasamstarfið geri ég ekki ráð fyrir að sé í hættu.
Nú er búið að skíra Blaðið upp og heitir það 24 stundir. Ekki finnst mér nafngiftin til bóta og þótti mér þó fyrra nafnið óttalega klént. Ekki veit ég hvort þetta þýðir að dreifingin skáni eitthvað en ég er þó farinn að fá þennan snepil stundum heim. Ég hef eiginlega enga hugmynd um af hverju blaðið er látið fá nýtt nafn, en einhver hlýtur ástæðan að vera.
Gallinn við gestabækurnar hér á blogginu er að maður veit ekki af því þó einhverjir láti svo lítið að skrifa í þær. Hinsvegar gái ég alltaf að kommentum við mínar nýjustu færslur. Ef fjöldi kommenta er mikill er þetta kannski vandamál. Ef maður skoðar alltaf komment við tvær síðustu færslur eða svo þá held ég samt að þetta ætti að verða í lagi.
Í sjónvarpsfréttum í kvöld var sýnd mynd þar sem kengúra villtist inná kappakstursbraut og hoppaði þar á milli bílanna og slapp ósködduð að því er virtist. Þulurinn sagði: "Það var aðeins snilli ökumannanna sem kom í veg fyrir að ekki fór illa." Já, ég meina það. Svona tala íþróttafréttamenn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2007 | 03:04
138. blogg
Núna lýsir friðarsúlan til dæmis á 2 ský í mismunandi hæð og þetta tekur sig bara vel út. Spurning hvort ljósmengun í heild eykst við þetta og hvort flugmenn eigi eftir að kvarta yfir þessu. Flestir virðast vera heldur jákvæðir gagnvart þessu framtaki og vissulega er gaman að því. Mér kemur eiginlega alveg á óvart hversu flott þetta virðist vera. Ljósasjó af ýmsum toga virðast ekki hafa gengið vel að undanförnu eins og til dæmis þegar myrkva átti borgina.
Var að lesa blogg frá Sigurði Þór Guðjónssyni núna áðan og trúr sinni neikvæðni hafði hann allt á hornum sér varðandi friðarsúluna. Það gleður mig að til skuli neikvæðari menn en ég. Annars tók Sigurður jákvætt á mjálminu í mér þegar hann strikaði mig út af bloggvinalista sínum. Ég er nú kominn á þann lista aftur fyrir nokkru.
Var í kvöld að kíkja á gamlar bloggfærslur. Tók saman í eina skrá um daginn alla hlutana úr frásögninni um brunann og mun setja hann inn einhvern daginn þegar ég nenni ekki að blogga mikð. Áðan tíndi ég svo saman nokkrar bloggfærslur sem snúast um minningar frá Hvergerði. Þetta hvorttveggja er síðan gott að eiga til vara ef farast skyldi fyrir hjá mér að bogga.
Ég er semsagt farinn að spekúlera í því að blogg frá mér birtist helst á hverjum einasta degi. Það má því segja að ég sé farinn að blogga fyrir lesendur en hættur af blogga fyrir sjálfan mig. Þetta sem ég er nú að skrifa set ég líklega á Netið fljótlega því ekki er sniðugt að setja upp bloggfærslu einhvern tíma annað kvöld þar sem minnst er á kveikingu á friðarsúlunni.
Mér skilst að verið sé að skora á fólk að mæta á borgarstjórnarfund á morgun sem minnihlutinn í borgarstjórn hefur farið fram á. Þar á að ræða um stóra orkuveitumálið og kannski getur það haft áhrif á úrslit málsins hve margir áhorfendur mæta. Svo mikið er víst að fólk er farið að verða óhræddara með að tjá sig og stundum hafa mótmæli jafnvel áhrif. Skýrt dæmi um það er úr Kópavogi þar sem svo virðist að sjálfur Gunnar Birgisson hafi skipt um skoðun eftir svolítil læti í mótmælendum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 20:37
137. blogg
Það nýjasta sem þaðan er að frétta er að nú virðist einu sinni enn vera búið að útiloka Torfa Stefánsson frá skrifum á Hornið og svo er rifist um það fram og aftur hvort það hafi verið rétt ákvörðun. Sævar Bjarnason og Snorri Bergz sem stundum hafa líka verið útilokaðir þarna skrifa yfirleitt mjög varlega núna. Mér finnst reyndar að það sama megi segja um Torfa Stefánsson og að algjör óþarfi hafi verið að útiloka hann.
Skákáhugamenn hljóta flestir að prófa öðru hvoru að slá inn skak.is. Það lén gengur hinsvegar kaupum og sölum en alltaf er þar að finna fréttir um skák. Núna síðast eru blessaðir ungarnir komnir á Moggabloggið og samkvæmt sérstakri beiðni frá Skáksambandi Íslands hafa þeir ekki link á skákhornið eins og ég. Þetta er ansi furðuleg ráðstöfun því á skákhorninu fara tvímælalaus fram markverðustu umræðurnar á íslensku um skák. En þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Óttar Felix Hauksson meðal annarra eru víst yfir það hafin að hafa áhuga á markverðum umræðum.
Snorri Bergsson bloggar síðan stundum um skák á hvala.blog.is. Hann er alls ekki allra og rýkur stundum uppá nef sér við minnsta tilefni.
Lauk nýlega við að lesa bókina Úti að aka" eftir þá Ólaf Gunnarsson og Einar Kárason. Bókin fjallar í stuttu máli um ferðalag þeirra félaga og fleiri í gömlum Kádilják (og öðrum bíl að auki) yfir þver Bandríkin. Mér fannst bókin ekki eins góð og ég hafði búist við. Ferðinni sem slíkri er ekki vel lýst, þar gætu þeir félagarnir margt lært að æfðum ferðabókarhöfundum. Auk þess er það svolítið ruglandi hugmynd að láta tvo rithöfunda skrifa sömu bókina. Maður vissi ekki alltaf eftir hvorn þeirra pistillin var, sem maður var að lesa.
Samskiptum þeirra rithöfundanna og annarra sem þátt tóku í ferðinni er þó ágætlega lýst og það eitt að maður skuli lesa bókina frá upphafi til enda segir talsvert um hana. Kannski voru væntingarnar einfaldlega of miklar.
Menn eru að skrifa um dauðarefsingar hér á Moggablogginu. Sumir blanda saman við það ýmsum mannréttindum. Mannréttindi má eflaust kalla það að fá að lifa. Ég get ekki að því gert að mér finnst alltaf vera mikill hefndarsvipur á dauðarefsingum. Hefnd á að mínum dómi ekkert erindi í refsingar. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn er afskaplega frumstætt réttlæti og ef þjóðfélög geta ekki lagt neitt skárra til málanna þá eiga þau engan rétt á sér. Dauðarefsingar eiga aldrei neinn rétt á sér. Hvort sem fórnarlambið heitir Saddam Hússein eða eitthvað annað. Ef menn samþykkja dauðarefsingar fyrir suma menn og við sumum glæpum þá eru þeir þar með búnir að samþykkja dauðarefsingar, ef þeir sem þær framkvæma geta réttlætt þær á einhvern hátt.
Vísurnar um Snata, snjalla vininn kæra, lærði ég sennilega nokkuð ungur. Þegar ég heyrði fyrst seinustu ljóðlínurnar sem eru svona: En hvenær koma kæri minn, kakan þín og jólin", var áreiðanlega í fyrsta skipti sem ég heyrði jólaköku nefnda í sambandi við jól. Í mínum huga var jólakaka bara jólakaka. Ekkert sérlega merkileg kaka og alls ekkert tengd jólunum. Svona getur maður nú verið skrýtinn.
Mér datt þetta í hug áðan þegar ég fékk mér einn Bónus-muffins. Það var sennilega hið forna jólakökubragð sem ég fann af honum.
Mikil skelfingar vitleysa var sumt af þeim vísum sem maður kyrjaði sem krakki og þótti óskaplega fyndnar. Ég man t.d. eftir einni sem var svona:
Gunna tunna grautarvömb
gekk um allan bæinn.
Áttatíu og átta lömb
át hún sama daginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.10.2007 | 18:29
136. blogg
Nú hljóta þeir Möllerinn og Marshallinn að gleðjast.
Komið nýtt og safaríkt hneykslismál sem allir þurfa að tjá sig um. Enginn hefur lengur áhuga á jafn smáskítlegu máli og Grímseyjarferjumálinu. Verðmiðinn á nýja málinu er líka 10 milljarðar, sem er mun hærra en var á ferjumálinu. Fjölmiðlarnir standa málþola og bíða eftir blaðamannafundum. Það er varla nokkurt mál svo ómerkilegt núorðið að ekki sé boðað til blaðamannafundar um það.
Horfði á hluta af þætti Evu Maríu í gærkvöldi þar sem hún talaði við Bjarna Ármannsson og auðvitað komst hann sæmilega frá þessu. Mér finnst samt að Ríkisútvarpið eigi ekki að vera að skipta sér af heitum málum með þessum hætti. Og lítið fannst mér leggjast fyrir Evu Maríu í þættinum. Hún þurfti meira að segja að hjálpa Bjarna við að koma orðum að hlutunum. Hann ætti nú að geta það sjálfur. Sannkallað drottningarviðtal.
Rafmagnsstóll kom hingað á heimilið fyrir nokkrum dögum. Hann er talsvert notaður og nýtur virðingar. Gestir fá sér gjarnan smá-salíbunu og líkar bara nokkuð vel. Óa þó og æja dálítið, en líkar samt ágætlega og fara gjarnan aftur og aftur í þetta pyndingatól. Margir kalla þetta nuddstól og það er eiginlega miklu meira réttnefni en hitt. Rafmangsstóll vekur rangar hugsanir þó réttnefni sé.
Ekki er komin mikil reynsla á þetta húsgagn, en auk alls annars getur hann hæglega þjónað sem sjónvarpsstóll. Ég er mest impóneraður yfir því hve fjölbreytt nuddið er. Hann getur bæði nuddað á ýmsum stöðum, allt frá hálsi til fóta og þar að auki nuddað með ýmsu móti, bæði hratt og hægt. Merkilegur gripur og auðvitað ekki ókeypis frekar en annað.
Þegar eitthvert þorskastríðið stóð yfir og Íslendingar kepptust við að klippa aftan úr breskum togurum stóðu samt einhverjar samningaviðræður fyrir dyrum. Spaugstofa þeirra tíma gerði grín að þessu þar sem Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra og Hannes frá Undirfelli (að mig minnir) sátu á skrifstofu ráðherrans og fengu símtal frá forsætisráðherra Bretlands. Eftir kurteisishjal í smátíma segir sá breski:
Will you cut?"
Ólafur: Ha, hvað segirðu?
Breski ráðherrann: (svolítið óþolinmóður) Will you cut?"
Ólafur: Nei, það held ég ekki. (snýr sér að Hannesi) Vilt þú kött?"
Einkennilegt hve margir sem ekki blogga hallmæla þeirri tómstundaiðju og segjast líta niður á hana. Ekki er þó annað að sjá en margir lesi þessi ósköp. Svo er upplagt að fara í fýlu ef einhver annar notar sama nafn og maður sjálfur í blogginu sínu.
Já, bloggið nýtur engrar virðingar og kannski má kenna Moggablogginu um það. Hér áður og fyrr voru bloggarar yfirleitt hálfgerðir nördar en nú er allskonar fólk farið að blogga. Samfélag bloggara sem myndast hefur hér á Moggablogginu er á margan hátt merkilegt. Meðan flestir aðrir bloggarar og svo auðvitað menningarelítan í heild sinni hallmæla þessu fyrirbrigði og vilja það feigt, blogga Moggabloggarar af hjartans lyst. Auðvitað er það slæmt að þeir sem þessu stjórna skuli vinna hjá Morgunblaðinu en við því er ekkert að gera. Einhver verður að eiga þetta, því það kostaði eflaust talsverða fyrirhöfn að koma þessu á laggirnar og mikilvægt er að hafa þetta ókeypis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.10.2007 | 11:58
135. blogg
And I am worth it," er stundum skeytt aftast í auglýsingar í sjónvarpinu þegar aulýstar eru til dæmis snyrtivörur.
Samt á að heita að þessar auglýsingar séu á íslensku. En látum það vera, íslenska eða ekki íslenska er ekki það sem ég er að hugsa um í þessu sambandi. Þó mér finnist að sjálfsögðu að auglýsingar í íslensku sjónvarpi eigi að vera á íslensku. Ég er kannski eitthvað skrýtinn, en þegar þessari setningu er bætt aftast í annars tiltölulega saklausa auglýsingu þá segir það mér bara eitt. Verðið á vörunni sem verið er að auglýsa er fáránlega hátt og þess vegna er notendum hennar bent á þessa afsökun.
Annars hefur oft verið sagt við mig að ég sé paranoid gagnvart öllum auglýsingum og nýjungum yfirleitt. Þessvegna er kannski ekkert að marka þetta.
Fer heimurinn batnandi eður ei? Þetta er eiginlega sú spurning sem öllu ræður. Ef það er rétt sem stundum er haldið fram, að allt sé á niðurleið er þá nokkur ástæða til að halda þessum fjára áfram? Ekki finnst mér það. Þegar litið er á ástand þriðja heimsins getur þó sett að mönnum efa. En er ekki bara alltaf verið að mála skrattann á vegginn? Eru ekki framfarir á öllum mögulegum sviðum um allan heim? Mér finnst það. Vitanlega er afturför á einhverjum sviðum en í heildina finnst mér miða í rétta átt. Auðvitað eru þau vandamál sem að heimsbyggðinni steðja gífurleg. En hafa þau ekki alltaf verið það?
Þegar ég var að alast upp um miðja síðustu öld hét verðbólgan dýrtíð og ógnaði svo sannarlega tilveru fólks sem þurfti að nota meira en helming tekna sinna, væri það ófaglært, til þess eins að kaupa sér matarbita í soðið. Fiskurinn var að vísu ódýr, en ekki var hægt að hafa hann á borðum alltaf og eingöngu. Landbúnaðarvörur voru rándýrar og nýlenduvörur sem svo voru kallaðar líka. Þegar maður veltir fyrir sér gamla tímanum finnst manni að allt hafi verið dýrt nema fiskurinn og kannski kartöflurnar líka. Aftur á móti var ekki búið að finna upp hvað grjónagrauturinn var góður og ódýr.
Lífið var samt skemmtilegt á þessum árum og þó brennivínsflaskan hafi ekki kostað nema 170 gamlar krónur þá var kaupið líka lágt. Sveitaböllin voru afburða skemmtileg og félagsheimilin stóðu fyrir böllum í blóðspreng til að hala inn eitthvað af peningum. Auðvitað var dýrt að byggja þessar hallir en þá eins og nú var unga fólkið tilbúið til að skemmta sér. Munurinn var bara sá að þá lentu tekjurnar ekki hjá þeim sem óðu í peningum fyrir.
Geysigrín er þetta með reyrinn eða var það Rei-inn. Merkilegast er þó hve fáir hlógu. Niðurstaðan af öllum þessum látum er líklega sú að vafamál er hvort Villi sé hæfur til þess að vera borgarstjóri. Kannski höfðu kóngsgerðarmennirnir í sjálfgræðisflokknum eitthvað fyrir sér þegar þeir vildu endilega frekar fá barbie-strákinn og seinna systur hans Gauja þjálfara sem borgarstjóraefni en gamla góða Villa þrátt fyrir allt hans streð.
Einhvern tíma kemur að því að stór og mikil útrásarfyrirætlun gengur ekki upp. Þegar það gerist er ég viss um að stærstu hluthafarnir í tapinu verða opinberir eða hálfopinberir aðilar. Þetta Geysigrín getur samt alveg tekist þó margt í sambandi við það leggist heldur illa í almenning. Auðvitað er markmiðið ekki að þetta mistakist en allt getur nú gerst. Þó yfirleitt séu ekki birtar fréttir um annað en ofsagróða þá veit ég að sumar hugmyndir manna um gróðavænleg fyrirtæki ganga alls ekki eftir.
Ragnar Axelsson ljósmyndari þurfti að auglýsa sig og fékk yfirlýsingu birta í mbl.is og kannski í Mogganum sjálfum líka. Ekki nóg með það heldur fékk hann þá Moggabloggsmenn til að reka einn bloggara af Moggablogginu og yfir á Vísisbloggið fyrir það eitt að vera kallaður Raxi. Já, mikill er máttur bloggsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 19:16
134. blogg
Það bendir margt til þess að Lewis Hamilton sé nýja undrabarnið í formúlunni.
Hann hefur hafið sinn feril meðal þeirra bestu með undraverðum hætti. Snillingar eins og Alonso og Raikkonen blikna í samanburði við hann. Haldi hann áfram eins og hann hefur gert er enginn vafi að hann verður heimsmeistari í mörg ár. Formúlan þurfti á manni eins og honum að halda. Eftir að Senna lést og Schumacher hætti var formúlan eiginlega ofurhetjulaus.
Hamilton var óvenjuheppinn að fá tækifæri með toppliði strax á fyrsta ári. Aðrir meistarar hafa ekki notið slíkrar heppni. Það veldur því að hann er kominn í fremstu röð strax í upphafi ferils síns. Ekki er þó víst að það hjálpi honum neitt að öðru leyti. Á næsta ári munu allra augu beinast að Hamilton og hver smámistök, hversu smávægileg sem þau eru, verða básúnuð út. Pressan verður gríðarleg á honum, en ef hann stendst hana eru honum allir vegir færir.
Ég er sammála því sem sjá mátti hér í Moggablogginu um daginn. Mér finnst óviðeigandi að kirkjan hafi of mikil áhrif við þingsetninguna. Það þyrfti að losa um þau tök smátt og smátt. Óheppilegt væri að skera á tengslin of skyndilega, en til þess getur komið ef beðið er með þetta þarfa verk of lengi. Ef trúfrelsi er hér á Íslandi í raun þá á að skera sem allra mest á tengsl ríkis og kirkju. Þetta er þó alls ekkert einfalt mál því auðvitað hefur kirkjan komið mörgu góðu til leiðar í okkar samfélagi og þar að auki eru eignatengslin svo samtvinnuð að erfitt getur orðið úr að greiða.
Mér finnst líka að sú breyting sem orðin er á þingsalnum með því að hengja íslenska fánann á endavegginn ekki vera til bóta. Í fyrsta lagi tekur fáninn sig ekkert sérstaklega vel út þarna. Óþarft er með öllu að einhvers konar ættjarðarást sé básúnuð úr þingsal. Hingað til hafa menn komist vel af án þess. Annars er fráleitt að þetta sé eitthvert stórmál.
Mér finnst þingið fara afskaplega rólega af stað. Ekki er annað að sjá en að stjórnarandstaðan sé dálítið sundruð og viti ekki hvernig áherslur er best að leggja. Þingmeirihlutinn er líka svo rúmur að það getur hæglega gert menn of værukæra ef þeir gá ekki að sér. Ef fjölmiðlarnir og stórfyrirtækin tækju upp á því að blása eitthver mál upp þá gæti stjórnin hæglega lent í vandræðum.
Eins og nú er komið þykir mér sennilegast að Ólafur Ragnar Grímsson bjóði sig fram einu sinni enn til forsetaembættisins. Meira vafamál finnst mér hvort Ástþór Magnússon nennir að standa í þessu einu sinni enn. Alvöru frambjóðendur munu ekki koma í ljós nema Ólafur tilkynni að hann ætli ekki að bjóða sig fram.
Íslenska þjóðveldið sem svo er kallað leið undir lok einkum vegna þess að framkvæmdavald var ekkert. Framkvæmdavald fólst á þeim tíma einkum í því að framfylgja dómum. Menn höfðu á þjóðveldistímanum fundið upp ágætt kerfi til að kveða upp dóma og í rauninni var enginn ágreiningur um sanngirni þeirra dóma sem kveðnir voru upp. Þegar að því kom hinsvegar að framfylgja dómum var það algjörlega á valdi þess sem dómsorðið féll með að gera það. Ef sá sem dæmdur var þverskallaðist við að hlíta dómnum gat hann sem best komist upp með það nema andstæðingurinn tæki að sér að koma vitinu fyrir hann. Þetta leiddi til stórfelldra vandræða og á Sturlungaöld logaði landið bókstaflega í ófriði vegna þessa.
Það var því ekkert einkennilegt við það að æskja þess að Noregskonungur tæki þetta verkefni að sér og var hann fús til þess. Með þessu átti hefndarskyldan að vera fyrir bí, því ríkisvaldið tæki að sér að framfylgja dómum. Allur almenningur andaði léttar við þessi málalok því hernaðurinn hafði að sjálfsögðu bitnað harðast á honum.
Mér hafa alltaf blöskrað frásagnir úr bandarísku réttarfari þar sem því er blákalt haldið fram bæði af fjölmiðlum og öðrum að aðeins með beitingu dauðarefsinga sé hægt að tryggja fórnarlömbum og aðstandendum þeirra forsvaranlegt réttlæti. Fyrir mér er þetta hugsanavilla af verstu gerð. Skylda ríkisins er fyrst og fremst að sjá um, eftir því sem hægt er, að afbrot séu sem fæst. Ekki að tryggja þeim sem fyrir glæpum verða sómasamlega hefnd og allra síst að þeir ráði sjálfir þyngd dóma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2007 | 15:49
133. blogg
Gíslína í Dal segist lesa bloggið mitt reglulega. Það er mikið hrós.
Alveg frá því að Bjarni sagði mér frá því einhverntíma fyrir allmörgum mánuðum síðan að hún væri með ólæknandi krabbamein hef ég náttúrlega dáðst að styrk hennar eins og aðrir. Svo uppgötvaði ég bloggið hennar og það hve opinská og einlæg hún er þar afvopnaði mig gersamlega. Ég gat bara ekkert sagt og get ekki enn. Auðvitað les ég bæði bloggin hennar reglulega, en hverjir gera það ekki? Núorðið held ég að öll innlegg fari á bæði bloggin, en þannig var það ekki.
Ég hef ekki litið reglulega í gestabókina mína hér á blogginu og engar hef ég séð tilkynningarnar um innlegg þar. Datt samt í hug að kíkja þangað áðan og hvað sé ég? Þrjár kjarnakonur hafa látið svo lítið að skrifa þar, flestar frá Snæfellsnesi. Þetta kom mér alveg á óvart, en hver er eiginlega tilgangurinn með þessari gestabók úr því ekki er látið vita þegar skrifað er í hana? Jú, reyndar getur maður klikkað beint á þá Moggabloggara sem skrifað hafa í gestabókina. Það er margt skrítið í Moggablogginu.
Reyndar man ég að ég las söguna hennar Sirrýar (sirrys.blog.is) um Jens og Co, en einhverra hluta vegna hætti ég þegar komnir voru svona rúmlega tuttugu kaflar. Sagan var nú samt skemmtilega skrifuð. Eiginlega ætti ég að athuga hvort hún er ekki komin öll upp núna. Nú líst mér á það. Ekki eru komnir nema fáeinir kaflar í viðbót og engin endir í sjónmáli. Eins og hún byrjaði nú glæsilega, 10 eða 15 kaflar í einni bunu og svo bara einn og einn smákafli endrum og sinnum.
Ég man vel eftir upphafi Surtseyjargossins. Ég átti heima í Reykjavík þá og fór strax og ég frétti af gosinu akandi á minni Wolkswagen bjöllu austur á Kambabrún. Þar blasti gosstrókurinn við og teygði sig þráðbeint og óralangt upp í loftið. Á leiðinni í bæinn aftur man ég að ég tók framúr einum 23 bílum og líklega hef ég ekki slegið það met enn. Mér dettur þetta oft í hug þegar verið er að tala um brjálæðinga í umferðinni. Svona hef ég nú verið á þessum tíma.
Ég man líka eftir upphafi Vestmanneyjagossins 23. janúar 1973. Þá átti ég heima á Vegamótum. Kvöldið áður hafði verið leitað að herflugvél á Faxaflóanum og frá Vegamótum sáust blys sem varpað hafði verið út við leitina. Ég held að leitin hafi engan árangur borið. Morguninn eftir kveikti ég á útvarpinu úti í búð klukkan svona rúmlega níu og þá var verið með beina lýsingu frá Þorlákshöfn og viðtöl við fólk. Ég hélt fyrst að verið væri að gera eitthvert at. Viðtöl við flóttafólk frá Vestmannaeyjum á bryggjunni í Þorlákshöfn, ekki hljómaði það nú sennilega.
Ég hef einu sinni á ævinni komið til Vestmannaeyja. Það var til að fara á þjóðhátíð og gerðist löngu fyrir gos. Minnisstæðast við þá ferð er hve fullur ég var og ég man að ég fór heim fyrr en ég hefði þurft. Ég held að engir aðrir hafi verið farnir að huga að heimferð þá svo enginn var troðningurinn. Gott ef ég var ekki bara einn í flugvélinni til Reykjavíkur (þ.e.a.s. fyrir utan áhöfnina) og að hún hafi verið að koma með síðbúna þjóðhátíðargesti til Vestmannaeyja.
Hefði ég ekki verið fluttur á Snæfellsnesið þegar gosið varð í Vestmannaeyjum er ekki ólíklegt að ég hefði farið þangað á vegum björgunarsveitarinnar í Hveragerði. Mig minnir að Bjössi bróðir hafi þá starfað af miklum krafti með sveitinni og mikið lið manna hafi lagt leið sína til eyja á þeirra vegum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.10.2007 | 13:21
132. blogg
Þegar ég starta Explorernum birtist í boxi neðst á skjánum hjá mér http://mbl.is/mm/fret... Auðvitað er margt af fréttunum þar óttalegt fret og mér finnst þetta lýsa efni vefsins nokkuð vel.
Ég segi vefsins en ekki vefjarins eins og margir mundu segja og búið er að reyna að koma inn hjá fólki að sé sú eina rétta beyging. Ég hef aldrei skilið hversvegna ekki má beygja þetta orð á venjulegan hátt heldur virðist mörgum vera keppikefli að það sé gert á þennan afkáralega hátt.
Þetta var útúrdúr hjá mér og sýnir bara að ég er ekki enn búinn að lækna sjálfan mig af bloggsóttinni. Já, mér þykir gaman að blogga og er nokk sama hvort þetta er lesið af áhuga eða ekki. Svo er ég ekki bara sérvitur hvað snertir fyrirsagnir heldur er ég líka talsvert sérvitur í sambandi við íslenskt mál. Verst er þó að ég hef stundum ragnt fyrir mér í því efni, en viðurkenni það helst ekki.
Ég á bágt með að skilja það að sumum virðist finnast erfitt að finna eitthvað til að blogga um. Hjá mér er þessu þveröfugt farið. Mér gengur hálfilla að hemja mig. Helst vildi ég skrifa miklu meira, en ég veit að gæðin versna verulega ef ég reyni ekki að vanda mig dálítið.
Um daginn voru áhugaverðar pælingar hjá Jóhanni Björnssyni hér á Moggablogginu um kattaát. Ég er sammála Jóhanni um að helsta ástæðan fyrir því að alls ekki er álitið við hæfi að borða sum dýr er einhvers konar tabú í þjóðfélaginu. Tabúin geta myndast af ýmsu. Ég held t.d. að það sé álíka mikið tabú hér að borða rottur eins og ketti, en augljóslega af ólíkum ástæðum.
Hér áður fyrr var tabú í gangi gegn hrossakjötsáti en það hefur látið mjög undan síga á síðustu áratugum og öldum. Sjálfur er ég kominn af hrossakjötsætum í Þykkvabænum og borðaði oft hrossakjöt í æsku og þótti gott. Eins og kunnugt er voru Þykkbæingar orðlagðar hrossakjötsætur hér áður fyrr og smátt og smátt hefur orðið viðurkennt að í lagi sé að éta hesta.
Mér hefur oft orðið hugsað til þess þegar mest hefur gengið á í fréttum um hvalveiðimál hvort búið sé að byggja upp hjá sumum hópum erlendis eins konar tabú gegn hvalaáti. Ef sú er ástæðan hjá fólki fyrir andúð á hvalveiðum er erfitt að breyta því og ef það er hægt þá tekur það a.m.k. langan tíma.
Þegar rætt er um þetta þá get ég ekki látið hjá líða að minnast á dýraverndunarmál. Mér finnst í lagi að slátra dýrum til matar. Aðallega vegna þess að segja má að komin sé hefð á það og svo étur maður nú einu sinni lík. Svona er þetta bara og því verður ekki breytt í snarhasti. Hins vegar lít ég á vissan hátt niður á allar veiðar og finnst alls ekki verjandi að að kvelja dýr að óþörfu. Laxveiðimenn stæra sig jafnvel af því að hafa kvalið laxana í sem lengstan tíma. Og svo sleppa þeir þeim jafnvel á eftir. Mér finnst nú lágmarkið að éta þá.
Kannski er þessi andúð mín á veiðum mest sprottin af því að ég er lélegur veiðimaður, ég veit það ekki. Ég er afskaplega lélegur í sumum íþróttum en lít svosem ekkert niður á þær þess vegna. Íþróttir eru samt í eðli sínu lífsflótti og tímaeyðsla, en auðvitað geta þær veitt ómælda ánægju líka.
Einu sinni hafði ég alveg ótakmarkaðan áhuga á formúlu eitt. Sumir kalla akstursíþróttir ekki íþróttir, en þar er ég ekki á sama máli. Hestaíþróttir eru þá ekki íþróttir heldur. Nema þá kannski þá fyrir hestana. Ekki fá þeir þó verðlaunin, eða hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.10.2007 | 15:18
131. blogg
Horfði um daginn á heimildamynd sem heitir "Does snuff exist?"
Snuff kvikmynd er mynd þar sem raunverulegt morð er sýnt á hvíta tjaldinu. Áhugaverð mynd um margt. Þessa mynd nálgaðist ég af "all you see" (alluc.org) og þar er fjallað um margar af helstu hryllingsmyndum síðustu áratuga, en ég ætla ekki að skrifa meira um það.
Fyrir nokkrum árum var dálítið um það að hryðjuverkahópar tóku vídeómyndir af því þegar þeir tóku gísla af lífi. Upptökur þessar voru síðan settar á netið og vöktu oft talsverða athygli.
Einhverju sinni setti eitthvert af tenglasöfnunum sem voru vinsæl hér á landi á þeim tíma (t.d. tilveran.is) tengil á eitt svona myndband. Svo hittist á að ég fór þangað inn áður en þessi tengill var tekinn úr sambandi vegna fjölda áskorana eða hótana um aðgerðir. Búið var að segja frá þessu myndbandi í fréttum og ég vissi að afhöfðunin sjálf fór ekki fram fyrr en í lok myndbandsins.
Til að gera langa sögu stutta þá gat ég ekki stillt mig um að fara að horfa á myndbandið. Þegar gíslinn fór að grátbiðja um miskunn fór ég að velta því fyrir mér hvort mig langaði í raun og veru nokkuð að sjá þetta. Að lokum hætti ég að horfa og slökkti á tölvunni áður en kom að sjálfri rúsínunni í pylsuendanum.
Í gamla daga í Hveragerði voru bíósýningar venjulega svona tvisvar í viku á Hótelinu. Sigga og Eiríkur höfðu stofnað fyrirtæki sem þau kölluðua Nýja Ferðabíóið og fóru reglulega í þorpin í kring og sýndu kvikmyndir. Auðvitað sýndu þau líka í Hveragerði og hefðu kannski sýnt oftar þar ef þau hefðu ekki alltaf verið á þessum þeytingi.
Kristmann Guðmundsson sótti bíóin talsvert á Hótelinu. Hann horfði jafnvel á barnamyndirnar líka. Efir hádegi á sunnudögum (eða var það á laugardögum) voru sýndar barnamyndir og áður en byrjað var að hleypa inn hópaðist krakkaskarinn að dyrunum. Við unglingarnir þóttumst auðvitað vera of fín til að taka þá í svona vitleysu, en ekki Kristmann Guðmundsson. Ég man vel eftir honum standandi við dyrnar í miðjum krakkaskaranum.
Þegar ég fór fyrst að vinna man ég að ég fékk vinnu á Elliheimilinu við að tína grjót og fékk túkall á tímann. Á þeim tíma kostaði barnamiðinn í bíó á Hótelinu þrjár krónur og ég man eftir að hafa reiknað það út að þar sem venjuleg kvikmynd stæði í svona einn og hálfan tíma þá væru launin sem ég fékk jafnhá og það sem ég þyrfti að borga fyrir að fá að horfa nokkurn vegin jafnlengi á bíó. Það fannst mér vera góð skipti.
Einhvern tíma á þessum árum (líklega samt einhverjum árum seinna) sá ég sænska kvikmynd sem fjallaði um vandræðaunglinga. Í myndinni sáust berar stelpur í sundlaug og ég man eftir að þegar píkuhárin sáust á einni þeirra þá heyrðist eins konar stuna frá öllum í salnum enda var þetta með afbrigðum djarft miðað við hvenær þetta var.
Eitt af því sem snertir bíósýningar fyrri ára og fólk á jafnvel erfitt með að skilja í dag er að á þessum tíma reyktu þeir á bíósýningum sem kærðu sig um það. Mér er minnisstætt að það pirraði mann samt svolítið þegar kveikt var í sígarettu með eldspýtu (kveikjarar voru sjaldgæfir og rándýrir á þessum árum) að við það varð bjart í salnum smástund og jafnvel svo að ekki sást vel það sem fram fór á hvíta tjaldinu.
Ég man alltaf hvað Tommi hans Bjarna Tomm lifði sig svakalega vel inn í kábojmyndirnar. Hann gat alls ekki þagað og ekki heldur setið kyrr og fæturnir á honum gengu upp og niður eins og hann vari á harðahlaupum, þegar eltingarleikurinn milli kúrekanna og indíánanna fór að æsast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2007 | 14:15
130. blogg
Ég er ánægður með það hve mikil regla hefur verið á bloggskrifunum hjá mér að undanförnu. Enginn dagur hefur fallið úr og allar eru færslurnar álíka langar. Svona á þetta að vera og svona vil ég hafa það.
Kannski skiptir minnstu máli hvernig maður skrifar og hvað maður skrifar um. Lesendur kunna ef til vill best við að fá bara sitt fóður reglulega. Nei, ég segi nú svona. Auðvitað reyni ég alltaf að skrifa um eitthvað sem mér finnst bitastætt.
Þegar ég var að alast upp í Hveragerði í kringum 1950 var oft skemmtilegt að lifa. Garðyrkjustöðvar á hverju strái og menn virtust lifa að mestu leyti hver á öðrum. Engin var útgerðin og engin stóriðjan.
Samt voru þarna ýmsir vísar að því sem á þeim tíma hefði ef til vill kallast stóriðja, þó þeir séu flestir horfnir núna. Þangmjölsverksmiðja var rekin rétt fyrir utan þorpið, en það var fyrir mitt minni svo ég man bara eftir húsgrunninum. Mjólkursamlagið sem eitt sinn starfaði rétt við Hótelið var orðið að Ullarverksmiðju þar sem meðal annars var framleiddur lopi. Ég man eftir því að verkamönnunum þar hitnaði stundum innan um vélarnar og komu þá gjarnan út í dyr og spjölluðu við okkur krakkana.
Kaupfélagið (Kaupfélag Árnesinga) eignaðist síðar þetta stóra og mikla hús og það var einmitt á efri hæð þess sem ég hóf seinna mitt hokur með Áslaugu eftir að ég var tekinn við starfi sem útibússtjóri hjá kaupfélaginu árið 1962 eða 3
Hörður á Kvennaskólanum var helsta fyllibyttan í þorpinu um þetta leyti. Við krakkarnir höfðum óskaplega gaman af að stríða honum því hann átti það til að hlaupa á eftir okkur með öskrum og óhljóðum, þó aldrei vissi ég til þess að hann gerði flugu mein.
Meðan ég starfaði við kaupfélagið lét SÍS sjálfur reisa eina feiknstóra ullarþvottastöð upp við Hamar. Þetta var á margan hátt eins og hver önnur stóriðja þó ekki ynni þar mikill fjöldi manna. Ég man þó að pabbi vann þar um tíma og líka Bergur í Reykjakoti. Held að þeir hafi báðir fengist við að flokka ull.
Inni í dal sem kallað var, þ.e.a.s. nálægt Reykjakoti og þar í kring voru á þessum árum boraðar allnokkrar djúpar og miklar borholur í tilraunaskyni. Mikil gufa fékkst úr sumum af þessum holum og ég man að eitthvert sinn var slík hola látin blása í Varmána með þeim afleiðingum að allur fiskur drapst þar. Menn gerðu sér ferð niður í á til að sækja sér dauðan fisk, því ætur var hann þó hann hafi verið drepinn með þessum hætti. Pabbi náði einum eða tveimur allstórum silungum sem hafðir voru í matinn.
Oft hefur verið rætt um að nýta þá gufu sem þarna er búið að beisla til einhvers. Meða annars man ég að eitt sinn var rætt um stóra sykurverksmiðju. Aldrei hefur samt orðið úr neinum framkvæmdum. Fleiri verksmiðjur hefur verið rætt um að byggja þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)