904 - Um gróðurhúsalofttegundir, krimma o.fl.

Nú er ég víst opinberlega orðinn loftslags-afneitari og mengunarvinur. Finnst þó sjálfum að Mengunarlöndin öll sýni fátækum þróunarlöndum fádæma yfirgang með því að ætla að banna þeim að menga eftir að hafa sjálf spúð sínum skít útum allt öldum saman.

Hnatthlýnunin er samt ekkert gamanmál. Alveg án tillit til þess hvort hlýnun í heiminum er af mannavöldum eða ekki væri okkur sæmra að umgangast náttúruna með meiri virðingu en við höfum gert. Við erum nefnilega með jörðina að láni frá afkomendum okkar en eigum hana ekki.

Endur fyrir löngu hafði ég mikið dálæti á krimmum. Íslenskar sögur af því tagi þekktust næstum ekki þá. Agatha Christie var í nokkru uppáhaldi. Var samt óánægður með þann vana hennar að leysa málin oft í lokin með upplýsingum sem ekki höfðu komið fram í bókinni.

Ellery Queen var betri að því leyti. Hann (eða réttara sagt þeir, því það voru víst tveir frændur sem skrifuðu bækurnar) passaði sig alltaf á því að láta allt koma fram sem máli skipti. Stundum var þó erfitt að átta sig á fyrirfram hvað það var sem úrslitum réði.

Svo komu Sjöwall og Wahlöö og þá breyttist allt. Krimmarnir urðu ekki bara leynilögreglugátur heldur miklu meira en það. Raunverulegur skáldskapur, þjóðfélagsádeila og ýmislegt annað. Jafnvel fyndnir og skemmtilegir.

Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sýna mikið lýðskrum í sambandi við Icesave málið. Allir ráðamenn þeirra gera sér örugglega grein fyrir því að ekki verður hjá því komist að borga Icesave-skuldirnar.

Samt halda þeir leiknum áfram. Ástæðan hlýtur að vera sú að þeim sýnist að útá þetta fái þeir atkvæði. Að þjóðin geti mögulega hagnast á því að draga þetta mál lengur er með öllu óhugsandi. Þeir sem áður heimtuðu lögfræðiálit afneita þeim nú af miklum krafti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

það eru skiptar skoðanir, meðal vísindamanna, um áhrif mannsins á hitastig jarðar. þó er það skoðun mín að sé einhver vafi skuli jörðin njóta hans.

þar sem ég les ekki bækur get ég lítið kommentað á bókmenntaþáttinn. ekki nema að ég hef séð sjónvarpsþætti gerða eftir sögum Christie og það er rétt að maður vissi aldrei neitt, fyrr en á síðustu mínútunum þegar einhver mætti og útskýrði allt. frekar ódýrt.

hverjir eru Sjöwall og Wahlöö? mér datt í hug Willeroy & Boch. fínt að hægja á sér í þeirra postulín.

Brjánn Guðjónsson, 23.12.2009 kl. 19:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sjöwall og Wahlöö voru að ég held sænsk hjón og skrifuðu eðalkrimma. Meira að segja nöfnin á þeim voru oft góð - Man eftir einum sem hét "Löggan sem hló". Það sem síðan hefur komið finnst mér vera aðallega stæling á þeirra bókum.

Sæmundur Bjarnason, 23.12.2009 kl. 21:36

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fátt virðist í dag mega teljast hafið yfir vafa þegar ármenn neyslugræðginnar taka til máls fyrir hönd eigin bankareiknings. Það er þó í mínum huga hafið yfir vafann þegar stór stöðuvötn, stórfljót og jafnvel hafsvæði eru orðin svo eitruð að þar lifir ekki fiskur og þar sem ástandið er komið að ystu mörkum er fiskurinn úrkynjaður ellegar baneitraður. Við erum einfaldlega komin að endastöð ef við tökum ekki öll til hendinni og ekki seinna en strax.

Árni Gunnarsson, 23.12.2009 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband