894 - Jarðfræði

Sunnudaginn 23. október árið 4004 fyrir Krists burð skapaði Guð jörðina. Þetta reiknaði írski biskupinn Ussher út um 1650 og margir trúðu þessu eins og nýju neti. Í almanaki hins íslenska þjóðvinafélags frá 1911 er sagt: Á þessu ári teljast liðin vera frá sköpun veraldar 5878 ár.

Fremstu vísindamenn trúðu þessu þó ekki alveg. Darwin sjálfur taldi í bók sinni um uppruna tegundanna að meira en 300 milljón ár væru liðin frá frá síðari hluta miðlífsaldar. Lord Kelvin reiknaði hinsvegar út að miðað við þykkt jarðskorpunnar  gæti hún ekki verið eldri en svona 40 milljón ára. Þetta líkaði Darwin illa en gat ekki að gert. Í skjóli sjálfs Newtons var eðlisfræðin nánast jafn ósnertanleg og kristin kirkja.

Nóbelsverðlaunahafinn Ernest Rutherford leysti gátuna með því að sýna fram á að geislun ylli varmamyndun í iðrum jarðar. Þar með gæti jarðskorpan verið miklu eldri en áður var talið.

Þjóðverjinn Alfred Wegener kom með þá kenningu að meginlöndin væru á reki hvert frá öðru og studdi hana ágætum rökum. Gat þó ekki sýnt fram á hvaða kraftar það væru sem færðu meginlöndin til. Seinna var þó sýnt fram á að það mundu vera iðustraumar í jarðmöttlinum.

Ekki gekk landrekskenningin fyllilega upp fyrr en henni var breytt lítillega þannig að meginlöndin væru á flekum sem sumsstaðar nudduðust saman og framkölluðu þannig jarðskjálfta. Annarsstaðar, eins og til dæmis á Íslandi, færðust þeir hinsvegar hver frá öðrum og þar ætti eldur úr iðrum jarðar greiðari útgang en annarsstaðar.

Talið er að á um það bil 26 milljón ára fresti fari sólkerfið í gegnum loftsteinabelti eitt mikið og stundum lendi stórir loftsteinar á jörðinni og hafi mikil áhrif á líf og þróun þar. Til dæmis hefur hvarf risaeðlanna fyrir 65 milljónum ára verið útskýrt með því. Í þróunarsögu lífsins á jörðinni virðast álíka rof hafa orðið oftar.

Það sem hér hefur verið sagt er mjög stuttaraleg endursögn á merkri grein eftir Sigurð Steinþórsson sem hann nefnir „Heimsmynd jarðfræði í hundrað ár" og var gefin út árið 1994 í bókinni „Tilraunir handa Þorsteini". Þar er átt við Þorstein Gylfason prófessor í heimspeki sem fæddist árið 1942 og dó árið 2005.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Vekur oss til vitundar
á viskunni er ekkert lát
Heimsspekin hans Sæmundar
heimaskíts mig gerði mát

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.12.2009 kl. 00:38

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Lætur mér nú lof í té
Laxdalinn í fáti.
Þó heimspekinnar helgu vé
heimaskíts þá máti.

Sæmundur Bjarnason, 13.12.2009 kl. 01:05

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þér óguðlegu! Hví ræðið þig eigi fremur guðfræði en jarðfræð. Það er ekki gott að vera svona jarðbundin. Leytið guðs og gjörið hans heilaga vilja og þá mun allt veitast yður að auki! Alveg satt! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.12.2009 kl. 01:25

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég kalla bara á DoctorE ef þú lætur svona, Sigurður. Útreikningar þess írska hafa verið véfengdir af mörgum.

Sæmundur Bjarnason, 13.12.2009 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband