874 - Kreppan

Hvort fer mannkyninu fram eður ei? Mér finnst svarið við þeirri spurningu skipta höfuðmáli í sambandi við öll trúarbrögð. Þau trúarbrögð sem ekki leggja áherslu á það góða í mannskepnunni eru einskis nýt. Svartagallsraus gerir ekkert annað en eitra andrúmsloftið. Ef nógu margir trúa því að allt sé að fara til fjandans fer það örugglega þangað. Erfiðleikar sem hellast yfir heila þjóð eru ekkert lamb að leika sér við. Þeir sem gera full mikið úr afleiðingum bankahrunsins eru samt fleiri en þeir sem gera of lítið úr þeim.

Fróðlegt er að reyna að gera sér grein fyrir afleiðingum hrunsins. Efnahagslegu afleiðingarnar verða áreiðanlega ekki eins miklar og margir vilja vera láta. Miklu verra er að gera sér grein fyrir öðrum afleiðingum. Þær geta þó orðið bæði miklar og langvarandi. Næstu áratugi verða allar breytingar taldar stafa af bankahruninu. Stjórnmál og stjórnum öll á landinu mun breytast. Aðild eða ekki aðild að ESB mun skipta miklu máli. Verulegur vafi er á hvernig það mál fer. Hrunið mun valda mikilli vinstrisveiflu í öllu pólitísku lífi. ESB gæti orðið raunhæfur millivegur milli hægri og vinstri.

Yfirleitt er setið lengur yfir tölvunni en æskilegt er. Mest er það vegna þess að maður hefur komið sér upp einhverjum heimskulegum rúnti af bloggum og öðrum óþarfa sem maður telur sér trú um að maður verði endilega að kíkja á. Ætli tölvufrí fari ekki að komast í tísku? Bráðum verður snobbað eins mikið fyrir Internetleysi eins og sjónvarpsleysi áður fyrr.

Mikið er rætt og ritað um fyrirhugað háskólasjúkrahús við Hringbrautina. Þó það hafi hafst í gegn að gera Hringbrautina að því viðundri sem hún er í dag er óþarfi að halda áfram með vitleysuna. Ekki er annað að sjá en til standi einnig að reisa samgöngumiðstöð á flugvellinum, grafa jarðgöng gegnum Öskjuhlíð, láta flugvöllinn vera áfram og stritast við að viðhalda miðbænum í Kvosinni.

Annars staðar í borginni er á sama tíma á undarlegan hátt bruðlað með pláss eins og vel má sjá á myndinni sem Sturla Snorrason birtir á bloggsíðu sinni á midborg.blog.is í blogg-grein sem hann nefnir „Dýrasti útkjálki á Íslandi."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Maður skyldi ætla að það yrði vinstri sveifla í pólitíkinni í kjölfar hrunsins og vissulega kom hún fram í síðustu kosningum... en mér sýnist hún ætla að vara stutt... fólk er svo fljótt að gleyma hverjir það voru sem komu okkur í þennan vanda...

Brattur, 24.11.2009 kl. 00:18

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég hefði búist við meiri sveiflu í síðustu kosningum. Reikna heldur ekki með að úrslitin í næstu kosningum verði eins og skoðanakannanir eru núna.

Sæmundur Bjarnason, 24.11.2009 kl. 01:11

3 identicon

Mig grunar, Sæmundur skólabróðir, að fyrir næstu reglulegar alþingiskosningar (ég er hættur að skrifa alþingi með stórum staf) verði Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og/eða aðrir skuldheimtumenn á hendur íslenska ríkinu, búnir að yfirtaka landsstjórnina alveg og senda þing og ríkisstjórn heim. Nágrannaþjóðir okkar eru búnar að fá algjörlega nóg af þessum ábyrgðarlausa bófaflokki, sem virðist byggja þetta útsker.

Ellismellur 24.11.2009 kl. 07:01

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ellismellur, ég held að þú hafir látið umræðuna hafa full mikil áhrif á þig. Jafnvel þó allt fari eins illa og þú segir (sem ég trúi reyndar ekki) þá er alls ekki líklegt að þetta gerist með opinberum hætti. Völd peninga og peningamanna munu þó ekki hverfa þó margir óski þess.

Sæmundur Bjarnason, 24.11.2009 kl. 09:02

5 identicon

Sæll Sæmundur.

Einn er sá hlutur sem trúarofstækismenn jafnt sem
vantrúargemlinga greinir ekki á um en það er að
mannkyni hefur hvorki farið fram né aftur.
Sá Adam sem gisti Paradís er sá sami Adam sem
lifir nú á tíð hvort heldur í 101 Reykjavík eða
Tortóla á Bresku Jómfrúreyjum.

Húsari. 24.11.2009 kl. 15:45

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Húsari. Vonandi eru einhverjir sem eru hvorki trúarofstækismenn eða vantrúargemlingar og hugsanlegt er að þeir hafi ekki þessa skoðun. Það er svo bágt að standa í stað, sagði Jónas forðum.

Sæmundur Bjarnason, 24.11.2009 kl. 16:01

7 identicon

Sorry húsari, það var enginn Adam né paradís :)
Mannkyni hefur vissulega sýnt miklar framfarir, nútíminn er jú besti tími sem mannkynið hefur upplifað.. þó svo að trúarnöttar segi annað og bíði eftir geimgaldrakarlinum á milli þess að kikka á sjónvarpið og internetið í leit að hörmungarfréttum sem tákni um að nú fari dómsdagur að koma.

Hörmungar gamla tímans voru margfaldar þó svo að ekki hafi verið ítarlegar fréttir um þær eins og í dag.

Þannig var nú það... og er.

DoctorE 24.11.2009 kl. 22:28

8 identicon

Miklir bjartsýnismenn eruð þið Sæmundur!
Efast um að hundraðshöfðinginn sem greint er
frá í guðspjöllunum hafi búið yfir svo
takmarkalausri trú.

Húsari. 25.11.2009 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband