872 - Þjóðmál

Undanfarið hef ég verið að glugga í 2. hefti 5. árgangs af tímaritinu Þjóðmálum sem ég fékk lánað á bókasafninu um daginn. Já, ég veit að mér væri nær að lesa Herðubreið en ég les bara það sem verður á vegi mínum. Í þessu riti er meðal annars mynd af grein í Morgunblaðinu eftir mjög hárprúðan Davíð Oddsson (öllu verður nú að halda til haga). Já, að sjálfsögðu er það í grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson.

Allskyns hægri sinnaður áróður er mjög áberandi í blaðinu. Áróðurinn er sérlega magnaður í grein einni sem í orði kveðnu er dómur um bók sem kölluð er Múrbrot og er eftir því sem ég best veit úrval greina úr vefriti því sem kallað var Múrinn. Greinin er eftir mann sem heitir Vilhjálmur Eyþórsson og ég veit engin deili á. Niðurlag greinarinnar, sem er einkennandi fyrir hana alla, er svona:

MÚR-félagarnir, jámenn alræðisherra og hryðjuverkahópa, tilheyra síðari hópnum, eins og eyðniveiran. Þeir, án þess að gera sér grein fyrir því sjálfir, nota frelsið til að drepa frelsið.

Einhverntíma í miðri útrásinni tilkynnti Guðni Ágústsson, sem þá var landbúnaðarráðherra, að óvænt hefði rekið á fjörurnar hjá ráðuneyti sínu talsvert fé. Lagði hann til að byggðar yrðu fyrir þá peninga reiðhallir um allt land því þær bráðvantaði öðru fremur. Fyrir mér er þetta eitt eftirminnilegasta dæmið um útrásarbrjálæðið en ég er líka enginn hestamaður. Eflaust koma þessar hallir sér víða vel og hægt er að nota þær í ýmislegt.

Var um daginn að flækjast í köldu og hráslagalegu veðri úti á Álftanesi ekki langt frá Bessastöðum. Ekki get ég samt sagt að sá staður hafi inspírerað mig sérstaklega en af einhverjum ástæðum hljómaði eftirfarandi texti fram og aftur í höfðinu á mér. Mestmegnis er þetta stolið en líklega raðað saman öðru vísi en vanalegast er. „Steini Briem með sitt runurím" kann áreiðanlega að meta þetta:

Ár vas alda
í austan kalda.
Grísir gjalda
gömul svín valda

Aðalvandamálið við jólabólkaflóðið er auglýsingaóhroðinn í sjónvarpinu. Hann er að byrja núna og þó sumar auglýsingarnar séu þannig að skaðlaust sé að horfa á þær einu sinni verða þær fljótt óhemju leiðinlegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bóndinn sem er á Bessastöðum,
af beikoni á nóg í sínum hlöðum,
nær í það Sæmi,
á nó þar tæmi,
á Eiðfaxa Guðna ógnargröðum.

Þorsteinn Briem, 22.11.2009 kl. 03:23

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Briemarinn lá í leyni
og leyndist undir steini.
Bóndi Bessastaða
beikons átti hlaða.
Bleikum grísum varð það mjög að meini.

Sæmundur Bjarnason, 22.11.2009 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband