870 - Unga fólkið og atvinnuleysisbæturnar

Í frétt á forsíðu Morgunblaðsins segir að um 2550 ungmenni á aldrinum 15 - 24 ára séu á atvinnuleysisskrá og búi enn í foreldrahúsum. Þetta getur vel verið rétt þó ég sjái ekki í fljótu bragði hvernig blaðið kemst að þessu með foreldrahúsin. Eflaust byggist það samt á lögheimilisskráningu sem allir vita að alls ekki er alltaf í samræmi við raunveruleikann. 

Það er engin furða þó Árni Páll félagsmálaráðherra vilji komast yfir peningana sem þetta fólk fær með réttu í atvinnuleysisbætur. Þarna er örugglega um umtalsverða upphæð að ræða sem muna mundi um í kreppunni. Reglur segja samt að þetta unga fólk skuli fá atvinnuleysisbætur og það ber að virða en ekki breyta reglunum í skyndingu nú bara vegna þess að ríkisstjórninni kemur það vel.

Í framtíðinni getur það vel orðið vandamál ef margt af þessu unga fólki festist í því böli sem atvinnuleysið er. Það er hinsvegar sjálfstætt úrlausnarefni og ég kem ekki auga á að rétta ráðið sé að svipta fólkið atvinnuleysisbótum. Það er þjóðfélagið sem hefur brugðist fólkinu og ekki batnar málið ef líka á að refsa því.

Langbest er að þeir peningar sem af fólki eru teknir fari beint og milliliðalaust til þess að mennta það og veita því starfsreynslu. Skikka má fólk til að sækja slíkt.

Bloggið hentar mér ágætlega að því leyti að mér finnst mjög gott og eiginlega meiriháttar að geta á þennan hátt komið daglega frá mér texta sem ég veit að einhverjir lesa.

Ég geri ekki mjög oft athugasemdir við blogg annarra. Hef samt lent í því þrívegis að fá athugasemdir ekki birtar en í staðinn orðsendingu um að bloggsíðu-eigandi þurfi fyrst að samþykkja athugasemdina. Þessi þrír aðilar eru: Stefán Friðrik Stefánsson, Svavar Alfreð Jónsson og Jón Magnússon. Sumir gefa alls ekki kost á athugasemdum og að sjálfsögðu forðast ég blogg þeirra eins og heitan eldinn.

Lára Hanna Einarsdóttir bloggar því miður sjaldan núorðið en setur samt öðru hvoru inn greinar úr blöðum. Um daginn setti hún inn grein eftir Sverri Ólafsson. Ég byrjaði að lesa þá grein en komst ekki langt því fordómar greinarhöfundar virkuðu illa á mig. Hann segir snemma í greininni:

Síðan undirritaður kvæntist hefur hann talið að Þingeyingar væru yfirleitt betur gefnir en annað fólk. Sú skoðun hefur nú beðið alvarlegan hnekki. Suðurnesjamenn koma hins vegar ekki á óvart.

Lengra gat ég ekki lesið vegna eigin fordóma gagnvart fordómum annarra. Vel getur samt verið að þetta sé hin merkasta grein sem ég hefði betur lesið alla með athygli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

2550 ungmenni á aldrinum 15 - 24 ára eru atvinnulaus en engin þeirra sótti um fullt starf sem auglýst var í Fréttablaðinu fyrir 2 vikum. Starfið var verslunarstarf í tískuvöruverslun. Eingöngu tveir sóttu um í öllu þessu atvinnuleysi.

ER ÞETTA EÐLILEGT?

því miður er það staðreynd að fólk er farið að kjósa að vinna EKKI.

Halla Rut , 20.11.2009 kl. 00:58

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Sæmundur.

Eigum við ekki bara að hafa gaman af þessum sveitaríg? Ég held ekki að það felist neinn broddur í þessum orðum Sverris. Sennilega er það jafn saklaust eins og að hann eigi kannski þingeyska eiginkonu...Fordómar eru miklu sterkari kenndir að mínu mati. Fordómar  fela í sér fyrirlitningu og afneitun.  Af þínum skrifum að dæma þjáist þú af hvorugu og þessvegna lesa menn bloggið þitt  reiðilaust

Takk fyrir það

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 20.11.2009 kl. 05:43

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einöngruð dæmi sanna ekki neitt. Verulegur hluti þessa fjölda kann að hafa það allt öðruvísi en þú Halla Rut og Morgunblaðið teljið og að þessvegna sé ósanngjarnt að refsa þeim.

Takk, Jóhannes. Sammála.

Sæmundur Bjarnason, 20.11.2009 kl. 05:58

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Skondið, greinin sem ég var að skrifa rétt áðan fjallar nákvæmlega um þessa tilfinningu mína: "Lengra gat ég ekki lesið vegna eigin fordóma gagnvart fordómum annarra. Vel getur samt verið að þetta sé hin merkasta grein sem ég hefði betur lesið alla með athygli."

Skemmtilega orðað hjá þér.

Hrannar Baldursson, 20.11.2009 kl. 06:57

5 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég tók þessu broti úr grein Sverris Ólafssonar sem léttum húmor.  Konan hans er greinilega þingeysk.    Við Íslendingar eigum langa hefð fyrir sveitaríg og oftast er það á léttu nótunum.

Grein Sverris er mjög góð og ég mæli með því að þú kíkir aftur á Láru Hönnu og klárir greinina.

Anna Einarsdóttir, 20.11.2009 kl. 09:45

6 Smámynd: Halla Rut

Sæmundur: Því miður er þetta ekki einangrað dæmi. Því er nú ver. Það hefur sjaldan ef nokkurn tíman verið eins  erfitt að fá fólk til starfa. Það er eins og krafturinn og baráttuviljinn sé farin úr fólki. Uppgjöfin er algjör. Það einmitt sást svo vel nú í gær þegar "fólkið á götunni" var spurt hvað það þætti um skattahækkanir þær er nú blasa við okkur en svör eins og "verður ekki bara að gera þetta" og "þurfum við ekki bara að sætta okkur við þetta" voru algeng.

Ef það verður svo hér eins og t.d. í Bretlandi þar sem fólk velur að vinna ekki og það að "vinna ekki" teljist eðlilegt ástand og raunverulegur valkostur gæti það reynst þjóð okkar miklu meira tjón en IceSave og allt annað er nú hefur dunið á okkur til samans þegar til lengri tíma er litið. Hér eru að myndast vandamál sem við bara megum ekki líta framhjá. En þettta er auðvitað eitt af því sem ekki má tala um. Allt of viðkvæmt.

Halla Rut , 20.11.2009 kl. 09:51

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Eru Íslendingar að verða að þjóð auðnuleysingja?

Er tregi ungs fólks til að taka þátt í hrunadansinum og efnishyggjunni ekki skiljanlegur, eftir að hafa horft upp dansstjóranna og öllum goðum þeirra steypt af stalli? - Eftir hverju ætti það að vera að sækjast? Metnaður til að afla meiri peninga var undirrótin að fallinu.

Kannski er þetta það sem átt er við þegar fólk er hvatt til að taka Krist sér til fyrirmyndar, þ.e. að hanga heima hjá sér til þrítugs og ef það fæst til að gera eitthvað er það kraftaverk.

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.11.2009 kl. 11:52

8 Smámynd: Halla Rut

Þetta síðasta hjá þér Svanur er óborganlegt

Halla Rut , 20.11.2009 kl. 13:21

9 identicon

Sæll, rakst á bloggið þitt. Ég er rétt rúmlega tvítug, og er vinnandi þó að launin mín séu rétt yfir atvinnuleysisbótum, einfaldlega afþví að ég yrði vitlaus af að gera ekki neitt. En ég skil vel það fólk sem vill frekar vera á bótum, oft eru launin LÆRRI en atvinnuleysisbæturnar, fyrir fulla vinnu, og nú er fólk víða að taka á sig launalækkun. Einnig er nám í boði fyrir atvinnulausa, þeim að kostnaðarlausu, vinnumálastofnun borgar bækurnar og allt saman og fólk er á fullum bótum þegar þetta sama fólk gæti verið í menntaskóla og í hlutastarfi á lúsarlaunum .. Hvort myndir þú velja? hmm :)

Þórunn Sylvía 20.11.2009 kl. 19:35

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst ekkert á móti því að heimta eitthvað ákveðið af þeim sem fá atvinnuleysisbætur og að það sé mun skárra en að taka bæturnar (eða hluta þeirra) bara af fólki ef það er á vissum aldri.

Sæmundur Bjarnason, 20.11.2009 kl. 19:55

11 identicon

Já alveg sammála því.

Þórunn Sylvía 20.11.2009 kl. 20:55

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er ekki nóg að hafa hér einhvers konar vinnu í boði fyrir fólk og á þá gildir einu á hvaða aldri það er. Fólk þarf að hafa áhuga á að fara í það nám og vinna þau störf sem eru í boði.

Framboðið þarf því að vera fjölbreytt, þannig að allir séu ánægðir í námi og starfi. Og laun fyrir öll störf þurfa að vera nægilega há til að það borgi sig fyrir alla að vinna þau.

Lágmarks atvinnuleysisbætur eru hér engan veginn háar, 150 þúsund krónur á mánuði. Stjórnvöld geta ekki reiknað með öðru en að þeir sem eru orðnir 18 ára og búa enn hjá foreldrum sínum þurfi að greiða þar fyrir mat og húsnæði. Það er ekki hægt að ætlast til að foreldrarnir greiði þennan kostnað fyrir þá.

Hins vegar eru lágmarkslaunin of lág miðað við atvinnuleysisbæturnar. Samkvæmt kjarasamningi Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) hækkuðu lágmarkslaunin í 157 þúsund krónur á mánuði 1. mars síðastliðinn.

Og það kostar sitt fyrir fólk að koma sér í og úr vinnu.

Þorsteinn Briem, 20.11.2009 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband