17.11.2009 | 00:02
867 - Lagst í ræsið
Skelfingu lostnir bloggararnir tvístruðust í allar áttir þegar ógnvaldurinn mikli, Davíð í Hádegismóum, birtist í kofadyrunum. Sína gerði svipu upp vega séra Sverrir Stormskers-lega og hrukku þá allir í kút. Jafnvel Eiði litla Guðnasyni sem sat úti í horni og rýndi í gamlar útprentanir af mbl.is brá svo mikið að hann missti blöðin sín og gat ekki molast neitt í þrjá daga. Gömul blogghænsni eins og Lára Hanna og Sæmi Sæmundarháttur voru of sein að forða sér en Svani Gísla og ýmsum öðrum bloggurum tókst að komast undan og taka til flugfjaðranna og stefndu rakleiðis til Bloggheima. Þar fengu þau skjól um sinn.
Svona gæti ævintýrið um Mogglingana hafist. En það er ekki búið að skrifa það ennþá.
Sverrir Stormsker er sagður hafa skrifað grein í Moggann. Af því tilefni skrifar Eiður Guðnason blogg-grein sem hann kallar Mogginn leggst í ræsið". Eiður kveður fast að orði þarna og ég er ekki viss um að ég sé honum alveg sammála. Hef samt ekki mikið álit á Sverri og jafnvel minna á Mogganum en auðvitað þykir hverjum sinn fugl fagur. Eftir því sem Eiður segir er Sverrir þarna að skrifa um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og ég hef mjög takmarkaðan áhuga á að lesa þá grein.
Þessa dagana er ég að lesa bókina hans Eiríks Bergmann um Evrópusambandið. Mér finnst hún spennandi og skemmtileg en er nokkuð viss um að ekki eru allir sama sinnis. Bókin er ágætlega skrifuð og gefur gott yfirlit yfir þau flóknu og yfirgripsmiklu mál sem sameining Evrópu í Evrópusambandinu er.
Þó útlit sé nú fyrir að Evrópusambandsandstæðingar sigri auðveldlega í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild sem gæti orðið eftir svona eitt til tvö ár er ég ennþá sannfærður um að aðild mundi verða okkur Íslendingum til góðs.
Ég ætla samt ekkert að reyna að rökstyðja það núna. Tel bara að við getum ekki endalaust þegið allt mögulegt af öðrum og aldrei látið neitt í staðinn. Að ímynda sér að ESB sé að verða einhvers konar USA og að við þurfum að kvíða herskyldu í framtíðinni til dæmis er svo fáránlegt að það er ekki einu sinni fyndið.
Egill Helgason skrifar um það á blogginu sínu að ESB-samningurinn verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stefán Pálsson andmælir þessu á sínu bloggi og segir að samningurinn verði ekki felldur einfaldlega vegna þess að aldrei verði gengið frá honum.
Þetta eru áhugaverðar pælingar og ekki fráleitt að spekúlera einmitt í svonalöguðu meðan ekkert er vitað um hvort samningar takist eða hvernig þeir verða. Ég er sammála skoðun Stefáns að því leyti að líklegt er að Alþingiskosningar fari fram á undan atkvæðagreiðslu um ESB þó það sé alls ekki það sem Jóhanna vill. Úrslitin í þeim kosningum munu ráða mjög miklu um örlög væntanlegs ESB-samnings.
Með því aðgerðarleysi sem einkennt hefur núverandi ríkisstjórn er útilokað að hún verði við völd út kjörtímabilið. Þá er líka útséð um að ESB-aðild kemur ekki til atkvæðagreiðslu fyrr en eftir Alþingiskosningar.
Visir.is gefur í skyn að 122 þjóðfundarfulltrúar hafi lagt ólöglega í Laugardalnum á laugardaginn. Eflaust eiga menn síðan að hneykslast á þessu og draga í efa heiðarleik þeirra sem svona gera. Þannig er það bara ekki. Allir leggja ólöglega ef þeir sjá að aðrir gera það líka. Hefur ekkert með heiðarleika eða aðra kosti að gera.
Að svipta ungt fólk atvinnuleysisbótum eingöngu vegna þess að það er ungt er eins fráleitt og nokkur hlutur getur verið. Brýtur örugglega í bága við stjórnarskrá og að auki gegn réttlætiskennd allra hugsandi manna.
Athugasemdir
Áhugaverðar pælingar um ESB-málið Sæmundur. Annars met ég stöðuna svipað og þú, þótt við séum ekki sammála hvar hagsmunum Íslands er best borgið. Ég hef hinsvegar reynt að skrifa minna um mögulega ESB-aðild hér á blogginu því það endar alltaf á sama veg; ég er kallaður einangrunarsinni, afdalamaður o.sv.frv. Jafnvel gefið í skyn að mér hljóti að vera illa við útlendinga.
Þegar ég kom á Þjóðfundinn um hálf tíu-leytið þá heyrði ég í talstöð þess sem vísaði mér á stæði að þau væru öll að fyllast. Voru þetta bara ekki síðustu 100 fulltrúarnir sem mættu?
Axel Þór Kolbeinsson, 17.11.2009 kl. 09:05
Ágæti Sæmundur ! Þú kallar mig Eið "litla" Guðnason. Ég tek það svo sem ekki nærri mér, en ég heiti Eiður Svanberg Guðnason. Uppnefni segja yfirleitt meira um þann sem uppnefnir, en þann sem uppnefndur er. Annars er ég 183 sm hár, en ég reikna ekki með að það sé það sem átt við.
Eiður Svanberg Guðnason, 17.11.2009 kl. 09:35
ég held að alls ótímabært sé að velta vöngum yfir hugsanlegri niðurstöðu með Evrópusambandsumsókn Íslands. viðhorf íslendinga og skoðanir breytast gjarnan með vindinum.
í upphafi árs var meirihluti fylgjandi aðildarumsókn. helsta ástæðan líklega löngunin í Evruna. núna hefur fólk skipt um skoðun. ástæðan líklega hvernig Evrópusambandinu hefur verið spyrt við Icesave málið.
fyrst viðhorf landans getur sveiflast svona fram og aftur á innan við ári, er engin leið að vita hver vindáttin verður eftir eitt ár. hvað þá tvö.
mitt mat er að náist góður samningur, verður meirihluti fylgjandi. annars ekki.
Brjánn Guðjónsson, 17.11.2009 kl. 11:37
Eiður: Fyrirgefðu, þetta átti bara að vera fyndið. Uppnefni geta verið með ýmsu móti. Mér finnst þetta vera ósköp saklaust.
Axel: Nafngiftir í sambandi við ESB eru oft leiðinlegar.
Brjánn: Sammála því að margt getur breyst í sambandi við fylgi við ESB-aðild.
Sæmundur Bjarnason, 17.11.2009 kl. 14:06
Skreyttan á Sæmi skrjóð,
og skínandi öll hans ljóð,
átta hundruð sextíu og sex,
sagði Ferguson hann Alex.
Þorsteinn Briem, 17.11.2009 kl. 15:48
Númerum Steini staglast á
stöðugt nokkuð rogginn.
Átta hundruð eru þá
orðin þessi bloggin.
Sæmundur Bjarnason, 17.11.2009 kl. 16:00
Það er mér heiður að Eiður Svanberg Guðnason skuli sjá sig tilneyddan að svara mér. Sjálfur hef ég verið kallaður lítill og sárnað nokkuð. Er líka vel yfir 190 sentimetrar á hæð. Með því að mótmæla einu atriði í sögu minni er Eiður óbeint að samþykkja annað. Semsé þetta með útprentanirnar úr mbl.is sem átti að vera aðalfyndnin hjá mér.
Sæmundur Bjarnason, 17.11.2009 kl. 18:08
Að prenta eitthvað út af mbl.is er of fáránlegt til að einhverjum detti í hug að skrifa athugasemd við það, Sæmi minn.
Þorsteinn Briem, 17.11.2009 kl. 18:33
Það er vert að taka það fram að meirihluti íslendinga styður ennþá aðildarumsókn Íslands að ESB, þrátt fyrir Icesave málið.
Andstaðan við aðild Íslendinga að ESB er mikil á meðan engin aðildarsamningur liggur fyrir. Þetta verður augljóst þegar eldri kannanir um þessi mál eru skoðaðar. Hægt er að skoða eldri kannanir hérna.
Jón Frímann 17.11.2009 kl. 19:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.