858 - Kanarí

Var að mestu búinn að skrifa þessa sunnudagsfærslu en henti henni svo óvart. Áreiðanlega hefur hún verið ansi góð. Verst að ég man bara svo lítið eftir henni. Jú, ég man að ég minntist á að líklega mundi ég fara í bloggfrí í janúar næstkomandi. Þá ætla ég nefnilega til Kanaríeyja í fyrsta skipti á ævinni.

Ef ég man ekki eftir neinu öðru þá hefur þessi færsla kannski ekki verið eins frábær og ég hélt. Getur samt orskakað að þetta blogg verði í styttra lagi.

Lagt hefur verið til að ráðnir verði vængjaðir kettir til að passa ofurhraðalinn í Sviss. Hann gæti orðið fyrir brauðmolaárás og ofhitnað. Nei, ég er ekki að grínast. Lesið bara um þetta á bloggi Egils Jóhannssonar. Hann er eins og ég afar hrifinn af þessari græju og fylgist vel með sífelldum bilunum í henni og þess háttar.

Er ekkitrú trú? Er það trú að trúa ekki? Er ég trúaður þó ég segist ekki trúa á neitt? Það eru undarleg trúarbrögð. Mikið er rifist á fjölda blogga um þessar einföldu spurningar. Vísasti vegurinn til að fá mikinn fjölda kommenta er að segja eitthvað tvírætt um trúmál.

Tvíræð eru trúmálin.
Trúleysi er bannað.
En fræðast má um fjármálin
og fara eitthvert annað.

Ég hef á tilfinningunni að ég sé alltaf að skrifa aftur og aftur um það sama hér á blogginu. Bara með svolítið breyttu orðalagi. Annars vegar finnst mér að aldrei gerist neitt og hinsvegar að allir hlutir séu sífellt að breytast með vaxandi hraða og ég hafi engan vegin við. Hvort ætli sé réttara?

Kjós rétt, þol ei órétt. Þetta hélt ég að ég væri að gera þegar ég kaus Borgarahreyfinguna í vor. Svo var ekki. Hvað er þá til ráða? Bíða eftir því að aftur verði kosið? Kannski kýs ég vitlaust þá líka. Veit samt ekki hvað verður í boði.

Lesið Staksteina í dag (laugardag). Frétt DV um að ellefu þúsund áskrifendur Mogga hafi hætt hefur komið við kauninn þar. Menn eru beinlínis með böggum hildar.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég lærði vísuna um Pál svona.

Þegar Palli þenur gúl.

Þykir kárna gaman

hann er líkur karakúl

kynblending í framan..

Ágúst Guðmundsson. 8.11.2009 kl. 10:58

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ágúst. Mér finnst muna sáralitlu hvort sagt er: "líkur" eða "eins og".

Það getur reyndar vel verið að ég hafi afbakað vísuna. Líklega hef ég einhvers staðar séð hana skrifaða, en man ekki hvar.

Sæmundur Bjarnason, 8.11.2009 kl. 20:49

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gott hjá þér að ætla að prófa Kanarí. Ég fór þangað og við hjónin bæði í fyrsta skipti 2003 og satt að segja var þessi fyrsta ferð afar illa lukkuð. Hún var í janúar og stóð í tvær vikur. Við fengum samtals 7 daga með góðu veðri en hina sjö afar slæmu og lentum meira að segja í snjókomu -- þó reyndar yrðum við að fara aðeins upp frá sjónum til að finna hana. Við vorum reyndar óheppin með hótel líka þó við borguðum sérstaklega til að fá það gott. 

Ákváðum þó að prófa aftur 2006 og er ekki að orðlengja að síðan höfum við farið þrisvar í viðbót (5 skipti í allt sem þykir ekki mikið) og hyggjum á að láta ekki þar staðar numið -- þó nú séum við aðeins byrjuð að snasa af Tenerife sem líka lofar góðu. En eftir þessa fyrstu ferð 2003 höfum við látið Heimsferðir eiga sig.

Sigurður Hreiðar, 9.11.2009 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband