855 - Karakúl og sími

Einu sinni í fyrndinni var Búnaðarritið gefið út árlega. Pabbi var áskrifandi að því enda fyrrverandi bóndi og las ég stundum eitt og annað þar ef ekki var annað að hafa. Í þann tíð var Páll Zóphaníasson búnaðarmálastjóri. 

Einhverntíma fyrir mitt minni en þó á tuttugustu öldinni var flutt inn svonefnt Karakúlfé. Það átti að auka mjög arðinn af hinni íslensku landnámsrollu en reyndin varð sú að með því kom mæðiveikin sem hafði miklar hörmungar í för með sér.

Ragnar Ásgeirsson ráðunautur bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands bjó að Helgafelli í Hveragerði. Hann var hagmæltur vel og hafði yndi að hverskyns þjóðlegum fróðleik. Gaf meðal annars út þjóðsagnabókina Skruddu. Eftirfarandi vísa er eftir hann og um Pál búnaðarmálastjóra.

Þegar Palli þenur gúl
þykir kárna gaman.
Hann er eins og Karakúl
kynblendingur í framan.

Símamál ættu ekki að þurfa að vera ákaflega flókin. Símafyrirtækin leitast þó við að gera þau sem allra flóknust til að geta svindlað sem mest á fólki. Á mínu heimili erum við með einn heimasíma og tvo farsíma sem eru lítið notaðir. Auk þess ADSL-Internetsamband. Um daginn ætlaði ég fyrir þrábeiðni konu nokkurrar í þjónustudeild Símans að skipta um fyrirtæki. Þ.e. skrá mína síma hjá Símanum í stað Vodafone.

Í sem stystu máli sagt er allt búið að vera í ólestri síðan og sennilega búið að klúðra því sem hægt er að klúðra. Svo blönduðust sjónvarpsmál inn í þetta allt saman og ekki bætti það úr skák. Sennilega dygðu mér tæpast tíu blaðsíður til að gera sæmilega grein fyrir þessu öllu svo ég sleppi því bara en vona að málin komist í lag á endanum.

Rannsóknir á ruslahaugum. Páll Theodórsson segir að landnám Íslands hafi orðið um 670. Það finnst mér trúlegt og hefur það lengi verið haft fyrir satt meðal fornleifafræðinga að landnámið hafi átt sér stað þónokkru fyrr en Ari fróði segir. Fyrir nokkru bloggaði ég um þetta og minntist þá á hugmyndir Páls um að rannsaka kolagerð frá fyrri tímum. Sömuleiðis eru ruslahaugar hvers konar mjög forvitnilegir til rannsókna. Þetta verkefni er að fara í gang núna og fyrstu niðurstaðna jafnvel að vænta fyrir næstu jól.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Það fylgdu víst fjórir sjúkdómar karakúlfénu : Garnaveiki, votamæði, þurramæði og visna.

Pétur Þorleifsson , 5.11.2009 kl. 03:29

2 identicon

Í minni sveit Mosfellssveit hét þetta mæðuveiki. Gott ef Kiljan ritar það ekki þannig einhvers staðar.

Páll búnaðarmálastjóri var maður viðutan. Einn sinn sem oftar kom hann í heimsókn þegar ég var í æsku. Þegar hann fór kvöddust hann og faðir minn úti fyrir dyrum. Þakka þér fyrir komuna, Magnús minn, sagði Páll.

Hlynur Þór Magnússon 5.11.2009 kl. 12:59

3 identicon

<img src="http://www.pageresource.com/images/next.jpg" />

next 5.11.2009 kl. 13:02

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Var þá Ari fróði ekki svo fróður eftir allt saman ?

Anna Einarsdóttir, 5.11.2009 kl. 13:26

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

líklega er þeðða með fróðleikinn tómur misskilningur. hann hefur líklega bara heitið Ari Fróði.

Brjánn Guðjónsson, 5.11.2009 kl. 13:33

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

En Páll var minnugur á fólk. Einhver veginn svona var sagan sem ég heyrði því til staðfestingar: Fyrir bílaöld urðu frambjóðendur til alþingiskosninga að ferðast á hestum um kjördæmin. Þeir Páll og Árni frá Múla voru félagslyndir og ferðuðust saman um Norður-Múlasýslu sem var kjördæmi þeirra og þeir börðust um sálirnar í. Eitt sinn koma þeir sem oftar að bæ og Árni segir að hér þurfi hann að stansa og heimsækja hana Gunnu sína sem sé hans dyggur stuðningsmaður. Páll segir að hingað eigi hann ekkert erindi: "Í fyrsta lagi ertu að tala um Siggu en ekki Gunnu. Í öðru lagi þá er konan dáin og í þriðja lagi þá kaus hún ævinlega mig en ekki þig."

Árni Gunnarsson, 5.11.2009 kl. 14:37

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll.
Sé að Páll búnaðarmálastjóri lifir í minningunni.
Hlynur: Mæðiveiki eða mæðuveiki. Meikar ekki diff, eins og krakkarnir segja.
Og það er mannlegt að skjátlast. Kannski mistók Ari sig aðeins.

Sæmundur Bjarnason, 5.11.2009 kl. 16:20

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta með Ara Fróða og skrif hans - þá er að vísu margt sem ber a hafa í huga.  Að mörgu að hyggja o.s.frv.

Td. bara það að hann er talin vera að skrifa þetta upphaflega um 1130 minnir mig - að það eru bara lítil 250 ár frá því að meint landnám með Ingólfi og félögum á að eiga sér stað.

Ef við færum til nútímans - þá er það eins og við ætluðum að fara að skrifa um forfeður okkar um 1750.  Hvað vissum við ?  Mest lítið.

En þarna verður auðvitað að taka sterkt inní reikninginn að ekki er sambærilegt.  þá byggðist fróleikur á munnlegri geymd - sem við höfum mikið til tapað.  Þekkjum ekki.

En Ari nefnir heimildamenn, þ.e. sér eldri menn er hann treystir:

"Ísland byggðist fyrst ór Norvegi á dögum Haralds ins hárfagra, Hálfdanarsonar ins svarta, í þann tíð, at ætlun ok tölu þeira Teits, fóstra míns, þess manns, er ek kunna spakastan, sonar Ísleifs byskups, ok Þorkels, föðurbróður míns, Gellissonar, er langt munði fram, ok Þuríðar Snorradóttur goða, er bæði var margspök ok óljúgfróð..."

En einnig er hægt að eyða lífinu nánast í að spekúlera í hvert Ari er að fara í opnun islendingabókar, þ.e. hvað hann er að meina,  að þar kemur fram að Biskuparnir voru nokkurskonar ritstjórar og nefnir líka Sæmund prest fróða.(Ari sjálfur prestur held eg)

"Íslendingabók gerða ek fyrst byskupum órum, Þorláki ok Katli, ok sýndak bæði þeim ok Sæmundi presti. En með því at þeim líkaði svá at hafa eða þar við auka, þá skrifaða ek þessa of it sama far fyr útan áttartölu ok konunga ævi, ok jókk því, er mér varð síðan kunnara ok nú er gerr sagt á þessi en á þeiri.

En hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara reynist"

Það hefur verið svona hefð á Íslandi að taka Ara trúanlegan, enda er margt sannfærandi í frásögn hans.  En alltaf verður að hafaí huga að þarna eru menn að skrifa miðað við allt aðra tíma en menn myndu skifa núna.

Samt eftirtektarvert að hann virðist (túlkunaratriði) opna á þann möguleika að ekki sé endilega allt nákvæmlega rétt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.11.2009 kl. 17:02

9 Smámynd: Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson

Sæmundur , þú ert séní að bjarga oss frá Jóhönnuhatri og Jesúást  á bloggi.Að skifta um símafyrirtæki er eins að fara í óvissuferð með Litháísku mafíunni. Þú veist aldrei hvað gerist næst.eini munurinn er að það grasserar aðeins meiri mæðuveiki hjá starfsfólki símans.&#39;A fjórða hring á skiptiborðinu er manni farið að líða eins og litlum dreng á teppinu hjá skólastjóranum,ekki eins manni að biðja um að þjónustan sem var keypt verði vinsamlegast afhent.

Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson, 5.11.2009 kl. 21:46

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þó ótrúlegt sé þá eru símamálin hjá mér hugsanlega að leysast. Veit þó ekki hvernig sjónvarpsmálin æxlast eða hvað herlegheitin kosta. Þarf líka að læra á nýja farsíma, sem getur verið svolítið snúið. Þakka hrósið, Þorsteinn.

Sæmundur Bjarnason, 5.11.2009 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband