849 - Icesave farðu burt, burt, burt

Halldór Kiljan Laxness orti einhverntíma: 

Mamma sín fór burt, burt, burt.
Burt er hún farin hún mamma.
Mamma sín fór hvurt, hvurt, hvurt?
Hvurt er hún farin hún mamma?

Þetta var mér sagt og ég trúi því. Laxness var engum líkur.

Mér finnst aftur á móti ótrúlegt og með miklum ólíkindum að heilu stjórnmálaflokkarnir haldi að hægt sé að segja við Icesave: Farðu bara burt, burt, burt. Við ætlum að vera í fýlu og viljum ekki borga neitt. Staksteinar Morgunblaðsins mæla þó sterklega með þessari aðferð. Og talsverður fjöldi kjósenda virðist vera á sömu skoðun. Ekki átta ég mig á því hvernig þeir hafa komist á hana og hjá öðrum en íslenskum kjósendum virðist hún ekki eiga neinn hljómgrunn.

Auðvitað væri gott ef þetta væri hægt. En svo er bara alls ekki. Margir þrástagast á að þeir vilji fara dómstólaleiðina. Það var kannski einhverntíma hægt en sá möguleiki er löngu liðinn. Langlíklegast er líka að sú leið hefði orðið okkur miklu dýrari en sú sem nú er talað um.

Við Íslendingar erum í algjörri afneitun. Viljum enga ábyrgð bera. Vælum utan í nágrannaþjóðunum fyrir að henda ekki peningum í okkur. Morgunblaðið rembist eins og rjúpan við staurinn að telja lesendum sínum trú um að hvítt sé svart og svart hvítt. Enda er það að fara á hausinn. Vildi bara óska að Fréttablaðið færi sömu leið og raunverulega óháð dagblað kæmi í staðinn. Nú eða ekkert blað. Hvað höfum við svosem við dagblað að gera. Er það ekki kappnóg af auglýsingum sem mokað er inn um bréfalúgur landsmanna á hverjum degi. Dagblöðin eru bara til auglýsendanna vegna. Annað efni sem slysast með væri mun betur komið þar sem þeir sem kærðu sig um gætu sótt það án endurgjalds og án þess að fylla allt af rusli.

Dagblöðin ættu að vera öll á einum stað og þeir sem endilega vildu lesa þau gætu náð í þau. Þar mætti gluggapósturinn allur gjarnan vera líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kama Sutra

Flottur pistill.

Kama Sutra, 30.10.2009 kl. 00:15

2 Smámynd: Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson

Sæmundur þú ert viti borinn.'I því eru fólginn ákveðinn lífsgæði sem fáir njóta.

Þorsteinn Jónas Skjóldal Haraldsson, 30.10.2009 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband