838 - Stjórnlagaþing

Nú er Icesave-málinu líklega að ljúka. Ég sé ekki annað en ríkisstjórnin muni hafa það í gegn. Þegar Ögmundur sagði af sér sem ráðherra sagðist hann styðja ríkisstjórnina. Ég geri ráð fyrir að hann og fleiri úr óánægjuhóp vinstri grænna samþykki frumvarpið sem til stendur að leggja fram um þetta mál. 

Það er samt augljóst að málið er mjög umdeilt meðal þjóðarinnar og truflar menn ákaflega. Áhrifin sem samþykkt frumvarpsins er talin muni hafa á alþjóðasamfélagið eru áreiðanlega oftúlkuð hjá stjórnarsinnum.

Skoðanakannanir benda til að kjósendur séu aftur að fara til fjórflokksins og er það lítil furða. Borgarahreyfingin hefur ekki hagað sér þannig að líklegt sé að úr áhrifum hans dragi.

Nú er að mestu hætt að ræða um stjórnlagaþing. Ástæðan er einkum sú að næsta vonlaust er að slíkt verði haldið. Verði það haldið eru mestar líkur á að það verði valdalítið hvort sem reynt verður að leyna því eða ekki. Völd sem það hugsanlega fær verða eingöngu frá Alþingi tekin. Óbein völd geta þó orðið talsverð ef vel tekst til. Stjórnmálamenn munu finna ótal ráð til að draga úr völdum þess. Mikill kostnaður verður bara eitt atriði. Miklu máli skiptir hverjir veljast þangað og með hvaða hætti.

Í fréttum hefur verið sagt frá hópi sem kallar sig Mauraþúfuna og ætlar á næstunni að standa fyrir því sem kallað er Þjóðfundur. Hann mun standa í einn dag og verða haldinn í Laugardalshöllinni. Þar munu verða um 300 fulltrúar frá ýmsum stofnunum og samtökum og auk þess einir 1200 þátttakendur sem mér hefur skilist að verði valdir af handahófi úr Þjóðskrá. Þessu verður án efa vel stjórnað og ályktanir sem frá þessum fundi koma geta vel orðið marktækar. Ef Gúgli er spurður um þetta vísar hann aðallega á Facebook og þar held ég að mestar upplýsingar um þetta mál sé að finna.

Sigurður Þór Guðjónsson(nimbus.blog.is) skrifar ágætar blogghugleiðingar í grein sem hann nefnir „Breytt blogg". Þar er margt mjög merkilegt og einlægt að finna og einnig í athugasemdunum. Ég er ekki frá því að Moggabloggið sé að breytast en get þó ekki alveg fullyrt í hvaða átt. Við þurfum samt áreiðanlega að vera á verði gagnvart því að reynt verður á næstunni að gera nýja árás á þá sem blogga og kommenta. Einkum þá nafnlausu. Það má ekki útiloka þá þó stundum sé nafnleysið augljóslega misnotað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er verið að undirbúa aðför að málfrelsinu í landinu, Sæmundur. Verjum það með kjafti og klóm!

Skorrdal 19.10.2009 kl. 05:42

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ætli það sé ekki réttara að segja að IceSavemálið sé nú fyrst að byrja fyrir alvöru? Þjóðin er gjaldþrota með þessum gerningi.  Hér verðu ekki líft.  Ég er farinn að pakka niður i töskur.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.10.2009 kl. 21:41

3 identicon

Það verður að halda stjórnlagaþing. Við verðum að fá nýtt og betra þjóðfélag eftir þessar efnahagshörmungar. Annars verður þjóðin aldrei sátt.

Ína 19.10.2009 kl. 21:43

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér Skorrdal. Látum ekki stinga upp í okkur.
Jón Steinar. Icesave er skelfilegt högg en við lifum það af.
Ína. Vafasamt er að stjórnlagaþing komist á. Endurbætur verða þó örugglega.

Sæmundur Bjarnason, 19.10.2009 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband