828 - Karlmenn vs. konur

Varðandi Icesave og það allt saman finnst mér athyglisverðust sú kenning að í rauninni sé núverandi ríkisstjórn minnihlutastjórn með stuðningi óánægjuhópsins í vinstri grænum. Afleiðingin verður líklega sú að Icesave verði lagt til hliðar og reynt að ná árangri í öðrum málum. Hversu lengi það verður hægt veit ég ekki.

Reyndi það einu sinni á sjálfum mér hversu magnað vopn hnífur getur verið. Þá var ég nýorðinn skáti og líklega svona 10 til 12 ára. Hafði fengið að gjöf skátadálk í hulstri og bar hann við belti mér með miklu stolti. Í Hveragerði voru þá ætíð sundnámskeið haldin á vorin þegar skóla var lokið. Hópur sundnámskeiðskrakka réðist eitt sinn að mér og einum eða tveimur öðrum og hugðist lumbra á okkur fyrir eitthvað sem ég man ekki lengur hvað var. Þá var það sem ég lyfti hnífnum ógnandi á loft og krakkarnir beinlínis hrukku undan og létu okkur í friði.

Löngu seinna eignaðist ég svo annan stóran og fínan dálk í mjög flottu hulstri. Þá var ég að vinna hjá Hannesi Þorsteinssyni og hann að koma frá Finlandi. Hann gætti þess að selja mér hnífinn á 25 aura því ekki má gefa eggvopn né skæri samkvæmt Íslenskri þjóðtrú.

Í 25 ár mætti hann daglega á bílastæðið og innheimtil bílastæðagjöld. Svo hætti hann allt í einu. Þá komst upp að hann hafði allan tímann hirt peningana sjálfur og haft einar 600 milljónir króna uppúr krafsinu á þessum 25 árum. Þetta kallar maður að bjarga sér. Frá þessu var sagt í Morgunblaðinu. Í Ólafsvík var það tíðkað áður fyrr að fara á berjasvæðin undir Jökli og innheimta tínslugjöld ef menn vantaði peninga.

„Af hverju eru karlmenn vinsælli bloggarar en konur?", spyr Svanur Gísli á sínu bloggi. Þetta er áhugaverð spurning og mér finnst Svanur aðallega vera að tala um Moggabloggið. Í athugasemdum er greinilega líka verið að tala um Blogg-gáttina. Sjálfum datt mér í hug að líta á eyjubloggarana. Þeir virðast vera 112. Þar af eru 73 karlmenn en 39 konur.

Þannig að ekki er að sjá annað en staðhæfingin sé rétt. Líklega er skiptingin svipuð hjá stórhausum Moggabloggsins og á eyjunni. Eiginlega kallar þessi spurning á aðrar.

Eru hlutföllin eins slæm í öðru tölvuveseni en bloggi?

Senda konur færri tölvupósta en karlmenn?

Eru konur ekki minna áberandi allstaðar nema í húsverkum og tiltölulega fáum starfsgreinum?

Er þetta ekki afleiðing mismununar á öðrum sviðum svo sem í atvinnulífinu?

Og eru konur ekki sífellt að bæta sig, bæði á bloggsviðinu og annarsstaðar?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Eru konur nokkuð betri/verri/skarpari/klárari/framsæknari/heimskari/minna áhugaverðar....... þótt þær bloggi ekki? Held ekki.

Svo finnst mér skrýtið að enn skuli borin saman kynin í hvers kyns atferli.

Mér finnst bara flott að vera ekki nákvæmlega eins (jöfn) og flestir karlmenn. Ég veit að þeir geta og gera margt sem ég gæti ekki. Á hinn bóginn veit ég að ég kann og get ýmislegt sem þeim er ekki lagið.

Stundum finnst mér að fólk rembist eins og rjúpa við staur við á ná fram einhverri "stöðu", í stað þess að fara fram á eigin kostum. Þá á ég við bæði kynin. Gera sitt allra, allra besta og vera stoltur af því. AMEN :)

Eygló, 9.10.2009 kl. 10:16

2 identicon

Varðandi Icesave þá er það svo að Samfylkingin vill í Evrópubandalagið en Vinstri Grænir ekki, þeim mun lengur sem það dregst að Icesave málin séu leidd til lykta þeim mun lengur verður tafið fyrir inngöngu Íslands í EB lofa ýmsir þingmenn evrópu. Það sem gerir þessa stöðu skrítnari er að Steingrímur fjármálaráðherre er sá sem aðallega á eftir að vinna úr Icesave, hann og Ögmundur eru eins og klofinn persónuleiki akkúrat núna og kannski sé eitthvað plott í þessu. Persónulega vil ég alls ekki í EB því eins og er getur venjulegur borgari á Íslandi sem einhver lög varða eða snerta talað beint við löggjafarvaldið í eigin persónu, það er ekki hægt innan EB nema fyrir milljarðamæringa. Því lengra sem valdið yfir manni færist frá manni sjálfum þeim mun verra.

Tóti 9.10.2009 kl. 11:55

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eygló, mér finnst þetta mál ekki vera það áhugaverðasta í samskiptum kynjanna. Síðustu áratugi held ég þó að talsvert hafi áunnist hjá konum og það er fyrir tilverknað þeirra óánægðu en ekki þeirra sem sætta sig við sem flest.

Tóti, ég held að Icesave geti vel haft áhrif á EBS viðræðurnar einkum ef það dregst lengi að ganga frá því. Samningurinn sem næst eða næst ekki hlýtur samt að skipta mestu máli.

Sæmundur Bjarnason, 9.10.2009 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband