814 - Sæmundarháttur í bloggi

Í Borgarnesi var haft fyrir satt að stórtöffarar nokkrir hefðu skroppið til Reykjavíkur til að fá sér pulsu á Umferðarmiðstöðinni, sem þá var eini staðurinn á landinu þar sem opið var allan sólarhringinn, þó í gati væri. Þetta þótti hraustlega gert. Nokkru fyrr hafði Palli á Álftavatni á Snæfellsnesi skroppið eftir varahlut til Reykjavíkur þegar heyskapur stóð sem hæst og komið samdægurs til baka. Það var sömuleiðis vel að verki staðið.

Sannleikurinn mun gera yður frjálsan. En er það sannleikurinn sem predikaður er á útvarpi Sögu? Ekki finnst mér það. Einhverjum finnst það samt eflaust. Rétta ráðið er að hafa upplýsingar sem flestum aðgengilegar. Vilji menn losna við að útvarp Saga hafi áhrif á fólk er ekki rétta leiðin að herða kröfur um fjölmiðlun almennt og reyna að hanka Arnþrúði á einhverju lítilvægu atriði til að gera stöðinni erfitt fyrir. Arnþrúður eignaðist Sögu á sínum tíma og hefur sýnt framá að hægt er að reka útvarpsstöð án þess að leggja aðaláhersluna á plötuspilun.

Einu sinni var Jón Valur Jensson bloggvinur minn hér á Moggablogginu. Ekki lengur. Sá vinskapur slitnaði ekki fyrir minn tilverknað.

Bloggið sem slíkt er mér alltaf ofarlega í huga þrátt fyrir Sæmundarháttinn í bloggi sem mér er stundum strítt á. Ég vanda mig svolítið við bloggin mín en sú árátta nær bara til skrifelsisins. Sumir bloggarar blogga ekki bara oft á dag, ýmist með fréttatengingum eða ekki, heldur myndskreyta bloggin sín fagurlega að auki.

Þetta hef ég aldrei komist uppá lag með. Nenni heldur ekki að eyða tíma í það. Passa mig bara á að hafa bloggin hæfilega löng (eftir því sem mér finnst) og geri svo bara eitthvað annað. Helst auðvitað ekki neitt því það er ótrúlega freistandi þegar maður er kominn á minn aldur að liggja bara í leti og láta aðra puða.

Auðvitað eru myndskreytt blogg miklu fallegri en önnur. Oftast eru þessar myndir einhvers staðar af netinu og í góðu samræmi við það sem skrifað er. Kannski eru þær teknar úr söfnum sem menn búa sér til á Netflakki.

Hvað er Sæmundarháttur í bloggi? Já, ég er óttalega „inbilskur" og hugsa mun meira um sjálfan mig en aðra. Sumir sem lesa blogg skilja þetta með Sæmundarháttinn eflaust á einhvern hátt. Þeir sem nota þessa glósu hljóta að skilja hana betur en aðrir. Í fljótu bragði man ég ekki eftir nema einum núbloggandi manni sem hefur notað þetta. Þeir kunna þó að vera fleiri. Mér dettur í hug að Sæmundarháttur geti verið:

Blogg um blogg.

Að slá alltaf úr og í.

Vera upptekinn af sjálfum sér.

Vera svolítið kjánalegur en óvitlaus samt.

Að blogga oft og setja stundum myndir aftast.

Fíflagangur um sem allra flest.

Sambland af öllu þessu.

Auðvitað er ég með þessu að vekja athygli á blogghættinum og vonast til að orðalagið nái fótfestu.

Er ég svo einstakur að það þurfi sérstakt orð um það hvernig ég blogga?

Gæti verið að ég væri þá orðinn ofurbloggari eins og ég hef alltaf stefnt að?

 "Upp á síðkastið hefur borið meira á því en venjulega hvað bloggarar moggabloggsins eru uppteknir af  sjálfum sér. Segja má að margir þeirra hafi síðustu daga tekið upp svo kallaðan Sæmundarhátt á sínum bloggum. Ástæða þess kann að vera, a.m.k. að hluta, að einhver bankamaður og annar pólitíkus kvörtuðu hástöfum fyrir skömmu við fjölmiðla landsins undan bloggurum, hvað þeir væru dómharðir og ósanngjarnir." 

Segir Svanur Gísli.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Sæmi minn. munt þú blogga undir blárri hond Bubba kóngs?

Brjánn Guðjónsson, 25.9.2009 kl. 00:33

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þú ert líka aðal miðnættisbloggarinn.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.9.2009 kl. 00:40

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Brjánn, já ég býst við því. Útskýri kannski í næsta bloggi.

Emil Hannes, miðnættisbloggarinn er frábært orð.

Sæmundur Bjarnason, 25.9.2009 kl. 02:00

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæmundarhátturinn lengi lifi.

Svanur Gísli Þorkelsson, 25.9.2009 kl. 02:27

5 identicon

Sæmundur skólabróðir! Haltu bara áfram að vera eins og þér er eðlilegt. Ekkert að fara að setja þig í einhverjar "menningarstellingar". Ef þú byrjar á þeim andskota hætti ég að lesa pistlana þína. Punktur.

Ellismellur 25.9.2009 kl. 04:44

6 identicon

Ég held að gagnrýni margra á einstökum bloggum og bloggurum felist í misskilningi (eða allaveg öðrum skilningi en mínum) á hvað blogg er. Að þeirra mati geta blogg verið léleg eða góð, skemmtileg eða leiðinleg, löng eða stutt, og fer það eftir smekk hvers og eins hvaða lýsingu einstakt blogg fær.

En blogg í heild sinni er ekki eitt stakt genre eins og t.d. sakamálasagan, grínsasga, hryllingssaga o.s.frv. heldur tegund miðils þar sem efnistök, ritstílar og tilgangur bloggsins eru jafn fjölbreytt og bloggarar eru margir. 

Reyndar eru að myndast hópar bloggara sem blogga svipað og sumir þeirra mæra sinn blogghátt en eru á móti öðrum. 

En að mínu mati er ekki hægt að segja að það sé til vont eða gott blogg, því blogghöfundur ræður stefnunni, genre, og lesendur geta valið og hafnað bloggenre eftir því hvað þeim líkar. En að dæma annara blogg lélegt útfrá sínum blogghætti eða þeirra sem maður er ánægður með, er hreinlega léleg krítík.

Til samanburðar væri fráleitt fyrir bókmenntarýni að gagnrýna gamansögu (kómedíu) fyrir of fá eða engin tragedísk atriði.

Magnús G. K. Magnússon 25.9.2009 kl. 05:08

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Ellismellur.

Magnús, ég er mjög sammála þér um þetta. Það er einmitt eðli bloggs sem er mér sérstakt áhugamál. Einstakar blogg-greinar geta samt auðvitað verið annaðhvort góðar eða slæmar og blogg hvers höfundar borið ákveðin einkenni.

Sæmundur Bjarnason, 25.9.2009 kl. 05:33

8 identicon

Davíð fer á Moggan til þess að breyta söguskoðuninni. Breyta því að hann væri upphafsmaður einkavinavæðingarinnar, klúðurs síns í Seðlabankanum og þá sérstaklega í þarna rétt í lokin þegar hann jós 350 milljörðunum í gjaldþrota bankana. Af nóg er að taka.

Ólafur Sveinsson 25.9.2009 kl. 08:25

9 identicon

Hafðu þinn háttinn á, Sæmundur. Það er gott að eiga þig að í "lestrarhorninu".

Skorrdal 25.9.2009 kl. 08:30

10 identicon

Ef bláa höndin fer að reyna að kyrkja(kirkja) þig, þá dembir þú þér með mér á wordpress kallinn minn :)

DoctorE 25.9.2009 kl. 10:41

11 Smámynd: Finnur Bárðarson

Ég get ekki séð annað en að Sæmundarblogg, sé með því besta á blogginu. Sjálfur á ég langt í land en hefði verið upp með mér að vera kallaður Sæmundarbloggari.

Finnur Bárðarson, 25.9.2009 kl. 13:45

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ólafur, ég held að Davíð breyti ekkert söguskoðun minni. Er samt alveg opinn fyrir því að fara annað.

Skorrdal, takk. Fylgist alltaf með þér. 

DoctorE, kyrkja/kirkja minnir mig á langa sögu um séra Helga Sveinsson. Hef samband við þig ef mig langar á wordpress.

Finnur, takk.

Sæmundur Bjarnason, 25.9.2009 kl. 18:05

13 Smámynd: Kama Sutra

Ég kann vel við Sæmundarháttinn.  Góð tilbreyting frá öllum kreppubloggunum.

Kama Sutra, 25.9.2009 kl. 20:25

14 identicon

Ég er fluttur af Moggablogginu, Sæmundur. http://skorrdal.is - ef þú vilt halda áfram að fylgjast með. ;)

Skorrdal 26.9.2009 kl. 04:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband