773- Milos Forman og Larry Flynt

Það er þreytandi að vera alltaf alvarlegur. Hæfilegt kæruleysi er nauðsyn. Hvernig þeir, sem ekki hugsa um annað en Icesave og þessháttar óhugnað daginn út og daginn inn, komast hjá þunglyndi skil ég ekki.

Milos Forman studdi Larry Flynt. Athyglisvert. Saga Larry Flynt er á margan hátt saga málfrelsis í Bandaríkjunum. Larry þessi gaf út tímaritið Hustler sem frægt varð að endemun. Af dæmi hans má læra að auðvelt er að tryggja málfrelsi þeirra þægu og góðu. Þegar aftur á móti á að tryggja málfrelsi vafagemlinga og klámkjafta vandast málið. Morgunblaðið tryggir ágætlega málfrelsi þeirra þægu og góðu. Húsmæður í Vesturbænum eru ekki teknar í karphúsið. Eiginlega á ég ekki heima á Moggablogginu. Mig langar nefnilega að vera vafagemlingur og klámkjaftur.

Hér eru tvær vísur sem ég gerði fyrir margt löngu. Var búinn að gleyma þeim en þær komu allt í einu upp í huga minn. Veit ekki af hverju.

Við yrkingarnar er ég bara orðinn nokkuð seigur.
Við orðaþrautir ekki deigur.
Andlegur minn stækkar teigur.

Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði.
Fái ég bara bæði
brennivín og næði.

Er geitungastofninn að ná sér á strik aftur? Ekki er ég frá því. Mér finnst þeir hafa angrað mig meira í sumar en undanfarin ár. Þeir bíta samt aldrei enda er samkomulag okkar á milli um að ég láti þá í friði ef þeir ráðast ekki á mig.

Fyrir daga geitunganna voru býflugurnar stóru og loðnu allsráðandi. Ekki fer miklum sögum um að þær bíti fólk. Á Vegamótum stunduðu strákarnir mínir talsvert stórhættulegar býflugnaveiðar. Man eftir því úr eldhúsinu þar að einhverjum, sem lagði hendi sína í mesta sakleysi á sultukrukku á borðinu, brá ónotalega þegar uppgötvaðist að hún var full af suðandi býflugum.

Varla er hægt að segja að tíðindi dagsins hafi verið andstæðingum Icesave hagstæð. Mannfjöldinn á Austurvelli sagður hafa verið á þriðja þúsund og Davíð Oddsson þar á meðal. Góð samstaða um það sem ofan á verður að lokum er þó flestu öðru mikilvægara.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Samningaviðræður við geitungana eru nauðsynlegar. Ég er aldrei stungin.

Bara ekki vera með MOLAkaffi úti í sólinni!  :)

Eygló, 14.8.2009 kl. 00:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér er verst við þegar þeir villast inn. Heimasmíðaðar geitungagildur reynast ágætlega utahúss. Ég get líka látið eins og ég hafri hvergi nærri gerð þeirra komið.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2009 kl. 00:35

3 Smámynd: Kama Sutra

"Hvernig þeir, sem ekki hugsa um annað en Icesave og þessháttar óhugnað daginn út og daginn inn, komast hjá þunglyndi skil ég ekki."

Ég skil það ekki heldur.  En sumir virðast þrífast best í æsingi, látum og rifrildi; þá eru þeir í essinu sínu.  Þeir njóta sín aldrei betur en í svona ástandi sem er í þjóðfélaginu núna.

Þetta gæti orðið lýðræðinu hættulegt.

Kama Sutra, 14.8.2009 kl. 01:14

4 Smámynd: Eygló

"þeir, sem ekki hugsa um annað en Icesave og þessháttar óhugnað daginn út og daginn inn"

Mér finnst verra að þeir sem stundum hafa sig mest í frammi, eru ekki nógu klárir eða upplýstir. Bryðja mélin með tóman kjaftinn (SUMIR)

Eygló, 14.8.2009 kl. 01:35

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

geitungar hafa orðspor sem ekki nær til þeirra lyndis.. þeir hafa aldrei angrað mig og er ég með nokkur bú hér í garðinum mínum.  en ég hef líka svona samkomulag við þá eins og þú hefur Sæmi..

Óskar Þorkelsson, 14.8.2009 kl. 02:49

6 Smámynd: Kama Sutra

"Mér finnst verra að þeir sem stundum hafa sig mest í frammi, eru ekki nógu klárir eða upplýstir. Bryðja mélin með tóman kjaftinn (SUMIR)"

Akkúrat.  Og í stað þess að nota rök þá reyna þeir að drekkja andstæðingnum í löngum orðaflaumi, tilvitnunum og upphrópunum - flennistóru letri, hástöfum, feitletrunum, undirstrikunum á textanum og alles.

Þeir ættu að kynna sér orðtakið: "Less is more".  Man ekki í augnablikinu hvernig það er á íslensku...

Kama Sutra, 14.8.2009 kl. 03:39

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hilmar, þessi oddhenda þín er ágæt. Ég tek hana samt ekki að öllu leyti til mín. Fyrst sýndist mér þetta vera hringhenda og svaraði henni í samræmi við það.

Þráinn valdi þögnina
þegar kaldinn var.
Flokksins taldi tryggðina
tárum valda þar.

Við oddhendu ræð ég ekki. Minnir samt að ég hafi stundum gert slíkar.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2009 kl. 14:08

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nú skal hendu fríða hring
hugsun venda að semja.
Andans lendur allt um kring
æfðri hendi temja.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2009 kl. 19:26

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, Hilmar nú ferðu of nálægt alkunnri vísu um Pál Ólafsson.

Sólskríkjan mín situr enn á sama steini,
og hlær við sínum hjartans vini.
Honum Páli Ólafssyni.

Þetta kunna allir.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2009 kl. 20:45

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Halla stöku Hilmar má
hans á genum allt má sjá.
Gamlar vísur getur þá
gefið sér þar til og frá.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2009 kl. 22:07

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nú er ég eiginlega alveg heimaskítsmát. Reyni samt að hnoða saman ferskeytlu.

Ríðandi við Rúbícon
rúllar Hanna tening.
Á ég núna enga von
Ömma minn né pening?

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2009 kl. 23:05

12 identicon

/"Mér finnst verra að þeir sem stundum hafa sig mest í frammi, eru ekki nógu klárir eða upplýstir. Bryðja mélin með tóman kjaftinn (SUMIR)"

Akkúrat.  Og í stað þess að nota rök þá reyna þeir að drekkja andstæðingnum í löngum orðaflaumi, tilvitnunum og upphrópunum - flennistóru letri, hástöfum, feitletrunum, undirstrikunum á textanum og alles.

Þeir ættu að kynna sér orðtakið: "Less is more".  Man ekki í augnablikinu hvernig það er á íslensku/

Vá, og allt þetta að ofan sagði manneskja sem kemur fram aftur og aftur og gerir gys að fólki og talar illa um fólk í þessum vef og öðrum.    Held þú ættir að fara að þegja.   

Jói 15.8.2009 kl. 00:15

13 Smámynd: Kama Sutra

Ég elska þig líka, Jói! 

Og skilaðu kveðju til vina þinna frá mér. 

Kama Sutra, 15.8.2009 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband