6.8.2009 | 00:27
765- Kommúnistinn og auðvaldsbullan
Auðvaldsbullan: Lát heyra."
Kommúnistinn: Bankaleyndin birtist oss,
sem banka eigi að verja.
Ættartengslin öll í kross
auðmenn burtu sverja."
Auðvaldsbullan: Uss, þetta er nú meira bullið."
Kommúnistinn: Það getur vel verið. Þú getur samt ekki neitað því að ættartengslin skipta máli."
Auðvaldsbullan: Undantekningarnar eru miklu fleiri en svokallaðar sannanir og þessvegna er þetta tóm vitleysa."
Kommúnistinn: En það er nauðsynlegt að vera af réttri ætt, kunna dálítið á excel, hafa viðskiptafræðipróf, sem kannski náðist með skít og skömm, til þess að komast auðveldlega í jakkalakkakórinn."
Auðvaldsbullan: Segir hver?"
Kommúnistinn: Segi ég."
Auðvaldsbullan: Huh."
Kommúnistinn: Þú getur ekki neitað því að það var einkaframtakið og einkavinavæðingin sem setti Ísland á hausinn."
Auðvaldsbullan: Já, og hvar voru kratarnir í Samfylkingunni á meðan?"
Kommúnistinn: Sumir þeirra voru í óða önn að hjálpa íhaldinu í einkavinavæðingunni. Það er alveg rétt. En ekki allir. Sósíalisminn er mun heilbrigðari en einkaframtakið, það sjá allir."
Auðvaldsbullan: Já, það kom vel fram í Sovétríkjunum sálugu. Sér er nú hvert heilbrigðið."
Kommúnistinn: Sósíalisminn var vitlaust framkvæmdur þar. Nauðsynlegt er að nýta sér kosti markaðarins eins og t.d. Svíar hafa gert. Auðvaldsríkin eru líka að komast á þá skoðun að margt úr Sósíalismanum sé gott og sjálfsagt. Eins og til dæmis ókeypis læknishjálp og ókeypis menntun."
Auðvaldsbullan: Það var ekkert eðlileg markaðshyggja sem var rekin hér. Íslendingar fóru á hausinn vegna þess að þeir eru svo vitlausir."
Kommúnistinn: Já, stjórnmálamennirnir voru ósköp vitlausir. Eða minnsta kosti ekki góðir stjórnmálamenn, því þeir slepptu markaðsskrímslinu lausu."
Auðvaldsbullan: Það var ekki hinn frjálsi markaður og einkavæðingin sem setti Ísland á hausinn."
Kommúnistinn: Heldur hvað?"
Auðvaldsbullan: Heldur græðgin og sérgæskan."
Kommúnistinn: Hjá almenningi?"
Auðvaldsbullan: Hjá öllum. Útrásarvíkingunum ekki síður en öðrum."
Kommúnistinn: Almenningur var semsagt jafnsekur. Af því hann trúði jakkalakkaliðinu, eða hvað?"
Auðvaldsbullan: Af því að hann eyddi langt um efni fram og tók þátt í vitleysunni."
Kommúnistinn: Skipulagið og stjórnin á öllu saman skipti semsagt engu máli?"
Auðvaldsbullan: Heimskreppan kemur jafnt niður á öllum. Skipulagið ræður engum úrslitum þar."
Kommúnistinn: En aðrar þjóðir fóru ekki á hausinn. Enda var að minnsta kosti aðallinn hjá auðvaldsþjóðunum búinn að stunda viðskipti lengi og kunni að vara sig en Íslendingsbjálfarnir ekki."
Auðvaldsbullan: Það er ekki einkavæðingin sem úrslitum ræður. Tök þau sem útrásarvíkingarnir náðu á fjölmiðlum skiptu sköpum."
Kommúnistinn: Voru tök þeirra á fjölmiðlum eitthvað meiri en á öðrum sviðum. Voru ekki stjórnmálamennirnir búnir að afhenda þeim öll völd?"
Auðvaldsbullan: Nei, þeir hrifsuðu þau til sín."
Kommúnistinn: Af því að þeir fengu tækifæri til þess. Skipulagið var þannig að þeim veittist það auðvelt."
Auðvaldsbullan: Enn viltu kenna frjálsum markaði og einkavæðingunni um hvernig fór."
Kommúnistinn: Auðvitað. Allir sjá að samvinnan og sósíalisminn eru miklu betri en óheftur markaðsbúskapur og einkavinavæðing. Þetta snýst allt um völdin í þjóðfélaginu. Markaðsmennirnir hafa nógu lengi nauðgað lýðræðinu og nú er kominn tími til að almenningur taki völdin."
Auðvaldsbullan: Já, og geri blóðuga byltingu?"
Kommúnistinn: Bylting er réttlætanleg ef mikill meirihluti fólks styður hana."
Auðvaldsbullan: Og hvernig á að ganga úr skugga um það?"
Kommúnistinn: Með kosningum."
Auðvaldsbullan: Þær hafa verið haldnar hér og leitt í ljós að byltingarsinnar eru í miklum minnihluta."
Kommúnistinn: Það er ekkert að marka það. Atkvæði eru keypt í stórum stíl. Gott ef ekki er um stórfellt svindl að ræða líka."
Auðvaldsbullan: Tóm vitleysa. Svindl þekkist ekki hérna. Markaðsmenn sem þú kallar svo hafa bara haft meiri og betri áhrif á sálir mannanna. Þetta snýst allt um sálirnar eins og menn hafa gert sér grein fyrir lengi."
Kommúnistinn: Gallinn fyrir ykkur auðvaldssinna er bara sá að því upplýstari sem almenningur er því sósíalískari verður hann. Ykkur gekk ágætlega að hafa áhrif á sálir mannanna á hinum myrku miðöldum en síðan hefur íhaldsseminni hrakað."
Auðvaldsbullan: Já, þú getur reynt að telja sjálfum þér trú um að þú sért fulltrúi nýja tímans. Sannleikurinn er þó sá að alltaf berjast vinstri menn gegn öllum framförum."
Kommúnistinn: Þið hægri menn teljið allt vera framfarir sem styrkir auðvaldið og stórfyrirtækin í heiminum. Allt annað er barátta við vindmyllur."
Auðvaldsbullan: Það er enginn efi að skipulagið hér á Vesturlöndum hefur skapað þær vísindalegu framfarir sem orðið hafa. Stórfyrirtækin má hafa áhrif á og beygja undir þjóðarvilja."
Kommúnistinn: Alþjóðlegu stórfyrirtækin eru ekki háð neinum þjóðarvilja. Þau hugsa bara um eigin hag. Almenningur má lepja dauðann úr skel ef hann framleiðir nóg."
Auðvaldsbullan: Framfarir og aukinn hagvöxtur eru nauðsyn ef sjá á almenningi fyrir sæmilegum lífskjörum."
Kommúnistinn: Náttúran er á sífelldu undanhaldi fyrir hinum stórfelldu framförum sem einkum felast í því að ofnýta gjafir hennar."
Auðvaldsbullan: Til að berjast gegn framförum vilja vinstri menn alltaf eigna sér náttúruna. Vel er hægt að tryggja sæmilega sátt milli þeirra andstæðu póla sem óheft framleiðsla og öfganáttúrvernd standa fyrir."
Kommúnistinn: Við verðum að hugsa um þær kynslóðir sem eiga eftir að byggja þennan heim. Megum ekki bara hugsa um sjálf okkur. Náttúran á að njóta vafans."
Auðvaldsbullan: Ef ekki verða framfarir þá er bara um afturför að ræða. Hvað sagði ekki þjóðskáldið: Annað hvort miðar mönnum aftur á bak, ellegar nokkuð á leið."
Kommúnistinn: Auðvaldsskipulagið tryggir ekki það jafnvægi sem þarf að vera á milli náttúruverndar og framleiðslu. Sósíalisminn gerir það miklu betur vegna þess að hagsmunir heildarinnar eru þar hafðir að leiðarljósi."
Auðvaldsbullan: Kommúnisminn drepur framtak fólks og dregur úr því allan þrótt.
Smáþögn.
Auðvaldsbullan: Annars má ég ekki vera að þessu lengur, því það er verið að sækja mig. Við þurfum að hittast aftur og tala betur saman."
Kommúnistinn: Jæja, bless þá."
Kommúnistinn : (tuldrar við sjálfan sig) Gat nú verið. Sóttur á stóru jeppaskrímsli."
Athugasemdir
góður að vanda :)
Óskar Þorkelsson, 6.8.2009 kl. 01:04
Ég gáði sisona hvort það gæti verið að Auðmagnið, Das Kapital, eftir Karl Marx hafi verið pikkað inn á vefbókina.
Nei, það gat ekki verið. Held meira að segja að doðranturinn hafi ekki verið þýddur yfir á íslensku. Eða er það ?
Ég var að leita að tilvitnun í Marx sem gengur á netinu og í blöðum. Hún er víst ekki ekta.
Pétur Þorleifsson , 6.8.2009 kl. 02:15
Sæmi alltaf góður.
DoctorE 6.8.2009 kl. 08:40
Takk, Óskar, Skorrdal og Pétur.
DoctorE: Ég sé ekki að enn sé búið að opna bloggið þitt. Hvað veldur?
Sæmundur Bjarnason, 6.8.2009 kl. 10:03
Var ekki búinn að lesa athugasemdirnar við færslu nr. 763. Skil málið betur núna og er sammála Hauki Nikulássyni að flestu leyti. Finnst verst að missa af öllu því efni sem þú hafðir safnað saman DoctorE. Hinn raunverulegi tilgangur Moggamanna er líklega að koma í veg fyrir að fólk sjái slíkt.
Sæmundur Bjarnason, 6.8.2009 kl. 10:12
BS =1
Reason = 0
Ég var líka með mörg "tonn" af fræðsluefni sem er líklega ekki það sem menn vilja á íslandi í dag.. gamla ísland er í fullu fjöri, þar sem fólki er haldið í myrkrinu; það hefur alltaf gagnast best.. fyrir suma ;)
Vi skulum ala á fáfræði og hjátrú... þá fáum við kannski að sjá eitthvað eins og gaurnn sem drap fólki í heilsuræktinni.. hann var að gera þetta til að komast til Sússa, hann hafði engar áhyggjur af helvíti því Sússi var búinn að borga fyrir allar syndir, um að gera að ala á fávitaskap :)
Um að gera að hindra að nokkur maður skemmileggi svona tálsýnir og fávitaskap ha :)
http://abcnews.go.com/US/Story?id=8258001&page=1
DoctorE 6.8.2009 kl. 11:08
Vísindavefurinn:
"Arftakar Hegels eins og Ludwig Feuerbach (1804-1872) og Karl Marx (1818-1883) gerðu sér einnig tíðrætt um trúarbrögð og uppruna þeirra. Viðhorf þeirra til Guðs má draga saman með þeim fleygu orðum að Guð hafi ekki skapað manninn í sinni mynd heldur hafi maðurinn skapað Guð í sinni mynd."
Guð er því áreiðanlega til og hann lítur út eins og DoctorE.
Þorsteinn Briem, 6.8.2009 kl. 12:11
Já, en það er eitt sem ég veit ekki. Það er hvernig DoctorE lítur út!
Sæmundur Bjarnason, 6.8.2009 kl. 12:21
Fyrstu skrif Karls Marx "um efnahagsmál voru Drög að gagnrýni á pólitískri hagfræði (1859) en það var nokkurs konar inngangur að meiri skrifum hans um hagfræði, þ.e. Auðmagnið (Das Kapital, 1867). Auðmagnið hefur verið kallað ,"þyngsti steininn sem kastað hefur verið í kapitalistmann" sem er ákaflega skemmtilega tilviljun því fyrsta bindið (af þremur) er 2521 blaðsíða.
Í þessu fyrsta bindi sem ber undirtitilinn Des Produktionsprozess des Kapitals (Framleiðsluferli auðmagnsins) tekur hann og greinir hið kapitalíska efnahagskerfi og dregur fram helstu þætti hins sósíalíska kerfis sem á að leysa það af hólmi. ...
Enskar útgáfur Auðmagnsins komu út 1887 (fyrsta bindi), 1907 (annað bindi) og 1908 (þriðja bindi). Fjórða bindið var í undirbúningi en Engels féll frá áður en hann gat búið handrit Marx til prentunar og átti það bindi að fjalla um sögu kenninga hagfræðinnar."
Marxismi
Þorsteinn Briem, 6.8.2009 kl. 12:38
Sjá Vísindavefinn.
Guð lítur því út eins og hver og einn ímyndar sér að hann líti út og sömu sögu er að segja um DoctorE sem lítur út eins og Guð.
Þorsteinn Briem, 6.8.2009 kl. 12:51
Hver kom fyrst, guð eða maðurinn?
Miðað við dogmað í trúarritum þá voru þýskir menn að búa sér til dildóa ~30 þúsund árum áður en nokkur maður heyrði minnst á guð biblíu, sem kom víst fyrir ~6000 árum.
Hvað kemst ljósið langt á 6000 árum... hinn biblíska alheimsmynd hefur fallið svo hrapalega að það er ekki fyndið... höfundar biblíu töldu að hægt væri að sjá allan heiminn með því að fara up á hátt fjall eða tré.
"Guð" er skapaður í mynd okkar, ekki við í mynd hans, guð er svona eins og ósýnilegur og ósnertanlegur stjórnmálamaður sem aldrei kemur fram, það eru bara aðrir sem eru umboðsmenn hans sem segja okkur hvað hann vill, or else :)
DoctorE 6.8.2009 kl. 13:16
Maðurinn skapaði Guð, samkvæmt Marx, og Guð skapaði manninn, samkvæmt Biblíunni. Bæði Guð og maðurinn eru því örugglega til. Og þeir líta eins út.
Hvenær maðurinn og Guð urðu til nákvæmlega er aukaatriði í málinu, enda hvorutveggja óvíst. Rétt eins og það er aukaatriði hvort hafi komið á undan hænan eða eggið. Hvorutveggja er örugglega til, enda þótt eggið efist í sumum tilvikum um tilvist hænunnar og hænan um tilvist eggsins, eins og dæmin sanna.
Þorsteinn Briem, 6.8.2009 kl. 14:15
Ég sé Doctor E alveg fyrir mér þó ég hafi aldrei séð hann. En líklega er þetta bara ímyndun. Og þó. Ég held ég myndi þekkja hann í sjón ef hann yrði á vegi mínum!
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.8.2009 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.