762- Moggabloggarar ræða málin

Heyrði um daginn samtal tveggja Moggabloggara. Annar var greinilega nýgræðingur í faginu en hinn talsvert sjóaður.

Nýgræðingur: „Nú er ég byrjaður að blogga á Moggablogginu."

Sá sjóaði: „Gott hjá þér. Hvað ertu búinn að blogga oft?"

Nýgræðingur: „Þrisvar."

Sá sjóaði: „Já, þetta kemur allt. Svolítið erfitt til að byrja með."

Nýgræðingur: „Já, og ég er strax búinn að fá komment."

Sá sjóaði: „Gott hjá þér. Hvað stóð í kommentinu?"

Nýgræðingur: „Að ég væri fáviti."

Sá sjóaði: „Ha, hvað segirðu?"

Nýgræðingur: „Er ég það nokkuð?"

Sá sjóaði: „Auðvitað ekki. Var það einhver sem þú þekkir sem kommentaði?"

Nýgræðingur: „Já.

Sá sjóaði: „Nú, hver var það?"

Nýgræðingur: „Konan mín."

Sá sjóaði: „Hmm. Einmitt það. Þessi var nokkuð góður."

Smáþögn.

Nýgræðingur: „Mér finnst bara nokkuð gaman að þessu. Viltu ekkert vita um hvað ég bloggaði?"

Sá sjóaði: „Jú, auðvitað. Hvað skrifaðirðu um?"

Nýgræðingur: „Icesave, ESB og þessháttar."

Sá sjóaði: „Já, það hafa nú fleiri gert. Hefurðu nokkuð litið á teljarann sem sýnir hvað margir hafa komið inná bloggið þitt?"

Nýgræðingur: „Já."

Sá sjóaði: „Og."

Nýgræðingur: „Ja, ekkert svosem. Bara tveir."

Sá sjóaði: „Þetta kemur. Ertu búinn að segja fleirum frá þessu en mér?"

Nýgræðingur: „Nei, ekki ennþá."

Sá sjóaði: „Það geta engir komið að lesa bloggið þitt nema vita af því."

Nýgræðingur: „Ég skil."

Sá sjóaði: „Þegar ég var að byrja þá komu nú ekki margir fyrst. En þetta smákom. Bara um að gera að vera iðinn við kolann."

Nýgræðingur: „Ha?"

Sá sjóaði: „Já um að gera að halda áfram að skrifa þó fáir komi. Svo geturðu líka prófað að skrá þig á Blogg-gáttina og segja öllum sem þú þekkir frá þessu. Og svo auðvitað að skrifa skemmtilega og hafa fyrirsagnirnar krassandi."

Nýgræðingur: Já, ég skil.

Sá sjóaði: „Það er oft gaman að þessu. En maður verður að passa að lifa sig ekki of mikið inn í þetta. Það er gríðarlega merkilegt að fá fyrstu kommentin. Þér hefur náttúrulega ekkert brugðið þó konan þín hafi kallað þig fávita."

Nýgræðingur: „Nei, hún gerir það oft. Fyrst hélt ég samt að þetta væri einhver annar, brá mikið og fannst þetta illa gert."

Sá sjóaði: „Ég skal trúa því. En svo hefurðu séð að þetta hlaut að vera hún."

Nýgræðingur: „Já, hún viðurkenndi það strax."

Sá sjóaði: „En það er nú ekkert grín að vera kallaður fífl og fáviti af einhverjum sem maður þekkir ekki neitt."

Nýgræðingur: „Hefur þú lent í því?"

Sá sjóaði: „Já, oftar en einu sinni."

Nýgræðingur: „Vá, og varstu þá að skrifa einhverja steypu?"

Sá sjóaði: „Nei, alls ekki."

Nýgræðingur: „Nú."

Sá sjóaði: „Þeim sem kommentaði fannst það kannski. Ekki mér."

Nýgræðingur: „ Er ekki rosalegt að fá svona komment?"

Sá sjóaði: „Það venst."

Nýgræðingur: „Já og svo eru það svo margir sem lesa bloggið þitt og margir sem kommenta."

Sá sjóaði: „Ég læt það nú vera."

Nýgræðingur: „Mér finnst það samt. Vildi að svona margir læsu mitt blogg. Ég les þitt alltaf. Ætlar þú að lesa mitt?"

Sá Sjóaði: „Kannski. Ef ég man. Undir hvaða nafni bloggarðu annars?

Nýgræðingur: „Mínu eigin bara."

Sá sjóaði: „Fullu nafni?"

Nýgræðingur: „Já, já."

Sá sjóaði: „Einmitt það, já. Reyni að muna eftir því næst þegar ég fer á bloggið. Þú gætir líka prófað að biðja mig að gerast bloggvinur þinn. Þá mundi ég örugglega muna eftir þér."

Nýgræðingur: „Já, það ætla ég að gera."

Sá sjóaði: „Já, drífðu bara í því."

Nýgræðingur: „Mér finnst dálítið erfitt að láta sér detta eitthvað í hug til að skrifa um."

Sá sjóaði: „Þetta venst. Stundum finns manni allt svo ómerkilegt að það sé ekki hægt að skrifa um neitt. Svo dettur manni bara eitthvað í hug til að skrifa um og lætur það flakka. Um að gera að blogga bara á hverjum degi ef maður mögulega getur. Þá koma lesendurnir."

Nýgræðingur: „Já, ég ætla að reyna það."

Sá sjóaði: „Svo er um að gera að svara öllum kommentum og blogga ekki mikið í einu."

Nýgræðingur: „Einmitt."

Sá sjóaði: „Vanda sig líka við skrifin. Það er lítill vandi að setja saman einhverjar bölbænir og fúkyrði."

Nýgræðingur: „Já, já."

Sá sjóaði: „Já, mér líst vel á að þú sért byrjaður að blogga eins og aðrir."

Nýgræðingur: „Já."

Sá sjóaði: „Ofreyndu þig bara ekki á þessu. Eitt er skrítið. Því meira sem maður bloggar þeim mun meira á maður óbloggað."

Nýgræðingur: „Hvað meinarðu?"

Sá sjóaði: „Bara að þó þér finnist þú hafa skrifað næstum allt sem þú veist. Þá er alltaf hellingur eftir að skrifa um."

Nýgræðingur: „Já, einmitt."

Sá sjóaði: „Og því meira sem þú skrifar um eitthvað því meira er eftir að skrifa um það.

Nýgræðingur: „Ha?"

Sá sjóaði: „Já, ég meina að þó þér finnist þú vera alveg þurrausinn þá er nóg eftir til að skrifa um."

Nýgræðingur: „Já, svoleiðis."

Sá sjóaði: „Jæja, nú er ég farinn að verða einum of heimspekilegur. Best að hætta þessu kjaftæði."

Nýgræðingur: „Já, það er nú gaman að.....

Sá sjóaði: „Ókey. Má ekki vera að þessu lengur. Sjáumst seinna.

 

Og nokkrar myndir í lokin.

IMG 3761Hvítkál? - Hvítt grænkál?

IMG 3763Rautt hvítkál? - Hvítkál?

IMG 3772Rautt eitthvað. - Nei, nú er ég orðinn alveg ruglaður.

IMG 3778Hvað er þetta þá?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Kallast þau ekki skrautkál? a.m.k. tvö efstu.

Fegurð eða fæða - skiptir ekki máli. Getur verið til prýðis uns mann svengir : )

Eygló, 3.8.2009 kl. 01:14

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Er ekki Loðvíðir eða Grávíðir á neðstu myndinni?  Allavega giska ég á annaðhvort.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.8.2009 kl. 02:20

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Ægifagurt kál með skemmtilegum bloggpælingum...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 3.8.2009 kl. 04:32

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Loðvíðir er neðstur

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.8.2009 kl. 15:31

5 Smámynd: Finnur Bárðarson

Rosalega getur blogg verið skemmtilegt og notalegt kommentin frá öllum hér að ofan. :)

Finnur Bárðarson, 3.8.2009 kl. 16:19

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll. Svo er veðrið eins og best gerist. Svona eiga sýslumenn að vera.

Sæmundur Bjarnason, 3.8.2009 kl. 16:33

7 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Hahahahaha... lesturinn varð fyndnari og fyndnari eftir því sem á leið, myndir included - en svo sprakk ég endanlega við þessi komment í kjölfarið.
Ereddekki bara alíslenskt blóðberg alltsaman? Bara mismunandi afbrigði?

gerður rósa gunnarsdóttir, 3.8.2009 kl. 18:45

8 Smámynd: Kama Sutra

Þessi bloggsíða er að verða ein af örfáum skjólum frá IceSave- og Hlaupþings-fárinu (ugh) ... jú, líka veðurbloggið hans Malapabba.

Púff, það er hægt að ná andanum hérna inni...

Kama Sutra, 3.8.2009 kl. 19:39

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Alltaf góður... sérstaklega í dag.

Hrannar Baldursson, 3.8.2009 kl. 20:57

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er fastlega að íhuga að loka mínu bloggi úr því að ekki er þegar búið að loka á það enda er aldrei neitt á því nema blíðviðri.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.8.2009 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband