748- Þjóðaratkvæðagreiðslur

Á Íslandi er lítil hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum. Síðasta þjóðaratkvæðagreiðslan sem hér var haldin var um lýðveldisstofnunina árið 1944. Þá var tveimur spurningum svarað. Annars vegar hvort segja skyldi sambandslögunum upp og hins vegar hvort taka skyldi upp nýja stjórnarskrá. Sú stjórnarskrá var í raun gamla stjórnarskráin sem okkur var færð árið 1874 af Kristjáni níunda með allra nauðsynlegustu breytingum þó.

Engin ákvæði eru í stjórnarskránni eða lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Í stjórnarskránni er aðeins sagt að slík atkvæðagreiðsla skuli fara fram við vissar aðstæður.

Af þessu leiðir að þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-samninginn getur ekki orðið bindandi nema stjórnarskránni verði breytt. Nær óhugsandi er þó að ríkisstjórn gangi gegn vilja þjóðarinnar sem fram kæmi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnarskránni verður ekki breytt nema tvö þing samþykki það og kosningar séu á milli.

Þetta er einkum ástæðan fyrir deilunum um bindandi eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði greitt þjóðaratkvæði um inngöngu Íslands í ESB á kjörtímabili núverandi stjórnar getur hún setið áfram án þess að boða til kosninga.

Sumarið 1959 var kosið tvívegis. Kjördæmaskipuninni var gjörbreytt í millitíðinni. Síðan hafa stjórnarskrárbreytingar verið fyrirferðarlitlar og verið samþykktar af þingum sitt hvoru megin við kosningar.

Fyrir atkvæðagreiðsluna um lýðveldisstofnunina skiptust menn í hraðskilnaðarmenn og lögskilnaðarmenn. Hraðskilnaðarmenn vildu segja sig úr lögum við Dani strax en lögskilnaðarmenn vildu bíða eftir að heimsstyrjöldinni lyki og ganga frá málum í sátt við Dani. Enginn vafi lék á um rétt okkar til að slíta sambandinu. Frá því var gengið í sambandslögunum frá 1918.

Mál fóru þannig að hraðskilnaðarmenn unnu mikinn sigur og lýðveldisstofnunin fór fram í mikilli eindrægni. Danir voru þó lengi sárir og reiðir okkur Íslendingum fyrir framkomuna í þessu máli.

Þegar við Íslendingar munum ganga til atkvæða um ESB-samning eftir fáein misseri munu langflestir greiða í fyrsta skipti atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það verður vonandi til marks um nýja tíma á Íslandi.

Æskilegast er að úrslitin verði afgerandi því hætt er við að mjög naumur sigur á annan hvorn veginn sætti þjóðina ekki og áfram verði deilt um þetta mikilvæga mál.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott yfirlit. Það kann að verða enn styttra í þjóðaratkvæðagreiðslu.

www.kjosa.is 

Rómverji 20.7.2009 kl. 01:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Á kjosa.is hafa nú skráð sig 2659. Þeim kann að fjölga þegar og ef Alþingi afgreiðir Icesave-samninginn.

Sæmundur Bjarnason, 20.7.2009 kl. 02:13

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk fyrir gott yfirlit.

Þegar kosið var um að segja upp sambandslögunum var gengið svo um hnúta að til þess þyrftu 56,25% atkvæðabærra manna á Íslandi, hið minnsta, að segja já. Reglan var; minnst 75% kjörsókn og minnst 75% fylgi.

Það er eðlilegt að gerð sé krafa um aukinn meirihluta þegar svo stór mál eru til afgreiðslu. Innan ESB er með Lissabon samningi stefnt á 55% atkvæða (og 65% íbúa) til að samþykkja mál með einföldum meirihluta.

Þegar gerð er krafa um aukinn meirihluta getur þurft allt að 72% atkvæða í ráðherraráðinu. Innganga Íslands í ESB er sannkallað stórmál. Hér væri því eðlilegt að gera kröfu um aukinn meirihluta þó ekki þyrfti að fara með markið svo hátt. Ég tek því heils huga undir lokasetningu færslunnar.

Haraldur Hansson, 20.7.2009 kl. 13:51

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Krafa um aukinn meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál gengur ekki upp að mínu mati, því þá ræður minnihluti þeirra sem atkvæði greiða og það er að sjálfsögðu andstætt lýðræðissjónarmiðum.

Rök með og á móti:

Skýrsla um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Briem, 20.7.2009 kl. 15:16

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Varðandi aukinn meirihluta eða ekki aukinn meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu hlýtur að fara eftir eðli málsins.  Ég get tekið undir það að þegar um breytingar á stjórnarskrá eða breytta stjórnskipan (sem ESB-aðild fellur undir) sé ekki óeðlilegt að horfa til aukins meirihluta.  Í öðrum málefnum eins og t.d. áfengisbann (sem var kosið um hér í þjóðaratkvæðagreiðslu) er eðlilegt að einfaldur meirihluti nægi án skilyrða um kosningaþátttöku.

Axel Þór Kolbeinsson, 20.7.2009 kl. 20:34

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Stóri gallinn við þessa skýrslu sem þú bendir á Steini er að hún er óhóflega löng. Þar að auki var hún gerð árið 2004 af starfshópi sem þáverandi ríkisstjórn skipaði. Væntanlega var hún gerð vegna neitunar Ólafs Ragnars Grímssonar á að undirrita fjölmiðlalögin. Þess vegna getur verið að hún eigi ekki alveg við hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB.

Sæmundur Bjarnason, 20.7.2009 kl. 20:36

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í þessari skýrslu er verið að vega og meta kosti og galla við þjóðaratkvæði og það er óþarfi að lesa hana frá orði til orðs. Hún er bæði sagnfræði og lögfræði.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu á meirihluti kjósenda að ráða en ekki minnihluti og þá skiptir engu máli hvert tilefnið er. Meirihlutinn myndi aldrei samþykkja að minnihlutinn réði, enda væri það ekki lýðræði.

Þorsteinn Briem, 20.7.2009 kl. 21:10

8 Smámynd: Arnar Guðmundsson

SSELL SÆMI MINN VILDI BARA KVITTA HJER I GESTABÓKINJA,

Arnar Guðmundsson, 20.7.2009 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband