736 - Neikvæðnin á Sögu og í blogginu

Athugasemd sem ég fékk við bloggið mitt fékk mig til að hugsa dálítið um neikvæðni yfirleitt. Það er yndi þeirra sem ráða að kalla alla gagnrýni neikvæðni. Of mikið má þó af öllu gera og meðalhófið er oft vandratað. Það sem á gengur í þjóðfélaginu núna útaf Icesave tekur út yfir allan þjófabálk. Það er eins og ætlast sé til að allir viti allt um þetta mál og hafi á því skoðun. Ég neita bara að taka þátt í þessu. Málið er hjá þingmönnum eins og er og þeir verða bara að gjöra svo vel og gera eitthvað. Annars held ég að mikið sé plottað þessa dagana og allir hlutir eru afskaplega mikið leyndó. Lítið að marka fréttaútsendingar.

Horfði á kastljósið um daginn. Mér hefur lengi blöskrað fjárausturinn í sambandi við þetta tónlistarhús og nú var það flest staðfest. Einhverju af kastljósfólkinu er verulega uppsigað við tónlistarhúsið. Það er ágætt.

Upphaflega átti húsið að kosta rúma þrjá milljarða og vera tilbúið til notkunar í síðasta lagi í haust. Nú er það svo hundódýrt að ekki er víst að það kosti tilbúið nema svona tæpa tuttuguogfjóra milljarða. Ég á alveg eins von á að það komi til með að kosta á endanum fimmtíu til sjötíu milljarða eða svo og verði tilbúið uppúr 2030. Ríki og borg ættu ekki að vera að henda peningum í svona flottræfilshátt.

Ríkið hendir peningum í þetta, vegagerð, gangnagerð og allt mögulegt og eina afsökunin er að veita þurfi mönnum atvinnu. Því mannaflsfrekari framkvæmdir þeim mun betra. Þessi stefna er stundum skynsamleg. Mér finnst hún þó ganga út í öfgar í sambandi við tónlistarhúsið.

Auk þess legg ég til að fyllt verði upp í Héðinsfjarðargöngin.

Sá það nýlega á bloggi einhvers staðar að einhver kannaðist alls ekki við orðtakið: „Oflof er háð". Þetta hélt ég að allir þekktu. Minnir að Snorri Sturluson hafi notað þetta fyrst. Kannski sagði hann líka: „Þeir tala mest um Ólaf kóng sem aldrei hafa heyrt hann eða séð". Þarna er átt við Ólaf helga Haraldsson Noregskonung.

Og nokkrar myndir í lokin:

IMG 3039Blautir fjörusteinar við Akranes.

IMG 3063Úr öðrum vitanum á Akranesi.

IMG 3109Akrafjall.

IMG 3202Skemmtiferðaskip á Akureyri.

IMG 3207Og farþegarnir tínast um borð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kama Sutra

Við litla fólkið förum hjá okkur þegar Stórhausarnir vitna í orð okkar!

Kv. frá Fyrrverandi Malínu sem hefur fengið sér yfirhalningu og skipt um kennitölu eins og hver annar skúrkur sem læðist með veggjum.

Kama Sutra, 7.7.2009 kl. 21:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég nota mér Stórhauss standið eins og ég get. Spurning samt hvort bloggvinirnir, blogg-gáttin og fleira hefur ekki áhrif líka. Jafnvel það sem maður skrifar og hve oft maður skrifar.

Sæmundur Bjarnason, 7.7.2009 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband