725 - Ekki meira Icesave

Skiljanlega eru flestir að verða leiðir á þessu Icesave-máli. Sjálfur er ég það líka. En erfitt er það. Eru ekki flest mál tengd Icesave?

Vinstri grænir eru að bila í ESB-málinu og þeir ESB-andstæðingar sem treystu þeim best sjá nú eftir öllu saman. Samt fer aðildarumsókn eflaust ekki á flot fyrr en seint og um síðir. Icesave-málið tefur fyrir henni. Æ, þetta var óvart.

Er fésbókin opinber? spyr Friðrik Þór. Þetta er merkileg spurning. Oft finnst fólki að það sem sagt er í trúnaði við tölvuna ætti ekki að fara lengra. Einkum í hinni alltumlykjandi og óskeikulu baksjón. Menn sjá oft eftir því sem þeir láta flakka í prívatsamtölum við Internetið.

Hlutirnir fara ekki að batna fyrr en botninum er náð. Mbl.is segir að Eva Joly hafi sagt að hún álíti ekki að botninum sé náð í efnahagskreppu heimsins. Ég man að Geir Haarde sagði ítrekað að nú væri sko botninum náð. Hlutirnir gætu bara ekki haldið áfram að versna. Aldrei trúði ég honum. Hið góða sakar ekki. Best að búast alltaf við því versta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góða kvöldið Sæmundur og aðrir hér á síðunni.

Ég hef haft mikinn áhuga og áhyggjur af stöðunni í efnahagsmálunum lengi. Í raun hafði ég miklar áhyggjur löngu fyrir sjálft hrunið, enda var þetta fyrirséð tel ég. Núna er þetta orðið svo yfirgengilegt að maður hefur fengið alveg nóg. Ég er farinn að setja mér það markmið áður en ég hitti einhvern, að ég skuli ekki nefna kreppuna á nafn í samtalinu. Kannski er það sumarið sem er að hafa þessi áhrif. Það er varla hægt að vera uppfullur af stressi og reiði nú um há Jónsmessuna.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af, er að íhaldið nái að afvegaleiða alla umræðu í landinu. Ég furða mig á því hve óskammfeilnir þeir eru í umfjöllun um t.d. IceSave málið og kenna öðrum flokkum um það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur valdið.

Ég er ekki einn um að láta þetta pirra mig, tek t.d. eftir því að Jón Baldvin er hneykslaður á þessu. Hann var í góðu viðtali á Sögu í dag þar sem hann fór vel yfir okkar skuldbindingar.

Sveinn hinn Ungi 24.6.2009 kl. 21:03

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einhverjum verður að vera hægt að treysta fyrir peningunum sínum. Bankarnir hafa hingað til verið álitnir öruggir. Þessvegna þurfa innistæðutryggingar að vera fyrir hendi. Sé ekki svo er voðinn vís.

Þeir sem áttu að sjá um að svo væri horfðu bara í aðra átt og þrugluðu eitthvað eftir að búið var að selja bankana annáluðum óreiðupésum. Það eru þeir sem áttu að sjá um að allt væri í sómanum í bönkunum sem bera mesta ábyrgð.

Sæmundur Bjarnason, 24.6.2009 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband