715- Ýmislegt um bókmenntir

Hélt ég væri hættur að lesa skáldsögur. Pældi þó í gegnum traktorsbókina alla. Hún heitir „Ágrip af sögu traktorsins á Úkraínsku". Þýdd af Guðmundi Andra Thorssyni og hefur hann gert það ágætlega. Fann þó bæði þýðingarvillur og prentvillur enda er ég slæmur í þeim sökum. Villurnar eru þó svo sárafáar að þær skipta engu máli. 

Þó bókin sé að flestu leyti vönduð og frágangur hennar ágætur er útlitið afleitt. Kiljan sem ég las var prentuð á lélegan pappír og að flestu leyti virtist vera reynt að fæla fólk frá bókinni. Nafnið er líka fráhrindandi og er þar eingöngu við höfund verksins að sakast. Líklega hefur nafnið haft mikil áhrif á þann sem hannaði útlit bókarinnar.

Þetta er talsvert merkileg bók og vel skrifuð. Fyndin og tragisk í bland og jafnvel dálítið pólitísk.

Þessi færsla verður einkum um bækur og bókmenntir. Ekki ætti það að saka. Nóg er nú bloggað um annað.

Ágúst Borgþór segir á sínu bloggi:

„Mér finnst að EH [Egill Helgason] eigi að hætta," skrifar Hallgrímur á Facebook-síðu sína. „Ég hélt í byrjun að hann gæti orðið Bernard Pivot Íslands en því miður, þá les hann ekki bækurnar sem koma út fyrir jólin á Íslandi, sem gerir hann sjálkrafa óhæfan í þetta mikilvæga starf.

(Já, langt er nú seilst þegar vitnað er í tilvitnun - en svona er bloggið.)Með þessu fæ ég tilefni til að skrifa um Kiljuna. Síðastliðinn vetur var hún sá þáttur í íslensku sjónvarpi sem ég vildi síst missa af.

Mér finnst að Egill eigi að halda áfram með þennan þátt. Þó hann lesi kannski ekki allt sem út kemur eftir Hallgrím (hverjir gera það?) er hann langbestur þeirra sem reynt hafa að halda úti bókmenntaþætti í íslenska sjónvarpinu. Formið er ágætt. Hann mætti íhuga að fá sér aðra fasta viðmælendur en Kollu og Pál Baldvin og viðtölin við Braga eru að verða svolítið þunnildisleg en þátturinn í heild er ágætur.

Rithöfundar komast í tísku á Íslandi. Hallgrímur Helgason er aðaltískuhöfundurinn um þessar mundir. Ég las „Hellu" á sínum tíma og þótti hún góð. Gafst upp á „101 Reykjavík" án þess að klára hana. Las „Rokland" frá upphafi til enda en fannst hún ekki nógu góð. Of mikið málæði á köflum. Aðrar bækur hef ég ekki lagt í eftir Hallgrím. Greinar eftir hann eru samt oft góðar og mörg viðtöl við hann athyglisverð. Greinilega mjög hugmyndaríkur.

Einhverju sinni las ég smásögu eftir Gísla J. Ástþórsson sem hét og heitir eflaust enn: „Eik, spurði maðurinn þurrlega." Í þessari sögu segir Gísli frá húsbyggingu sinni. Þá tíðkaðist mjög að menn byggðu sjálfir. Hann hafði komist að því að í timburverslunum væri yfirleitt alltaf til nóg af mótatimri sem hann vantaði ekki. Eitt sinn vantaði hann tilfinnanlega dálítið af 1x4. (Á þessum tíma var alltaf notað tommumál) Hann spurði því eftir 1x6 og var auðvitað sagt að það væri ekki til en nóg af 1x4. Hann sagðist þá ætla að fá það en svar afgreiðslumannsins var þá eins og nafn sögunnar.

Í þessari sögu var að ég held einnig sagt frá draumi Gísla um að hann væri að byggja og gæti ekki hætt og húsið yrði alltaf hærra og hærra því það væri svo ódýrt að bæta einni hæð ofaná.

Úr því ég er farinn að skrifa um bókmenntir get ég ekki stillt mig um að minnast á þýðingar frænda míns Atla Harðarsonar úr grísku. Einkum á verkum Konstantíns Kavafis. Hér er ein slík en hann birtir þessar þýðingarnar gjarnan á bloggi sínu. Ég hef aldrei verið mikið fyrir ljóð en get ekki betur séð en þetta sé afbragðs þýðing.

„Þú ert það sem þú bloggar."

„Hmm. Er ég það? Er það virkilega?

„Já."

„Því trúi ég helst ekki. Ég vil ekki vera rafeindaorð í tölvu."

„Ég meina þetta ekki bókstaflega."

„Nú, hvernig þá?"

„Bara svona óbeinlínis. Tek svona til orða af því það þykir fínt."

„Nú, svoleiðis."

„Meina svosem ekkert með því. Bara að þú eigir að hugsa þig vel um áður en þú setur eitthvað á blogg."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Blogg Atla Harðarsonar er með þeim áhugaverðustu sem finnast.

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.6.2009 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband