706- Evrópumál, Bifröst, letigarðar og fleira

„Hann er víst á Letigarðinum" var stundum sagt um menn í mínu ungdæmi. Þá var átt við að viðkomandi væri í fangelsinu á Litla-Hrauni. Nú eru breyttir tímar og verið að stofna til annars konar letigarða í Kópavoginum. Kreppan veldur því að æ fleiri vilja rækta sitt grænmeti sjálfir og sjá auk þess hollustuna í náttúrulegri fæðu. Sé letin í hámarki er boðið uppá garða sem mér skilst að séu uppá borðum. Sannkallaða letigarða.

Mikið fjör og mikil læti hafa verið á mínu athugasemdakerfi af því ég skrifaði í fyrradag færslu um Evrópumál og Jón Val Jensson. Bifrastarfærslu var ég svo með í gær og athugasemdir við hana eru bráðskemmtilegar.

Árni Matthíasson Moggabloggsguð bloggar sjaldan en það sem hann setur þar á þrykk er jafnan áhugavert. Nýlega las ég þar langloku um pappír, bækur, lesvélar og þess háttar. Sakna mest samanburðartalna við bókasöfn. Hefði ég ekki bókasöfnin væri ég illa staddur því ekki hefði ég efni á að kaupa allar þær bækur sem á mitt heimili koma. Lesvélar og allt sem þeim tilheyrir er eitt af mínum alltof mörgu áhugamálum.

Í framhaldi af landráðaumræðu í athugasemdakerfinu mínu um daginn dettur mér í hug að fyrir langalöngu skrifaði ég grein í Moggann um Gísla Sigurbjörnsson og í henni var meðal annars sagt að Þjóðverjar væru frægir fyrir að hafa komið tveimur heimsstyrjöldum af stað. Eykon (Eyjólfur Konráð Jónsson) sjálfur hringdi í mig og vildi sleppa þessu því það gæti verið álitin „óvirðing við erlent ríki" eða eitthvað þessháttar. Þannig störfuðu ritstjórar nú í gamla daga. Man ekki betur en Vikan hafi áður neitað birtingu greinarinnar.

Ég man mjög vel eftir fréttum af blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar fyrir 20 árum. Ég var þá að vinna á Stöð 2 og er minnisstætt að Páll Baldvin Baldvinsson nýkominn frá Ameríku sagði okkur frá því að myndir hefðu birst strax frá þessu í Bandarískum fjölmiðlum. Það var allra nýjasta tækni þá. 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Veistu, það kemur skemmtilega á óvart að til skuli vera "borðgarðar". Ég vil helst ekki kalla þá letigarða, þótt samlíkingin sé góð.  Hugsaðu þér þá sem eiga erfitt með hreyfingar og er kannski fyrirmunað að beygja sig, að hafa þarna tækifæri á að vera með.  Ég veldi svona stað af því að ég nóg með að standa uppúr stól eða fara í skó, svo ekki gagnaðist ég í matjurtaræktun... en á borði nammi namm

Eygló, 6.6.2009 kl. 00:33

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Prófaðu að hringja í þá sem þarna stjórna. Þetta er ekki komið í gang ennþá held ég. Konan mín hringdi í þá og verður væntanlega látin vita þegar þetta fer af stað.

Sæmundur Bjarnason, 6.6.2009 kl. 02:35

3 Smámynd: Eygló

jamm

Eygló, 6.6.2009 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband