690- Málfjólur og annað þess háttar ásamt nokkrum myndum

Einhverntíma snemma á ferli Stöðvar 2 þegar Karl Garðarsson var fréttamaður þar komst hann svo að orði að einhver hefði hlaupið upp milli handa og fóta út af einhverju sem ég man ekki lengur hvað var. Þetta þótti mér afar óhönduglega að orði komist og síðan hef ég haft lítið álit á fjölmiðlum í málverndarstarfi. 

Sverrir Páll Erlendsson á Akureyri hefur verið óþreytandi í málrækt. Einnig nú í seinni tíð Eiður Guðnason á Moggablogginu. Annars eru leiðréttingar á þessu sviði fremur tilviljanakenndar.

Úr því ég er byrjaður að tala um þessi mál er ég að hugsa um að rifja upp nokkrar málfjólur sem ég hef rekist á. Þetta hef ég gert áður og mun leitast við að endurtaka mig sem minnst.

Hann birtist eins og skrattinn úr Sauðalæknum. (eða frá Sauðárkróki)

Jakki er ekki frakki nema síður sé. (Þetta er nú reyndar nokkuð vel sagt)

Sjá sína sæng útbreidda.

Það er eins og hver sjái uppundir sjálfan sig.

Þegar ein báran rís þá er önnur stök.
Þarna er greinilega tveimur málsháttum ruglað saman. Sá fyrri er svona: Þegar ein bárna rís þá er önnur vís. Hinn er þannig: Sjaldan er ein báran stök.

Hann var ekkert að tvítóna við þetta.

Að berjast í bönkum.

Að skjóta stelk í bringu.

Árunni kennir illur ræðari.

Fleiri fjólur vildi ég gjarnan fá í kommentakerfið. Það er óvitlaust að safna þessum ósköpum.

Og svo nokkrar myndir:

IMG 2652Straumur við Hafnarfjörð.

IMG 2653Höfnin í Straumsvík.

IMG 2654Fjórir kranar og Esjan í baksýn.

IMG 2660Steinhleðsla skammt frá Straumi.

IMG 2662Þór með Mjölni og hafra rétt hjá Straumi.

IMG 2664Heldur er nú ruslaralegt hér.

IMG 2668Einhverskonar þari eða þang.

IMG 2669Já, þetta er í Straumsvík.

IMG 2676Sandpokavígi skammt frá Straumsvík merkt Sjálfstæðisflokknum.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

"Margur málfarzfaziztinn malar mæðulega minna merkilegar..."

Steingrímur Helgason, 20.5.2009 kl. 00:19

2 Smámynd: Eygló

Sæmundur, ég les alltaf fyrst bloggið þitt. Værirðu nokkuð til í að setja "réttu" setninguna VIÐ þá "börnuðu".

Eftir Bibbu á Brávallagötunni er maður bara alls ekki alltaf viss í sinni sök; nema náttúrlega við sem erum 100% á þessu.

Eygló, 20.5.2009 kl. 01:28

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já einmitt. Ég skil. Reyni hér með. Vonandi eru skýringarnar ekki misskilningur!!
Að hlaupa upp til handa og fóta (ekki milli)
Eins og skrattinn úr sauðarleggnum (ekki Sauðalæknum)
Ekkert að tvínóna (ekki tvítóna - tvínóna er annars merkilegt orð.)
Sjá sína sæng upp reidda (ekki útbreidda)
Berjast í bökkum (ekki bönkum)
Skjóta skelk í bringu. (ekki stelk)
Árinni kennir illur ræðari. (ekki árunni - jafnvel þó nýkomin sé úr áruhreinsun)

Sæmundur Bjarnason, 20.5.2009 kl. 02:04

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Að skjóta stelk í bringu" er alger humall af málblómi að vera, hittir í mark.

Og ekki áttu að þræta fyrir það, Sæmundur, að margir berjist nú í bönkum.

Svo er hitt ótvíræð staðreynd, að margir hafa hlaupið upp milli fóta í það minnsta, ef ekki víðar um kroppinn.

Jón Valur Jensson, 20.5.2009 kl. 02:26

5 Smámynd: Eygló

Flott, einmitt það sem ég meinti.

Tvínóna Ég held ég megi segja að það sé næstum því, hér um bil öruggt.  Að að "tvínóna" ; að vera verklatur, seinn til verka, sýna lítinn afrakstur. Þeir sem ekki tvínóna við það sem þeir taka sér fyrir hendur eru þá auðvitað hið gagnstæða.  "Nón" minnir mig að sé klukkan 15:00 (hádegi á ensku; noon) Sá sem byrjar á verki um nónbil og hefur ekki lokið því daginn eftir... hefur "farið yfir tvö nón" - hann hefur "tvínónað"

Heyrði í dag konu sem var að "belta" strákinn sinn. (Við vorum í rútu, þar sem bílbelti voru, og hún ætlaði að festa hann í öryggisbeltið) Hljómaði miklu verr í mínum eyrum... jafnvel sem ofbeldi.

Eygló, 20.5.2009 kl. 02:44

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ei verður baldinn haminn, nema beltaður sé.

Jón Valur Jensson, 20.5.2009 kl. 02:55

7 Smámynd: Eygló

Jón Valur leiddi mig úr skugga. Í mínum eyrum hljómaði þetta eins og mýmörg nafnorð sem umbreyst hafa í sagnorð:  leira, kubba, plasta... Svei mér þá, nú fer ég líklega að belta sjálfa mig, enda baldin í umferðinni : )

Eygló, 20.5.2009 kl. 13:56

8 identicon

Ég skal ábyrgjast að það er verið að berjast í bönkum.  Smilie

EE elle 25.5.2009 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband