681-Um skoðanamyndun og önnur skrýtin fyrirbrigði

Hver er heildarsumma skoðana í ákveðnu samfélagi og hvernig breytist hún? Hvernig hafa skoðanir eins samfélags áhrif á skoðanir annars? Lítum fyrst á hvernig heildar skoðanasumman breytist. Eflaust breytist hún fyrst og fremst með áhrifum þjóðfélagsþegna hver á annan. Hverjir eru svo áhrifamestir í að breyta skoðunum sem flestra? Líklega fjölmiðlarnir. 

Skiptir þá ekki máli hvernig fjölmiðlun er háttað, hvaða tækni liggur að baki henni, hvernig hennar er neytt og svo framvegis? Jú, auðvitað. Reyndir og þroskaðir fjölmiðlar vilja þó gera sem minnst úr þessum áhrifum. Best er að skoðanabreytingar fari fram með sem átakaminnstum hætti. Jafnvel Baugsmiðlar og blátt sjónvarp eru sammála um þetta og reyna að leyna áhrifum sínum og ljúga því jafnvel að sjálfum sér að þeir ráði ekki neinu.

Svo koma bloggarar sem allt þykjast vita og telja sjálfum sér trú um að þeir séu fjölmiðlar jafnvel þó sárafáir taki nokkurt mark á þeim. Og bloggarar breiða úr sér eins og hvert annað illgresi og reyna hvað þeir geta að kaffæra hina hefðbundnu og venjulegu fjölmiðla. Þeir verða súrir, finna bloggurum flest til foráttu og reyna að kúga þá sem mest.

Þannig verður til stríð milli stórra og pínulítilla fjölmiðla þar sem hvor reynir að níða skóinn niður af hinum. Svo sameinast þessir vesalings fjölmiðlar og bloggarar þegar útlendingar einsog herra Brown í Bretlandi sparka í Íslendinga. Verst að bretar sjálfir hafa engan áhuga á þessu. Nær væri fyrir íslenska fjölmiðla að sameinast um að gagnrýna íslensk stjórnvöld. Þar eru glappaskotin svo mörg að engin leið er að telja þau.

En hvernig geta skoðanir eins samfélags haft áhrif á skoðanir annars? Breskir fjölmiðlar hafa sérstaka ánægju af að gera lítið úr Íslendingum. Hugsanlega með einhverjum árangri í sínu samfélagi. Hinsvegar eru áhrifin á hið íslenska samfélag allt önnur. Þannig geta áhrifavaldar innan eins samfélags haft áhrif í öðru samfélagi og samfélögin hvort á annað. Eftiröpunaráhrif geta að sjálfsögðu einnig komið til greina.

Twitter eða örblogg á ekki við mig. Ég er búinn að venja mig á ákveðna lengd á bloggum sem ég skrifa og á erfitt með að venja mig af því. Twitterinn hentar samt örugglega ýmsum þó hann sé dálítið keimlíkur fésbókinni. Sumir nota hvað með öðru meðan aðrir festast í einni ákveðinni Netnotkun.

Stundum held ég að sá ávani minn að skrifa allt í lengdum sem passa blogginu (eftir því sem ég tel) hindri mig í öðrum skrifum. Það er samt alls ekki víst enda hef ég ekki skrifað margt um ævina. Að sumu leyti er maður alltaf að blogga fyrir þá sem maður þekkir og þá sem kommenta reglulega hjá manni og reyna að ganga í augun á þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrirgefðu, Sæmundur, ég er alltaf að ryðjast inn í kommentadálkana hjá þér, en ég gat ekki að því gert, að þegar ég var að lesa bollaleggingar þína um fjölmiðla og fjölmiðlun hér að ofan og hjaðningar þeirra hvers við annan, þá datt mér í hug Friedrich nokkur Hegel og tesa og antitesa, sem síðar mynda synthesa sem svo aftur verður tesa und so weiter!!!! Annars svaf ég oftast í menningarsögutímum, svo sem frægt er orðið!!!

Ellismellur 12.5.2009 kl. 15:25

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, ég man vel eftir tesum og antitesum. Held að ég hafi bloggað einhverntíma um þær og heimspekinginn Hegel sem var í miklu uppáhaldi hjá Guðmundi Sveinssyni ef ég man rétt.

Sæmundur Bjarnason, 12.5.2009 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband