678- Meira um dauðarefsingar

Nú ætla ég í bili ekkert að skrifa um bankahrunið eða Evrópusambandið. Sjálfur er ég orðinn hundleiður á þessum málum og reikna með að aðrir séu það líka. 

Það sem ég sagði í bloggfærslu um daginn varðandi dauðarefsingar hefur vakið dálitla athygli. Athugasemdir eru allmargar og enn bætist við. Mesta athygli virtist mér vekja fullyrðing mín sem var á þessa leið: „Þungar refsingar halda ekki aftur af afbrotamönnum. Það er margsannað."

Sennilega er ástæða til að fjölyrða nokkuð um þetta. Afbrotafræðingar sem ég hef lesið skýrslur eftir hafa lengi haldið þessu fram. Ég get þó ekki vísað í neinar sérstakar rannsóknir í þessu sambandi enda safna ég ekki greinum eða linkum um þetta. Reyni heldur að leggja innihald greinanna á minnið. Þar litast efni þeirra oft af einhverju sem ég hef áður heyrt eða haldið um viðkomandi efni.

Ég hélt að öllum væri ljóst að þyngd refsinga stendur almennt ekki í beinu sambandi við fjölda afbrota eða alvarleika þeirra þó svo geti auðvitað verið í einstökum tilvikum. Fólk heldur oft að afbrot í nærumhverfi sínu fari einkum eftir því hve þungar refsingar eru og að því þyngri sem þær eru því meiri sé fælingarmáttur þeirra.

Skýrslur sýna að þarna er ekkert beint samband á milli. Mörg önnur atriði skipta máli. Sambandið getur sem hægast verið öfugt. Það er að segja að þungar refsingar stuðli að því að alvarleiki afbrota aukist. Fælingarmáttur dauðarefsinga er til dæmis örugglega ofmetinn af flestum og segja má að þar ríki hefndin ein. Mikil refsigleði getur valdið stórfelldum vandræðum jafnvel þó horft sé framhjá líðan þeirra sem fyrir henni verða.

Kynþáttamál blönduðust svolítið inn í umræðurnar í athugasemdum við áðurnefnda færslu án míns tilverknaðar. Þau mál koma þessu við en ráða engum úrslitum. Fáránlegt er að halda að dómstólar í Bandaríkjunum stuðli viljandi að kynþáttamisrétti. Misrétti sem viðgengst í þjóðfélaginu getur þó haft áhrif á úrslit dóma.

Í Bandaríkunum sem líta má á vissan hátt á sem höfuðvígi dauðarefsinga hafa rannsóknir sýnt að verulegur meirihluti er gegn þeim ef tryggt væri að þeir afbrotamenn sem annars yrðu dæmdir til dauða fengju alls ekki tækifæri til að endurtaka verknað sinn. Vernd fyrir endurtekningu er það sem stuðningsmenn dauðarefsinga bera einkum fyrir sig. Andstaða við þessa tegund refsinga virðist einkum vera vegna mannúðarsjónarmiða og vegna mistaka sem örugglega verða þó reynt sé að tryggja að svo sé ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hinar miklu og heitu umræður um dauðarefsingar, snúast aðallega um dauðarefsingar í Bandaríkjunum og hveru ómannúðlegar þessar refsingar eru.

Á hinn bóginn er lítið sem ekkert talað um dauðarefsingar í löndum eins og í Kína sem á heimsmetið í þessum efnum, og svo ég tali nú ekki um í Íran þar sem dauðarefsingar eru villimannlegar og oft framdar fyrir glæpi sem teljast léttvægir á Vesturlöndum eins og t.d framhjáhald.   Þar í landi er meira að segja dæmt til dauða fyrir hluti sem myndu aldrei til teljast til glæpa í hinum Vestræna heimi, eins t.d. fyrir samkynhneigð eða það eitt að skipta um trú.

Ég hef alltaf undrast það umburðarlyndi sem margt fólk á Vesturlöndum sýnir dauðarefsingum í Kína og í Íran, en beinir þess í stað spjótum sínum að dauðarefsingum í Bandaríkjunum.  Samt sem áður eru mun fleiri teknir af lífi í bæði Kína og Íran, heldur en í Bandaríkjunum.

Hvers vegna er þetta svona?  Er það vegna þess að flestir álitsgjafar í þessum efnum eru vinstrisinnaðir?

Sigurþór P. Björnsson 8.5.2009 kl. 08:51

2 identicon

Góðar pælingar eins og venjulega hjá þér, skólabróðir. Refsiviljinn eða refsigleðin fer svolítið eftir eðli afbrotanna og þegar brotið er gegn börnum, svo dæmi sé tekið, er kannski ekki að undra þótt reiðin taki stundum skynsemina frá venjulegu fólki. Hitt finnst mér alltaf umhugsunarefni og ástæða til að skoða þau mál með skynsamlegri dialektik, hvernig á að koma í veg fyrir að tilteknar typur afbrotamanna, svo sem eins og pedofílar, haldi áfram sínum afbrotum þegar einu sinni er komið í ljós óeðli þeirra. Hvort á að meta meira, frelsisrétt þessara manna, ellegar rétt þeirra, sem ef til vill og kannski örugglega eiga eftir að verða fórnarlömb þeirra ef þeir fá að ganga lausir? Margsannað er að börn, sem eru misnotuð í æsku, eru líklegri til að gerast pedofílar þegar þau eldast. Þannig að með því að gefa þessum aðilum frelsi, erum við líka að "tryggja" að framhald verði á þessu óeðli. Sumir vilja meina að pedofílar eigi rétt á að fá útrás fyrir sínar hvatir og nota sömu rök og fyrir réttindum samkynhneigðra. Það finnst mér vera rökvilla, vegna þess að kynferðisleg samskipti fullorðinna einstaklinga, með vilja og samþykki beggja, er allt annar hlutur en nauðung, þar sem minnimáttar er neyddur til þátttöku í kynferðislegum athöfnum, sem viðkomandi hefur hvorki þroska né þörf fyrir. En það væri gaman ef fólk prjónaði hér við þessar bollaleggingar.

Ellismellur 8.5.2009 kl. 08:58

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurþór: Mér finnst eðlilegt að spjótunum sé einkum beint að Bandaríkjunum í þessu efni einfaldlega vegna þess að við þekkjum betur til þar. Það réttlætir heldur ekkert þó hlutirnir séu verri annarsstaðar.

Ellismellur: Já það má margt segja um þessi mál og umræðan um pedofila er mjög áríðandi bæði hér og annarsstaðar.

Sæmundur Bjarnason, 8.5.2009 kl. 12:29

4 identicon

Sigurþór segir satt, Sæmundur og þó ég lái þér alls ekki að skrifa um dauðarefsingar.  Hins vegar er fólk í landinu endalaust að dæma Bandaríkin og alltof oft koma rangdómar.  Það er satt hjá þér að fáránlegt sé að halda að dómstólar í Bandaríkjunum stuðli viljandi að misrétti.  Eins og ég hef sagt líka, eru lög í Bandaríkjunum gegn mismunun á fólki.  Vildi þó að engar dauðarefsingar væru þar, en dauðarefsingar eru ekki í næstum öllum ríkjum Bandaríkjanna.  Oft ruglar fólk líka Bandaríkjunum við önnur lönd í álfunni Ameríku, þ.e. Mið- og Suður Ameríku.  Og slík fáfræði og rangdómar eru skemmandi fyrir Bandaríkin.  Það hryggir mig að fólk skuli beina spjótum sínum að Bandaríkjunum, sem eru þó með lög gegn mismunun, og þegja um lönd þar sem fólk er daglega dæmt til dauða fyrir ekkert, eða vægan´glæp´og það villimannlega drepið:   

Afganistan:Kona dæmd og grýtt til bana:
http://www.handsoffcain.info/archivio_news/200504.php?iddocumento=7107636&mover=0

Pakistan:Móðir dæmd og grýtt til bana:
http://www.guardian.co.uk/world/2002/may/12/theobserver

Kína: Bankamenn dæmdir tl dauða:
http://www.nation.com.pk/pakistan-news-newspaper-daily-english-online/International/25-Apr-2009/Bank-official-sentenced-to-death-in-China

Íran: 9 menn dæmdir og grýttir til dauða:
http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/07/20/niu_manns_bida_thess_ad_vera_grytt_til_bana/

Líbýa: Fólk dæmt og skotið til bana:
http://www.thechemblog.com/?p=286

Nigeria: Móðir dæmd til að vera grýtt til bana:
http://www.independent.co.uk/news/world/africa/nigerian-court-upholds-womans-death-by-stoning-640455.html


Somalia: Barn dæmt og grýtt til dauða:
http://www.amnesty.org/en/news-and-updates/news/child-of+-13-stoned-to-death-in-somalia-20081031

Súdan: Konur dæmdar og grýttar til bana:
http://www.news.com.au/dailytelegraph/story/0,22049,21420283-5001021,00.html

EE elle

. 8.5.2009 kl. 12:57

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

EE elle: Það sem miður fer í Bandaríkjunum kemur okkur bara miklu meira við en það sem miður fer annarsstaðar. Það réttlætir ekki neitt þó hlutirnir séu verri annarsstaðar. Bandaríkin eru eina landið þar sem menningin er mjög svipuð okkar og dauðarefsingar eru leyfðar. Margir Bandaríkjamenn eru mjög á móti slíkum refsingum. Þetta er afmarkað mál og óþarfi að blanda öðru í það. Ég veit vel að menn eru teknir af lífi víðar en í Bandaríkjunum.

Sæmundur Bjarnason, 8.5.2009 kl. 13:17

6 identicon

Ok, ég skil þig, Sæmundur.  Vildi bara minna fólk almennt á lönd með villimannlegum lögum. 

EE elle

. 8.5.2009 kl. 13:37

7 Smámynd: Einar Þór Strand

Sæmundur þó að Bandaríkin séu nærri okkur þá er óþarfi að þegja yfir hinum löndunum og láta eins og þar sé allt í himnalagi, er svoldið kjánalegt svo ekki sé meira sagt.  Og að kalla Bandaríkin höfuð vígi dauðarefsinga er villandi þar sem dauðarefsingar eru ekki leyfðar í nærri öllum ríkjunum.  Það er ekki hægt að ganga framhjá þeirri staðreynd að sennilega er það Kína sem á metið í dauðarefsingum og einnig er réttar öryggi manna þar verulega ábótavant.

Einar Þór Strand, 8.5.2009 kl. 19:13

8 identicon

Ha ha.  Eins gott að passa sig á því að hallmæla ekki Könunum hérna á nokkurn hátt - nema hallmæla öllum öðrum líka í leiðinni...

Malína 8.5.2009 kl. 19:40

9 identicon

M.ö.o - ef ég frem morð þá er það ekkert svo svakalega slæmt af því að það er til annað fólk sem hefur líka framið morð!

Malína 8.5.2009 kl. 20:02

10 Smámynd: Einar Þór Strand

Malína það er ekki hlutlæg umfjöllun að fjalla aldrei um þá sem þér finnst vera að styðja þinn málstað (vera á móti könunum) ef þeir fremja sömu og verri glæpi en óvinur þinn (kanarnir).  Auðvitað má gagnrýna Bandaríkin alveg eins og EB, Kína eða hvaða ríki sem er, en þegar maður gagnrýnir þá verður maður að láta alla njóta sannmælis og má ekki þagga það sem manni hugnast ekki að gagnrýna vegna þess að þeir eru að berjast við eitthvað sem kalla má sameiginlegan óvin.  Maður gerir nefnilega ekki bandalag við þá sem eru manni hugmyndafræðilega andstæðir.

Þú hefur líklega ekki skoðað td þetta sem EE elle setti inn hérna áðan er það?

Somalia: Barn dæmt og grýtt til dauða:
http://www.amnesty.org/en/news-and-updates/news/child-of+-13-stoned-to-death-in-somalia-20081031

Einar Þór Strand, 8.5.2009 kl. 21:07

11 identicon

"Og að kalla Bandaríkin höfuð vígi dauðarefsinga er villandi þar sem dauðarefsingar eru ekki leyfðar í nærri öllum ríkjunum".

Tek undir með Einari, EE elle og Sigurþór.  Höfuðvígi dauðarefsinga er ekki í Bandaríkjunum og mikil og óskiljanleg mistök að skrifa það.  Skil ekki hláturinn í athugasemd kl. 1940.

Benjamín 8.5.2009 kl. 21:11

12 identicon

Verð að segja að athugasemdir kl 19:40 og 20:02 lýsa miklu hatri og/eða fáfræði.

Benjamín 8.5.2009 kl. 21:21

13 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einar Þór Strand og Benjamín, mér finnst þið stunda það sem ég kalla útúrsnúninga. Ég tala um að Bandaríkin séu á vissan hátt höfuðvígi dauðarefsinga. Þið kjósið að líta fram hjá orðunum "á vissan hátt" og ráðið því auðvitað sjálfir. Sennilega hefði ég betur sagt að Bandaríkin væru á vissan hátt höfuðvígi umræðunnar um dauðarefsingu. Það þýðir lítið að ræða mál við þá sem alls ekki hlusta. Í Bandaríkjunum er þetta brennandi mál og umræðan hörð. Ég efast um að nokkrir þori að ræða þetta opinberlega í Kína eða Íran svo dæmi séu tekin. 

Svo get ég alls ekki fallist á það með ykkur að það sé sjálfgefið að ég styðji það sem ég minnist ekki á. Fávitaleg rök sem reyna að koma því að.

Sæmundur Bjarnason, 8.5.2009 kl. 21:26

14 identicon

Í fullri alvöru var ekki ætlun mín að snúa út úr á neinn hátt, en mér fannst þetta vera mistök samkvæmt mínum skilningi á orðalaginu.  Það er búið að leiðrétta það núna.  

Benjamín 8.5.2009 kl. 21:53

15 Smámynd: TARA

Harðar refsingar bæta sjaldnast segir þú og hefur það eftir ýmsum afbrotasérfræðingum....gott og vel, til hvers erum við þá að reyna það ?

Góð meðferð hefur líka lítið að segja samanber síendurtekin brot glæpamanna...til hvers erum við þá að reyna það líka ?

Er ekki bara best að dæma alla glæpamenn til dauða og þá er málið leyst og allir hamingjusamir !!

TARA, 8.5.2009 kl. 22:26

16 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Tara: Ríkinu eða þjóðfélaginu ber bara skylda til að sjá um að glæpir séu sem fæstir. Hvort refsingar eru harðar eða ekki skiptir ekki endilega máli. Ef drepa á alla glæpamenn skiptir auðvitað mestu hverjir úrskurða um hverjir eru glæpamenn. Svo verða ekki-glæpamennirnir kannski ansi fáir í lokin!!

Sæmundur Bjarnason, 8.5.2009 kl. 23:33

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eftir lestur greinarinnar fór ég inn á umræðuslóðina til þess eins að gagnrýna þá setningu þína, Sæmundur, sem ég sé að menn hafa hér hver eftir annan verið að beina spjótum sínum gegn, allt frá 1. innlegginu frá Sigurþóri, því 4. frá EE elle o.s.frv.

Að segja, að "á vissan hátt" megi líta á Bandaríkin "sem höfuðvígi dauðarefsinga," er allsendis fráleit staðhæfing. Amnesty International taldi, að í Kína hafi aftökur verið um eða yfir 8.000 árið 2007, en í Bandaríkjunum hafa þær verið nálægt 50 árum saman, þannig að þetta er á engan hátt sambærilegt, – "forysta" Kína í þessu efni er ótvíræð. Íranir eru líka með margfalt fleiri dauðadóma en Bandaríkin, sem þó eru margfalt fólksfleira ríki.

Þess vegna finnst mér þessi vörn þín, Sæmundur, allsendis óverjandi: "Það sem miður fer í Bandaríkjunum kemur okkur bara miklu meira við en það sem miður fer annarsstaðar" (kl. 13:17), sem og þessi kl. 21:26: "Það þýðir lítið að ræða mál við þá sem alls ekki hlusta. Í Bandaríkjunum er þetta brennandi mál og umræðan hörð. Ég efast um að nokkrir þori að ræða þetta opinberlega í Kína eða Íran svo dæmi séu tekin." – Kínversk og írönsk yfirvöld hlusta vitaskuld síður, ef Vesturlandamenn og aðrir eru sífellt að ráðast á Bandaríkin vegna dauðarefsinga, en þegja um hrikalegt ástandið annars staðar, þótt þar séu réttindabrotin gersamlega augljós (t.d. af hálfu Kínverja gagnvart Falun Gong-fólki og Tíbetum).

Hins vegar er alls ekki rétt að lýsa það fyrir fram óvinnandi veg að vinna fyrir dauðadæmt fólk í einræðisríkjunum; Amnesty International hefur af reynslu fulla trú á því, að vinna megi gegn dauðadómum þar og gerir það bæði með almennum skýrslum um þau lönd, í miklum gagnrýnisanda, og þær rata til fjölmiðla, og einnig með því að vinna í hverju tilfelli fyrir sig, með neti virks fólks sem leggur það á sig að skrifa yfirvöldum með ákalli um, að tiltekinn maður eða menn fái vægari dóm eða lausn úr haldi, að upplýst verði um hvar hann sé eða að honum verði hlíft við pyntingum. Þess eru nú þegar ótalmörg dæmi, að þessi síðarnefnda aðferð hafi virkað, og vestræn pressa á fleiri ríki, s.s. Saudi-Arabíu, hefur einnig virkað til mildunar dóma. Í því landi, sem og t.d. á talibanasvæðum Afganistans, eru líka afar víðtækar heimildir til dauðadóma (sbr. þegar ástfangna, brotthlaupna parið var skotið af aftökusveit um daginn skv. klerkadómi talibana og það fyrir utan mosku!).

Þessu verður ekki á nokkurn hátt jafnað til hins langtum skaplegra ástands í Bandaríkjunum. Í því síðarnefnda ríki er líka vert að skoða dauðadómana ca. 50 á ári í ljósi þess, að framin morð hafa gjarnan verið þar um 12.000 á ári.

Jón Valur Jensson, 9.5.2009 kl. 01:31

18 identicon

Gott innlegg hjá Jóni Val.  Ætli Malína komi ekki inn núna og rakki hann niður eins og alla hina sem hafa skoðun sem henni er óskiljanleg vegna fáfræði um Bandaríkin?  Óþolandi.

Benjamín 9.5.2009 kl. 01:49

19 Smámynd: TARA

Jú, Sæmundur refsingin skiptir víst máli...í flestum siðuðum ríkjum, miðast hún við afbrotið, en á öðrum slóðum er hún skelfilegri en nokkuð sem við þekkjum. Ég viðurkenni fúslega að ég styð dauðarefsingu í sumum tilfellum, en þá fyrir hrottaleg morð og misþyrmingar og eiturlyfjasölu og dreifingu, því það drepur fjölda fólks og eyðileggur líf, að öðrum kosti vil ég að refsingin hæfi afbrotinu.

En að vísu má segja að dauðadómur sé engin refsing, því viðkomandi er tekinn af lífi og þarf ekki að gjalda fyrir afbrot sitt eða taka út refsingu, hann er laus allra mála um leið og dómi er framfylgt.

En að sama skapi er honum ekki gefinn kostur á að bæta sig, en við vitum að það er frekar í minni hluta að stórglæpamenn bæti sig, þeir koma fílefldir út í samfélagið á ný og hefja sama leikinn og verða enn slóttugri svo erfiðara er að góma þá á nýjan leik. Það eru líka slæm skilaboð.

Og ég tek undir það að innlegg Jóna Vals er mjög fróðlegg og gott, enda er hann fjandanum fróðari um þessa hluti, eins og svo marga aðra. Vona að orðalagið fari ekki fyrir brjóstið á ykkur.

TARA, 9.5.2009 kl. 13:25

20 identicon

Ég er seinn inní þessa umræðu og kannski búið að ræða þetta í keng, en eftir því sem mér skilst eru dauðarefsingar:

a) mjög dýrar í framkvæmd

b) óáræðanlegar

c) skila ekki þjóðfélaginu færri né "skárri" glæpum/glæpamönnum

Fyrir mig er punktur c) dealbreaker og aðrir röksemdir því ekki málinu viðkomandi, þó ýmsar þeirra séu eflaust góðra gjalda verðar.

Einar Þór 9.5.2009 kl. 23:31

21 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einar Þór. Ég er að mestu sammála þér. Sumir liðirnir eru samt mismunandi. T.d. á liður a) ekki allsstaðar við. Mér finnst óþarfi að verja Bandaríkjamenn í þessu máli.

Sæmundur Bjarnason, 10.5.2009 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband