30.4.2009 | 00:16
670- Evrópa Evrópa Evrópa
Miklu meira heyrist í Evrópuandstæðingum í fjölmiðlum þessa dagana en stuðningsmönnum aðildar. Það sem hæst ber í fréttum núna er að einhver stækkunarstjóri hjá sambandinu á að hafa sagt að Íslendingar fengju engar undanþágur. Hvað átti maðurinn að segja? Jú, við viljum endilega fá ykkur og göngum að öllum ykkar kröfum." Það sem hann segir skiptir engu máli og hann hefur oft sagt þetta áður.
Sífellt er hamrað á því að hitt og þetta gerist eða gerist ekki ef við göngum í sambandið. Fæst af því er rétt eða skiptir verulegu máli. Mestu máli skiptir að halda áfram tengslum við vinaþjóðir okkar. Við getum ekki eilífllega ákveðið að vera í sama báti og Norðmenn. Þó finnst mér ekkert að því að sætta sig við að vera utan sambandsins ef þjóðin hafnar hugsanlegu samkomulagi.
Að verið sé að láta af hendi sjálfstæði landsins er fjarstæða. Sömuleiðis munum við eins og aðrar þjóðir í ESB halda fullum yfirráðum yfir auðlindum okkar. Kannski þó ekki fiskimiðunum ef áfram verður haldið með óbreytta stefnu þar og sömu hlutir í boði hvað það snertir og síðast þegar Norðmenn ákváðu að ganga ekki í ESB. Einn heyrði ég um daginn halda því fram að ekki væri hægt að ganga úr Evrópubandalaginu og því til sönnunar nefndi hann að Suðurríkin í Bandaríkjunum hefðu viljað ganga úr sambandi sínu við Norðurríkin en það hefði kostað stríð. Þrælastríðið svonefnda.
Vissulega snerist það stríð meðal annars um rétt ríkja til að segja sig úr ríkjasambandinu. En það eru næstum 150 ár síðan það stríð hófst og þarna er verið að leggja þessi tvö ríkjasambönd að jöfnu sem auðvitað er fjarstæða. Ef því er raunverulega trúað að farið yrði með hernaði á hendur okkur ef okkur dytti í hug að hætta er engin furða þótt tilfinningar séu miklar í þessu máli. Grænlendingar gengu úr sambandinu 1985 og ekki var ráðist á þá. Færeyingar eru reyndar ekki heldur í ESB enda vildu þeir ekki fara þangað þegar Danir gengu í sambandið árið 1972 og komust að sjálfsögðu upp með það.
Ekki liggur sérstaklega á að fara í viðræður um aðild að Evrópubandalaginu. Því er til dæmis haldið fram að Svíar sem fara munu með forystu í sambandinu síðari hluta þessa árs verði okkur svo hagstæðir. Slíkt er afar ósennilegt. Fremur er hægt að trúa því að hagstæðara væri fyrir okkur að vera í sambandinu þegar fiskveiðistefna þess verður endurskoðuð og að hugsanlega snúist margt okkur í vil við það eitt að ríkisstjórnin sæki um aðild. Þessu er þó valt að trúa. Við höfum lengi stillt okkur um að sækja um inngöngu í ESB og ætti ekki að verða skotaskuld úr að bíða aðeins lengur.
Samningsstaða okkar Íslendinga er heldur alls ekki sérlega góð um þessar mundir. ESB sækist áreiðanlega ekki eftir að fá okkur. Að allt muni breytast hér samstundis ef við göngum í ESB er örugglega ekki rétt. Vextir og verðlag munu þó lækka smám saman, stöðugleiki aukast og skipulag á mörgum sviðum fara að líkjast því sem er í ESB. Heimskulegt er að halda því fram að atvinnuleysi hér yrði undir eins sambærilegt við meðaltalið í ESB. Það þarf ekki annað en líta á mismunandi atvinnuleysi hjá ESB þjóðum til að sannfærast um það.
Samt sem áður kýs ég fremur aðild að sambandinu en aðildarleysi. Einkum vegna þess að við hljótum að þróast með tímanum annaðhvort í átt til Evrópu eða Bandaríkjanna ef við viljum ekki stefna á einangrun og útilokun frá samfélagi við aðra og ég tek Evrópu framyfir Bandaríkin af ýmsum ástæðum.
Að setja aðild að ESB upp sem reikningsdæmi þar sem hugsanlegur ávinningur er öðru megin en mögulegir ókostir hinum megin er fjarstæða því bæði munum við sem þjóð og ekki síður ESB breytast og þróast með árunum. Það sem mestu máli skiptir er að fylgjast með tímanum og einangrast ekki. Þeir sem þreytast ekki á að útmála ESB sem ímynd hins illa eru auðvitað að mæla með aukinni einangrun þó þeir neiti því ef til vill og bendi á samninga við þjóðir annars staðar en í Evrópu. Þá er einkum talað um þjóðir sem eru miklu stærri en við og óskyldari okkur en Evrópuþjóðir. Ólíklegt er að þær hafi mikinn áhuga á samningum við okkur. Gróði okkar af því til lengri tíma litið yrði líka mjög vafasamur jafnvel þó hægt væri að græða til skammst tíma á nálægðinni við ESB.
Athugasemdir
Þú gleymir því að Ísland er aðili að svokölluðum EES samningi. Um hann má lesa nánar á síðu Utanríkisráðuneytisins. Annars hef ég tekið saman smá myndasyrpu um verðlag í ESB.
Björn Heiðdal, 30.4.2009 kl. 08:01
Nei Björn. Ég gleymdi því ekki. Álít bara að það skipti ekki miklu máli í þessu sambandi. Gerir okkur samt að mörgu leyti inngönguna auðveldari.
Sæmundur Bjarnason, 30.4.2009 kl. 08:31
Evrópusambandið veitir ekki undanþágur.
Það kemur til móts við umsóknarríki með aðlögunartíma eða sérþarfareglugerðum en undanþágur af því tagi sem þyrfti til þess að tryggja nýtingar- og eignarrétt fyrir náttúruauðlindum eru ekki í boði. Til þess þyrfti undanþágu frá stofusáttmálum.
Aðildarviðræður koma á eftir umsókn og snúast um það hvernig og hvenær ríki tekur inn Evrópulöggjöfina, ekki hvort. Það er ekki samið um aðildarskilmálana sem slíka.
Þú getur lesið um umsóknarferlið á eurpoa.eu eða með því að slá upp "EU expansion" á Wikipedia.
Rehn meinar einfaldlega það sem hann segir og getur ekki sagt neitt annað. Hann er embættismaður Evrópusambandsins og getur ekki samið um undanþágur frá stofnsáttmálunum sem hann er sjálfur bundinn af líkt og aðildarríkin.
Viðræður koma á eftir umsókn og frávik koma ekki til greina.
Hans Haraldsson 30.4.2009 kl. 12:23
Takk Hans.
Þú minnist reyndar ekkert á þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað sem öðru líður þá held ég að hún komi síðast í ferlinu. Auðvitað væri það vantraust á ríkisstjórn sem sótt hefði um ef aðild og fengið hana samþykkta væri aðildin felld.
Sæmundur Bjarnason, 30.4.2009 kl. 12:31
Það er tvennt í stöðunni:
1) Kratarnir hafa ekkert hugsað þetta lengra en að komast í umsóknarferlið.
2) Þeir vita að þetta er flókið mál og auðvelt að þvæla það. Aðildarsamningurinn sjálfur er pínulítill (og innihaldið ekki umsemjanlegt) en þessu fylgir mikið pappírsflóð. Þeir hugsa sem svo að með nægilega stuttri og þvælukenndri umræðu geti þetta sloppið í gegn um þjóðaratkvæði.
Þess vegna þykir mér það sjálfsögð krafa að ferlið verði opið og gagnsætt og að hin raunverulegu samningsmarkmið verði sett niður skýrt og að stjórn sæki sér umboð í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að fara í umsóknarferli með þau að leiðarljósi.
Hans Haraldsson 30.4.2009 kl. 13:20
Að upplýst sé um samningsmarkmið áður en sótt er um er sjálfsagt og þá er tvöföld atkvæðagreiðsla óþörf.
Sæmundur Bjarnason, 30.4.2009 kl. 14:04
Heillar mig Eistland? Þið ættuð að lesa þetta::::
Marteinn Unnar Heiðarsson, 30.4.2009 kl. 20:29
Heillar mig Eistland?
Eistland er lítið land í N-Evrópu sem margir kannast eflaust við úr umræðunni um Evrópumál. Mikill fjöldi Íslendinga hefur einnig sótt landið heim, jafnvel í árshátíðarferðum.
Þá er förinni yfirleitt heitið til Tallinn höfuðborgar Eistlands, gist á fínum hótelum, farið í skoðunar og verslunarferðir og almennt njóta Íslendingar þess að skoða athyglisverðar byggingar í fallegu veðri.
Aðal atvinnugrein Eista er einmitt ferðaþjónusta en fast á hæla hennar koma vændi og dópsala. Landbúnaðurinn á undir högg að sækja.
Eistland gekk í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið árið 2004 og höfðu íbúar landsins ákveðnar væntingar og vissu um jákvæðar breytingar í kjölfar aðildar. Menn bundu vonir sínar á að skipaflotinn myndi endurnýjast og fiskveiðar aukast.
Mörgum manninum var brugðið þegar ekkert gerðist, engin endurnýjun varð í skipaflotanum og fiskveiðar lögðust að mestu af.
Atvinnuleysi jókst í kjölfarið, vændi varð umfangsmeira, fíkniefnasala blómstraði og svartamarkaðsbrask er mjög algengt.
Sumir hverjir sem ekki njóta þess að vera á meðal 40% þjóðarinnar sem rétt hefur ofan í sig og á, ganga svo langt að óska þess að vera ennþá undir oki Sovétríkjanna sálugu en Þá gátu Eistar selt sinn fisk til Rússlands og haft út úr því a.m.k. einhverjar tekjur.
Atvinnuleysi í Eistlandi var 9% árið 2004, en sú prósenta hefur undið upp á sig á síðustu misserum og þrátt fyrir alla uppsveifluna í efnahag þjóðanna.
Hagstofa Evrópu EUROSTAT getur birt tölur um atvinnuleysi sem ekki standast ,til að mynda mældist atvinnuleysi í Eistlandi 5,9% árið 2006 og 4,7% árið 2007.
Nú er atvinnuleysi komið upp í 15 % og er mikið áhyggjuefni af þróun atvinnumála.
Það má með sanni taka það skýrt fram að þessar tölur eru langt frá raunveruleikanum, þar sem kerfið er meingallað. Maður sem missir vinnuna sína getur farið á atvinnuleysisbætur sem eru yfirleitt 50% af fyrri launum í 6 mánuði, en eftir þann tíma dettur sá hinn sami maður af bótum og af skrá. Raunverulegt atvinnuleysi gæti því verið nærri 30% í Eistlandi.
Skólakerfið er einnig gallað, þar sem 70 % nema þurfa að greiða að fullu sinn námskostnað, en um 30 % fær fullan styrk frá ríkinu. Unga fólkið leggur mikið að sjálfsögðu mikið á sig til þess að vera hluti af þeim sem fá nám sitt ríkisstyrkt.
Unga fólkið sem nær ekki settu marki varðandi námið, nýtur ekki tækifæris til þess að mennta sig, fær ekki vinnu og hefur ekki hug á að selja líkama sinn eða fíkniefni flyst úr landi.
Ungur maður býr hér á Íslandi. Hann telur að Íslendingar hafi ekki hugmynd um hvernig ástandið er almennt í Eystrasalts löndunum.
Að hans sögn er gott að búa á Íslandi, þrátt fyrir mikla erfiðleika sem fylgja hruni bankanna.
Hann getur núna kostað mjólkina sem amma hans vill fá á hjúkrunarheimilinu í Eistlandi, en öll umfram mjólk getur kostað aukalega þar í landi.
Hann elskar landið sitt og óskar þess að geta búið þar, en hann hefur enga vinnu og engin tækifæri.
,,Þið vitið ekki hvað þið hafið það gott " Sagði hann af mikilli einlægni.
mbkv
Ég vona að Dóra fyrirgefi mér fyrir að setja þetta hérna inn líka
Marteinn Unnar Heiðarsson, 30.4.2009 kl. 20:31
Fékk á bloggsíðunni hjá Halldóru Hjaltadóttir
Marteinn Unnar Heiðarsson, 30.4.2009 kl. 20:32
Hvað ætli valdi þessari sorglegu sögu Eistlands?
EE elle 30.4.2009 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.