663- Nú elskum við friðinn og strjúkum kviðinn

Erfitt er að stilla sig um að skrifa um pólitísk mál þegar örfáir dagar eru til kosninga. Svo eru öll mál pólitísk í eðli sínu ef vel er að gáð.

Útrásarvíkingarnir eru ekki fordæmdir fyrir siðferðisafglöp sín. Miklu fremur fyrir að hafa mistekist ætlunarverk sitt. Það er betra að vera ánægt svín en óánægður Sókrates.

Yngvi Högnason kommentar stundum á mitt blogg og les það líklega oft. Hann segir eftirfarandi í athugasemd við grein Hrannars Baldurssonar sem ég skrifaði um í gær:

Ef  fer sem horfir þá verður Borgarahreyfingin ekki í stjórn eftir kosningar og því ekki álitlegur kostur að kjósa nema það sé verið að kjósa í stjórnarandstöðu. Þáttaka þessa fólks í kosningaþáttum sjónvarps hefur ekki verið til að auka álit á því til starfa fyrir almenning. Stjórnmál og störf á Alþingi fara eftir ákveðnum reglum og ef einhver segist ætla að breyta því í næstu viku eða síðar,þá er hann ekki trúverðugur. En það er alltaf til fólk sem er til í að kaupa plástur sem læknar heilaskemmdir og græðir á afskorna limi.

Reynum alltaf að vera í sigurliðinu. Hvort sem við þurfum að ganga gegn sannfæringu okkar eða ekki. Það gætu hrokkið brauðmolar af borðum hinna ríku til okkar smælingjanna. „Glory hunters" eru svona menn kallaðir á engelsku. Kannski meinar Yngvi þetta ekki svona og þá getur hann leiðrétt það.

Áhugaverða grein um Evrópubandalagið las ég í dag. Hún er á vefritinu Nei og er eftir Hauk Má Helgason. Höfundur leitast við að gera vinstri mönnum það ljóst að með því að kjósa Vinstri græna stuðli þeir að inngöngu í Evrópubandalagið. Á þessu er einkum sá galli að samþykktir á flokksþingum Vinstri grænna ganga í aðra átt.

Pælingar höfundar um svonefndan „singularisma" og „universalisma" í upphafi greinarinnar eru áhugaverðar. Einnig sýn hans á Ísland á fyrri tíð. Grunnurinn að þeirri tvöfeldni sem viðgengist hefur lengi hér á Íslandi og er forsenda allrar stjórnmálastafsemi á skerinu var lagður þegar Þorgeir Ljósvetningagoði skreið undan feldinum fyrir margt löngu og sagði: „Við skulum þykjast vera kristnir en halda samt áfram að vera heiðnir ef okkur sýnist svo. Það er hagstæðast."

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Yngvi Högnason

Sæll Sæmundur.

Kannski veit ég ekki sjálfur hvað ég var að meina. En ég fór að fylgjast með pólitík árið 1963 (ekki sjálfviljugur) og hef fá kosningaloforð séð efnd á sama hátt og að var stefnt fyrir kosningar. Nokkur sérframboð hafa litið dagsins ljós á þessum árum og man ég ekki eftir því að eitthvert þeirra hafi breytt gangi mála.Flestir þessara sérhópa lognuðust fljótlega  út af án þess að þeirra sé saknað. Þessar nýju hreyfingar í dag hafa ekkert nýtt fram að færa fremur en hinar fyrri. Minn pirringur í umræddri athugasemd er að mestu vegna auðtrúa fólks sem heldur að eitthvað nýtt sé á ferðinni og kokgleypir það sem þessir frambjóðendur segja um bjarta framtíð öllum til handa. Og það verði þeim að þakka.
   En ekki verð ég í sigurliðinu þetta árið og er ekki viss um að mitt lið sé það besta, það býðst bara ekkert betra.

Yngvi Högnason, 24.4.2009 kl. 20:36

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Yngvi. Í fyrri hluta athugasemdar þinnar er að skilja að eina ástæðan til að kjósa ekki Borgarahreyfinguna sé að hún verði sennilega í stjórnarandstöðu. Það finnst mér alls ekki nógu góð ástæða. Margt má auðvitað um þessi mál segja og ef til vill er ósanngjarnt að taka athugasemd og setja hana í blogg. Mér finnst bara athugasemdirnar oft lítt marktækar því óvíst er hverjir sjá þær af þeim sem eru þó fastir lesendur viðkomandi bloggs.

Sæmundur Bjarnason, 24.4.2009 kl. 23:34

3 Smámynd: Yngvi Högnason

Eina ástæða mín til að kjósa ekki Borgarahreyfinguna er fólkið þar á lista.
   Í dag verður kosið og á morgun þá sættir maður sig við úrslitin hver sem þau verða, unir glaður við sitt sem fyrrum. Aldrei að vita nema hrökkvi til manns moli. Góða skemmtun á kosningadegi og nótt.

Yngvi Högnason, 25.4.2009 kl. 09:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband