661- "Ekki ert þú í framboði helvítið þitt."

Framboðssaga. (Líklega úr Íslenskri fyndni) Þetta var á dögum einmenningskjördæmanna. Þingmannsefni var á framboðsferðalagi á Vestfjörðum og kom á bæ einn síðla dags. Ekki varð hjá því komist að gista. Bóndi átti ekkert aukarúm en vildi helst að komumaður hefðist við um nóttina í baðstofunni hjá þeim hjónum þar sem þau sváfu ásamt dóttur sinni gjafvaxta.

Þingmannsefnið tók það ekki í mál og sagði sér fullgott að sofa í hlöðunni. Fór þangað og svaf af nóttina. Um morguninn heyrir hann einhvern fyrirgang fyrir utan og lítur út um gluggann. Sér þá að verið er að halda belju en nautið hefur lítinn áhuga á henni. Bóndadóttir er þar til aðstoðar og leiðist þófið. Hleypur að tudda, sparkar í hann og segir:

„Ekki ert þú í framboði helvítið þitt."

Útlendingar sem gaspra hjá Agli Helga eru ekkert merkilegri en aðrir. Þeir sem voru að skora á okkur um daginn að gefa alþjóðagjaldeyrissjóðnum langt nef og hætta alveg að borga skuldir hafa samt heilmikið til síns máls. Við erum bara of smáir til að geta rifið almennilega kjaft. Ekkert þýðir að benda á Bandaríki Norður Ameríku til samanburðar. Enginn er svo aumur að hann geti ekki hundsað okkur.

Horfði á þær stöllur Þóru og Agnesi yfirheyra Ástþór. Kallinn komst bara ágæta vel frá þessu. Hugmyndir hans eru kannski óttalega vitlausar sumar en hann má þó eiga það að hann er óhræddur við að hugsa útfyrir kassann sem er meira en sagt verður um marga pólitíkusa.

Tölvusnillingarnir á RUV gera það sem þeir geta til að fólk sé ekki að horfa á útsendingar þeirra á Netinu. Myndgæðin eru þó ágæt þar þegar samband næst. Reynt er að slíta útsendingar sem mest í sundur og aldrei er hægt að vita hvort samband næst. Þetta er óskaplega leiðigjarnt og ég er hættur að halda að þetta sé mér eða mínu tölvukerfi að kenna. Þetta á einkum við um beinar útsendingar. Gamlar upptökur eru mun skárri.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver ætlaði að hætta að skrifa um pólitík í svip?!? confused smiley #17484

EE elle 22.4.2009 kl. 00:36

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er aldeilis ekki þinni tölvu að kenna. Ég er í mestu vandræðum með þetta. Undanfarna daga hefur hvorki verið hægt að horfa á allar fréttir, Kastljós eða kosningafundi í beinni. Bara sumt - stundum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.4.2009 kl. 00:39

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

EE elle, já það er erfitt að hemja sig. Ég segi bara eins og Hildur Helga. Nú er ég hættur. Það er samt gaman að velta fyrir sér hvað verður eftir kosningar.

Lára Hanna, já Stöð 2 er jafnvel betri að því leyti að maður nær oftast sambandi. Ég hef bara ekki nærri alltaf aðgang að sjónvarpi. Var að horfa áðan einu sinni enn á klippuna um Gullkorn Hannesar hjá Jens Guði. Það er sannarlega fyndið að horfa á þetta.

Sæmundur Bjarnason, 22.4.2009 kl. 01:36

4 identicon

Þú ert nú og verður alltaf flottastur, skólabróðir!

Ellismellurinn 22.4.2009 kl. 20:20

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ellismellur. Ekki skjalla mig of mikið. Ég gæti tekið það alvarlega.

Sæmundur Bjarnason, 22.4.2009 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband