659- Kosningar og Evrópumál einn ganginn enn

Nú er runninn upp tími kosningaáróðursins. Hann tröllríður bæði blöðum og bloggi. Allir eru á kafi í pólitík. Kosningarnar verða eflaust spennandi en þó ekki. Skoðanakannanir draga úr spennunni. Þær eru sumar furðulegar og ótraustvekjandi. Af einni heyrði ég þar sem Ástþór og Co. voru langefstir með vel yfir 30 prósent atkvæða á öllu landinu.

Evrópumálin koma talsvert inn í umræðuna. Sú umræða er einkennileg og ótrúlega tilfinningaþrungin. Flestir gera ráð fyrir að krónan sé ónýt en margir tala út og suður um að taka upp einhverja aðra mynt með illu eða góðu. Krónan getur gagnast okkur ef við viljum helst vera eins og korktappi á ólgusjó. Sveiflast þar upp og niður en þó aðallega niður vegna þess að íslensk stjórnvöld verða aldrei þau skynsömustu í heimi.

Eiginlega er bara um tvennt að ræða. Reyna að lappa uppá krónuræfilinn með aðstoð alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þreyja Þorrann og Góuna með harmkvælum miklum og kannski árangursleysi eða sækja sér skjól með samvinnu við aðra. Þar er Evrópusambandið nærtækast hvað sem hver segir.

Eitthvað skárra en krónan kemur ekki bara til okkar sisvona. Ef við ákveðum að sækja um aðild að EU gæti evran komið einhverntíma. Annars aldrei. Krónan er ónýt og því ónýtari sem gjaldeyrishöftin vara lengur. Ekkert bendir til þess að þau höft hverfi fyrr en krónunni verður kastað.

Það er lítill vandi að finna upp eitthvað til að framleiða ef innflutningur leggst að mestu af eins og útlit er fyrir. Sápugerð fyrir innanlandsmarkað gæti verið ein leiðin.

Ég minninst þess að um 1960 fórum við á Samvinnuskólanum í heimsókn til Akureyrar. Þar voru Sambandsverksmiðjurnar í blóma og meðal annars sáum við sápugerð. Hráefnið í handsápuna kom í löngum ormi til vélarinnar sem mótaði hana. Verkstjórinn sýndi okkur stoltur að mótunarvélin sló ekki mótinu niður nema tekið væri í stýringar undir borðinu með báðum höndum af stúlkunni sem sat við vélina. Þetta væri mikið öryggisatriði og kæmi í veg fyrir slys.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þá er nú veðrið betra en pólitíkin.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.4.2009 kl. 15:38

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekki akkúrat núna! Mér sýnist vera nokkuð hvasst. Pólitíska hvassviðrinu linnir eða breytist a.m.k. eftir kosningar.

Sæmundur Bjarnason, 19.4.2009 kl. 16:06

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ertu búinn að skrá þig á sammala.is Sæmundur?

Ég er ekkert svakalega æstur yfir þessu, og skil vel tregðuna til að fara í sambandið, enda búið að hræða almenning mikið um að þeir tapi öllum auðlendum með því að ganga í lið með öðrum Evrópuþjóðum. Margt gott kæmi á móti, fyrir svona óbreytt fólk eins og okkur, og mögulegt að Ísland fái tækifæri áður en það steypist á höfuðið.

Hrannar Baldursson, 19.4.2009 kl. 18:06

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég er búinn að skrá mig.

Mér finnst föðurlandsást og landráð ekki koma málinu beint við. En þetta er bara orðanotkun og fólk leggur misjafnan skiling í orðin. Þessi mál virðast samt koma tilfinningum á meira flug hjá mörgum en flest önnur.

Sæmundur Bjarnason, 19.4.2009 kl. 20:32

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Það er að vísu dulítið lengra síðan ég var nemandi í Samvinnuskólanum en þú, Sæmundur. En ég fæ ekki skilið hvernig það eitt og sér getur bjargað fjármálastjórn á Íslandi að gjaldmiðillinn heiti eitthvað annað en króna.

Sigurður Hreiðar, 20.4.2009 kl. 13:23

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er alveg eðlilegt að ekki séu allir sammála mér í sambandi við Evrópumál. Ég kannast samt ekki við að hafa verið að leggja til að skipt verði um nafn á krónunni. Margir gjaldmiðlar hafa kosti umfram krónuna. Það er jafnvel hugsanlegt að einhverjir séu lakari. 

Sæmundur Bjarnason, 20.4.2009 kl. 15:58

7 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Könnun Hvíta Riddarans var grín. Lýðræðishreyfingin mælist með um 0,5% atkvæða

Evrópusambandið er e.t.v. mikilvægt og nauðsynlegt er að ná sátt meðal þjóðarinnar að kosið verði um það á næsta kjörtímabili.

Óhætt er að segja að baráttan framundan verði spennandi Sæmi minn.

Hilmar Gunnlaugsson, 20.4.2009 kl. 16:34

8 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Meðan fjármálastjórnin á Íslandi er ekki beysnari en hún er skiptir ekki máli hver gjaldmiðillinn er -- né hvað hann heitir. Að því leyti væru það nafnskipti ein að taka upp annan gjaldmiðil og halda að þar með sé öllu borgið.

Sigurður Hreiðar, 21.4.2009 kl. 11:51

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú Sigurður eitt mundi breytast. Ef tekinn yrði upp annar gjaldmiðill mundu íslensk stjórnvöld ekki geta ráðskast með hann  að vild. Einhver ráð mundu þó kannski finnast til að koma öllu í kaldakol.

Sæmundur Bjarnason, 21.4.2009 kl. 13:27

10 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þó íslensk stjórnvöld geti ekki ráðskast með annan gjaldmiðil (erlendan gjaldmiðil sem við bærum þá enga ábyrgð á og engan hagnað af) geta þau þó haft áhrif á hve mikið af honum við hefðum handa á milli og úr að spila. Þannig að ég sé ekki hvernig annar gjaldmiðill geti bjargað neinu nema endurbætt fjármálastjórn á landinu komi til.

Sigurður Hreiðar, 22.4.2009 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband