Í tímaritinu Frjálsri verslun er úttekt á íslenskum hlutabréfamarkaði í fyrsta tölublaði 2008. Þar er margt skondið. Þegar þarna er komið er landslag útrásarinnar farið að breytast. Bröttustu útrásarvíkingarnir bera sig samt nokkuð vel. Á einum stað í blaðinu segir: Auðmenn eru auðlind. Þeir drífa alla áfram með sér. Þeir hafa veitt fólki og fyrirtækjum stórkostlegt sjálfstraust með sókndirfsku sinni á erlendum vettvangi og drifið þjóðina áfram uppúr þeirri minnimáttarkennd sem einkennt hefur íslenskt samfélag í áratugi. Jú, jú. Þetta er slitið úr samhengi og svona yrði varla tekið til orða í dag. Sumt af því svartagallsrausi sem nú þykir sjálfsagt getur vel orðið svona eftir dálítinn tíma. Orð hafa alltaf ábyrgð. Betra er að segja of lítið en of mikið. Þarna er líka grein sem heitir Bónus og bankarnir" og fjallar um vinsælustu fyrirtæki landsins. Með greininni er birt mynd af þeim Jóhannesi Jónssyni og Björgólfi Guðmundssyni ansi glaðhlakkalegum. Bónus er langvinsælasta fyrirtækið og næst á eftir því kemur Landsbankinn. Allraneðst eru síðan Mjólkursamsalan og Sparisjóðirnir. Margt fróðlegt og skemmtilegt er í blaðinu. Þar er til dæmis myndasyrpa frá veislu sem Frjáls verslun hélt og önnur frá sextugsafmæli Davíðs Oddssonar. Einnig er í blaðinu mynd af lengstu eldavél landsins en hún er 3,7 metrar. Er það í raun svo að þeir sem vilja kjósa til vinstri en þora ekki að fara alla leið staðnæmist hjá Samfylkingunni? Er hún í raun eitthvað meira til vinstri en Sjálfstæðisflokkurinn? Er hún eitthvað minna spillt? Og Framsóknarflokkurinn. Er hann búinn að kasta öllum sínum syndum á bak við sig með því að skipta um formann? Eða Vinstri grænir. Eru þeir betri? Jú, þeir hafa haft minni tækifæri undanfarið til spillingar. Öfgafólk veður samt þar uppi og margir óttast áratuga afturför á öllum sviðum ef það nær of miklum völdum. Það snýst ekki allt um peninga og heldur ekki um Evrópu. Áherslan sem Samfylkingin leggur á Evrópumálin er ekki í takt við tímann. Ég er samt Evrópusinni og kýs fremur samstarf við nágrannaþjóðir en einangrunarstefnu. Það sem mestu máli skiptir um þessar mundir er að nýtt almenningsálit er að verða til. Fjölmiðlarnir eru að skána og siðferði í stjórnmálum að aukast. Netið er að taka við sem mikilvægasti miðillinn. Sjónvarp og útvarp eru á leiðinni þangað. Undir þessum kringumstæðum er alls ekki mikilvægast að komast sem fyrst í viðræður við Evrópusambandið. Mikilvægara er að taka til eftir útrásina og bankahrunið. Stjórnlagaþing er líka mikilvægt. Einfaldlega vegna þess að nú er lag. Umhverfismál og mannréttindi verða mál málanna næstu áratugina. Álver eru eitthvað svo 2007. Það er ekki fjórflokknum í hag að stjórnlagaþing verði haldið. Ég óttast mest að þeir sem nú láta líklega um að halda slíkt þing telji öll tormerki á því eftir kosningar. Gulli mundi segja að það liggi alveg ljóst fyrir" að stjórnlagaþing verði ekki haldið. Í lokin eru svo nokkrar myndir. Kannski væri betra að segja að þeir hafi farið upp með lyftunni og svo út um gluggann. Nös á ketti. Esjan með skýjakápu á herðunum. Skýjamyndanirnar fyrir ofan húsið eru á sinn hátt merkilegri en það. Ekki eins varanlegar þó. Héðan er geimskipinu Jörð stjórnað - eða ekki. |
Athugasemdir
Án þess að gera lítið úr pælingum þínum, þá færðu frá mér 1. einkunn fyrir "NÖS Á KETTI" (bæði fyrir mynd og texta) hahah, flott nös.
Eygló, 12.4.2009 kl. 01:01
Já, þetta er hún Lísa.
Flott er kisa, flott er nös
flott er þetta trýni.
Þó engin noti eiturgrös
og engn flokkslit sýni.
Sæmundur Bjarnason, 12.4.2009 kl. 14:31
Er þetta sú sem þú færð að búa hjá? (þið hjónin?) þ.e. hún Lísa.
Eygló, 12.4.2009 kl. 18:00
Sæmundur Bjarnason, 12.4.2009 kl. 19:52
Þetta er sko engin nánös!
Sigurður Þór Guðjónsson, 12.4.2009 kl. 23:44
Blessuð sé minning Hófýjar. En alveg fann ég það á mér að ekki réðir þú, eða hefðir, ráðið för; að þú lytir í duftið fyrir konunglegu yfirvaldi. Nú drottningarstjórn, fyrst Hófýjar, svo Lísu. (ekki gefur það þér lengri taum, að þessar verur eru líka kvenkyns. Best að læðast um, með þær við stjórn. Ég fæ að búa hjá svona.
Eygló, 12.4.2009 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.