642. - Um greinarmerkjasetningu og fleira. Ekki minnst á gæsalappir

Í tali manna um bankahrunið er áberandi hve margir þykjast hafa frábært vit á þessum hlutum. Í ljósvakamiðlunum forðast fólk að segja að það skilji ekki við hvað er átt þó flest af því sem sagt er sé mjög illskiljanlegt. 

Í sinni einföldustu mynd eru hægri og vinstri stefnur báðar stórgallaðar. Þetta vita allir og að miðjumoðið svokallaða er eina vonin. En hvernig á að hræra þessu saman svo vel sé? Íslendingar eru oft dálítið öfgafullir. Eftir stríðið voru allskyns höft og önnur óáran alltof lengi við lýði hér á landi. Þegar þeim var loks komið fyrir kattarnef var gegnið of langt í hina áttina og nú erum við að súpa seyðið af því.

Það sem háir mér langmest í sambandi við skrif allskonar er greinarmerkjasetningin. Orðin og réttritunin koma að mestu leyti af sjálfu sér og oftast nær einhver hugsun með. Greinarmerkin, og þá sérstaklega kommusetningin, koma hinsvegar að mestu leyti eftirá og bara þar sem mér finnst eðlilegast.

Ég geri ráð fyrir að margir eigi við svipaðan vanda að etja. Það er samt óþarfi að láta hann trufla sig. Hvað mig snertir eru flest greinarmerki nema komman fremur einföld í notkun. Gleymast þó stundum. Verst finnst mér að sífellt er verið að hringla með þetta mál og reglur sem að því lúta eru illskiljanlegar. Mér finnst orðfærið og stafsetningin segja margt um skrifin, en kommusetningin lítið. Öðrum kann að finnast greinarmerkjasetningin skipta meira máli en málfarið.

Keypti um daginn á bókamarkaðnum í Perlunni bók sem heitir: „Reglur um íslenska greinarmerkjasetningu". Sú bók er gefin út árið 2007 af hinu íslenska fornritafélagi. Bókin sem er eftir Jónas Kristjánsson er sjálfsagt hin merkasta. Mér finnst hún samt hið mesta torf.

Eftir því sem ég kemst næst af lestri þessarar bókar er íslensk greinarmerkjasetning í tómu rugli. Sérstaklega kommusetningin einsog mig hefur lengi grunað. Eiga kommur að vera „greinarmerki" eða „lestrarmerki"? Jafnvel „skýringarmerki" eða eitthvað allt annað?

Núorðið forðast ég kommur eins mikið og ég get, en nota þær samt öðru hvoru. Punktarnir eru aftur á móti orðnir mitt uppáhald. Það er alltaf hægt að byrja uppá nýtt og hafa setninguna þannig að stór stafur sé eðlilegur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Sæmundur, þú ert á "réttri" leið í frumskógi kommanna (?). Nýjasta "reglan" er að ekki skuli nota kommu nema ef merking gæti misskilist eða úrlestur illskiljanlegur.

Í gær var talað um "göbb" og "aprílgöbb" Ég sá bara Göbbels fyrir mér.

Við erum að sjá hærri tölur um tryggingasvik???

Oft langað að halda bókhald um íslenskubull í fjölmiðlum, en nú löngu búin að sjá að það yrði fullt starf með aukavinnu og ærði óstöðugan. "Þú ert kannski ekki kaupa það?!  Varstu kannski að versla þér kjöt? 

Svo er heimtað að útlendingar tali íslensku. Byrjum á íslenskunemum.

Eygló, 3.4.2009 kl. 01:48

2 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Kommu skal nota í upptalningu og þegar um innskotssetningu er að ræða. Afmarka skal starfstitil fólks með kommu ef hann er tvö orð eða fleiri. Einnig er ávarpsliður afmarkaður með kommu. Dæmi: fyrsti, annar, þriðji - Fólkið, sem flutti til Ísafjarðar, var frá Afríku - Ólafur R. Grímsson, forseti Íslands, fékk sér kaffisopa að Bessastöðum í gær - Vertu blessaður, Sæmundur.

Þetta eru helstu kommureglurnar eins og ég lærði þær.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 3.4.2009 kl. 09:03

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eygló: Þegar ég las "í frumskógi kommanna" fór ég náttúrulega að hugsa um sögu sem ég bloggaði einhverntíma um. Hún fjallaði um Gunnar Benediktsson sem kenndi okkur einhverntíma reikning og vildi byrja á að "eyða öllum kommum". Þetta með kommurnar er bara ein hindrun sem er ekkert erfitt að komast yfir ef maður ætlar sér það.

BenAx: Bið að heilsa Steina. Þættirnir um álversflokkinn eru eitt af því sem ég les alltaf.

Sæmundur Bjarnason, 3.4.2009 kl. 10:30

4 Smámynd: Eygló

Svo er annað mál þegar fólk gleymir að "lesa" kommuna. Í útvarpsauglýsingu sem signt og heilagt er flutt: "... áhrifamesta fæðubótarefnið við liðverkjum í Noregi og Svíþjóð".

Ég er svo sem með gigt en aldrei fundið til í noregnum eða svíþjóðinni, mest í mjöðmunum.

Eygló, 3.4.2009 kl. 13:42

5 Smámynd: Heimir Tómasson

Nú finn ég búandi erlendis að því miður fer minni Íslenskukunnáttu aðeins hrakandi. Er þar bara við sjálfan mig að sakast, ég hef alveg tækifæri til að halda getunni við en kýs að nota tímann í eitthvað miður gáfulegra, t.a.m. blogglestur. En ég er hjartanlega sammála Eygló, ef að það á að heimta að aðfluttir læri Íslensku er ekki úr vegi að heimta að Íslendingar kunni að tala og skrifa Íslensku. Nú les ég ekki prentaða Morgunblaðið nema örsjaldan en það er mín von og trú að reglur um málnotkun þar séu enn við lýði, líkt og þegar Gísli var með pistlana um Íslenskt mál. Öfugt við hver stefnan virðist vera með blaðamenn www.mbl.is.

Heimir Tómasson, 3.4.2009 kl. 15:22

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég kannast við útlendu liðverkina. Frétt hljóðaði þannig: "45% (eða önnur prósentutala) þjóðarinnar hefur orðið fyrir beinbrotum á árinu." Sá fyrir mér skýfall af beinbrotum sem lentu á mörgum.

Og Heimir: Það er ekkert ógáfulegt að eyða tímanum í blogglestur og það er mörg vitleysan á mbl.is. Prentaði Mogginn er betri held ég.

Sæmundur Bjarnason, 3.4.2009 kl. 15:53

7 Smámynd: Eygló

   Já, það er greinilegt að búast megi við alls lags úrkomu. Sem betur fer hef ég ekki orðið fyrir beinbrotum, nokkru sinni. Fyrr lenti í í slagsmálum við Bráðamóttökuna (úr frétt)

Eygló, 3.4.2009 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband