611. - Er hugsanlegt að kosið verði til stjórnlagaþings í vor?

Horfði á endursýningu á Silfri Egils í gærkvöldi. Sumum finnst allt ákaflega merkilegt sem frá Agli kemur. Ekki finnst mér það. Til dæmis er einkennilegt hve margir „hámenntaðir hagfræðingar" sem starfandi eru útum allan heim hafa komið  fram í þættinum hjá honum. Hann hefur samt rétt fyrir sér í ýmsu sem varðar bankahrunið. Samt stjórnar hann því hverjir komast í þáttinn og hvað kemur fram þar. Þar að auki er hann talsvert einsýnn.

Langmerkilegast fannst mér í þættinum í gær viðtalið við Eirík Tómasson. Hann er hræddur um að ekkert verði úr stjórnlagaþingi einfaldlega vegna þess að það er andstætt hagsmunum ráðandi afla í þjóðfélaginu að fá nýja stjórnarskrá eða breyta henni mikið. Flestir eru þó sammála um að ýmsu þurfi að breyta í henni en þingmönnum og einkum þó ráðherrum finnst langöruggast að breyta engu. Þar með verði völd þeirra tryggð áfram.

Það sem Eiríkur sér sem ráð til þess að leika á ráðandi öfl er að kjósa til stjórnlagaþings núna um leið og kosið verður til Alþingis. Ef Jóhanna Sigurðardóttir kemur því til leiðar á sínum forsætisráðherraferli að svo verði gert er það merkara en nokkuð annað sem hún getur hugsanlega gert. Ólíkt markverðara en að koma Davíð úr Seðlabankanum sem flestir vinstri menn virðast einblína á.

Afar einkennilegt er ef því hefur ekki verið fylgt neitt eftir sem Bretar sögðu þegar þeir voru spurðir hvers vegna þeir hefðu beitt hryðjuverkalögum til að stöðva íslensku bankana. Þeir sögðu að miklir fjármagnsflutningar hefðu verið til Íslands frá Bretlandi. Þó Geir hafi ekki haft hugmyndaflug til að tala sjálfur við Gordon Brown þá hljóta einhverjir að hafa skoðað þetta mál. Enn er það þó og reyndar allt sem snertir Icesafe reikningana algjört leyndó. Mér finnst áríðandi að fá að vita meira um þetta mál. Það getur ekki verið eðlilegt að halda öllu leyndu í sambandi þetta svona lengi. Eigum við bara að borga eins mikið og við mögulega getum sem allra lengst. Ég neita öllu slíku.

Sögur um Rússagull á Íslandi hafa gengið lengi. Sagt hefur verið frá þeim sögusögnum á Sky News. Einhverjir íslenskir ráðamenn hafa sagt að peningaþvætti sé óhugsandi hér þar sem lög banni slíkt. Þar með virðist málið dautt og enginn nennir að rannsaka eitt né neitt. Ég tel ekki óhugsandi að íslenskir auðmenn hafi stundað peningaþvætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góðar hugleiðingar hjá þér Sæmi.

Óskar Þorkelsson, 23.2.2009 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband