584. - Rafeindaheilar og rándýrar reiknivélar

Það er tóm vitleysa að vera að burðast við að blogga daglega um stjórnmálaástandið þegar svona stendur á. Það eru svo margir sem vilja láta ljós sitt skína. Mér finnst skinið hjá sumum þó í daufara lagi en vissulega skína aðrir skært. Áhrif bloggheima sem heildar eru talsverð. Gömlu fjölmiðlarnir eru að verða jafnótrúverðugir og stjórnmálaflokkarnir. Þeir eru samt misjafnir. Stundum jafnvel nauðsynlegir.

Fyrstu kynni mín af tölvum voru þau að við Bifröstungar fórum í kynnisferð til Reykjavíkur árið 1959. Þar komum við meðal annars í Sambandshúsið við Sölvhólsgötu. Þar var vél sem flokkaði gataspjöld með ótrúlegum hraða í svona 30 til 40 hólf. Með því að götin gátu verið mismunandi mörg og á ýmsum stöðum mátti líkja eftir mörgu sem einkennir tölvur í dag.

Auðvitað var þetta samt ekki raunverulegt tölva. Um svipað leyti og þetta var þá fékk Háskóli Íslands sinn fyrsta rafeindaheila og var nokkuð skrifað um það í blöð. Aldrei varð ég þó svo frægur að sjá það fyrirbrigði. Á næstu árum fóru System tölvur frá IBM að koma í stærstu fyrirtæki hérlendis. Ekki var fyrir hvern sem er að stjórna þeim skrýmslum og þurfti dýra sérþekkingu til. Með réttum vinnubrögðum voru þessar tölvur þó til mikils léttis við bókhald allt.

Rándýrar reiknivélar komu svo á margar skrifstofur nokkrum árum seinna. Þær kunnu að meðhöndla tölur. Gátu til dæmis margfaldað og deilt án vandræða.

Það var svo ekki fyrr en um 1980 sem heimilistölvur fóru að koma til landsins. Um svipað leyti var stofnað til vídeókerfisins í Borgarnesi sem ég veitti forstöðu. Til að senda dagskrá og þess háttar út á kerfið fengum við Sinclair ZX 81 tölvu. Slíkar tölvur voru þá nýkomnar í sölu hjá Heimilistækjum en það fyrirtæki hannaði fyrir okkur videókerfið og seldi okkur allt efni í það.

Sonum mínum þótti mikið þing að geta fiktað í þessari tölvu þegar hún var ekki upptekin við annað. Þessi tölva hafði fremur ómerkilegt lyklaborð, engan skjá og engan harðan disk. Kostaði heldur ekki mikið eða tólfhundruð og eitthvað nýkrónur. Hægt var að tengja tölvuna við sjónvarp og senda henni forrit með venjulegu segulbandi. Minnið var 1 kílóbæt en hægt var að fá kubb til að tengja við hana sem var heil 16 kílóbæt að stærð. Bara til upplýsingar má nefna að 1000 slík þarf í Megabætið.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

He, he. Já, manstu, og manstu? Það er freistandi að rifja ýmislegt upp frá skólaárum okkar uppfrá, en það gerist ekki nema að þínu frumkvæði, þetta er þitt blogg. En ekki datt manni í hug, þegar fyrstu borðtölvurnar fóru að sjást á kontórum landsmanna, að þróunin yrði jafn ör og raun ber vitni, né að maður ætti eftir að sitja lon og don flesta daga við þannig tæki.

Ellismellurinn 27.1.2009 kl. 10:04

2 Smámynd: Eygló

Ég er alveg miður mín :)  Núna lesa fáir, en allir virðast skrifa. Mér finnst mér ofaukið að sinni. Get samt ekki stillt mig þegar ég fer inní fráhvarf.

Eygló, 27.1.2009 kl. 20:40

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Lesa og skrifa list er góð.  (Hmm man ekki framhaldið.)

Nú virðist þurfa um 800 vikuheimsóknir til að komast á 400 listann. Virðast bæði vera margir sem lesa og skrifa.

Skoðaði bloggið þitt Eygló og datt í hug gömul vísa þegar ég sá hægðaskrifin hjá þér:

Hvað er það sem úti frýs
fyrir utan Paradís?
Það eru bæði maðkar og mýs
mannaskítur og færilýs.

Sæmundur Bjarnason, 27.1.2009 kl. 21:39

4 Smámynd: Eygló

ja, hvur þó í...  færslan hefur kveikt á þínu skítlega eðli... ha ha ha

Annars er hún er fjandi góð þessi, þótt frekar sé hún  daunill.

Hvað er færilús?  Heyrði þetta hjá mömmu og/eða pabba. Sjálf hef ég aldrei kynnst lúsum náið; séð blaðlýs álengdar án þess að kynna mig.

Eygló, 28.1.2009 kl. 00:42

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Held að færilýs séu lýs á fé. Líkt og Færeyjar þýðir fjáreyjar. Annars væri hægt að fletta þessu upp í orðabók.

Sæmundur Bjarnason, 28.1.2009 kl. 00:47

6 Smámynd: Eygló

Ég gáði. Jú, "sauðalús" er það heillin. Mér þykir svo gaman að reyna að halda málinu okkar við og gleðst yfir fólki eins og þér, sem kemur með ýmislegt um málfar og skrifar ljómandi gott mál.

Sennilega erum við bara af sama sauðahúsi

Eygló, 28.1.2009 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband