573. - Fjöldi fólks er illa staddur þegar kemur að málfari. Hugleiðingar um það og minningar frá Borgarnesi

Um daginn gagnrýndi ég Sigmund Erni Rúnarsson fyrir málfar í fréttum Stöðvar 2. (Blogg nr. 571) Nokkuð var fjallað um þetta í kommentum við þá færslu og voru menn bæði með og á móti því sem ég sagði. Ég er enn sömu skoðunar og þá. Mér finnst þetta skipta máli þó margir vilji fremur tala um annað. 

Þegar ég var verslunarstjóri í byggingavörudeild Kaupfélags Borgfirðinga í Borgarnesi fór ég öðru hvoru til Reykjavíkur til innkaupa. Þá var meira mál en nú að skreppa í höfuðstaðinn. Venjulega fóru í þetta tveir dagar. Oftast gisti ég á Hótel Esju. Stundum sofnaði ég útfrá útvarpinu og ég man eftir að í tvö skipti heyrði ég í svefnrofunum minnst á það í fyrstu fréttum að páfinn í Róm væri dauður. Í seinna skiptið hélt ég í alvöru að ég væri að upplifa eitthvert meiriháttar Deja Vu og varð heltekinn af þeirri hugsun. Auðvitað stóðst það ekki nánari skoðun. Aumingja páfinn hafði bara lifað svona stutt í embætti.

Einhvern tíma var ég í Holtagörðum í ferð af þessu tagi og fékk mér að borða þar með Gísla Sumarliðasyni. Þá var frá því sagt í hádegisfréttunum að einhver Sovétleiðtogi hefði hrokkið upp af. Um þetta ræddum við Gísli og ég spáði því að Andropov mundi taka við. Það var reyndar eina rússneska nafnið sem ég mundi eftir í svipinn. Mikil varð svo undrun mín nokkrum dögum seinna þegar frá því var sagt í fréttum að Andropov þessi hefði tekið við sem Sovétleiðtogi.

Egils saga er eflaust skyldulesning fyrir alla Borgnesina. Þegar dóttir mín var svona fjögurra eða fimm ára las ég fyrir hana kafla úr Egilssögu. Ég man að minnst er á Sandvík í sögunni og að hún sagði undrandi: "Ha. Niðri í Sandvík? Hér?" Hún lifði sig inn í frásagnirnar af Agli og þegar hún byrjaði í skólanum lenti hún í stælum við kennarann um aldur Egils þegar hann fékk ekki að fara með í veisluna úti á Ökrum vegna þess hve vondur hann var með víni.

Í Borgarnesi bjó ég á nokkrum stöðum. Síðast í blokk að Hrafnakletti 6. Í hana flutti ég strax og hún var fullbyggð. Íbúðirnar í stigaganginum sem ég bjó í voru rúmlega 10 minnir mig. Á einum stað var köttur. Eitt af fyrstu verkum húsfélagsins var að samþykkja bann við kattahaldi. Mér fannst það bara vera vegna þess að það var hægt. Mótmælti því og fór í fússi af fundinum þegar ég var ofurliði borinn. Ekki man ég hvað varð af kettinum.

Í bloggi mínu númer 570 var minnst á skemmtilega afbakaða talshætti. Nokkrir hafa orðið til að bæta við í kommentum. Núna er listinn einhvern vegin svona:

Hann kom eins og þjófur úr heiðskíru lofti.
Hann lenti milli steins og steggja.
Róm var ekki byggð á einni nóttu.
Það er ekki hundur í hættunni.
Betra er að hafa vaðið fyrir ofan sig.
Þar kom horn úr hljóði.
Þegar í harðfennið slær.
Þetta er nú ekkert til að hlaupa húrra yfir.
Þið eruð eitthvað svo spænskir á svipinn.
Ekki fyrr en eftir djúpan disk.
Láttu ekki slá um þig. Þú gætir forskalast.
Hann steig ekki feilnótu í leiknum.
Það þýðir ekkert að efna og efna, en lofa svo aldrei neinu.
Að hellast úr lestinni.
Svo lengist lærið sem lífið.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Talandi um málfar. Hvað er „kommentum“ sbr. aðra línu innleggs þíns?

Nonni 16.1.2009 kl. 04:50

2 identicon

Að bera í blindfullan lækinn.

Malína 16.1.2009 kl. 09:18

3 Smámynd: Beturvitringur

Meðvitaðar "slettur" eru léttvægar miðað við "íslensku" sem er bara þýðing á erlendu máli, oftast ensku. Málfarið er í hættu, ef ekki að hluta ónýtt.

Beturvitringur, 16.1.2009 kl. 14:40

4 identicon

Að slá tvö högg með einni flugu.

Malína 16.1.2009 kl. 19:14

5 Smámynd: Beturvitringur

"Hann sendi mér augntotur"  svo ég varð feimin

Beturvitringur, 17.1.2009 kl. 03:28

6 identicon

að slá 7 flugur í sama höfuðið!

Húsari 19.1.2009 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband