572. - Að blogga um annað en Þjóðargjaldþrotið með stórum staf

Jóna Á. Gísladóttir segist ætla að opna nýja bloggsíðu. Skil hana vel. Mér líður ekki alltaf vel hér á Moggablogginu innan um alla mannkynsfrelsarana. Ætla samt að halda eitthvað áfram. Verst er að mörgum finnst bloggið vera upphaf og endir alls. Víst er það mikilvægt og mér finnst það vera að taka yfir hlutverk hinna hefðbundnu fjölmiðla sem hafa staðið sig illa undanfarið. 

Gamlar minningar eru oft ruglingslegar að því leyti að erfitt er að tímasetja þær.

Eitt sinn var ég í heimsókn á Víðimelnum. Ekki veit ég hve gamall ég var en ég fór með einhverjum af krökkunum þeirra Ingu og Gunnars á leikvöll við Hringbrautina. Líklega hefur það verið gæsluvöllur og ég þá hugsanlega sex ára eða yngri. Finnst þó að ég hljóti að hafa verið eitthvað eldri. Trúlega var það Valli sem fór með mér á leikvöllinn.

Þarna voru allmargir krakkar að leika sér við ýmislegt. Meðal annars voru tveir strákar að leika sér í fótbolta. Markið var hliðgrind nokkur svona einn metri á hæð og nokkuð breið. Hliðið var í steinvegg. Þeir skutu á markið til skiptis og ég horfði á. Eftir eitt skotið kom þeim ekki saman um hvort boltinn hefði farið yfir hliðgrindina eða til hliðar við hana og rifust nokkuð um það. Skyndilega segir annar: "Spyrjum strákinn þarna. Hann sá það áreiðanlega."

Hann átti greinilega við mig og ég man að mér brá ónotalega því strákarnir voru af einhverjum ástæðum orðnið talsvert æstir. Ég hafði horft á þegar skotið var og séð greinilega að boltinn fór yfir hliðgrindina en ekki framhjá henni. Ég þorði samt ekki að segja annað en að boltinn hefði eiginlega farið yfir samskeytin þar sem hriðgrindin og veggurinn komu saman. Ég man ekki hvernig þetta fór á endanum og skil ekki hvers vegna þetta ómerkilega atvik er mér svona minnisstætt.

Kannski hefur mér einhverntíma þótt þetta gott dæmi um ákvarðanafælni mína og flótta frá öllum óþægindum. Einhvers staðar hef ég lesið að minningar okkar séu margar þannig til komnar að hugurinn sé sífellt að fara yfir þær og endurraða ýmsum brotum. Þau sem lengst lifa eru stundum ekkert merkileg nema frá eigin sjónarmiði og hafa kannski bara verið það einhvern tíma. Af hverju atvikin fara ekki í ruslakistuna eins og mörg önnur veit ég ekki.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Endurminningin merlar æ 
í mánasilfri hvað sem var
yfir hið liðna bregður blæ
blikandi fjarlægðar

sagði Grímur gamli Thomsen. Nokkuð til í því.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.1.2009 kl. 00:42

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Á svipuðum aldri, nýkominn af Snæfellsnesi til að búa í kaupstað sá ég í fyrsta sinn leikinn fótbolta, líkt og þú á leikvelli. Mann það eins og gerst hefði í gær og eins og þú hef ég ekki hugmynd af hverju þetta brot er svona kirfilega fastsett í heilanum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.1.2009 kl. 12:15

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einu sinni þekkti ég annan Svan af Snæfellsnesinu. Sá bjó á Svarfhóli sem er rétt hjá Kálfárvöllum.

Þegar þú minnist á það Svanur þó getur vel verið að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem ég sá leikinn fótbolta og það getur verið ein ástæðan fyrir að ég man þetta svona vel.

Sennilega lærir maður aldrei að þekkja sjálfan sig nógu vel.

Sæmundur Bjarnason, 15.1.2009 kl. 14:13

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég man lítillega eftir Svani Kristinssyni frá Svarfhóli. Hann var eldri en ég en hann lést ungur að árum af slysförum. Faðir hans keypti Kleifárvelli af Afa mínum Gísla Guðmunssyni eftir að bærinn á Svarfhóli brann.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.1.2009 kl. 14:51

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég bjó á Vegamótum á Snæfellsnesi 1970 - 78. Bragi Ingólfsson og Svanur Kristinsson voru að ég held jafnaldrar og kunningjar. Fórust báðir ungir með hörmulegum hætti. Kom einu sinni að Kálfárvöllum eftir að þeir voru komnir í eyði með Guðríði og Trausta í Skóganesi.

Sæmundur Bjarnason, 15.1.2009 kl. 15:01

6 identicon

Ellismellur er að velta fyrir sér því sem stendur skrifað í póstum ykkar hér í kommentum, annar ykkar talar um Kleifárvelli (í Miklaholtshreppi) hinn um Kálfárvelli (í Staðarsveit). Er nokkur hætta á að hér sé misskilningur á ferðinni? Þið eruð nú báðir kunnugir þarna?

ellismellurinn 15.1.2009 kl. 20:28

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vitleysan er mín. Ég er bara að rugla nöfnum saman. Veit þó vel að Kálfárvellir eru í Staðarsveit en Kleifárvellir í Miklaholtshreppi. Svo er ég að hneykslast á þeim sem rugla saman Ólafsvík og Ólafsfirði. Svona er maður bara.

Sæmundur Bjarnason, 15.1.2009 kl. 21:16

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég er alla vega að tala um Kleifárvelli í Miklaholtshrepp og gerði ráð fyrir að Sæmundur væri að tala um á líka af því hann talaði um Svarfhól þar í grenndinni.

En það er rétt að Sæmundur talar um Kálfárvelli. En Svanur Kristinsson bjó þar aldrei, svo mikið er víst. :) 

Eitthvað þekkir þú nú til þarna líka ellismellur fyrst þú kveiktir á þessu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.1.2009 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband