554. - Útsölur, Evrópumál, fréttablogg og fleira ójólalegt

Samkvæmt fréttum eru útsölur að byrja víða núna strax eftir jólin. Merkilegastar þóttu mér fréttirnar frá Bretlandi þar sem sagt var að Vefverslanir sumar hefðu hafið sínar útsölur strax klukkan 18 á aðfangadag!! 

Getur verið að við Íslendingar séum bara á undan öðrum í fjármálakreppunni og að hún sé að byrja að bíta fólk annars staðar líka. Sumir spá þannig. Kannski eru þeir Íslendingar sem segja það einkum að hugga sjálfa sig. 

Utanferðir fólks breytast eins og annað. Einu sinni var greint á milli sigldra manna og ósigldra. Í mínu ungdæmi hefði ekki verið erfitt að finna fólk sem aldrei hafði farið út fyrir landsteinana. Nú eru jafnvel ekki margir krakkar um fermingaraldur sem aldrei hafa til útlanda komið. Sjálfur fór ég í fyrsta sinn til útlanda um það leyti sem ég varð þrítugur og hef aldrei út fyrir Evrópu komið.

Mikið er óskapast útaf ákvörðun Moggabloggsmanna um að setja takmarkanir á fréttabloggun. Mér finnst bera svolítið á oftúlkun á því sem til stendur. Eins og ég hef skilið þetta mál er ekki verið að banna nafnlaus skrif heldur bara verið að banna þeim nafnlausu að linka í fréttir. Líka á víst að banna að þeir nafnlausu komist í úrvalsflokkinn sem ég held að alltaf sé að verða erfiðara og erfiðara að komast í. Hætt er við að þeir sem vekja vilja athygli á sínum skrifum geti ekki lengur skrifað undir dulnefni því ef mönnum tekst ekki að koma sér í mjúkinn hjá stjórnendum bloggsins er fréttalinkun helsta ráðið til athyglissóknar grunar mig.

Vissulega er hætta á því að þeir sem heldur vilja skrifa undir gælunöfnum og nafnleysi hrekist í burtu frá Moggablogginu með þessu. Þannig getur þetta orðið til þess að þeir sem síst skyldi fari héðan. Nafnlausir bloggarar hafa aldrei truflað mig neitt og ómálefnaleg komment hef ég sjaldan fengið. Helst finnst mér það hafa skeð ef mér hefur orðið á að minnast á Evrópumálin. Kannski verður þetta á endanum meira til bölvunar en blessunar. Bendi þeim sem áhuga hafa á þessu máli að lesa bloggið hans Brjáns (brjann.blog.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband