551. - Með aðstoð aumra Alþingismanna

Hannes Hólmsteinn og reyndar margir fleiri vilja rekja upphaf alls þess sem miður hefur farið að undanförnu til fjölmiðlafrumvarpsins sáluga. 

Þar er ég ekki á sama máli. Ef leita á að frumorsök núverandi bankakreppu sem lengst aftur þá vil ég rekja valdatöku útrásarklíkunnar til þess að samruni Bónus keðjunnar og Hagkaupa var leyfður á sínum tíma. Það var fráleit gjörð. Kannski var lagaramminn gallaður og stjórnvöldum að einhverju leyti vorkunn.

Þegar Davíð Oddsson reyndi síðan árið 2004 að lemja í gegn gallað fjölmiðlafrumvarp í andstöðu við þjóðina og útrásarvíkingana þá voru það bara lafhræddir Alþingismenn í ríkisstjórnarflokkunum sem gegndu honum og síðan hefur vegur Alþingis farið síminnkandi.

Eftir að Ólafur forseti neitaði að undirrita fjölmiðlalögin og Davíð og hans hirð ákváðu að leggja lögin ekki undir dóm þjóðarinnar eins og hefði átt að gera hefur stjórnskipun landsins verið hálflömuð. Geir og Solla reyna nú eins og þau geta að berja í brestina en alls ekki er víst að það takist og varla að þau séu hæf til þess.

Þegar farið verður að föndra við stjórnarskrána eins og gera þarf fyrir Evrópusamrunann, sem flestir sjá nú að er óhjákvæmilegur, væri best að breyta ýmsu öðru í leiðinni en líklega verður það ekki gert. Kjördæmaskipun, kosningafyrirkomulag og þess háttar er afleitt. Þegar verið er að breyta stjórnarskránni er oftast látið í veðri vaka að mikilvægast sé að ná samkomulagi milli flokka. Slíkt er fásinna.

Að taka skuldir þeirra ríku og gefa þær fátækum er vel að orði komist. Ekki er annað að sjá en það sé einmitt það sem ríkisstjórnin er að gera með aðstoð aumra Alþingismanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Stjórnvöldum og alþingismönnum getur varla verið vorkunn ef lagarammi er gallaður því það er þeirra að laga hann.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.12.2008 kl. 01:42

2 Smámynd: Hagbarður

Lagaramminn, eftirlitskerfin og peningamálastefnan voru og eru meingölluð. Við værum ekki í þeirri stöðu sem við erum núna ef þessir þrír "frumþættir" nútíma hagkerfis væru í lagi. Ábyrgðin liggur að stærstum hluta hjá löggjafar- og framkvæmdavaldinu.

Hagbarður, 23.12.2008 kl. 11:02

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

samruni Bónus keðjunnar og Hagkaupa var aðeins einn hlekkur í langri keðju misgjörða og afglapa.

annars er bara hjartanlega sammála þér.

Brjánn Guðjónsson, 23.12.2008 kl. 21:22

4 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Brjánn, ég er löngu hættur að trúa á "misgjörðir og afglöp". Þetta voru úthugsaðir glæpir !, eina spurningin er: hverjir eru glæponar?, og hverjir eru saklausir?.

Börkur Hrólfsson, 23.12.2008 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband